Sorgleg afstaða stjórnarandstöðu

Það er sorglegt að fylgjast með málflutningi stjórnarandstöðunnar vegna aðgerðaráætlunnar ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna. Ætt var af stað jafn skjótt og tillögur voru kynntar og þeim fundið allt til foráttu. Hver rökin af öðrum sem stjórnarandstaðan spila fram er hrakin, en samt er haldið áfram. Þar er ekki beytt rökum, ekki haldið sig við efnisatriði, heldur grafið sig niður í skotgrafir og kastað skít af gríð og erg.

Fyrir það fyrsta virðist stjórnarandstaðan ekki skilja mun á almennum aðgerðum og sértækum og ruglar þessu miskunnarlaust saman. Sértækar aðgerðir eru aðgerðir eins og 110% reglan, þar sem þeim er hjálpað sem mest skulduðu, algerlega óháð efnahag, fjárhæðum eða forsendum. Þessi aðgerð skilaði 47 milljörðum til tiltölulega fárra lánþega, í flestum tilfellum til þeirra sem annaðhvort höfðu farið offari í fjárfestingum fyrir hrun, eða tóku þá ákvörðun að hætta að greiða af lánum sínum í kjölfar hrunsins. Þessir 47 milljarðar voru lagðir á herðar landsmanna án sérstakrar fjármögnunnar. Almennar aðgerðir eru aftur t.d. sérstakur vaxtafsláttur, sem fyrri ríkisstjórn lagði fram og allir sem skulduðu fasteigalán gátu nýtt sér. Þær aðgerðir voru ins vegar veikar og gáfu lítið af sér til hjálpar heimilum landsmanna, enda þar ekki farin sú leið að nýta þann afslátt til lækkunnar höfuðstóls, nema fólk sjálft óskaði. Þar sem það var flókin aðgerð nýttu mjög fáir sér þá leið, heldur tóku þann afslátt beint til neyslu.

Aðgerðir núverandi stjórnvalda eru almennar aðgerðir, ekki sértækar. Þær eru fyrst og fremst hugsaðar til almennrar leiðréttingar þess forsendubrests sem lántakar urðu fyrir og munu koma beint 70.000 heimilum til góða og óbeint örum rúmlega 30.000, samtals rúmlega 100.000 heimilum. Snilldin er hins vegar sú að ekkert fjármagn fer á flakk við þessa aðgerð, heldur getur fólk einungis nýtt hana til lækkunnar höfuðstóls. Þessi aðgerð er talin geta lækkað höfuðstól lána um allt að 150 milljarða króna og þurfa lántakendur sjálfir að greiða allt að 40 milljarða af þeirri upphæð með séreignasparnaði. Um 80 milljarðar koma beint til lækkunnar höfuðstóls og 30 milljarðar í formi skattafsláttar af sérignasparnaðnum. Því er það um 110 milljarðar sem stjórnvöld þurfa að fjármagna á næstu fjórum árum.

Og fjármögnunin er að mestu sótt til þrotabúa föllnu bankanna en einnig að hluta til nýju bankanna. Það er hægt að deila um hvort hlutur nýju bankanna í þessari fjármögnun hefði átt að vera meiri, þar sem sú skekkja sem lántakaendur hafa þurft að taka á sig vegna forsendubrestsins hefur skilað sér til þeirra. Menn efast um að skattlagning á þrotabúin sé lögleg og auðvitað eðlilegt að þau sjálf haldi fram að svo sé ekki. En þá ber að geta að Alþingi samþykkti undanþágu frá þeirri skattlagningu á þrotabúin í upphafi kreppunnar, þar sem ekki var ljóst hvernig þeim myndi reiða af. Nú hefur komið í ljós að afkoma þeirra er mun betri en áður var haldið, reyndar svo að útilokað er fyrir hagkefi okkar að heimila útgreiðslur úr þeim og ljúka skilum. Það er einfaldlega ekki til nægur gjaldeyrir í landinu til þeirra útgreiðslna. Megin málið er þó að sá sem fær undanþágu frá einhverju heldur henni einungis þar til undanþágan er afnumin og því vandséð hvernig hægt er að halda því fram að skattlagningin sé ólögleg. Það sem kemur þó mest á óvart er að stjórnarandstaðan er þarna sammála þrotabúunum og tekur undir þeirra málflutning. Eða kemur það kannski ekki svo á óvart?

Ábyrgð þessara aðgerða mun liggja á lántakendum, þar til uppgjör hefur farið fram. Því er áhætta ríikissjóðs vegna þeirra lítil sem engin. Stæðsta hætta lántakaenda er stjórnarskipti, að til valda kæmist einhver núverandi stjórnarandstöðu flokka. Samkvæmt þeirra málflutningi er ljóst að þá yrði ekki staðið við greiðslur af því sem kallast leiðréttingahluti lána og mun hann þá færast til baka á frumlánið. Aðgerðin yrði þannig afturkölluð með einu pennastriki.

Það er sorglegt fyrir þjóðina að sjá þessa afstöðu stjórnarandstöðunnar. Yfir 100.000 heimili landsins þurfa að horfa upp á þingmenn tala gegn þeirri áætlun að þeim verði hjálpað. Stjórnarandstaðan hefði betur látið fúkyrðin og stóru yfirlýsingarnar bíða og tekið jákvætt í tillögurnar. Beðið með gagnrýnina þar til búið væri að skoða málið vandlega og koma þá með efnislega gagnrýni á aðgerðirnar sem slíkar. Nú hefur stjórnarandsstaðan fest sig í vef sem henni verður illt að komast úr. Vef sem hún sjálf hefur ofið. Hverjar hvatir hennar eru til þessa er útlokað að segja til um. Þó vil ég ekki trúa að þar fari mannvonska.

Það er ljóst að þessar aðgerðir stjórnvalda munu ekki leysa vanda allra, enda um almennar aðgerðir að ræða, sem aldrei voru hugsaðar til annars en leiðréttingar þess forsendubrests sem lántaka urðu fyrir. Þeir sem höfðu reyst sér burðarás um öxl fyrir hrun og þeir sem ákváðu að hætta að greiða af sínum lánum munun áfram verða í vanda. Hugsanlega er vilji til að hjálpa því fólki enn frekar og þá mun Alþingi ákveða slíkt, en þær aðgerðir koma þessari ekkert við. Leigutakar munu einnig verða í vanda áfram, þó ljóst sé að lækkun lána á fasteignir og frekari geta fólks til að halda sínum eignum og búa í eigin húsnæði, hljóti að leiða til lækkunnar fasteignaleigu. Hver sú lækkun verður skal ósagt látið enda erfitt að sjá hana fyrir. En allar forsendur er fyrir slíkri lækkun samhliða þessri lækkun. Og vandi þeirra lægstlaunuðu mun vissulega verða áfram, en þann vanda er ekki hægt að leysa nema í gegnum kjarasamninga. Þar skortir hins vegar verulga vilja til verks.

Einn er þó sá hópur sem situr hjá en ætti að vera í þessum aðgerðum, það eru þeir sem þegar hafa misst sitt heimili. Ákveðið var að halda þeim hópi utan garðs, þó ljóst sé að fjölmargir í þeim hópi hefðu getað haldið sínum heimilum ef ekki hefði orðið bankahrun. Það hlýtur að vera vilji stjórnvalda til að taka á þessum hóp, öðru verður vart trúað. Það er tiltölulega einfalt að reikna út hverjir voru svo skuldsettir fyrir hrun að þeir hefðu hvort eð er farið á hausinn og hverjir misstu sitt húsnæði beinlýnis vegna bankahrunsins. Þá hefði þurft að setja strax lög um að banna nauðungaruppboð þar til aðgerðaráætlunin tekur gildi. Ekki eitt einasta orða frá stjórnarandstöðunni hefur þó fallið um þennan hóp, þó þarna hefði hún haft efni og rök til gagnrýni á aðgerðaráætlunina.

Það þarf vit og kjark til að stjórna heilu þjóðfélagi. Vit til að greina hvenær þjóðfélagsþegnar eru komnir í vanda og af hvaða ástæðum og kjark til að leysa að mál. Þetta vit og þennan kjark hafa núverandi valdhafa sýnt, öfugt við fyrri ríksstjórn. Því miður eru örfáir stjórnarþingmenn sem setjast á bekk með stjórnarandstöðunni í vitleysunni og kjarkleysinu.

Nú reynir á ríkisstjórnina. Fyrst þarf hún að smala sínum eigin mönnum og koma þeim í skilning um mikilvægi þessara aðgerða og telja kjark í kjarkleysingjanna og síðan þarf hún að reyna að ná til stjórnarandstöðunnar. Takist það ekki verða stjórnvöld einfaldlega að hundsa hana. Þjóðin er á bandi stjórnvalda í þessu máli.

Svona smá samburður: Fyrri ríkisstjórn stóð að aðgerðum sem komu til um 15.000 heimila og kostuðu beint um 47 milljarða. Núverandi stjórn boðar aðgerðir sem koma til um 100.000 heimila og munu kosta beint um 80 milljarða. Fyrri ríkisstjórn fjármagnaði sínar aðgerðir með skattlagningu á almenning, núverandi ríkisstjórn fjármagnar boðaðar aðgerðir með skattlagningu á fjármálakerfið.

 

 


mbl.is Leiðréttingin geti misst marks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband