Færsluflokkur: Ferðalög

Lélegir stjórnendur?

Eru íslenskir stjórnendur fyrirtækja almennt lélegir?

Við þekkjum öll söguna af því þegar nokkrir einstaklingar komust yfir bankakerfið okkar og settu það á hausinn svo fjölskyldum landsins blæddi. Sumir töldu að þar hefðu menn fyrst og fremst verið að sanna þá kenningu að besta leiðin til að ræna banka, væri að ræna hann innanfrá. Eða voru þessir menn kannski bara svona lélegir stjórnendur?

Mörg fyrirtæki voru stofnuð í kjölfar hrunsins, flest þeirra farið á hausinn. Má þar nefna flugfélög og fjárfestingafélög. Þar er greinilegt að stjórnun var léleg.

Íslenskt lyfjafyrirtæki, sem rekið er um allan heim, er rekið með gríðarlegu tapi. Lyfjanotkun hefur þó aldrei verið meiri, hvort heldur er hér á landi eða öðrum löndum hins vestræna heim. Ber það merki þess að hinn íslenski stjórnandi þess fyrirtækis sé góður stjórnandi?

Og nú þarf íslenskt flugfélag að breyta hjá sér afkomuspá, vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Ekki vegna þess að farþegum hafi fækkað svo mikið, einungis pöntunum með skömmu fyrirvar fækkað örlítið og að sögn forstjórans merki um að það sé að ganga til baka. Aldrei hafa verið fleiri ferðamenn sem heimsækja Ísland og þetta ár. Er þetta merki um góða stjórnun?

Þeir sem ekki geta rekið lyfjafyrirtæki með sóma, þegar lyf eru brudd sem sælgæti um allan heim og þeir sem ekki geta rekið flugfélag þegar farþegafjöldi er í hæstu hæðum, ættu kannski að skoða stöðu sína. Kannski hentar þeim betur eitthvað annað starf en stjórnun.


mbl.is Breyta afkomuspá vegna jarðhræringanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðara að komast til Tene

Þetta er vissulega stórt hagsmunamál fyrir Ísland, en fjarri því að vera það stærsta. Lang stærsta hagsmunamál Íslands, eftir að EES samningurinn var samþykktur, er auðvitað sú ákvörðun Alþingis að taka þátt í orkustefnu ESB. Þar var stærsti naglinn negldur með samþykkt orkupakka 3 og svo virðist sem verið sé að negla enn stærri nagla varðandi orkupakka 4, bakvið tjöldin. En einnig má nefna önnur stór mál, sem eru stærri en þetta, s.s. Icesave samninginn, sem Alþingi samþykkti tvisvar en þjóðin hafnaði jafn oft. 

En auðvitað væri slæmt ef flug skerðist til og frá landinu. Reyndar virðist, samkvæmt fréttum, þetta fyrst og fremst snúa að millilendingum flugvéla yfir hafið. Það bitnar á flugfélögum, sem eru ekki burðug fyrir. Skelfilegra væri þó ef þetta gerði erfiðara fyrir landann að komast til Tene, eða fyrir stjórnmálamenn að hoppa út um allan heim í tíma og ótíma.


mbl.is Stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er nauðungarvistun?

Er ekki rétt að byrja á byrjuninni og fá skilgreiningu á því hvað nauðungarvistun er, áður en hlaupið er með mál fyrir dómstóla? Einhvern veginn hefði maður haldið að slíkt ætti ekki að vefjast fyrir lögfræðingum, en greinilega virðist það þó vera.

Fram hefur komið, oftar en einu sinni, að starfsfólk sóttvarnarhótels meini engum að yfirgefa hótelið. Hins vegar er fólki þá bent á að slíkt sé brot á sóttvarnarlögum og málið tilkynnt til lögreglu. Hvernig í ósköpunum er þá hægt að tala um vist á hótelinu sem nauðungarvistun? Fólk hefur val, því er ekki haldið nauðugu.

Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að um nokkuð langt skeið hafa gilt reglur um að fólk sem kemur erlendis frá þurfi að fara í tvöfalda skimun og vera í einangrun á milli þeirra. Þar hefur ekkert breyst. Það eina sem hefur breyst er að sökum þess að sífellt hefur færst í aukanna að fólk brjóti þessa sóttkví, hefur verið ákveðið að vista fólk á sérstöku hóteli, við komuna til landsins. Þetta er þó ekki nein nauðungarvistun, þar sem fólki er ekki meinað að yfirgefa hótelið. Þeir sem það velja munu hins vegar eiga á hættu sektir vegna brota á sóttvarnarlögum. Þar hefur ekkert breyst, einungis auðveldara að fylgjast með hverjir fremja slík brot.

Ekki verður því annað séð en að fólk fari fyrir dómstóla til að freista þess að fá afnumin lög sem gera því erfiðara að brjóta lögin.

Hvert erum við eiginlega komin, þegar lögfræðingar og stjórnmálamenn taka þátt í slíkri ósvinnu?


mbl.is „Ekki eðlilegur málshraði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Don Kíkóti

Stjórnvöld vilja taka þriðjung landsins undir þjóðgarð, setja yfir hann skipaða stjórn án aðkomu kjósenda. Ekki verður séð hver tilgangurinn er í raun, annar en einhverskonar minnisvarði fyrir ákveðna stjórnmálamenn. Náttúruvernd mun fórnað með þessum garði, enda hugmyndir um stjórnun hans með öllu óverjandi. Auk þess liggja engar áætlanir fyrir um kostnað eða fjármögnun þessa ævintýris.

Þeir sem að þessu standa bera gjarnan fyrir sig orðinu náttúruvernd, eins og það orð eitt og sér geti réttlætt allt. Náttúruvernd er meira en bara orðið eitt, náttúruvernd byggir á að vernda náttúruna. Ekki verður séð að tilgangur þess að taka einn þriðja af landinu undan lýðræðislegri stjórn og setja undir skipaða stjórn embættismanna stuðli með neinum hætti að frekari náttúruvernd. Enda fer ekki saman hljóð og mynd hjá þessu fólki, þar sem að á sama tíma og talað er um náttúruvernd, er einnig sagt að erlendu ferðafólki muni fjölga á svæðinu. Fyrir cóvið var verið að berjast við of mikinn fjölda erlendra ferðamanna á viðkvæmustu svæðunum!

Á sama tíma og þetta fólk skreytir sig með orðinu náttúruvernd fitlar það við hugmyndir um stórfellda "ræktun" vindmilla á landinu. Fara þar fyrir erlendum fjórplógsmönnum sem hugsa um það eitt að græða sem mest og láta aðra taka afleiðingunum. Varla er til sá dalur eða fjall á landinu þar sem ekki hefur sést til manna vera að mæla vindhraða og meta aðstæður fyrir vindmillur.

Nokkrir staðir eru lengra komnir, búnir að gera plön og sumir fengið þau samþykkt af viðkomandi stjórnvöldum hér á landi. Þegar þessi plön eru skoðuð er víðast verið að tala um vindmillur sem skaga meir en 200 metra upp í loftið, nærri þrisvar sinnum hærri en vindmillur Landsvirkjunar, sem sumum þykja þó nógu háar! Þessar vindmillur eru hreint út sagt ófreskjur á að líta og framleiðslugeta þeirra um 4,5mw, þegar vindur er hagstæður. En þróun vindmilluframleiðslu er hröð, enda líftími þeirra nokkuð stuttur og allir vilja stækka við sig. Í dag eru til vindmillur sem framleitt geta allt að 16mw, við bestu vindskilyrði. Spaðar þeirra eru yfir 100 metra langir svo heildar hæð slíkra milla fer nokkuð vel á þriðja hundrað metra. Ljóst er að eftir að erlendu vindmillibarónarnir hafa fengið tilskilin leyfi hér, mun krafa þeirra um "örlítið" stærri millur koma upp. Ekki verður séð að neinn sveitarstjórnarmaður eða stjórnvöld muni lyfta hönd gegn því.

Náttúruvernd er meira en orðið sjálft, eins og áður segir. Þetta virðast stjórnmálamenn hins vegar ekki skilja. Þeir líta þetta orð sem skrautfjöður í hatt sinn, til nota þegar við á en skipta síðan um hatt þegar skrautfjöðrin er til trafala.

Don Kíkóti barðist við vindmillur og þóttist mikill hermaður. Íslenskir stjórnmálamenn berjast fyrir villum og þykjast miklir menn. Sýn íslensku stjórnmálamannanna er söm og Don Kíkóta, þó baraáttan sé öfug.

 


Skimun ferðamanna

Í síðustu viku var Kári Stefánsson boðaður til yfirheyrslu hjá fréttastofu ruv, nánar tiltekið í kastljósþátt. Nokkur umræða varð eftir þáttinn og þótti sumum Kári vera ókurteis en öðrum að rannsóknaraðili kastljóss hafi sýnt dónaskap. Um þetta gátu fólk og fjölmiðlar karpað í nokkra daga, með miklum hávaða og látum. Sjálfum fannst mér báðir aðilar koma nokkuð vel frá þættinum, Kári sagði sína meiningu að vanda og þó spyrillinn hefði sagt hann ruglaðan er það staðreynd sem flestir landsmenn vita. Umræðuefni þáttarins var skimun farþega við komu til landsins.

Það sem þyngst vó þó í ummælum Kára hefur farið hljótt, en það er sá kostnaður sem slík skimun kallar eftir. Fáir eða engir fjölmiðlar hafa fjallað um þetta og alþingi ekki neitt. Samkvæmt ummælum Kára ætti slík skimun að kosta eitthvað nálægt 3.500 kr/stk, miðað við að allur búnaður yrði keyptur nýr og afskrifaður á mjög stuttum tíma. Þá hafði nýlega komið fram skjal frá einhverri nefnd heilbrigðisráðherra sem taldi slíka skimun kosta um 50.000 kr/stk. Þarna er himinn og haf í milli og með ólíkindum að alþingi hafi ekki leitað upplýsinga um málið. Hvar var Björn Leví? Hann hefði getað kastað fram svon eins og einni fyrirspurn um málið!

En nú hefur kostnaður við skimun á Landspítalanum verið endurreiknuð og talin losa 20.000 kallinn. Enn hefur Kári ekki gefið út nýja tölu svo 3.500 kr/stk stendur þar sjálfsagt enn. Ráðherra hefur gefið út að ferðamenn sjálfir verði að greiða 75% af kostnaði við sýnatökuna, miðað við kostnað hennar hjá Landspítalanum og við sem ekki förum um landamærin 25%, en það er ég ekki tilbúinn til að gera. Miðað við kostnaðinn hjá Kára eiga ferðamenn hins vegar að greiða 450% umfram kostnað!

Ferðaþjónustan heldur því fram að 15.000 króna gjald fyrir slíka skimun sé allt of hátt og auðvelt er að vera því sammála. Það er ljóst að sumum ferðamönnum þykir þarna vera langt seilst. Margir munu þó ekki láta þetta skipta máli, enda 15.000 kr lítill hluti af heildarkostnaði þeirra sem sækja okkar land, sér í lagi ef það nýtir sér þá hótel og veitingaþjónustu sem hér er í boði.

Hitt er ljóst að einhverjar stýringu þurfum við að hafa, a.m..k. fyrst um sinn. Þar gæti skimun verið ágæt. Ekki er þó í boði annað en að ferðafólk sjálft greiði þann kostnað. Lausnin gæti legið í því að áður en ferðamaðurinn stígur um borð í flugvélina erlendis þá velji hann hvort hann vilji fá skimun frá Kára, upp á 3.500 kr, eða hvort hann vilji frekar borga um 20.000 kr fyrir skimun frá Landspítalanum. Ljóst er að flestir myndu auðvitað velja ódýrari kostinn. Það mun leiða til þess að stutt biðröð yrði hjá skimurum Landspítalans og því gæti þeir sem það vilja greitt meira og fengið hraðaðri afgreiðslu. Ekki kæmi króna úr ríkiskassanum og allir yrðu ánægðir.

 


mbl.is Bókanir frá Skandinavíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til eflingar kerfisins.

Lög um Ferðamálastofu kristalla kerfi sem búið er til í þeim eina tilgangi að viðhalda eða efla kerfið.

Í þessum lögum er tiltekið hvert hlutverk stofunnar skal vera og eftirlitsstarf. Í stuttu máli má segja að hlutverkið sé fátæklegt og eftirlitsstarfið enn fátækara, einna helst þurfa verkefni og eftirlit að vera með þeim hætti að sem minnst þurfi að gera og alls ekki að stíga fæti út í raunheima.

Jú Ferðamálastofa úthlutar leyfum til ferðasala. Til að öðlast slíkt leyfi þarf ekki mikið. Viðkomandi þarf að búa innan ESB/EES, vera lögráða, hafa skráð starfsemina hjá ríkisskattstjóra og hafa gilda tryggingu innan ESB/EES. Svo mörg voru þau orð. Ekkert spáð í getu eða trúverðugleik viðkomandi, starfsfólk hans eða búnað. Reyndar bætist við ein kvöð eftir að leyfi hefur verið gefið út og kallast það öryggisáætlun. Hún má vera á rafrænu formi og engin frekari krafa gerð um trúverðugleik þeirra áætlunar né hvernig henni er við haldið. Ekki er heldur gerð krafa um að þessi áætlun sé kynnt starfsfólki, eða það þjálfað á neinn hátt og enn síður að ferðamanninum komi hún eitthvað við.

Um sviptingu leyfis er enn færra. Í raun ekki hægt að svipta ferðasala leifi nema hann gerist brotlegur við einhver ofantalinna atriða. Ef brotið er á ferðamanninum, líf hans eða limir lagðir í hættu, varðar það ekki sviptingu leyfis. Og jafnvel þó einhver ofantalinna atriða eru brotin, hefst ákveðið ferli sem tekur nokkurn tíma að fara, áður en til lokunar getur komið.

Þessi lög eru því ekki til að þjóna ferðafólki, einungis gerð til þess eins að efla kerfið og gera það örlítið flóknara.

Krafa um tryggingu ferðasala er sjálfsögð og svo ætti einnig að vera um trúverðugleik og framkvæmdir. Öryggisáætlun ætti að vera megin grunnur undir starfsemi sem snýr að ferðum með fólk og henni þarf að viðhalda og vera starfsfólki kunn.

Frosti vill að ferðamaðurinn kaupi tryggingu fyrir björgun. Eðlilegra væri að ferðasalinn kaupi slíka tryggingu og rukki ferðamanninn. Það ferli væri mun gagnsærra og auðveldara á allan hátt. Í það minnsta þarf að breyta kerfinu gagnvart björgunarsveitum landsins. Að hver galgopi geti ætt út í hvað sem er og treyst á sjálfboðaliða til björgunar úr ófæru, getur ekki gengið til lengdar. Næg eru verkefnin þó, fyrir þessar hetjur okkar.

Geta til sviptingar leyfis á að vera sterk, þannig að ferðasalar vandi sig. Hvert það atvik sem stefnir ferðafólki í hættu ætti að varða tafarlausri sviptingu, þar til mál hefur verið rannsakað og niðurstaða fengin. Allt annað er út í hött.

Og auðvitað á sá aðili sem veitir leyfið að hafa heimild til að afturkalla það.

En Ferðamálastofa var auðvitað ekki stofnuð til að sjá um ferðamál, henni er ætlað það hlutverk að efla og viðhalda kerfinu. Þar má auðvitað ekkert útaf bregða!


mbl.is Verði skylt að kaupa björgunartryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vá er

Kannski má segja að tilkoma WOW hafi gert líf okkar betra, kannski ekki. Þetta er í raun getgáta sem enginn getur svarað. Margir vilja þó halda þessu á lofti og lofa Skúla fyrir.

Hitt er ljóst að sé svo, hafi tilkoma WOW aukið hagvöxt, lækkað verðbólgu, aukið kaupmátt og aukið vinnu, var þá til innstæða fyrir þeim bótum?

Fyrir hrun var gósentíð hér á landi, gengið svo hagstætt neysluþjóðinni að annað eins hafði aldrei þekkst og hingað flæddu gámaskipin full af vörum sem við í raun höfðum engar forsendur eða efni á að kaupa. Svo mikill var innflutningurinn að flutningafyrirtækin stóðu í ströngu við að finna pláss fyrir alla gámana. Bankarnir skekktu hér hagkerfið með blekkingum og skaðinn varð gríðarlegur. Kannski má segja það sama um WOW, þó það sé mun minna að umfangi, kannski má segja það sama um fleiri fyrirtæki sem rekin eru með duldu tapi árum saman.

Ég er ekki að segja að við eigum að setja hér upp einhverskonar lögreglu, að stjórna eigi stærð fyrirtækja á einhvern hátt eða velja hverjir megi og hverjir ekki.

Hitt verðum við að skoða, hvernig hægt sé að stjórna hér hagkerfinu án stórra áfalla, áfalla sem bitna ætið á þeim sem minnst mega sín og eiga allra minnstu sök á því hvernig fer.

Eitt af því er að fylgjast með rekstri fyrirtækja, sér í lagi þeirra sem stærri eru og grípa inní áður en illa fer. Að koma því svo fyrir með einhverjum hætti að einstaklingur eða lítill hópur fólks geti ekki keyrt sín fyrirtæki í botnlaust tap og jafnvel haldið þeim á floti þannig um lengri tíma, með tilheyrandi skaða fyrir okkur sem þjóð.

Rekstur fyrirtækja er auðvitað ekkert auðveldur, stundum koma áföll og illa gengur um einhvern tíma en svo byrtir upp og úr rætist. Þetta er eðlilegt, oftar en ekki er erfitt að spá um það ókomna. En þegar fyrirtæki sem rekið er með miklu tapi ár eftir ár er ljóst að eitthvað stórt er að. Þegar við það bætist að viðkomandi fyrirtæki er rekið á þeim grunni að bjóða þjónustu sína á þeim verðum sem lægst eru hverju sinni, er ljóst að margra ára tap getur aldrei unnist upp.

Varðandi WOW, sem var rekið sem einkafyrirtæki og því reikningar þess ekki eins opnir og ef um hlutafélag væri að ræðas, var kannski erfitt að fylgjast með hversu mikið og stórt tapið var, eða hver skuldasöfnun þess var. Hitt má ljóst vera að mörg teikn voru á lofti um mikla erfiðleika.

Þegar flugfélag er komið í margra mánaða skuld með lendingagjöld er ljóst að illa er komið. Þegar flugfélag skuldar leigu á grunnbúnaði sínum, flugvéluunum, er ljóst að eitthvað stórt er að. Þó eru fyrstu og sterkustu merki þess að fyrirtæki er komið í alvarlegann vanda þegar það er farið að skulda lögbundin gjöld starfsmanna sinna. Öll þessi teikn hafa legið á borðinu um langann tíma hjá WOW air og því átt að vera fyrir löngu ljóst að þar voru mjög alvarlegir hlutir í gangi. Þegar við bætist að þetta fyrirtæki byggir sína tilveru á að bjóða lægstu fargjöld milli staða, má hverjum vera ljóst að ekki yrði snúið til baka. Að útilokað yrði að fyrirtækið gæti nokkurn tímann rétt sig af.

Það er því nánast hlægilegt í skelfingunni að nú komi hver stjórnmálamaðurinn og spekingurinn og lýsi því yfir að hér hafi eitthvað óvænt og alvarlegt skeð. Vissulega alvarlegt, en fráleitt óvænt. Mörg fyrirtæki eru farin að boða uppsagnir, sum vegna sannanlegs taps við fall WOW air, sum til þess eins að tryggja sína eigendur. Svo eru fyrirtæki sem virðast ætla að nýta þá stöðu sem upp er komin og kenna henni um samdrátt, samanber byggingafyrirtækið sem nú boðar uppsögn vegna falls flugfélags! Og stjórnmálamenn baða sig í sviðsljósinu og boða neyðarfundi af miklum krafti, eins og slíkir fundir geti eitthvað gert. Skaðinn er skeður!

Stígandi lukka er best. Að byggja hana á bólu hefur aldrei gengið. Þetta sáum við í bankaævintýrinu, þar til það ævitýri varð að skelfingu og þetta sjáum við í WOW, þó enn sé eftir að sjá hversu stór skelfingin verður.

Hitt er borðleggjandi að höfundur þessa falls munu ekki þurfa að bera mikla ábyrgð, ekki frekar en höfundar bankahrunsins. Skaðinn mun lenda á öðrum. Starfsfólk WOW air mun verða verst úti en fjárhagslega tapið mun lenda á heimilum landsins. Þar mun engu breyta hvort einhver tengsl þau heimili hafa átt við WOW eða ekki.

Skúli heldur bar upp í Hvalfjörð og hreiðrar um síg á óðali sínu.

 

 

 


mbl.is Neyðarfundur vegna WOW air
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændur láta hafa sig að fíflum

Formaður Landsamtaka sláturleyfishafa fullyrðir að offramleiðsla á lambakjöti sé um 2000 tonn, að um þessi mánaðarmót verði umframbirgðir um 1800 tonn.

Í lítilli frétt á vefmiðli ruv, þann 25. júlí síðastliðinn, þar sem fréttamaður hafði samband við nokkrar afurðastöðvar, kemur fram að birgðasöfnun frá síðasta ári er um 200 tonn, eða sem nemur nálægt 10 daga neyslu Íslendinga. Ekki gefa allar afurðastöðvarnar upp heildaruppsöfnun, en út frá því sem upp er gefið er það langt frá að vera 2000 tonn.

SS; birgðir 80 tonnum meira en í fyrra, ekki gefið upp heildarbirgðir.

KS; engin birgðaaukning frá því á síðasta ári, segjast eiga "nógu miklar" birgðir.

Norðlenska; engin birgðaaukning frá því í fyrra, ekki gefið upp heildarmagn en segjast eiga nokkuð af "röngum bitum".

Fjallalamb; 100 tonnum meiri birgðir en í fyrra, sagt vera helmingi meira en vanalega.

SAH; birgðir 20 tonnum meiri en í fyrra, heildarbirgðir um 100 tonn.

Sláturfélag Vopnafirðinga; engin birgðasöfnun frá því í fyrra, heildarbirgðir um 200 tonn.

Einnig kemur fram í þessari frétt að engin afurðastöð á til hryggi og bendir Gísli Garðason, sláturhússtjóri SAH á að ef sauðfjárstofninn verði dreginn saman um 20%, vanta um 450 tonn af hryggjum á markað hér á landi! Sumar afurðastöðvar eiga ekki heldur læri og birgðir af þeim langt komnar hjá öðrum. Þar sem lítið er til af lærum má ætla að mikill skortur verði einnig á þeirri afurð, við slíkan samdrátt sem ráðherra boðar.

Þær upplýsingar sem fram koma í þessari frétt á vefmiðli ruv, þann 25. júlí síðastliðinn, eru svör forsvarsmanna sláturleyfishafa við spurningum fréttamanns. Þetta eru þeirra orð, engin birgðatalning né staðfesting á að þau séu rétt. Vel getur verið að birgðir séu enn minni!

Það hlýtur að vera krafa bænda að fram fari strax birgðatalning hjá afurðastöðvum. Ráðherra virðist ekki ætla að hafa manndóm til slíkrar kröfu. Arkar bara áttavillt um flóann!

Fá þarf staðfestu á hverjar raunverulegar birgðir af kjöti eru í frystigeymslum afurðastöðva. Ef þær eru minni en formaður Landsamtaka sláturleyfishafa segir, jafnvel mun minni, er auðvitað út í hött að stíga slíkt ógæfuskref að fækka sauðfé í landinu. Ef það er rétt að slíkt leiði til skorts á hryggjum upp á 450 tonn og lambalærum um svipað magn, er ljóst að skaðinn af slíkri skerðingu getur orðið mjög mikill. Það mun þá ekki leysa vanda afurðastöðva, heldur auka hann og það mun leiða áður óþekktar skelfingar yfir sauðfjárbændur og byggð í landinu. Sveitir munu fara í eyði.

Til að leysa vanda verður að finna rætur hans. Vandinn virðist ekki vera til kominn vegna offramleiðslu. Hver er hann þá?

 

 


mbl.is Tvö þúsund tonna offramleiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hamra járnið kalt

Svo lengi má hamra kalt járn að það mótist. Þetta er málpípum ferðaþjónustunnar að takast, að hamra svo á hæpnum eða röngum forsendum að þær hljóma sem sannar.

Á góðviðrisdögum er talað um ferðaþjónustuna sem einn af hornsteinum íslensks hagkerfis og vissulega má að hluta taka undir það, eða hvað?

Velta ferðaþjónustunnar hefur vissulega aukist ævintýralega síðustu ár, enda fjölgun ferðafólks til landsins svo mikil að vart þekkist annað eins á byggðu bóli. Það er þó margt að í íslenskri ferðaþjónustu, gullgrafaraævintýrið virðist blómstra þar sem aldrei fyrr. Verðlag á þjónustunni er með þeim hætti að mafíósar myndu skammast sín. Þegar gengið féll, eftir hrun, voru allir verðmiðar í erlendum gjaldmiðlum, þegar svo gengi krónunnar fór að rísa, þótti ferðaþjónustunni hæfilegra að færa sína verðmið yfir í íslenskar krónur. Þetta hefur leitt til þess að fyrir herbergiskytru sem vart er fólki bjóðandi er tekið eins og um fimm stjörnu hótel sé að ræða. Sjoppumatur er verðlagður sem stórsteikur. Og svo kenna þeir sem tjá sig fyrir hönd ferðaþjónustuaðila alltaf einhverju öðru um, þegar sökudólgurinn er óhófleg fégræðgi þeirra sem að þessari þjónustu standa.

Umræðan í dag er um hækkun á virðisaukaskatti, á þjónustu sem veitt er ferðafólki. Samkvæmt orðum framkvæmdastjóra SAF mun þessi hækkun nema um 20 milljarða kostnaðarauka á ferðaþjónustuna. Ekki ætla ég að draga þá fullyrðingu í efa, enda ætti hún að vita hvað hún segir.

Nú er það svo að ekki er verið að tala um að hækka vask á ferðaþjónustuna umfram aðra þjónustu, einungis verið að afnema undanþágur sem ferðaþjónustan hefur notið. Undanþágur frá vask greiðslum, sem auðveldlega má túlka sem ríkisstyrk. Þessi ríkisstyrkur hefur því verið nokkuð ríflegur, u.þ.b. 43% hærri en sú upphæð sem notuð er til landbúnaðar í landinu.

Ef það er svo að ferðaþjónustan getur ekki keppt á sama grunni og önnur þjónusta í landinu, er spurning hvort hún eigi yfirleitt tilverurétt. Þetta eru stór orð og kannski full mikið sagt, en einhver ástæða hlýtur að liggja að baki "vanda" ferðaþjónustunnar. Væri kannski hægt að reka þessa þjónustu á sama grunni og aðra þjónustu ef arðsemiskrafan væri svipuð? Getur verið að græðgin sé að fara með ferðaþjónustuna?

Afnám undanþágu á vask greiðslu ferðaþjónustunnar er tengd öðru og stærra máli, nefnilega lækkun á almennu vask prósentunni. Þetta er því ótvíræður hagnaður fyrir almenning í landinu. Hvers vegna hefur enginn innan verkalýðsbáknsins tjáð sig um það? Hvers vegna opnar verslun og þjónusta ekki á þá umræðu? Hvers vegna þegja allir fjölmiðlar um þessa lækkun á vask prósentunni til almennings? Þessi mál eru þó spyrt saman.

Ferðaþjónustan vill ekki borga skatta og ferðaþjónustan kallar eftir lækkun gengis krónunnar. Þetta tvennt fer þó illa saman. Ef ferðaþjónustan er svo illa stödd að nauðsynlegt er fyrir hana að fá undanþágur frá skattgreiðslum, er hún væntanlega nokkuð skuldsett. Lækkun gengis krónunnar leiðir sannarlega til aukinnar verðbólgu og hækkunar á vöxtum. Varla eru skuldsett fyrirtæki að sækjast eftir slíku. Jafnvel þó víst sé að ferðaþjónustan muni færi verðmiða sína yfir í erlenda gjaldmiðla, svona á meðan gengið er fellt, dugir það vart til ef skuldastaðan er sú að undanþága á sköttum er nauðsyn.

Ekki getur verið að rekstrarkostnaður sé að sliga ferðaþjónustuna. Vegna þess hve hátt gengi krónunnar er, er ljóst að erlendur kostnaður, s.s. byggingarefni og fleira, hefur sjaldan verið lægra. Innlendur kostnaður er vart að leggja hana. Að vísu voru nokkrar hækkanir launa, en þar sem þær hækkanir eru í prósentum og grunnurinn sem sú prósentutala er lögð á svo lág, er þar einungis um smáaura að ræða, í samhengi við veltu í ferðaþjónustu. Fram til þessa hafa þessi fyrirtæki farið yfir einkalönd fólks án þess að greiða svo mikið sem eyri fyrir, jafnvel heilu flokkarnir af rútum sem mæta heim á hlað hjá fólki, án þess að spyrja húsráðendur. Ferðaþjónustan hefur vaðið yfir landið án þess að skeyta um eitt né neitt og skilið heilu svæðin eftir í sárum. Víða er svo komið að vart er hægt að komast nærri náttúruperlum landsins vegna stórskaða á umhverfinu. Svo er bara kallað eftir hjálp frá ríkinu og það krafið um bætur?!

Að margra mati er fjöldi ferðamanna kominn langt yfir þolmörk. Ekki þarf að fara víða til að sjá að a.m.k. sumir staðir eru komnir langt yfir þolmörkin. Málpípur ferðaþjónustunnar tala í sífellu um að dreifa þurfi betur ferðafólki um landið, að nægt pláss sé fyrir fleiri ferðamenn ef dreifingin verður meiri. En með það, eins og annað, eiga einhverjir aðrir að sjá um þá dreifingu. Það er þó ljóst að enginn getur séð um þá dreifingu nema þeir sem selja ferðirnar. Þá komum við enn og aftur að fégræðginni. Í auglýsingum erlendis eru fagrar myndir af okkar helstu perlum, minna um myndir frá öðrum perlum landsins og auðvitað engar myndir af moldarflögunum sem eru komin við fallegustu staðina. Þetta leiðir til þess að erlendir ferðamenn sækjast mest eftir að heimsækja þá staði sem fallegu myndirnar eru af. Af einskærri fégræðgi vilja því allir ferðaþjónustuaðilar selja inn á þá, það er auðvelt og gefur mest í aðra hönd. Að kynna nýja staði kostar peninga og enn og aftur vill ferðaþjónustan að þeir komi úr ríkissjóði.

Ferðaþjónustan fær nú 20 milljarða í dulbúnum ríkisstyrk, borgar lægstu laun sem þekkjast í landinu og greiðir helst ekki fyrir neitt sem hún selur ferðafólki. Henni er ekki vorkunn.

 

 


mbl.is Mikið virðingarleysi stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög nr.73/2001

Eitthvað virðast stofnanir ríkisins vera utangátta. Samkvæmt lögum 73/2001 eru ákvæði um fólksflutninga á landi alveg skýr, hvaða leifi þarf, hver veitir þau leifi og hvernig farið skuli með þá sem ekki fara að þessum lögum. Samkvæmt þessum lögum starfa allir innlendir aðilar og því ætti Samgöngustofu að vera full ljóst um tilveru þessara laga. Það vekur því furðu að nú telji hún þessa starfsemi "falla milli laga".

Varðandi kjaramál þeirra sem starfa hjá þessum erlendu fyrirtækjum hér á landi, þá á ASÍ og aðildarfélög þess að hafa fullt vald til að taka á þeim vanda. Það eru í gildi kjarasamningar í landinu og eftir þeim skal farið, þar fellur ekkert milli laga. Þetta veit Halldór, þó hann virðist helst vilja að einhverjir "aðrir" taki á vandanum.

Um skattaundirskot þessar erlendu fyrirtækja er það eitt að segja að meðan til þess bær eftirlitskerfi, Samgöngustofa og ASÍ, ekki standa sig í sínu hlutverki, er andskoti erfitt fyrir skattayfirvöld að taka á málinu. Það er erfitt að skattleggja það sem hvergi er til á blaði.

Það er því lítil tilgangur að kalla saman fjölda fólks, víðs vegar úr stjórnkerfinu vegna málsins og einungis til þess eins að þæfa það og tefja lausnir. Í raun snýr þetta vandamál fyrst og fremst að Samgöngustofu og ASÍ og þeirra að leysa það. Vel getur hugsast að aðstoðar þurfi frá lögreglu til lausnar málsins og þá verður svo að vera.

Ástæða þess að erlendir aðilar flæða inn á íslenskan ferðamarkað er fyrst og fremst vegna þess að þeim er leift slíkt, að viðkomandi aðilar sem eftirlitinu eiga að framfylgja, eru ekki að standa sig. Lögin eru til staðar, kjarasamningar eru til staðar og því ekkert sem stendur í veginum.

Ef íslenskur aðili kaupir sér rútu og fer að praktísa með hana án tilskilinna leifa, eru þessar stofnanir fljótar til, mæta með lögreglu og stöðva starfsemina.

Hvers vegna ekki þegar erlendir aðilar stunda sömu lögbrot?!


mbl.is Lítið eftirlit með erlendum fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband