Að rífast um keisarans skegg

Mikil umræða er nú á vefmiðlum um kostnað við matarkaup fjölskyldna. Nýjasta útspilið er frétt á visir.is, þar sem haldið er fram að kostnaður við matarkaup séu helmingi hærri en þær tölur sem birtast með fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Erfitt er að segja til um hveru miklu hver fjölskylda notar til matarkaupa, en ljóst er að enginn kaupir þó mat fyrir peninga sem ekki eru til.

Ekki ætla ég að efast um að útreikningur Hagstofunnar er réttur, að í því dæmi sem tiltekið er á visir.is sé kostnaður við matarinnkaup 135.000 kr á mánuði. En þarna er tekið dæmi af fjölskyldu sem hefur útgjaldaliði upp á 570.000 kr á mánuði. Ekki er tiltekið hver laun fjölskyldunnar eru, en þau hljóta að vera eitthvað hærri. Meðallaun í landinu ná ekki þessari uppæð.

Hvort fjögurra manna fjölskylda eyðir 90.000 kr eða 135.000 kr á mánuði í matarinnkaup, skiptir ekki öllu máli, Meira máli skiptir að fjöldi fjölskyldna er á launum þar sem ekki er einu sinni hægt að kaupa mat fyrir 90.000 kr á mánuði. Til að svo sé þyrfti lágmarkslaun að vera um eða yfir 300.000 kr, en eru um 220.000. Vantar launahækkun upp á um 40% til þess eins að geta lifað. Þetta er mergur málsins.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum, fyrst og fremst í formi aukinna barnabóta. Hjá fjölskyldu sem hefur tekjur upp á um 600.000 kr á mánuði gæti sú staða komið upp að þær mótvægisaðgerðir verði litlar sem engar og má hún þá búast við að matarkostnaður hækki eitthvað, kannski um 5.000 kr. Henni er þó varla vorkun.

Barnafjölskyldur með lág laun munu flestar bíða lítinn eða engann skaða af þessari breytingu virðisaukaskatts.

Það eru hins vegar aldraðir og öryrkjar sem mestar áhyggjur þarf að hafa af. Aldraðir munu sennilega ekki geta nýtt sér barnabætur og spurning hversu miklu mæli öryrkjar geta nýtt þann kost. Þessir hópar eru hins vegar á lægri launum en svo að þeir geti leyft sér þann "lúxus" að borða máltíð sem kostar 250 krónur, nokkuð langt frá því. 

Þá er fjöldi launþega sem þarf að sætta sig við það hlutskipti að lifa af launum undir 300.000 kr á mánuði. Hluti þeirra á ekki kost á barnabótum og jafnvel þó sá hluti sem þau úrræði geta nýtt, bíði ekki skaða af breytingu virðisaukaskattsins, er geta þeirra til matarkaupa vel undir 250 kr á máltíð.

Menn geta endalaust rifist um tölur, rifist um hvort fjögurra manna fjölskylda þurfi 90.000 kr eða 135.000 kr á mánuði til matarkaupa. Hitt er ljóst að enginn kaupir mat nema eiga fyrir honum peninga. Þar liggur vandinn, laun lægst stéttanna eru einfaldlega lægri en svo að af þeim verði lifað. Og það verður ekki bætt með niðurstöðu í einhverju reiknisdæmi um matarkostnað, heldur hærri launum svo til sé peningur fyrir mat.

Vissulega má líta sem svo að þessi umræða geti verið lóð á vogarskálar kjarasamninga. En varla er hægt að gera ráð fyrir því að lágmarkslaun fari upp í 600.000 kr á mánuði, þó kannski sé gaman að láta sig dreyma.

Hitt mætti hugsa sér, að lágmarks mánaðarlaun næðu 300.000 kr. Þá væri hæglega hægt að segja að enginn þyrfti að láta sér duga máltíð fyrir minni upphæð en 250 krónur. Svo geta menn velt fyrir sér hvort hafragrautur í hvert mál sé góður til lengdar.

Það er mikill munur á reiknuðum kostnaði og hinum raunverulega. Menn geta endalaust rifist um þann reiknaða, en jafnvel þó hægt væri að hugsa sér að þar fengist niðurstaða, hjálpar það lítið þeim sem búa við raunveruleikann. Þeir verða að láta budduna ráða för, ekki einhver reiknisdæmi, sett saman af fólki sem er langt utan raunveruleikans!! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband