Rammaáætlun

Ekki líður sá fréttatími á fréttastofu RUV að ekki sé fjallað um rammaáætlun og meint svik núverandi ríkisstjórnar. Svona hefur þetta gengið frá því fyrir helgi og ekkert lát sjáanlegt. Sumar aðrar fréttastofur voru með í þessum leik fyrst til að byrja með, en eru flestar hættar að fjalla um þetta mál.

En hver eru svik núverandi ríkisstjórnar? Vissulega var rammaáætlun samþykkt á síðasta þingi, en að halda fram að sátt hafi verið á Alþingi um hana, er nokkuð langt seilst. Staðreyndin er að sumir þáverandi stjórnarliðar settu fyrirvara fyrir sínu samþykki auk þess sem flestir þáverandi stjórnarandstæðingar voru harðir á móti þessari svokölluðu rammaáætlun. Fram kom í umræðum á Alþingi að sumir þáverandi stjórnarandstöuðuþingmanna ætluðu sér að beita sér fyrir upptöku áætlunarinnar jafn skjótt og nýtt Alþingi kæmi saman. Það var því fráleitt einhver sátt sem samin var þarna, þó þáverandi valdhöfum hafi tekist að berja málið gegnum þingið. Að halda slíku fram er sögufölsun.

Það er annars merkilegt að fylgjast með núverandi stjórnarandstöðu. Hvert tilefni er gripið til að andmæla og svo þegar réttmætt tilefni gefst, tekur enginn lengur mark á málflutningi þessa fólks. Það þarf alltaf að hrópa hærra og hærra, en samt tekur enginn eftir  hrópum þeirra. Þetta er klassískt "úlfur úlfur!" dæmi.

Í sumar fóru þingmenn stjórnarandstöðu mikinn vegna breytinga á veiðileyfagjaldi. Þar var ríkisstjórnin einfaldlega að efna kosningaloforð sín. En þá, eins og nú, taldi stjórnarandstaðan að um sáttabrot væri að ræða. Enn draga sumir stjórnarandstöðuþingmenn þetta fram, þegar þeir verða rökþrota. Þeir telja að þarna hafi ríkisstjórnin látið frá sér tekjur upp á einhverja milljaða, stundum nefndir 6 milljarðar í því sambandi. Þó liggur ljóst fyrir að þau lög sem fyrri ríkisstjórn samþykkti voru ekki framkvæmanleg og því ekki tap sem varð við þessa breytingu á lögum um veiðileyfagjaldið, heldur hreinar tekjur.

Þessir sex milljarðar sem stjórnarandstaðan telur að stjórnvöld hafi fórnað með breytingu veiðigjalda blikna þó í samanburði við það sem fyrri ríkisstjórn fórnaði við samþykkt rammaáætlunnar. Í skýrslu Gamma, sem þáverandi ríkisstjórn fékk til að skoða þetta mál, kom fram að einungis sú breyting að færa virkjanakosti í neðri hluta Þjórsár og Skrokkölduvirkjun yfir í biðflokk, myndi kosta 270 milljarða, að það myndi skerða hagvöxt um 4 - 6% og a.m.k. störfum fyrir 5000 manns væri fórnað.

Nú má vel vera að þessi virkjunnarsvæði séu svona mikils virði að réttlætir fórn upp á 270 milljarða, hagvexti upp á 4 - 6% og störfum fyrir 5000 manns. En það var ekki neðri hluti Þjórsár sem fréttastofa RUV berst fyrir nú, heldur efsti hluti hennar. Tilefni fréttaflutnings RUV gæti þó allt eins átt við neðri hluta Þjórsár.

Það er nefnilega svo að tilefni þessara frétta er um allt annað en sjálfa Þjórsá, heldur friðland sem mun ná nánast umhverfis Hofsjökul. Innan þessa svæðis eru Þjórsárver. Umhverfisráðherra hefur ákveðið að minnka þetta svæði örlítið, þó án þess að skerða þann hluta þessa lands sem talinn er til náttúrugæða. Þetta er gert til að ekki sé komið í veg fyrir hugsanlega virkjun efsta hluta Þjórsár, einhverntímann í framtíðinni. Og þarna kemur aukaatriðið sem RUV telur aðalatriði, virkjun efsta hluta Þjórsár.

Það ættu allir landsmenn að fagna þeirri ákvörðun að friða Þjórárver og nánast allt svæðið umhverfis Hofsjökul. Um virkjanir framtíðar má svo aftur deila. Þá á líka að deila um þær á réttum forsendum, þ.e. að einhver nátturuvætti sem ekki má hrófla við séu í virkjanastæði. Að beyta einu til verndar öðru er ekki frambærilegt. Það bendir til þess að ekki séu næg rök fyrir friðun þess seinna.

Nú hef ég komið að sumum þeirra fossa sem mest er rætt um í efsta hluta  Þjórsár og vissulega eru þeir fallegir og gæti ég vel hugsað mér að leggja þeirri umræðu lið að þeim verði ekki fórnað. En þá verður sú umræða líka að vera á þeim nótum að þessum fossum skuli ekki fórnað, ekki þeim grundvelli að friðsvæði Þjórsárvera skuli vera þeirra verndari. Til að njóta þessara fossa verður þó að bæta aðgengi að þeim. Það er til lítils að vera með fallegt málverk upp á vegg ef alltaf er lak yfir því.

En Rammaáætlun er brostin. Hún brast þegar hún var samþykkt án sáttar á síðasta Alþingi. Sú staðreynd að núverandi stjórnvöld ákveða að taka upp rammaáætlun eru ekki svik. Þarna eru stjórnvöld að framfylgja þeirri stefnu sem þau boðuðu fyrir kosningar og allir kjósendur áttu að vita, þegar þeir gengu að kjörborði.

Það þarf vart að mynna fólk á hvernig síðustu þingkosningar fóru?

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband