Vá er

Kannski má segja að tilkoma WOW hafi gert líf okkar betra, kannski ekki. Þetta er í raun getgáta sem enginn getur svarað. Margir vilja þó halda þessu á lofti og lofa Skúla fyrir.

Hitt er ljóst að sé svo, hafi tilkoma WOW aukið hagvöxt, lækkað verðbólgu, aukið kaupmátt og aukið vinnu, var þá til innstæða fyrir þeim bótum?

Fyrir hrun var gósentíð hér á landi, gengið svo hagstætt neysluþjóðinni að annað eins hafði aldrei þekkst og hingað flæddu gámaskipin full af vörum sem við í raun höfðum engar forsendur eða efni á að kaupa. Svo mikill var innflutningurinn að flutningafyrirtækin stóðu í ströngu við að finna pláss fyrir alla gámana. Bankarnir skekktu hér hagkerfið með blekkingum og skaðinn varð gríðarlegur. Kannski má segja það sama um WOW, þó það sé mun minna að umfangi, kannski má segja það sama um fleiri fyrirtæki sem rekin eru með duldu tapi árum saman.

Ég er ekki að segja að við eigum að setja hér upp einhverskonar lögreglu, að stjórna eigi stærð fyrirtækja á einhvern hátt eða velja hverjir megi og hverjir ekki.

Hitt verðum við að skoða, hvernig hægt sé að stjórna hér hagkerfinu án stórra áfalla, áfalla sem bitna ætið á þeim sem minnst mega sín og eiga allra minnstu sök á því hvernig fer.

Eitt af því er að fylgjast með rekstri fyrirtækja, sér í lagi þeirra sem stærri eru og grípa inní áður en illa fer. Að koma því svo fyrir með einhverjum hætti að einstaklingur eða lítill hópur fólks geti ekki keyrt sín fyrirtæki í botnlaust tap og jafnvel haldið þeim á floti þannig um lengri tíma, með tilheyrandi skaða fyrir okkur sem þjóð.

Rekstur fyrirtækja er auðvitað ekkert auðveldur, stundum koma áföll og illa gengur um einhvern tíma en svo byrtir upp og úr rætist. Þetta er eðlilegt, oftar en ekki er erfitt að spá um það ókomna. En þegar fyrirtæki sem rekið er með miklu tapi ár eftir ár er ljóst að eitthvað stórt er að. Þegar við það bætist að viðkomandi fyrirtæki er rekið á þeim grunni að bjóða þjónustu sína á þeim verðum sem lægst eru hverju sinni, er ljóst að margra ára tap getur aldrei unnist upp.

Varðandi WOW, sem var rekið sem einkafyrirtæki og því reikningar þess ekki eins opnir og ef um hlutafélag væri að ræðas, var kannski erfitt að fylgjast með hversu mikið og stórt tapið var, eða hver skuldasöfnun þess var. Hitt má ljóst vera að mörg teikn voru á lofti um mikla erfiðleika.

Þegar flugfélag er komið í margra mánaða skuld með lendingagjöld er ljóst að illa er komið. Þegar flugfélag skuldar leigu á grunnbúnaði sínum, flugvéluunum, er ljóst að eitthvað stórt er að. Þó eru fyrstu og sterkustu merki þess að fyrirtæki er komið í alvarlegann vanda þegar það er farið að skulda lögbundin gjöld starfsmanna sinna. Öll þessi teikn hafa legið á borðinu um langann tíma hjá WOW air og því átt að vera fyrir löngu ljóst að þar voru mjög alvarlegir hlutir í gangi. Þegar við bætist að þetta fyrirtæki byggir sína tilveru á að bjóða lægstu fargjöld milli staða, má hverjum vera ljóst að ekki yrði snúið til baka. Að útilokað yrði að fyrirtækið gæti nokkurn tímann rétt sig af.

Það er því nánast hlægilegt í skelfingunni að nú komi hver stjórnmálamaðurinn og spekingurinn og lýsi því yfir að hér hafi eitthvað óvænt og alvarlegt skeð. Vissulega alvarlegt, en fráleitt óvænt. Mörg fyrirtæki eru farin að boða uppsagnir, sum vegna sannanlegs taps við fall WOW air, sum til þess eins að tryggja sína eigendur. Svo eru fyrirtæki sem virðast ætla að nýta þá stöðu sem upp er komin og kenna henni um samdrátt, samanber byggingafyrirtækið sem nú boðar uppsögn vegna falls flugfélags! Og stjórnmálamenn baða sig í sviðsljósinu og boða neyðarfundi af miklum krafti, eins og slíkir fundir geti eitthvað gert. Skaðinn er skeður!

Stígandi lukka er best. Að byggja hana á bólu hefur aldrei gengið. Þetta sáum við í bankaævintýrinu, þar til það ævitýri varð að skelfingu og þetta sjáum við í WOW, þó enn sé eftir að sjá hversu stór skelfingin verður.

Hitt er borðleggjandi að höfundur þessa falls munu ekki þurfa að bera mikla ábyrgð, ekki frekar en höfundar bankahrunsins. Skaðinn mun lenda á öðrum. Starfsfólk WOW air mun verða verst úti en fjárhagslega tapið mun lenda á heimilum landsins. Þar mun engu breyta hvort einhver tengsl þau heimili hafa átt við WOW eða ekki.

Skúli heldur bar upp í Hvalfjörð og hreiðrar um síg á óðali sínu.

 

 

 


mbl.is Neyðarfundur vegna WOW air
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Hruninu má líkja við Ísöld. WOW má líkja við Litlu-Ísöld. Á milli ríkti "hin eina tæra vinstri". Banksterarnir grófu undan efnahag þúsunda fjölskyldna og settu hagkerfið á hliðina og enn er fólk að súpa seyðið af því og margir aldrei náð sínu aftur. Allt með fulltyngi hinnar einu tæru vinstri, sem tók fjármagnseigendur fram yfir umbjóðendur sína.

 Það er undarlegur andskoti að heil Ísöld dugi ekki til að draga lærdóm. Hlutverk "eftirlitsaðila", ef svo er hægt að kalla þann lítilsmegnuga iðnað, hlýtur að verða krufið í döðlur eftir fall WOW. Eða hvað? Verður forstjórum Samgöngustofu og Ísavía virkilega gert kleift að halda sínum stöðum, þegar vitað er að WOW var í raun gjaldþrota fyrirtæki fyrir meira en ári síðan? Hvers vegna var félaginu leyft að safna á annars milljarðs skuld í lendingargjöldum? Hvers vegana var ekki hugað að þriggja mánaða rekstraröryggiskröfunni allan þennan tíma? Hvers vegna er ekki búið að reka forstjóra bæði Samgöngustofu og Isavía? Hvaða öfl halda þessum aulum í stöðum sínum og af hvaða hvötum?

 "You scratch my back and I'll scratch your's" ?

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 29.3.2019 kl. 23:24

2 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Það má alveg gagnrýna Isavia fyrir að láta lendingargjaldaskuldir hrannast upp.  En í falli Skúla er fremd hans falin.  Það er augljóst að samfélagið græddi mikið á þessu brölti öllu þó Skúli hafi tapað (og þeir sem álpuðust til að lána honum). 

Reyndar virtist þetta ætla að sleppa fyrir horn þegar lendingaskuldirnar bitu óvænt í formi þeirrar reglu að hægt væri að taka leiguvélar upp í skuld WOW Air.  Leigusalar vélanna urðu hræddir og kyrrsettu þær úti. 

Hefði nú ríkið gefið þessa reglu eftir þá átti það þó séns að semja um lækkun lendingaskuldanna í stað þess að tapa þeim alveg og í viðbót kostnaðinn af hruni félagsins í formi tapaðra skattatekna og atvinnuleysis. 

Það er augljóst að orsök fallsins var sjálf Ríkisstjórnin með aðgerðarleysi sínu og skorti á raunsæi. 

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 30.3.2019 kl. 14:29

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni. Hafi samfélagið grætt er ljóst að sá gróði byggði á froðu, svona rétt eins og fyrir bankahrun.

WOW air var einkafyrirtæki. Það er undarleg árátta sumra að telja að ríkið eigi alltaf að hlaupa undir bagga þegar einkaaðilar fara offari. Að einkaaðilar geti stofnað fyrirtæki, hirt úr því gróðann meðan vel gengur en síðan eigi sameiginlegir sjóðir að taka yfir tapið. Þetta kallast kapítalismi andskotans og er vinstri mönnum einstaklega hugleikinn. 

Það á að vera skýrt regluverk um hlutina, eftirlitsstofnanir til að fylgja eftir að því regluverki sé hlýtt og grípa inní áður en skaðinn er orðinn of stór. Þarna klikkaði kerfið og það herfilega.

Ef rétt hefði verið staðið að verki hefði átt að taka fyrirtækið af Skúla fyrir löngu, eða meðan einhver verðmæti voru þar til staðar og fyrirtækið enn í þeirri stöðu að hægt væri að rétta það af.

Ríkisstjórnin stóð ekki að rekstri WOW air og því langsótt að kenna henni um. Embættismannakerfið brást og þar má kannski koma einhverri sök á stjórnvöld.

Hitt er deginum ljósara að Skúli mun ekki þurfa að borga eða láta af hendi aðrar eigur sínar. Fjármálakerfið mun ekki bera skaða af, heldur láta aðra viðskiptamenn sína taka hann á sig. Starfsfólkið mun þjást um tíma, en síðan réttir það af. Hins vegar munu langtímaáhrif af þessu offorsi Skúla leiða til þess að þær fjölskyldur landsins sem hafa tekið lán til að koma yfir sig þaki, munu bera skaða af, svo lengi sem þau skulda það lán. Og bankarnir fitna.

Tímabundinn gróði samfélagsins af þessu brölti Skúla mun því þurrkast út og gott betur. Þar munu þeir sem minnst mega sín mest skaðast.

Gunnar Heiðarsson, 30.3.2019 kl. 19:17

4 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Ef WOW var svona mikil froða af hverju er þá skaðinn af falli þess svona mikill?

Furðu margir sem höfðu atvinnu sína og borguðu skatta af froðunni þeirri!

Ríkið átti inni skuldir hjá WOW í formi ógreiddra lendingargjalda, í gegnum fyrirtæki sitt ISAVIA.  En það er orðin hin mesta tíska hjá ríkisvaldinu að útvista völdum til undirdeilda og firra þannig sjórnvöld ábyrgð.  (Annað dæmi um slíkt er Seðlabankinn með sína klikkuðu vaxtastefnu og stjórnleysi varðandi gengi.) 

Nú hafði ríkið þann kost að gefa eftir þá vandræða reglu sem sjálfsagt stenst illa lög t.d. hins alls ráðandi ESB, að meiga gera upptækar vélar þriðja aðila vegna lendingarskuldanna.  Þetta var ekki gert (ekki einu sinni rætt að séð verður)og niðurstaðan varð einfaldlega sú að ríkið varð af þessum pening þ.e. lendingagjöldunum og varð til þess að fella félagið með alls konar aukakostnaði fyrir ríkið á öðrum sviðum líka. 

Hefur ekkert með ríkisvæðingu eða pilsfaldakaptíalisma heldur einfalda rökfræði að gera. 

Hitt er svo annað mál sem áhugavert væri að pæla í hvort heildarhagurinn af rekstri þessa flugfélags síðustu ár hafi verið slíkur að hann hefði réttlætt niðurgreiðslurnar með fargjöldunum hefðu þær komið frá ríkinu sjálfu en ekki Skúla og fjárfestum og lánveitendum á bak við hann. En þá værum við farnir að tala um framsóknarmennsku og ríkiskapítalisma.  

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 30.3.2019 kl. 22:04

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vandræði WOW voru meiri en bara lendingagjöld á íslenskum flugvelli. Í raun hefur rekstur þessa fyrirtækis aldrei verið sjálfbær. Meðan ævintýraleg fjölgun ferðamanna var hingað til lands og hægt var að belgja það upp, stóðu lánastofnanir opnar. Þegar það brást sprakk blaðran.

Það er hægt að búa til stórann skell með froðu, var gert með bankablöðrunni sem sprakk haustið 2008. WOW blaðran var af sama meiði.

Það er fróðleg grein í viðskiptablaðinu um fyrirtækjastofnun á Caimaneyjum síðasta haust, þegar skuldabréfaútboði WOW lauk og eignarhaldi um flugvélar þær er Skúli leigði. Sú frétt varpar nýju ljósi á málið og minnir okkur óneitanlega mikið á þær fréttir sem fyllt fréttamiðla á árunum eftir hrun!

sjá hér: http://www.vb.is/frettir/eignarhald-cayman-eyjum/153613/

Gunnar Heiðarsson, 31.3.2019 kl. 06:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband