20 ára óréttlæti að ljúka

Á morgun lýkur loks skattalegu óréttlæti sem viðgengist hefur í 20 ár. Hluti landsmanna hefur verið skattlagður sérstaklega fyrir það eitt að eiga erindi til sinnar höfuðborgar. Hvort þetta stenst lög ætla ég ekki að tjá mig um, enda enginn þorað að láta á slíkt reyna.

Stundum hefur verið sagt að enginn sé neyddur til að fara göngin, að hægt sé að aka fyrir Hvalfjörð. Vissulega er nokkuð til í þessu, en þó ekki. Staðreyndin er sú að viðhald vegarins um Hvalfjörð hefur verið í skötulíki síðustu tuttugu ár, auk þess sem lítil snjóhreinsun vegarins gerir það að verkum að þessi möguleiki er fjarri því að vera raunhæfur, yfir vetrarmánuðina.

Hér á landi hefur verið valin sú leið að innheimta sérstakan skatt til vegabóta gegnum eldsneyti. Þannig greiða þeir sem nota vegakerfið sjálfir fyrir viðhald þess og endurbyggingu. Þeir sem ekki eiga eða nota bíla, hafa verið undanþegnir þeirri kvöð að bæta og halda við vegakerfi landsins. Þetta er í sjálfu sér réttlátt kerfi, þeir borga sem nota.

Einn hængur hefur þó verið á þessari skattlagningu, en hann er sá að misvitrir stjórnmálamenn haf sífellt sótt í þetta fé, til annarra nota. Því hefur sá skattur sem bíleigendur greiða í formi gjalds á eldsneyti, ekki skilað sér til vegabóta og stundum einungis lítill hluti þess verið nýttur til þeirra nota. Því er sú staða komin upp núna að vegakerfi landsins er orðið úr sér gengið og víða stór hættulegt.

Það var við lok níunda áratugar síðustu aldar og upphafi þess tíunda, sem nokkrir góðir menn fóru að vinna að því hörðum höndum að skoða hvernig mætti þvera Hvalfjörðinn. Hugmyndir um göng undir fjörðinn komu út úr þeirri vinnu, eftir að brú eða ferja voru ekki talin raunhæfar lausnir.

Um miðjan tíunda áratuginn var ákveðið að stofna félag um byggingu gangnanna og Spölur varð til. Göngin voru gerð og þau opnuð í júlí 1998, eða fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Skiptar skoðanir voru um framkvæmdina, en fljótt kom í ljós hversu þörf hún var.

Þó að um einkaframkvæmd væri að ræða var að einhverjum óskiljanlegum ástæðum ákveðið að leggja skatt á hvern þann sem um göngin fóru og þannig átti að greiða hana upp. Þessi aðferðarfræði var vægast sagt undarleg. Vel mátti fá einkafyrirtæki til framkvæmdanna og reksturs gangnanna, en ríkið átti einfaldlega að greiða fyrir það, kannski á tuttugu árum, kannski styttri tíma, kannski lengri, allt eftir því hvernig um hefði samist.

Þann pening sem ríkið þurfti, til að greiða fyrir göngin, eignaðist það sjálfkrafa við opnun gangnanna, í formi sparnaðar annarsstaðar. Það gleymdist nefnilega að gera ráð fyrir því hvað göngin myndu spara ríkissjóð í viðhaldi á veginum fyrir Hvalfjörð. Ljóst er að spár um aukningu umferðar myndu leiða til þess að byggja þyrfti upp hver einasta metir af Hvalfjarðarvegi og halda honum síðan við, að ógleymdum stór auknum snjómokstri yfir vetrarmánuðina.

Hvað ríkissjóður hefur sparað á þessum tuttugu árum sem liðin eru, get ég ekki sagt til um, en ljóst er að búið væri að greiða göngin fyrir þá aura, fyrir nokkru. Þeir sem hafa ekið fyrir Hvalfjörð, á síðustu tuttugu árum, vita að þar þyrfti að kosta miklu til svo sá vegur gæti annað þeirri umferð sem um göngin fara, á hverjum degi.

Ég ætla rétt að vona að enginn stjórnmálamaður sé svo skini skroppinn að hann samþykki slíka staðbundna skattlagningu sem við Hvalfjarðargöng hafa verið. Það er með ólíkindum að sumir landsmenn þurfi að greiða aukaskatt til að ferðast milli landshluta, meðan aðrir þurfa þess ekki. Slíka mismunun mun enginn kjósandi láta bjóða sér aftur og refsa þeim stjórnmálamönnum harðlega sem að slíku stæðu.

Auðvitað er það svo að skattlagning í gegnum eldsneyti er ekki endilega rétta aðferðin, til að fjármagna viðhald vegakerfisins. Til eru aðrar leiðir, sem eru alveg jafn réttlátar. Hvergi þekkist þó tvöfalt kerfi, eins og þeir sem um Hvalfjarðargöng hafa ekið, síðust tuttugu ár, hafa þurft að búa við.

Víða erlendis eru tollhlið algeng og ökumenn greiða þar sinn hlut í mannvirkjum. Eðli málsins samkvæmt gengur slíkt ekki upp hér á landi, vegna þess hversu dreifbýlt landið er. Það myndi leiða af sér að fjölmennustu vegirnir yrðu þá greiðir og beinir, meðan minna eknir vegir væru verri. Minnst eknu vegirnir yrðu þá væntanlega bara moldarslóðar. Ætla mætti að þeir sem væru búnir að þvælast um nánast vegleysur, af Austurlandi eða Vestfjörðum, kæmu inn á nánast gullslegna vegi umhverfis höfuðborgina!

Þungaskattur, þar sem menn greiða skatt eftir eknum kílómetrum, er önnur leið. Þetta var í gildi gagnvart díselbílum hér á landi fyrir nokkrum áratugum, eða þar til farið var að lita díselolíu. Þá var þessi skattur færður í hana. Með fjölgun rafbíla má þó gera ráð fyrir að þetta fyrirkomulag verði ofaná í framtíðinni, það þarf nefnilega að viðhalda og endurbæta vegakerfið, þó við rafbílavæðum bílaflotann. 

En frumforsenda þess er auðvitað að afnema þá gjaldið úr eldsneytinu.

Það er sorglegt að hlusta á vegamálaráðherra tala fyrir skattskýlum, nánast við hver gatnamót. Þessi maður, sem fyrir kosningar sagði að ekki kæmi til greina að taka upp slíkt kerfi, var varla búinn að setjast í stólinn þægilega, þegar hann skipti um skoðun!

Ég trúi á hið góða í mannskepnunni, þó erfitt sé að hafa einhverja trú á ráðherranum. Ég trúi því að meðal þeirra 63 manna og kvenna, sem þjóðin kaus til stjórnunar landsins, séu a.m.k 32 sem hafa þá skynsemi sem þarf til að sinna þeim skildum sem þeir sóttust eftir. Þá þarf ekki að óttast þó einhverjir misvitrir eða jafnvel óvitrir, sitji í stól ráðherra!!


mbl.is Gjaldtöku hætt um kl. 13 á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það eru tvær leiðir til að komast fyrir Hvalfjörðin. Önnur er að fara göngin og greiða fyrir það. Hin er að fara fyrir fjörðinn, en þá er bensínkostnaður hærri. Um þetta hefur fólk haft val.

Ef ekki hefði verið um gjaldtöku að ræða hefðu þessi göng aldrei verið grafin. Þá hefði aldrei komið til þess, sem nú er, að fólk geti farið á ódýrari hátt fyrir Hvalfjörðinn en annars hefði verið.

Svo er það nú þannig, að fólk á ekki aðeins erindi til borgarinnar. Það á einnig erindi í hina áttina.

Þorsteinn Siglaugsson, 27.9.2018 kl. 18:19

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Spurning hvort þú hefur lesið allan pistilinn minn Þorsteinn.

Hitt er rétt hjá þér, það er ekið í báðar áttir um göngin. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að við landsbyggðarotturnar sem búum á Vestur og Norðurlandi komumst ekki til höfuðborgarinnar nema borga aukaskatt umfram aðra íbúa landsins.

Hvort dýrara eða ódýrara er að aka fyrir fjörð skipir ekki máli. Það sem máli skiptir er að yfir vetrartímann er snjómokstri hagað þannig að sú leið er ekki í boði og svo hitt að ef allir veldu að aka þá leið mun vegurinn ekki bera þá umferð.

Gunnar Heiðarsson, 27.9.2018 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband