Þegar auðmenn taka upp budduna
18.7.2018 | 22:34
Enn er verið að tefja að alvöru vegtenging fáist fyrir sunnanverða Vestfirði. Fyrir kosningar í vor lá ljóst fyrir að vegur um Teigskó yrði fyrir valinu, einungis eftir að fá samþykkt opinberra yfirvalda. Eftir kosningar kom annað hljóð í skrokkinn. Þá var allt í einu nauðsynlegt að skoða fleiri leiðir. Bræður tveir, sem taldir eru til auðmanna þessa lands, tóku upp á því að opna buddur sínar fyrir nýju sveitarstjórnina.
En eins og allir vita, opna auðmenn ekki buddur sínar án þess að fá eitthvað í staðinn. Og það varð raunin. Ráðinn var norsk verkfræðistofa til að koma með nýja og "ferska" sýn. Auðvitað var sú sýn eins og til var ætlast, vegur skyldi lagður annarstaðar en um Teigskóg. Þeir norsku lögðu til að brúað skildi milli Reykjaness og Skálaness, 800 metra langa brú. Það tók norsku verkfræðistofuna ekki nema nokkra daga að komast að þessari niðurstöðu. Enda var henni ekki ætlað að finna ódýrustu eða bestu leiðina, heldur einhverja aðra en um Teigskóg. Hreppsnefndinni hafði þarna tekist að koma málinu í algert uppnám, fyrir tilstilli tveggja bræðra, sem sáu sér einhvern hag í að tefja málið.
Forsendur norsku verkfræðistofunnar eru í algjörum molum. Fyrir það fyrsta gerir hún ráð fyrir að vegurinn að Reykhólum verði nýttur áfram, einungis gert ráð fyrir nýrri tengingu í báða enda hans. Þeir sem þennan veg hafa ekið vita mætavel að það er alger firra, byggja þarf þann veg upp frá grunni, eigi hann að taka við allri þeirri umferð sem til sunnanverðra Vestjarða fer og síðan þeirri umferð sem bætist við eftir að Dýrafjarðargöng hafa verið kláruð og vetrarvegur yfir Dynjandis- og Botnsheið verður lagður. Vegstæðið liggur þarna um skógi vaxið svæði og hætt við að umhverfisspjöll verði mikil við lagningu nýs vegar þarna, auk þess aukakostnaðar sem af hlýst.
Þá liggja ekki fyrir neinar alvöru rannsóknir á hvernig botnlög eru í utanverðum Þorskafirði og því ekki hver kostnaður er við brúarstólpa þar, eða hvort yfir höfuð er hægt að brúa þarna. Kostnaðaráætlun þeirra norsku er því óskhyggja ein. Sem rök fyrir máli sínu nefnir þessi norska verkfræðistofa brúargerð í Noregi. Hvergi veit ég til að brúað hafi verið þar, ef hægt hefur verið að leggja veg um láglendi án slíks ofurmannvirkis og alls ekki ef vegalengdir aukast við brúargerð. Enda Norðmenn sparir á aurinn og fara vel með hann.
Teigskógur er eins mikið rangnefni og hugsast getur, á því kjarri sem vex neðarlega í suðurhlíðum Hallsteinsnesfjalls og nægir að ganga þar uppréttur til að sjá til allra átta. Mun fallegri og stærri skóga má finna þarna nærri og má t.d. nefna skóginn fyrir ofan Bjarkarlund og auðvitað skóginn neðan Barmahlíðar, þar sem núverandi vegur til Reykhóla liggur. Fleiri slíka skóga má nefna á sunnanverðum Vestfjörðum og austur um Barðaströnd.
Verndargildi Teigsskógar er ekkert, enda búið að planta í hann erlendum trjám, eins og t.d. Alaskaösp.
Margir hafa fundið hjá sér hvöt til að skrifa um þetta blessaða kjarr, því til varnar. Efast ég um að margir þeirra hafi farið á staðinn til að líta "djásnið" augum, enda ekki auðvelt að komast þangað. Læst hlið og ekki nema fyrir útvalda að komast þangað. Þarf að fara á svig við lög ef ætlunin er fyrir hinn almenna Íslendinga að komast á svæðið.
Eftir að upplýst var að tveir bræður væru að fjármagna ósættið um löngu þarfa veglagningu um sunnanverða Vestfirði, með því að bera fé á sveitarstjórn Reykhólahrepps, dettur manni óneitanlega í hug að kannski hafi hafi sú hvöt, til skrifta, eitthvað að gera með buddur bræðranna og jafnvel kærumál hinna ýmsu svokallaðra hagsmunaaðila séu af sömu rót sprottnar. Reyndar eru flest þau hagsmunafélög á suð-vestur horni landsins.
Það er alveg dæmalaust að sveitarstjórn Reykhólahrepps hafi látið tvo bræður hafa sig að fíflum og það fyrir örfár krónur. Þarna tókst henni að flækja málið enn frekar og búa til enn meira ósætti, bæði innan eigin sveitarfélags en ekki síður þeirra sem búa vestan þess. Það er í alvöru spurning hvort sveitarstjórn hafi með þessu framferði, að láta auðmenn kaupa sig, ekki gerst brotleg við stjórnsýslulög. Og hverjar eru hvatir þessara bræðra, eða hagsmunir, að þeir telji nauðsynlegt að bera fé á sveitarstjórn?!
Til að það valdi ekki misskilningi, þá býr höfundur ekki í Reykhólahreppi eða vestan hans, en ofbýður hvernig komið er fram við það fólk sem þar býr!!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Samgöngur, Sveitarstjórnarkosningar, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 22:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.