Heimsmetið

Sigmundur Davíð talar um heimsmet í leiðréttingum lána til fasteignakaupa. En það heimsmet, ef að verður, er tilkomið vegna annars heimsmet sem sett var hér á landi. Það var heimsmet í hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána.

Hvergi á byggðu bóli hefur jafn mikil hækkun lána fengið að viðgangast þegjandi og hljóðalaust, eins og verðtryggð lán heimila þessa lands.

Hvergi á byggðu bóli er hagkerfi með þeim hætti að fjármagnseigandinn er tryggður í bak og fyrir með bæði belti og axlabönd, meðan lánþeginn verður að halda uppi sínum buxum með höndunum og ber alla áhættuna.

Hvergi á byggðu bóli þekkist verðtrygging með þeim hætti sem hér ríkir, þar sem lán eru verðtryggð með vísitölu sem tekur nánast ekkert tillit til þess veðs sem að baki liggur, heldur lítur allt öðrum lögmálum.

Þetta veldur því að hér var sett heimsmet haustið 2008 og fram til ársins 2010, þegar þessi "dásamlega" verðtrygging fékk að vinna sína vinnu án  afskipta stjórnvalda.

Því er ljóst að heimsmet Sigmundar byggir fyrst og fremst á heimsmeti Jóhönnu. Hefði hún ekki staðið svo sterkann vörð fjármagnseigenda og leift verðtryggingunni að vinna sín sóðaverk í friði, væri útilokað fyrir Sigmund að stefna að heimsmeti til leiðréttingar lána.

Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að haustið 2008, fyrir hrun, skipaði Jóhanna, þá félagsmálaráðherra, nefnd undir forystu Gylfa Arnbjörnssonar, um hvort rétt væri að taka verðtrygginguna úr sambandi. Það tók þessa nefnd einungis örfáa daga að komast að niðurstöðu um að slíkt væri ekki hægt. Þessa niðurstöðu tók Jóhanna þegjandi og hljóðalaust og kastaði þar frá sér því kosningaloforði  sem hún hafði barist fyrir nær alla sína þingsetu. Með þessu tókst henni að setja heimsmet í þágu fjármagnseigenda.

Því er gjarnan haldið fram að verðtrygging sé af hinu góða, að vegna hennar hafi náðst hér stöðugleiki. Það er vart hægt að hugsa sér meiri sögufölsun. Staðreyndin er að þegar verðtrygging var sett á hafði ríkt hér verðbólga í meir en áratug, rokkandi milli 20% og 40%.  Þegar verðtryggingin var sett á rauk verðbólgan enn hærra upp og var komin yfir 100% þrem árum síðar. Þá var hluti hennar aftengdur, það er sá hluti sem verðtryggði laun, en verðtrygging lána látin halda sér. Við þetta náðist verðbólgan niður í svipaða tölu og áður, þ.e. 20% til 40%. Þannig var það næsta áratug á eftir, eða þar til þjóðarsáttin var gerð, í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Þá loks tóks að ná böndum á verðbólgunni og um miðjan þann árartug var hún komin undir 5%. Þannig hélst hún að mestu allt fram undir hrun.

Það var því ekki verðtryggingin sem náði tökum á verðbólgunni, þvert á móti magnaði hún hana. Hins vegar varð þjóðarsáttin til þess að hér náðist stöðugleiki og með stöðugleika náðist að hefta verðbólguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband