Hvað kemur til ..... ?

Hvað kemur til að forseti ASÍ og fyrsti varaforseti, velji að taka málstað SA í kröfu þess síðarnefnda á hendur ríkinu? Hvergi í tveggja blaðsíðna skjali salek hópsins er minnst á að tryggingagjald skuli lækkað. Hins vegar er þar sett innan sviga að aukin framlög til lífeyrissjóða skuli talin til launahækkana.

Það er ljóst að SA liðar ætla að nýta sér þetta svigaákvæði salek skjalsins til að auka framlög til lífeyrissjóða um 2,5% og ætlast til að ríkissjóður greiði það framlag með lækkun tryggingagjalds um sömu prósentu. Þetta léttir á atvinnurekendum leiðréttinguna sem þeir standa frammi fyrir í byrjun febrúar, samkvæmt þeim kjarasamning sem gerður var síðasta vor. En það er fleira sem fram kemur í skjali salek hópsins. M.a. að slík leiðrétting megi ekki vera afturvirk, eins og flestir kjarasamningar sem gerðir hafa verið að undanförnu gera þó.

Við lestur þessa samkomulags, sem salek hópurinn ritar undir er margt undarlegt. Fyrri blaðsíðan fjallar að mestu um það að samkvæmt þessu samkomulagi skuli laun almenning leiðrétt til samræmis við það sem aðrir hafa samið um, þó einungis megi miða við þau stéttarfélög sem að salek standa og eins og fyrr segir er óheimilt að hafa þessa leiðréttingu afturvirka. Auk þess er sett á þessa leiðréttingu hámark sem ekki skal fara yfir. 

Þessi fyrri blaðsíða salek skjalsins er þó með öllu óþörf, þar sem vel var frá þessari leiðréttingu gengið í sjálfum kjarasamningnum,. sem gerður var síðasta vor. Einungis tvær ástæður eru fyrir því að þessi blaðsíða er samin; í fyrsta lagi til að tryggja að leiðréttingin verði ekki afturvirk og með hámark og í öðru lagi til að koma samkomulaginu inn sem hluta kjarasamnings. Þ.e. að lauma samkomulaginu inn um bakdyrnar, setja það sem hluta af leiðréttingunni sem allir vilja fá og þar með fá samþykki fyrir samkomulaginu án þess að um það sé kosið. Þetta er hættulegur leikur, en svo sem í fullum anda þess hvernig forsetar ASÍ vinna! 

Síðari blaðsíða samkomulagsins er hins vegar megin mál þess. Þar kemur fram að samkomulagið taki gildi frá og með árinu 2018. Þetta er auðvitað í algerri andstöðu við fyrri blaðsíðuna og andstöðu við það sem er að gerast á vinnumarkaði, þar sem þessu samkomulagi er laumað inn í kjarasamninga og þau stéttarfélög sem það ekki samþykkja fá ekki viðræður. Nú er síðan verið að tengja þetta samkomulag við þá leiðréttingu sem þó hafði verið samið um í sjálfum kjarasamningnum. Því er nú haldið fram að þessi leiðrétting sé háð salek samkomulaginu, jafnvel þó skýrt ákvæði í sjálfum kjarasamningnum kveði á um hana. Kjarasamningurinn hlýtur að standa, óháð salek óværunni!

Í þessu skjali er talað um stofnun þjóðhagsráðs og því ætlað að greina stöðuna í efnahagsmálum, samhengi ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Þetta er ekkert smá ráð og völd þess munu verða meiri en nokkurs annars batterís hér á landi. Og þetta ráð hefur enn frekari tilgang, en það er að meta hverjar launabreytingar geti orðið.

Þar skal ráðið horfa til þess hver samkeppnisstaða samkeppnis- og útflutningsgreina er og skilgreina svigrúm til launahækkana út frá því. Stéttarfélögum er síðan í sjálfsvald sett að semja fyrir sína umbjóðendur, en einungis þó innan þessa svigrúms! Það þarf ekki snilling til að sjá að þarna er freklega brotið á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Ef þetta óláns samkomulag hefði verið komið til skjalanna fyrir síðustu áramót er ljóst að þetta þjóðhagsráð hefði komist að sömu niðurstöðu og SA liðar, með hjálp stjórnvalda og greiningadeilda bankanna héldu fram, síðasta vetur, að svigrúm til launahækkana væri að hámarki 3,5%. Þá hefðu stéttarfélögin getað farið af stað í samningsgerð fyrir sitt fólk, en þó einungis mátt semja um launahækkanir upp á 3,5% eða minna!!

Nú liggur fyrir að búið er að vísa þessu samkomulagi til dómstóla og þeirra að taka afstöðu um lögmæti þess. Meðan sú staða er, er rétt að ýta þessu samkomulagi til hliða, þar til niðurstaða er fengin. Eitt liggur þó fyrir, óháð öllu öðru, en það er að forsetar ASÍ gengu til þessara viðræðna og rituðu nafn sitt undir tvíblöðunginn án þess að hafa nokkuð umboð launþega til þess verks. Ekki var leitað eftir slíku umboði fyrr en kom að undirskrift og þeirri bón var hafnað. Engu að síður var skrifað undir skjalið og það síðan kynnt formönnum stéttarfélaga. Þá guggnuðu flestir þeirra og samþykktu gjörninginn, þó án þess að bera þá samþykkt undir sína umbjóðendur. Af þessu einu sést að gjörningurinn er ein allsherjar lögleysa!

Ef samkomulagið verður dæmt ólögmætt er hætt við að margur formaðurinn í stéttarfélögum verði að segja af sér, eftir að hafa samþykkt ólöglegt plagg. Þeir formenn sem hafa nú þegar gengið frá kjarasamningum, með samkomulagið sem hluta þess samnings, eru enn verr staddir.

Ef samkomulagið verður dæmt löglegt, sem einungis er hægt með því að ýta lögum til hliðar, er ljóst að hér er komið á einræði atvinnurekenda. Ekki bara til launahækkana, heldur til hagstjórnar landsins. Þá hefur þeim tekist það ómögulega.

Enginn skal þó láta sér detta til hugar að þetta muni skapa einhverja sátt á vinnumarkaði, þvert á móti. Þegar launafólk áttar sig á stöðunni, sem mun verða þegar núgildandi kjarasamningar renna út, mun launafólk rísa upp gegn óréttlætinu. Ekkert samkomulag, undirritað eða ekki, mun geta komið í veg fyrir það. Launafólkið sjálft mun taka völdin að siðlausri forystu ASÍ og margra stéttarfélaga.

Það þarf ekki annað en skoða undirskriftir þessa tvíblöðungs, til að sjá hver valdahlutföllin verða við ákvörðun launahækkana í framtíðinni, fái þetta samkomulag að standa.

Þar eru tveir fulltrúar fyrir launþega, forseti ASÍ og 1. varaforseti þess. Á hinn vænginn eru tvær undirskriftir SA, ein frá fjármálaráðuneyti, ein fyrir hönd Reykjavíkurborgar og ein undirskrift fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga. Þ.e. 2 fyrir launþega á móti 5 fyrir launagreiðendur. Þetta hlutfall er fjarri því að vera hagstætt launþegum, sérstaklega í ljósi þess að orð og athæfi þeirra fulltrúa launþega sem undir tvíblöðunginn skrifa, sýna að þeir virðast frekar eiga heima hinu megin á blaðinu!!

Ég ráðlegg öllum að leita uppi þennan tvíblöðung, á netinu. Flest stéttarfélög og ASÍ láta þó vera að hafa það til sýnis, einungis eru svokallaðar spurningar og svör til sýnis á þessum síðum. Samið af ASÍ og stéttarfélög hafa síðan krækju að. Þarna er auðvitað reynt að mála vegginn fallega, en klúðurskapurinn liggur í augum uppi. Þessar skýringar ASÍ á samkomulaginu eru fullar af hálflygum og hreinum lygum og eiga í raun ekkert skylt við tvíblöðunginn sjálfan.

Forsetar ASÍ hafi farið mikinn í fjölmiðlum, til hjálpar SA. Þeir krefja stjórnvöld um lækkun tryggingagjalds. Af þeim 7,5% sem innheimt er í þetta gjald fara 5% til félagslegra mála, þ.e. til aldraðra og öryrkja auk vaxtabóta og húsaleigubóta.

Forsetar ASÍ geta kannski skilgreint hvað af þessum málaflokkum skuli skerða, svo hægt verði að bæta örlitlu í buddu atvinnurekenda!!

1. varaforseta ASÍ ratast rétt orð í munn, staðan er grafalvarleg. Það er grafalvarlegt ef tekst að nauðga launþegum þessa lands með því samkomulagi sem kennt er við salek!!


mbl.is „Staðan er gríðarlega alvarleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband