Er Reykjavík höfuðborg allra landsmanna?

Endalaus áróður sóðanna sem stjórna höfuðborg okkar landsmanna, gegn nagladekkjum, er orðinn óþolandi. Ekki einungis að þarna séu stjórnvöld borgarinnar að ráðast með ofbeldi gegn öryggi á götum og vegum, ekki aðeins að taka ákvörðunarrétt af bíleigendum, heldur er með þessari tillögu verið að leggja stein í götu landsbyggðafólks, þurfi það að sækja sér þjónustu til sinnar eigin höfuðborgar!!

Vandinn er ekki nema að sáralitlu leyti vegna nagla í dekkjum bíla og mætti útrýma því með því einu að hætta þeim gengdarlausa saltaustri sem viðhafður er á götum Reykjavíkur. Saltið leysir upp malbikið, sér í lagi þegar gæði þess eru léleg, en borgin hefur valið að versla ódýrast og lélegast malbik sem hægt er að komast yfir hér á landi.

Aðalorsök svifryks er fyrst og fremst þeim sóðaskap sem borgaryfirvöld viðhafa, að kenna. Hreinsun gatna er langt fyrir neðan lágmark. Það veldur því að ryk safnast á göturnar, jafnt að vetri sem sumri, það ryk fer síðan á ferð þegar bílar aka um göturnar og sest í gras og gróður umhverfis þær, sem sóðarnir í ráðhúsinu við Tjörnina hafa verið einstaklega duglegir að láta vaxa villt. Þegar síðan vindur snýr sér, blæs hann sama rykinu aftur yfir göturnar.

Sóða- og slóðaskapur borgaryfirvalda er hreint út sagt með eindæmum!!

Síðan, þegar mengun fer yfir viðmiðunarmörk af allt annarri ástæðu, er tækifærið nýtt til að hnýta í bíleigendur! Kannski voru það bara þeir sem aka um á nagladekkjum sem skutu upp rakettum um síðustu áramót og alveg örugglega voru það þeir sem aka á nagladekkjum sem gerðu samning við veðurguðina um að hafa logn á höfuðborgarsvæðinu á nýársnótt, svo öruggt væri að mengunin sæti sem fastast!

En aftur að kröfu borgaryfirvalda um lagasetningu Alþingis um að færa sveitarfélögum verulega og afdrifaríka íhlutun um málefni sem, af ríkri ástæðu, er ekki er á þeirra valdi. Ef Alþingismenn eru svo skyni skroppnir að láta eftir slíkt ofurvald til borgarstjórnar, er komin upp ansi undarleg staða.

Sjálfur bý ég út á landi og eins og svo margir sem þar búa ek ég á nagladekkjum. Þetta geri ég ekki vegna þess að mér þyki svo gaman að hlusta á hávaðann í dekkjunum þegar ekið er eftir vegunum, ekki vegna þess að mér þyki nauðsynlegt að hreinsa sem mest af málningu innanúr hjólskálunum og enn síður vegna þess að mér þyki svo gaman að borga meira fyrir dekkin undir bílinn minn. Nei, ég ek um á nagladekkjum af þeirri einföldu ástæðu ég þarf að komast á milli staða eftir okkar yndislegu þjóðvegum, snemma á morgna og seint að kvöldi, í hvaða veðri sem er, til að sinna minni vinnu. Oft eru aðstæður til aksturs á þeim tímum þannig að nagladekk eru nauðsyn, þó auðvitað marga daga sé þeirra ekki þörf. Það er af öryggisástæðum einum sem ég vel að vera á nagladekkjum, svona eins og allir sem það velja. Vil taka það fram að ég bý þó á einu snjóléttasta svæði landsins, en á Íslandi! Margir landsmenn búa við enn erfiðari aðstæður.

Fái borgin það vald sem hún sækist eftir, verður ferðafrelsi mitt skert verulega. Þá verður það undir valdi borgarstjórnar hvort ég má aka minni bifreið innan borgarmarkanna!

Mun ég kannski þurfa að hringja í borgarstjóra og fá leyfi, þurfi ég að sækja þjónustu til minnar höfuðborgar, kannski alla leið vestur í bæ á minn nýja Landspítala, þá daga sem borgarstjórn telur ástæðu til að banna akstur á nagladekkjum? (sem verður þá alla daga ársins, verði þessir þverhausar áfram við völd). Eða á kannski Landsspítalinn bara að vera fyrir höfuðborgarbúa, þá sem vestast í borginni búa?

Ekki trúi ég að borgarbúar kjósi þessi skoffín aftur yfir sig!!


mbl.is Vilja geta takmarkað umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála hverju einasta orði. Ég keypti mér bíl veturinn 2016 nýjan bíl beint úr kassanum. Eftir 3-4 mánuði þá var hann allur orðinn grjótbarinn og rispaður. Ég fór með hann á sprautuverkstæði þar sem ég lét aðeins fríska upp á hann og fékk þá þau svör að allir bílar borgarinnar væru svona þar sem viðhaldi gatna væri verulega ábótavant og það látið sitja á hakanum á meðan aðaláherslan væri lögð á að fá fólk til að taka strætó eða þvinga það til að taka strætó.

Ég bý í einu af úthverfum borgarinnar þar sem er mjög sjaldan eða aldrei hálkuvarið. Það hefur komið nokkrum sinnum fyrir að botnlanginn þar sem ég bý hefur verið ófær einfaldlega vegna þess að það er gler á götunni og hvorki gangandi eða keyrandi óhætt að fara um.

Á sama tíma hefur þráhyggjan varðandi þéttingu byggðar, borgarlínu og aukningu á strætónotkun aldrei verið meiri hjá Sirkus Geira Smart í borginni. Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis og skipulagsráðs hefur ekki þekkingu á umferðarmálum í borginni því annars væri meiri fjármunum varið í nauðsynlegt viðhald á gatnakerfi borgarinnar og annars hefði borgin ekki afþakkað þann milljarð sem henni stóð til boða á ári frá ríkinu í framkvæmdir á gatnakerfinu.

Svo á að fara að byggja spítala á Hringbraut þar sem vinnustaður 4000 manns er á einum og sama stað. Einhver bílastæði munu þurfa að víkja fyrir þessum framkvæmdum og svo aðalþráhyggjunni, borgarlínunni. Hvar eiga starfsmenn spítalans að leggja? Segjum sem svo að ég þurfi nauðsynlega á aðgerð að halda akút og læknirinn sem hana gerir sé staddur í heimahúsi í Grafarvogi. Á ég að drepast á skurðarborðinu á meðan læknirinn situr fastur í því umferðaröngþveiti sem mun myndast á leið hans uppá spítalann eða af því að læknirinn þarf að hlaupa alla leið frá Laugarvegi þar sem hann fær ekki stæði við spítalann þar sem öll stæðin hafa verið lögð undir borgarlínuna?

Núverandi sirkus í borginni er nú þegar búinn að skemma lóð útvarpshússins við Efstaleiti með þessari andskotans þráhyggju varðandi það að þétta byggð en snillingarnir gleymdu að gera ráð fyrir því að starfsfólk útvarpshússins er margt hvert á bílum og þarf að leggja á meðan framkvæmdum stendur og þeir gleymdu líka að gera ráð fyrir því að íbúar blokkanna sem eru í byggingu eru margir hverjir keyrandi.

Sumt af skemmdarverkum núverandi meirihluta verður ekki tekið til baka en margt er hægt að stoppa og því hefur aldrei verið jafn mikilvægt og einmitt núna að kjósa rétt í borgarstjórn Reykjavíkur. Kjósum Samfylkingu og Bjarta Framtíð lengst útí rassagat. Fáum hér fólk sem veit hvað það er að gera.

Tryggvi Rafn Tómasson (IP-tala skráð) 20.1.2018 kl. 17:58

2 identicon

Heyr Heyr !

Vonandi sér fólk að sér og losar sig við vbandamálið.

Burtu með sóðana !

Birgir Gudjonsson (IP-tala skráð) 20.1.2018 kl. 22:13

3 identicon

Það getur nú ekki skaðað bílandi einstaklinga, að almenningssamgöngur verði stórbættar? Sumum hentar vel að nýta sér bættar almenningssamgöngur, og öðrum hentar best að nota einkabílandi ferðamáta.

Eða hvað?

Um hvað snýst þetta pólitíska vegagerðarinnar reiptog í raun og veru?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 21.1.2018 kl. 01:07

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka ykkar innlegg, Tryggvi og Birgir.

Anna, hvorki pistill minn, né fréttin sem hann er tengdur við, fjalla um almenningssamgöngur. Í fréttinni er verið að segja frá ósk borgaryfirvalda til Alþingis um að fá vald til að banna umferð ákveðinna bifreiða innan borgarmarkanna. Um það er minn pistill.

Almenningssamgöngur eru allt annað mál og mun ég sjálfsagt setja saman enn einn pistil um það efni, síðar.

Vil því aðeins segja um það efni nú, að það er sjálfsagt að efla almenningssamgöngur, meðan það skaðar ekki aðra umferð og kostnaður við slíka eflingu lendi á þeim sem eiga þess kost að nýta þær.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 21.1.2018 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband