"Launalækkun" þingmanna
31.1.2017 | 20:53
Daginn eftir kosningar, síðasta haust, hækkuðu laun þingmanna um heil 44%. Þetta koma vitaskuld eins og köld vatnsgusa í andlita launþega þessa lands, en fjöldi þeirra er með lægri heildarlaun en sem nam launahækkuninni einni, er þingmenn fengu. Sem dæmi nam þessi hækkun sem svarar til tæplega þreföldum ellilífeyri þeirra sem byggði landið úr örbyrgð til velsældar!
Viðbrögð almennings voru hins vegar væg, allt of væg. Sennilegasta skýring þess er að fólk vildi ekki trúa þessu óréttlæti, að svona lagað gæti einfaldlega ekki gerst hér á landi. En ákvörðunin stóð og stendur. Einstaka þingmaður hvíslaði einhver hjáróma mótmæli og þá hellst einhver þeirra sem kosinn hafði verið á þing í fyrsta sinn, daginn áður. Þeir þögnuðu þó fljótlega og síðan hafa þingmenn flestir þagað þunnu hljóði um þessa ríflegu kauphækkun, Nokkrir hafa verið svo bíræfnir að réttlæta þessa hækkun. Vonandi muna kjósendur nöfn þeirra næst þegar kosið verður.
Nú ætla þingmenn að vera svo miskunnsamir og "lækka" laun sín aftur og hafa falið forseta Alþingis að flytja það mál. Það á sem sagt að skila svona fjórðungi til baka, þannig að launahækkunin verði "bara" sem svarar tvöföldum ellilífeyri!
En skoðum þetta aðeins. Sagt er að "lækkun" launa þingmanna verði sem svarar 150 þúsund krónum á mánuði. Eitthvað vefst þó fyrir mér reiknisdæmið sem forseti leggur fyrir þingið. Þar er talað um að lækka ferðakostnað um 54 þúsund krónur og að það sé ígildi 100 þúsund króna. Ef ferðapeningur þingmanns lækkar um 54 þúsund krónur, þá er það væntanlega lækkun launa hans um 54 þúsund krónur. Hvert ígildi lækkunarinnar er skiptir ekki máli, ekki frekar en hvert ígildi launahækkunarinnar var. Þá hélt ég í fávisku minni að þingmenn fengju ferðapeninga eftir því sem þeir þurfa að ferðast, vegna þingstarfa. Að sú fjárhæð væri fyrir ferðalög, en ekki einhver föst upphæða, jafnt yfir línuna. Ef allir þingmenn fá þessa upphæð, óháð því hversu mikið þeir þurfa að ferðast í sínu starfi, er þetta ekki ferðapeningur, heldur dulbúin launahækkun.
Þá er lagt til að starfskostnaður lækki um 50 þúsund krónur á mánuði. Ekki veit ég hver sá kostnaður er, en ljóst er að hann er eitthvað hærri, kannski mun hærri. Annars myndi verða sagt að sá kostnaður myndi verða afnuminn en ekki lækkaður.
Ég vil taka skýrt fram að ég er ekki háskólamenntaður í stærðfræði og ígildi launahækanna er mér ókunnugt hugtak. Mér sýnist að "lækkun" launa þingmanna muni einungis verða um 104 þúsund krónur á mánuði. Eftir stendur vel væn launahækkun sem þeim var færð á silfurfati, langt umfram það sem aðrir þegnar þessa lands geta látið sig dreyma um, nema kannski bankamenn og aðrir þeir sem véla með auð landsmanna.
Vera má að þjóðinni þyki þetta vera höfðinglegt af þingmönnum, að "lækka" laun sín svona. Að þarna sé komin tala sem almenningur skilur, er nær þeirra raunveruleika.
Aumingjaskapur þingmanna felst hins vegar í því að setja ekki strax lög sem afnema þá gígatísku hækkun sem þeim var færð og láta sér duga sömu launahækkun og almenningur þurfti að sætta sig við. Jafnvel þó prósentan hefði verið notuð, hefði það verið ásættanlegra en svívirðan sem kjararáð færði þeim. Þessi lög áttu þingmenn að koma sér saman um strax og þing kom saman fyrir jól og afgreiða þau á einum degi!
Allur leikaraskapur og öll þau leikrit sem þingmenn setja upp um þetta mál, er þeim til háborinnar skammar. Meðan stórir þjóðfélagshópar eru með laun langt undir þeirri hækkun sem þeim var færð og meðan þeir sem byggðu upp það samfélag alsnægta sem við búum við, byggðu það upp úr engu, fá skammtaða smáaura til framfæris, ætti þingmenn að sjá sóma sinn í að afnema það órétti sem kjararáð færði fram fyrir þjóðina, daginn eftir þingkosningar.
Þingmenn eru þjónar þjóðarinnar, ekki öfugt!!
Leggur til lægri greiðslur til þingmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Facebook
Athugasemdir
þessir menn eru með margar aukagreiðslur auk annara hlunninda vegna búsetu- bílakostnaðar og margra fundarstarfa sem ekki er gefið upp.
hvernig væri að þeirra SKATTASKRÁ VÆRI GERÐ OPINBER ???
Erla Magna Alexandersdóttir, 31.1.2017 kl. 21:20
Sussu sussu, það er svo mikil vinna hjá þeim að fylgjast með Trump að þeir þurfa öll þessi laun.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.2.2017 kl. 00:59
Þessar greiðslur sem eru lækkaðar eru skattfríar, og af þeim fæst ekki greitt í lífeyrissjóð og þess háttar. þess vegna er lækkun um 54þ ígildi launalækkunar um 100þ.
Það þarf ekki að skila neinum kvittunum á móti og mér vitanlega hafa bara tveir þingmenn sleppt þessum greiðslum og hvorugur er á þingi núna (Pétur Blöndal og Ögmundur Jónasson).
Réttmæti þessara og annara greiðslna og launa er svo annað mál sem ég ætla ekki að blanda mér í.
ls (IP-tala skráð) 1.2.2017 kl. 15:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.