Gamalkunnug skilaboð

Nú, þegar öll merki eru um að við séum komin á sömu stefnu og fyrir hrun, fasteignaverð ríkur upp, skógur af byggingakrönum sprettur upp á öllu höfuðborgarsvæðinu, dýrir bílar seljast eins og heitar lummur og yfirleitt allt á sama leveli og síðustu misseri fyrir hrun, er ekki laust við að að manni sæki hroll. Engu er líkara en landsmenn þrái það heitast að fá annað hrun og það sem fyrst.

En þá koma greiningardeildir bankanna til hjálpar. Þar er enginn ótti, ekki frekar en fyrir hrun. Þessar deildir, sem ættu að vera mannaðar hæfasta fólkinu á sviði hagstjórnar, virðast vera jafn illa mannaðar og fyrir hrun. Í stað þess að skoða vámerkin og taka mark á þeim, virðist þetta ágæta fólk halda sitt verkefni að finna einhverja leið til að horfa framhjá vánni.

Og nú hefur greiningadeild Aríonbanka komist að þeirri niðurstöðu að verð á fasteignum í höfuðborginni sé alls ekki svo hátt. Þessum sannleik komust starfsmenn greiningardeildarinnar að með því að skipta um mælistiku. Í stað þess að nota þann gjaldmiðil sem gildir við kaup og sölu fasteigna á Íslandi, ákváðu þessir starfsmenn að betra væri að notast við annan gjaldmiðil og í stað þess að miða núverandi verð fasteigna við verð þessara sömu fasteigna fyrir nokkrum misserum, taldi starfsfólk greiningardeildarinnar betra að miða bara við verð á fasteignum í stórborgum út í heimi. Þessi aðferð er svo sem engin nýlunda, svindlarar hafa gjarnan nýtt sér þær um aldir og þetta var kannski eitt aðalsmerki þeirra vinnubragða sem greiningardeildir bankanna stunduðu fyrir hrun.

Tilgangurinn helgar meðalið og til allra meðala er tekið til að slá ryki í augu fólks, jafnvel þó um ólyfjan sé að ræða. Með sama áframhaldi munum við fá annað bankahrun áður en langt um líður, mun fyrr en flesta grunar. Og sem fyrr mun það fyrst og fremst bitna á þeim sem ekki hafa getu eða vilja til að taka þátt í Hrunadansinum. Þeir sem spila djarfast munu sleppa best, eins og raunin varð síðast þegar bankakerfið féll, en hinir sem lifa spart og sýna forsjálni, fá að bera byrgðarnar.

Það er spurning hvort ekki þurfi að setja lögbann á greiningardeildir bankanna, áður en þeim tekst að koma enn fleiri ranghugmyndum að. Gagnið af þessum deildum var akkúrat ekkert fyrir hrun og engin merki þess að þar fari fólk sem getur eða hefur lært af reynslunni. Hins vegar er starfsemi þessara deilda nokkuð kostnaðasöm fyrir bankakerfið, enda hver banki með sína greiningardeild. Sá kostnaður er þó ekki greiddur af eigendum bankanna, heldur viðskiptavinum þeirra. Lánin verða dýrari og er þar varla á bætandi! 

 


mbl.is Fasteignir á viðráðanlegu verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband