Rothögg á vegakerfi landsins

Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, hefur farið mikinn síðustu daga og vikur. Þar hefur hann talað um að framkvæma þurfi svo og svo mikið og nefnt ýmis verkefni, bæði innan og utan samgönguáætlunar. Þetta allt ætlaði hann að fjármagna með vegtollum umhverfis höfuðborgina. Eins og búast mátti við mætti sú ætlan ráðherrans mikilli mótspyrnu.

Nú hefur ráðherrann hins vegar skipt um kúrs, í stað þess að tala fyrir auknum framkvæmdum hefur hann nú skorið niður verulega, eða um 10 milljarða króna. Væntanlega er þetta herbragð hjá honum til þess ætlað að breyta hugsanahætti fólk til vegtolla, að vinna því máli fylgi með hótunum.

Það er nokkuð merkilegt að skoða þennan lista yfir niðurskurð ráðherrans. Öll eru þau verkefni út á landsbyggðinni, öll eru þau innan samgönguáætlunar og flest eru þau mjög brýn og mörg hver beðið í áratugi. Ekki kemur fram í fréttinni hvaða verkefni fá náð hjá ráðherranum, utan þrjú, gatnamót Krísuvíkurvegar, Vestmannaeyjaferja og Dýrafjarðargöng. Hvað fleira á að gera nefnir hann ekki, en ljóst er af listanum yfir það sem skorið er niður, að landsbyggðin mun lítið eða ekkert fá, meiri líkur á að einhverjir reiðhjólastígar innan Reykjavíkur verði þar í forgangi.

Í fjárlögum ársins 2017 kemur fram að 29 milljarðar eru ætlaðir til vega- og fjarskiptamála. Ekki kemur fram hvernig skiptingin á þessu fjármagni mun verða, milli þessara tveggja málaflokka. Í viðtali við ráðherrann segir hann að 4,5 milljarðar séu ætlaðir til nýrra framkvæmda. Nú hef ég ekki þekkingu til að segja til um hvort þetta sé eðlileg skipting né hvort 24,5 milljarðar dugi vegagerðinni til rekstur og viðhalds, auk eflingu fjarskipta á landinu. Við fyrstu sýn virðist sem veruleg vanáætlun hafi verið til þessara málaflokka, við gerð fjárlaga fyrir árið 2017. Samgönguáætlun er ekki eitthvað marklaust skjal, heldur ákvörðun Alþingis og því hljóta stjórnvöld hverjum tíma vera bundin af þeirri áætlun og finna fé til þeirra framkvæmda sem á þeirri áætlun eru, hverju sinni.

Svona til upplýsingar þá eru skattar og gjöld sem bíleigendur greiða til ríkissjóðs talin nema vel yfir 70 milljörðum á þessu ári. Þá er ekki tekið tillit til þess að umferð er að aukast til muna, bæði innlendra ökumanna og ekki síður vegna aukins fjölda ferðamanna. Jafnvel þó þangað yrði sóttir þeir 10 milljarðar sem þarf til að standast vegaáætlun, getur ríkið vel við unað, Hefur samt sem áður aukaskatt af bíleigendum vel yfir 30 milljarða, miðað við að bíleigendur séu einnig látnir greiða kostnað við eflingu fjarskipta á Íslandi, auk uppbyggingu og viðhalds vegakerfisins!!

Vegakerfið á Íslandi er ekki til sóma, verið svelt fjárhagslega í áratugi og ber þess skýr merki. Þegar hrunið skall á var nánast lokað algjörlega á allar framkvæmdir og það sem verra var, viðhald var dregið mjög niður. Enn vantar mikið upp á að jafnvægi sé komið milli framlaga til vegamála og þörf. Þó er fjáröflunin til staðar, en hún er nýtt til annarra verkefna, að stæðstum hluta. Þetta verður að laga og vissulega gladdist maður þegar samgönguáætlun var samþykkt á síðasta þingi. Þar var að sjá að nú ætti loks að taka á vandanum, sem í raun er að verða óviðráðanlegur víða. En eins og áður segir, þá virðast stjórnvöld ekkert mark taka á þeim lögum sem Alþingi samþykkir.

Forgangsröðun ráðherrans er nokkuð undarleg. Í umræðum síðustu vikna hefur hann talað um auknar álögur á bíleigendur, með því að leggja á vegtolla. Í þeirri umræðu var honum tíðrætt um vegabætur umhverfis höfuðborgina, Sundabraut, tvöföldun flestra vega í tugi kílómetra út fyrir borgarmörkin og fleira í þeim dúr. Að því loknu ætlaði síðan ráðherrann að nýta vegtollana til uppbyggingar á vegakerfinu út á landi.

Sem fáfróðum leikmanni er manni þessi forgangsröðun ráðherrans nokkuð framandi. Ég bý á Akranesi og vissulega myndi ég fagna tvöföldun Kjalarness og jafnvel Sundabraut. En þessar framkvæmdir eru þó ekki þær sem mest að kalla, fjarri því. Meðan fjöldi einbreiðra brúa skiptir tugum á hringveginum, meðan enn eru ómalbikaðir kaflar á helstu stofnleiðum, meðan einangrun heilu landshlutanna yfir vetrarmánuðina er staðreynd og meðan hundruðir kílómetra af þjóðvegum eru svo mjóir að vörubíla geta vart mæst, er æði flottræfilslegt að tala um tvöföldun vega vítt og breytt út frá höfuðborginni. Þá má hæglega minnka verulega álagið á veginn gegnum Hvalfjarðargöng til Reykjavíkur, með því einu að virkja enn frekar höfnina á Grundartanga, að öllum þungaflutningum sem nú fara á milli norður- og vesturlands að Sundahöfn, verði beint að Grundartangahöfn. Þannig mætti fresta tvöföldun þessa kafla um nokkur ár og Sundabraut um mörg ár.

Eins og áður segir, þá nefnir ráðherrann þrjú verkefni sem munu halda sér, Dýrafjarðargöng, Vestmannaeyjarferju og gatnamót Krýsuvíkurvegar.

Dýrafjarðargöng eru vissulega komin á tíma og það fyrir margt löngu síðan. Hins vegar er spurning hver bótin af þeim verður, ef íbúar norðurhluta Vestfjarða komast einungis yfir í Arnarfjörð. Þegar vegirnir um Gufudalssveit og Dynjandisheiði hafa verið afskrifaðir.

Um Vestmannaeyjarferju hefur verið deilt. Vissulega þarf að koma einhverju lagi á samgöngur milli lands og Eyja, hvort þessi ferja breyti einhverju þar um er svo annað mál.

Sannarlega er þörf á mislægum gatnamótum á Krísuvíkurveg. En þar, eins og svo víða hjá vegagerðinni, virðast menn hafa hugsað með einhverju öðru en hausnum. Innan við 2 kílómetrum norðan eða austan þessara gatnamóta eru mislæg gatnamót. Um þau lá Krísuvíkurvegur þar til fyrir skömmu að honum var breytt og ný gatnamót voru gerð þar sem þau eru nú. Auðvitað átti ekki að breyta þessum vegi nema mislæg gatnamót kæmu samtímis, enda nánast sami umferðarþungi þar á Reykjanesbrautinni og 2 kílómetrum norðar!

Nokkuð hefur verið um alvarleg slys þar sem tvöföldun vega lýkur og við tekur einfaldur vegur. Þetta á helst við um Reykjanesbraut og Suðurlandsveg. Þetta er auðvitað skelfilegt og þarf að taka á. Áframhald tvöföldunar er þó ekki lausn, nema kannski á kaflanum suður af Hafnarfirði. Frekari lausn væri að taka niður ökuhraða og setja upp hraðamyndvélar, á þá kafla sem flest slys verða. Þar til búið er að tvöfalda allan hringveginn og allar stofnbrautir á landsbyggðinni, mun alltaf verða hættukafli þar sem tvöföldun endar.

Megin málið er þó að byrja á að taka af allar einbreiðar brýr í landinu, malbika alla ómalbikaða kafla á stofnbrautum, brjóta eins mikið og mögulegt er einangrun sveitarfélaga og landshluta og að breikka alla vegi þannig að ekki skapist hætta þegar bílar mætast. Þegar þessu er lokið má skoða hvort flottræfilshátturinn getur tekið við, með tvöföldun vega allt í kringum höfuðborgina og lagningu nýrra vega svo hægt sé að bruna til hennar á sem mestum hraða.

Ekki veit ég hvernig landsbyggðaþingmenn stjórnarflokkanna ætla að réttlæta þennan niðurskurð ráðherrans. Það er hætt við að einhverjir þeirra hlaupist undan merkjum þegar á reynir, enda ljóst að tilvera þeirra á þingi er alltaf háð kjósendum. Jón Gunnarsson fór vel af stað, en nú hefur hann spilað rassinn úr buxunum, svo vægt sé til orða tekið. Standi þessi ákvörðun hans mun það verða rothögg á vegakerfi landsins og öryggi allra sem um það fara!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband