Sérhagsmunahópur eða óreiðufólk

Það eru ýmis nöfn sem fjölskyldur þessa lands fá í pólitískri umræðu. Allt frá því að vera taldar til sérhagsmunahópa til óreiðufólks. Þetta er hugguleg umræða, eða hitt þó heldur!

Ástæða þessara nafngifta og annarra miður fallegra, á fjölskyldur landsins, er kosningaloforð annars stjórnarflokksins og stjórnarsáttmálinn sem báðir stjórnarflokkar samþykktu. Þar er talað um leiðréttingu fyrir lántakendur, leiðréttingu þess forsendubrests sem varð hér um og eftir hrun bankakerfisins. 

Nú vil ég helst bara vera kallaður venjulegur fjölskyldufaðir, kæri mig ekki um að vera talinn til sérhagsmunahóps og mótmæli harðlega að vera sagður óreiðumaður. Ég hef alla tíð getað greitt að þeim fjárskuldbuindingum sem ég hef stofnað til, enda var ég svo heppinn að eiga um helming í minni íbúð þegar skellurinn kom og skuldaði ekki krónu í mínum bíl. Átti meira að segja smá sjóð í banka, sjóð sem nýta átti til ferðalaga.

Staðan í dag er orðin einföld fyrir mig. Þrátt fyrir þetta góða stöðu við upphaf bankahrunsins, er ég nú í þeim sporum að innan fárra mánaða mun það ekki verða í mínu valdi lengur hvort ég verði áfram heiðvirður í fjármálum. Þá kemur upp sú staða að ég mun kallast óreiðumaður, en þó ekki vegna eigin gerða, heldur annara! Nú á ég ekki eina krónu í minni íbúð, verðtryggingin hefur fært bankanum allan minn hluta. Þó skulda ég núna mínum banka mun hærri upphæð en ég hefði nokkurn tímann dottið til hugar að taka að láni, meira en raunveruleg greiðslugeta er. Bíllinn minn er kominn á þann aldur að óvíst er hversu lengi ég get haldið honum gangandi og þegar hann stoppar missi ég mína vinnu, þar sem ég get þá ekki lengur sótt hana.

Þvi miður er ég ekki einsdæmi, fjöldi fólks er í svipuðum sporum. Við teljumst þó hvergi þegar vandi fólks er skoðaður, þar sem við höfum getað staðið við afborganir okkar lána, ennþá. En þess er skammt að bíða að fólk í þessum sporum mun fara að teljast með þeim sem Hagstofan segir í vanda.

Það má vera að einhverjir telji sig þess umkomna að telja mig óreiðumann, eða að ég tilheyri einhverjum sérhagsmunahóp. Mín sök er ein og aðeins ein; ég sá ekki fyrir, þegar ég keypti mína íbúð árið 2001, að sjö árum síðar myndi verða hér bankahrun með tilheyrandi skelfingu fyrir þá sem höfðu skuldsett sig, jafnvel þó sú skuld væri ekki meiri en svo að fræðilega séð ætti hún aldrei að geta vaxið mér um höfuð. Tæknileg afleiðing hrunsins sannaði að fræðin eru ekki algild.

Nú er það svo að einn stjórnmálaflokkur talaði af einurð fyrir því, fyrir kosningar, að fólk í mínum sporum ætti rétt á einhverskonar leiðréttingu. Því kom ekki á óvart að einmitt sá stjórnmálaflokkur fengi yfirburða kosningu. Þarna var kominn stjórnmálaflokkur sem innihélt fólk sem trúði því að hægt væri að leiðrétta þennan vanda og kannski það sem meiru máli skipti, flokkur sem innihélt fólk sem virkilega sá vanda þessarar þjóðar.

Þjóð þar sem meirihluti fólks býr við þrældóm getur aldrei orðið þjóð. Slíkt samfélag mun aldrei geta orðið eitt né neitt. Grunnstoð hverrar þjóðar er fólkið sem hana byggir. Því er svo mikilvægt að gera því fólki kleyft að lifa sómasamlegu lifi og þegar forsendubrestur veldur því að stór hluti þjóðarinnar fer á vonarvöl, verður einfaldlega að bæta þar úr. Svo einfallt er það. Við þurfum ekki sjúkrahús, háskóla, sönghallir eða flugvelli, ef engin er þjóðin til að nýta þessa hluti!!

Sérhagsmunaöfl eru eins og nafnið ber með sér, einhver öfl eða hópur sem nýtur sérhagsmuna.

Óreiðufólk er það fólk sem fer illa með peninga og verst er það óreiðufólk sem höndlar af óvarfærni með annara manna fé. 

Til þessara tveggja hópa má vissulega telja þá sem að hruninu stóðu og þá sem við tóku eftir hrun, hvort heldur var í stjórnmálum eða á fjármálasviði. Því var sem ferskir vindar blésu, þegar einn stjórnmálaflokkur tók sig til og endurnýjaði sig nánast að fullu og tók inn í sína forystusveit  fólk sem þorði að tala gegn sérhagsmunaöflunum og óreiðufjármálaöflum þessa lands.

En sigurinn er þó ekki enn unnin og óvíst hvort hann vinnst. Innan samstarfsflokksins í ríkisstjórn eru öfl sérhagsmuna og fjármála sterk og margur þar sem ekki vill heyrast mynnst á neina leiðréttingu fyrir almenning. Slíkar leiðréttingar eiga einungis að koma til aðalsins. Stjórnarandstaðan er viljug til að taka undir þessi sjónarmið, jafnvel þó það brjóti fullkomlega í bága við þeirra stefnu. Þar er hugsunin ein, að vera á móti, hver svo sem græðir á því!

Vel getur svo farið að þetta göfuga og framsækna markmið ríkisstjórnarinnar, markmið sem báðir stjórnarflokkar samþykktu í sínum stjórnarsáttmála, náist ekki fram, með þeim skelfilegu afleiðingum sem það mun hafa fyrir þjóð okkar. Þá ætti fólk að minnast úrtölufólksins og þess  þáttar í þeirri skelfilegu veröld sem mun umlikja okkur. Það ætti að minnast mótmæla stjórnarandstöðu, sem mótmælir til þess eins að vera á mót. Það ætti að minnast sérhagsmuna og fjármálafólksins innan annars stjórnarflokksins, sem ekkert vill fyrir almenning gera en veg aðalsins hinn mestann. Og síðast en ekki síst ætti fólk að minnast fréttamiðla þessa lands, sem heldur uppi látlausum áróðri gegn öllum aðgerðum sem geta komið almenning til góða. Má þar nefna sem dæmi stórundarlegann pistil Sigrúnar Davíðsdóttur í Spegli RUV í gærkvöldi.

Fari svo að útölufólkið, sérhagsmunaöflun og óreiðufjármálastéttin ná að koma í veg fyrir aðgerðir til hjálpar almennig þessarar þjóðar, ætti fólk að minnast þeirra sem raunverulega standa gegn því. Þá verður sökin ekki þess stjórnmálaflokks sem að þessum aðgerðum vill standa, heldur hinna sem á móti þeim er. Sérstok sök mun þá liggja hjá þeim sem telja sig til samstarfsflokksins í ríkisstjórn en geta ekki sætt sig við stjórnarsáttmálann.

Þessi barátta er einföld, hún snýst um það hvort sérhagsmuna og fjármálaelítan muni stjórna þessu landi áfram eða hvort þjóðkjörnir fulltrúar fólksins sjái um það verk. Hvort hér verði lýðræðislegt stjórnarfar, eða hvort þjóðin ætlar að vera þrælar sérhagsmuna og fjármálaelítunnar. 

Spurningin sem kjörnir fulltrúar á Alþingi þufa að spyrja sig að er því hvort þeir ætli að standa vörð um lýðræðið, eða hvort þeir ætla að lúta niður í skítinn, eins og hingað til.

Það mun koma til uppgjörs og þá mun þjóðin minnast úrtölufólksins og leppa sérhagsmuna og óreiðufjármálaaflanna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistil, af því að þú nefnir að greiða af þeim fjárskuldbindingum sem men stofni til langar mig til að varpa fram eftirfarandi:

Segjum, umræðunnar vegan að hjúkrunarfræðingur á Íslandi hafi haft sömu laun og hjúkrunarfræðingur í Norgi, fyrir hrun.

Segjum svo líka að þá hafi Íslendingur nokkur tekið að láni upphæð sem samsvarar 20.000 vinnustundum.

Nú verður hrun og gengi krónunnar fellur miðað við t.d. þá norsku. Segjum svo umræðunnar vegna að við þetta verði laun íslenska hjúkrunarfræðingsins helmingur af launum þess norska.

 Hvort ber þá lántakanum að greiða af láni sem jafngildir 20.000 vinnustundum íslensks hjúkrunarfræðings, eða 40.000 vinnustundum íslensks hjúkrunarfræðings. (þ.e. 20.000 vinnustundum norsks hjúkrunarfræðings)?

Við skulum gefa okkur að lánið sé tekið í íslenskum krónum hjá íslenskri fjármálastofnun. 

Með því að taka vísitölur ekki úr sambandi við hrun þá má segja að í þessu gefna dæmi hefði lánið "hoppað" upp í 40.000 vinnustundir á nokkrum mánuðum eða árum. 

Þessum sömu vísitölum var einungis ætlað að trygga að lánið héldi sér í 20.000 vinnustundum (þó nafnverð breyttist vegan verðbólgu)  en ekki að það bætti við sig umfram það.

Svo er verið að reyna að telja fólki trú um að það sé óreiðufólk sem ekki stendur við skuldbindingar sínar þegar það vill ekki taka á sig þessa hækkun.

Eins eru menn að gaspra um mestu skuldaniðurfellingu á byggðu bóli ef þetta verði leiðrétt. En hvar á byggðu bóli hafa vísitölur fengið að leika folk svona grátt. Þarna er ekki verið tala um að fella niður skuldir sem fólk hefur stofnað til heldur aðeins þann hlutann sem hefur að ósekju verið klínt á það.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.9.2013 kl. 16:47

2 identicon

Smá viðbót.

Í raun hefur umræðan villst inn á þá braut hvort lán eigi að vera verðtryggð eða ekki.    Sú umræða er ekki nærri eins nauðsynleg eins og hin, hvernig verðtryggingin á að virka.

Krónan hefur tvíþætt gildi. A. sem ávísun á verðmæti hagkerfisins og svo B. til þess að meta verðgildi hagkerfisins (t.d. vinnustunda íslendinga) gagnvart öðrum hagkerfum.

Þegar stöðugt er verið að fjölga krónunum en verðmætin standa í stað þá vitanlega lækkar verðgildi hverrar krónu og í því tilfelli er skiljanlegt að menn reyni að beita einhverskonar verðtryggingu til að sá sem taki x margar krónu að láni greiði sömu verðmæti (sama hlutfall af heildarverðmætum hagkerfisins) til baka. Þarna væri mögulega hægt að réttlæta verðtryggingu þó vitanlega væri miklu betra að stöðva peningaprentunina.

En þegar hagkerfið allt fellur að verðgildi miðað við önnur hagkerfi (eins og varð við hrunið) þá eru verðtryggingar út í hött. Þá virka þeir eins og að sá sem tekur lán sé að tryggja lánveitanda fyrir samdrætti hagkerfisins.

Ef ég hefði val og ætlaði að taka lán þá vildi ég heldur verðtryggt lán en óverðtryggt að  því gefnu að verðtryggingin væri einungis vörn gegn innri verðbólgu (3 hestar teknir að láni og 3 greiddir til baka, eða hvernig þetta var nú) heldur en óverðtryggt með vöxtum sem gætu hlaupið upp úr öllu valdi.

Það er nú reyndar önnur umræða, þetta með vextina og klárt mál að þar á að setja þak. Það er á engan hátt eðlilegt að óverðtryggt lán geti rokið upp í vöxtum.   

Þeir sem valda verðbólgunni þurfa að vera þeir hinir sömu sem tapa á henni en ekki öfugt!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.9.2013 kl. 17:10

3 identicon

Enn bætt við.

Eitt nýlegt dæmi um þegar menn rugla saman peningum og verðmætum, var í viðtali Sigurjóns Egilssonar við Ingva Hrafn í þættinum Sprengisandi.

Ingvi Hrafn var sárhneykslaður á að fólk skyldi vilja launahækkanir umfram þau 1.4 % sem hagkerfið hefði stækkað á síðasta ári (hagvöxturinn), en á sama tíma höfðu peningarnir rírnað um 4% vegna verðbólgu.

Eðlileg krafa væri því um 4% hækkun launa í krónum, til að halda verðgildi og svo 1.4% í viðbót vegan stækkunar kökunnar eða 5.4 % launahækkun, mælt í  krónum.  

Þannig að samkvæmt forsendum Inva Hrafns (að hagvöxtur væri þak á launahækkanir) þá var hann að tala fyrir 5.4 % launahækkunum, en gerði sér bara ekki grein fyrir því sjálfur ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.9.2013 kl. 17:24

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka þínar athugasemdir Bjarni.

Verðtrygging per se er í sjálfu sér ekki vandi, þ.e. ef að baki hennar liggji þau verðmæti sem með er höndlað hverju sinni, verðmæti þess sem að veði er sett og launaþróun lánþegans.

Íslensk verðtrygging notast þó ekki við þær stærðir, heldur einhverja samansetta vísitölu af þáttum sem koma þessu máli ekkert við. Það leiðir til þess að þegar einhverjir vitleysingar út í heimi fara í stríð þá hækkar heimsmarkaðsverð á olíu, sem aftur leiðir til þess að íslensk lán hækka. 

Þau rök að verðtrygging sjái til þess að sá sem fær eitthvað að láni skili til baka því sama, t.d. ef fenginn er að láni hestur, þá sé jafn góðum hesti skilað til baka. Íslensk verðtrygging virkar hins vegar þannig að sá sem fær að láni hest, verður að skila fíl til baka.

Það versta við íslensku verðtrygginguna er að hún er beinlínis sem eldsneyti á verðbólguna. Þegar einhver utanaðkomandi aðstæður valda því að vísitalan hækkar, þá hækka lánin, sem svo aftur veldur því að fyrirtæki sem hefur tekið verðtryggt lán verður að hækka verð á sinni vöru eða þjónustu, sem svo aftur hækkar vísitöluna, sem svo aftur hækkar lánin........

Þetta er vítahringur.

Það mun sennilega aldrei verða samþykkt að verðtrygging lána miðist við það veð sem að baki liggur, eða launaþróun lántakandans. Því erum við bundin þessari skelfingu meðan verðtrygging lána er við lýði.

Það má vissulega til sanns vegar færa að vextir geti hækkað úr öllu valdi á óverðtryggð lán. Þó hefur sú aðferð dugað flestum siðuðum þjóðum í viðskiptum.

Þá mætti vel hugsa sér að sett væri þak á vexti lána til fasteignakaupa. Það myndi setja pressu á bankana að stunda sín viðskipti af einhverri skynsemi.

Gunnar Heiðarsson, 17.9.2013 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband