Trú eða rök

Það er eitt að byggja sinn málflutning á trú, eins og Bryndís Haraldsdóttir gerir, annað að byggja málflutning á rökum, eins og Frosti Sigurjónsson.

Grein Frosta var vel rituð, eins og hans er von og vísa, allar hliðar málsins greindar og rök flutt fyrir hverju atriði.

Bryndís talar hins vegar um "vitrænan hátt" og að hún sé "sannfærð". Ansi lítill rökstuðningur í slíkum málflutningi.

Það er vissulega þörf á að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, samhliða fjölgun íbúa þar. En það má aldrei gera með því að skerða aðra umferð, það verður ekki byggt á óraunhæfum forsendum um gígatíska hlutfallsfjölgun þeirra sem almenningssamgöngur nota og enn óraunhæfari fjölgun þeirra sem hvorki nota einkabíl né almenningssamgöngur, til að komast milli staða. Þá er ljóst að kostnaður við verkefnið er svo ótrúlegur að útilokað er að hefja það nema með mikilli aðkomu ríkissjóðs. Og þá erum við að tala um þær áætlanir sem liggja fyrir, slíkar áætlanir hafa sjaldnast staðist hér á landi og ljóst að kostnaður mun verða mun hærri. Er einhver glóra í því að allir landsmenn verði látnir taka þátt í verkefni sem einungis hluti þeirra hefur möguleika á að nýta og enn færri munu síðan nýta?

Þetta eru forsendurnar fyrir borgarlínunni, skerðing annarrar umferðar, óraunhæfar áætlanir um fjölgun þeirra sem almenningssamgöngur munu nota, enn óraunhæfari áætlanir þeirra sem hvorki munu nota einkabíl né almenningssamgöngur, kostnaður að stórum hluta tekinn úr sjóði allra landsmanna. Kostnaður sem strax við fyrstu áætlun er svo hár að bygging nýs Landspítala bliknar í samanburðinum. Kostnaður sem sennilega mun tvöfaldast, sé tekið mið af öðrum framkvæmdum hér á landi, sem draumóramönnum hefur tekist að koma yfir á ríkissjóð!

Það á auðvitað að byrja á að fjölga akreinum þar sem umferð er hvað mest, gera mislæg gatnamót á þyngstu gatnamótin og almennt að fara í aðgerðir til að greiða fyrir ALLRI umferð. Þá minnka tafir, líka almenningsvagna. Mengun mun einnig minnka verulega. Síðan á að kaupa fleiri og minni strætisvagna og þannig að þétta kerfi þeirra. Rafmagnsvagna er mjög vel hægt að nýta innan höfuðborgasvæðisins og auðveldara að fá slíka vagna eftir því sem stærð þeirra er minni. Allt þetta væri hægt að gera fyrir mun minni pening en borgarlínu og ef rétt að málum staðið, má gera þetta á tiltölulega löngum tíma. Bara við það eitt að gera ein mislæg gatnamót, á réttum stað, getur greitt ótrúlega mikið fyrir umferð.

Og svo má auðvitað ekki gleyma þeirri staðreynd að ef 5000 manna vinnustaður, sem verið er að byggja niður í miðbæ, verður færðar utar í borgina, á betri stað, mun þörfin minnka á eflingu gatnakerfisins, þar sem slík efling er hvað erfiðust og dýrust, þ.e. á neðsta hluta Miklubrautar.

Það er alveg sama hvernig þetta mál er skoðað, forsendur þess og skipulag. Þetta kemur ekkert við eflingu almenningssamgangna, enda aðalforsenda borgarlínu, hlutfallslega minni notkun einkabílsins, að stórum hluta fundin með stóraukningu þeirra sem hvorki ætla að nýta almenningssamgöngur né einkabíl, heldur ferðast á annan veg. Þetta varð að gera þar sem forsendur um notkun almenningssamgangna var þá þegar komin yfir öll raunhæf mörk, en nauðsynlega að ná niður notkun einkabílsins, svo forsendur stæðust! Öll merki þessarar hugmyndar bera með sér andúð á einkabílnum!!

Áætlanir segja að 12% muni ferðast með almenningssamgöngum, sem er þreföldun miðað við daginn í dag, en að 30% muni hvorki nota almenningssamgöngur né einkabíl. Miðað við spár um fólksfjölgun á svæðinu, munu þá 450.000 manns daglega ferðast ýmist gangandi eða hjólandi um höfuðborgarsvæðið!! Trúir einhver svona andskotans bulli?!

Það er ótrúlegt að fólk sem vill láta taka sig alvarlega og velur sér pólitískan starfsvettvang, skuli vera ginkeypt fyrir þessu rugli. Ég hélt að slík fásinna væri bundin við hörðustu vinstrisinna.


mbl.is Segir grein Frosta rökleysu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrossabrestur

Er þessi Bryndís Haraldsdóttir ekki bara laumukrati sem ætti að drífa sig til liðs við Samfylkinuna hið snarasta. 

Hrossabrestur, 21.1.2018 kl. 18:52

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Andsvar Bryndísar, við góðri skilgreiningu Frosta á svokkallaðri borgarlínu, undirstrikar kratavæðingu Sjálfstæðisflokksins. Málflutningur meira og minna rakalaust bull og upphrópanir án nokkurra raka, ólíkt grein Frosta. 

 Hvort er gáfulegra, að skipuleggja ný svæði út frá núverandi gatnakerfi og horfa þá aðeins út fyrir 101, eða blindast í þeirri villu að það svæði verði um aldur og ævi nafli alheimsins? Á virkilega að troða  70.000 manns í 101 og nærliggjandi póstnúmer, á allra næstu áratugum? Svona geta einungis bjálfar hugsað og vonandi að þeim verði mokað út í hafsauga í næstu sveitarstjórnarkosningum.

 Meðan miðbæjarrottur og andbílasinnar og viðhaldsfjandmenn ráða ríkjum í Reykjavík, getur á endanum ekki farið öðruvísi en svo að 101 hæfi rottum einum. Sorglegt að sjá hve fulltrúar nágrannasveitarfélagana eru liðtækir í því að hoppa á vagninn í þessu rugli.

 Almenningssamgöngur á að sjálfsögðu að bæta. Þar mætti þó ef til vill byrja á að skilgreina hvers vegna svo fáir notfæra sér þær. Er viss um að þar er gatnakerfinu einu, ekki einu um að kenna. Þar kemur svo margt annað til. Strætisvagnar eru of stórir miðað við þörf á nánast öllum leiðum og aka meira og minna tómir, lungan úr deginum frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar, eða jafnvel upp á Akranes. Að reisa einhverja "borgarlínu" um eitthvað sem nánast engin eftirspurn er eftir, dytti engum öðrum í hug en brengluðum krötum og þeim sem stjórna vilja öðrum, með alræðisvaldi embættismannakerfis, sem ávallt fær sitt, meðan aðrir líða eða bíða í röð.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan. 

Halldór Egill Guðnason, 21.1.2018 kl. 23:36

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Hér tala menn eins og að það kosti ekkert að fjölga akreinum og byggja mislæg gatnamót. Það að reyna að sinna aukinni umferð vegna þess að það fjölgi um 70.000 manns á höfuðborgarsvæðinu kostar margfalt meira en borgarlínan og flest bendir til að samt muni árangurinn í að stytta tafatíma verða minni. Þar sem kerfi eins og hér er talað um hefur verið sett upp hefur það leitt til fjölgunar þeirra se nota almenningssamgöngur og það líka á norðlægum slóðum með erfið veður og færð á veturna.

Hér er ekki verið að horfa bara til 101 og það stendur alls ekki til að koma 70.000 manns fyrir þar. Það stendur hins vegar til að þeim sé komið fyrir innan núverandi byggðar á höfuðborgarsvæðinu og þá eru öll hverfi höfuðborgarsvæðisins þar undir. Það er nóg pláss fyrir það fólk innan þeirra marka en til þess þarf að koma í veg fyrir að það þurfi að byggja á annað hundrað þúsund bílatæði í viðbót eins og þarf að gera ef ferðavenjum og þar með bílaeign íbúa höfuðborgarsvæðisins verður ekki breytt.

Sigurður M Grétarsson, 22.1.2018 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband