Þjóðarsátt Styrmis

Það má búast við að nokkur harka muni verða í kjarasamningum nú í haust. Skapast það einkum vegna þess að sumum hópum í þjóðfélaginu hefur tekist að ná verulegum kjarabótum, meðan heildin af launþegum hefur þurft að sætta sig við að þyggja laun eftir þeim arfaslöku kjarasamningum sem gerðir voru veturinn 2011. Ekki verður þó séð að þær hækkanir sem sumir hópar hafi fengið eigi sér neina sérstaka skýringar, að launagreiðendur þeirra séu betur í stakk búnir til slíkra hækkanna en aðrir. Þvert á móti.

Ummæli þriggja formanna stéttarfélaga um að laun þurfi að hækka meir en verðbólga segir þó þá sögu eina að slíkt er nauðsyn ef kaupmáttur eigi að aukast. Þau ummæli útaf fyrir sig ættu ekki að þurfa að hræða neinn. Samt virðast þau vekja upp ótta í hug Styrmis Gunnarssonar, samkvæmt grein sem hann ritar á sitt vefsvæði, Evrópuvaktina.

Styrmir ritar þarna ágæta grein, þar sem hann lýsir ótta sínum á að ekki sé til innistæða fyrir slíkum hækkunum. Hann leggur í raun til að kaupmáttur verði skertur í næstu samningum.

Það eru þó ekki þær hugrenningar Styrmis sem ég set spurningu við, heldur niðurlag greinar hans. Þar segir hann að fordæmi sé fyrir slíku í sögunni, þegar Viðreisnarstjórnin var við völd 1967 - 1969 og aftur með þjóðarsáttinni 1990.

Ekki man ég gjörla hvernig mál þróuðust á tímum Viðreisnarstjórnarinnar og því ætla ég ekki að tjá mig um það. Hitt man ég mjög vel, þegar Einar Oddur gekk fram fyrir skjöldu og kom hér á þjóðarsátt, 1990. Þvílíkt þarfaverk hefur enginn annar stjórnmálamaður unnið og í kjölfar þess náðist loks að kveða niður verðbólguna og mynda stöðugleika sem ríkti á annan áratug, eða allt þar til "fjármálasnillingar" náðu tökum á hagkerfi landsins.

Þessi þjóðarsátt Einars Odds hljóðaði þó ekki upp á kjararrýrnun, eins og Styrmir ýjar að. Sumir urðu þó að gefa eftir kjarbætur sem þegar hafði verið frá gegnar, svo sáttin næðist fram. Var þar um að ræða kjarabætur sem náðu lengra en þjóðarsáttin hljóðaði upp á. Það sem þó mestu skipti var að Einar Oddur var maður til að ná sátt allrar þjóðarinnar, ekki bara launþega.

Og þarna liggur hundurinn grafinn. Þjóðarsátt getur aldrei orðið nema öll þjóðin standi að baki. Hluti launþega getur aldrei staðið undir slíkri sátt, jafnvel þó stór sé. Þegar horft er upp á suma hópa fá tugi prósenta í kjarbætur, afturvirkt um nærri ár, meðan verslun og þjónusta skirrist ekki við að hækka hjá sér, í sumum tilfellum um tugi prósenta og meðan skattheimta er með þeim ósköpum sem síðasta ríkisstjórn gaf af sér, er tómt mál að tala um þjóðarsátt. Þá er ónefnd sú ósvinna sem bankar og lánafyrirtæki stunda, en þau komast upp með að hundsa dóma Hæstaréttar svo mánuðum og árum skiptir!

Það geta allir verið sammála um að mörg fyrirtæki hafa ekki innistöðu fyrir miklum launahækkunum, meðan önnur eiga auðvelt með að bæta kjör sinna starfsmanna. Sennilega er þó stæðsti atvinnurekandinn, ríkið, verst í stakk búið með að hækka laun sinna starfsmanna, jafnvel þó einmitt á þeim vettvangi hafi kannski orðið mestu hækkanir síðustu misseri. Svona hefur þetta alla tíð verið, þó skilin séu kannski skýrari nú eftir hrun.

Fyrirtæki í verslun og þjónustu geta lítið bætt kjör sinna starfsmanna, þar sem þessar greinar afla vart fyrir eigin yfirbyggingu. Þó hafa flest þeirra hækkað sína þjónustu langt umfram verðbólgu og í raun dregið hana áfram. Þar ekki starfsfólki þessara greina um að kenna, heldur yfirgengilegri yfirbyggingu, sem enn eykst!

Bankar eru gjafmildir við sína starfsmenn og kannski gjörð fyrrum fjármálaráðherra einhver undarlegast af þeim öllum sem þekkst hafa, þegar hann samþykkti tengingu launa starfsmanna eina bankans sem ríkið á afgerandi hlut í, við hversu duglegir þeir væru að rukka inn "skuldir" viðskiptavinanna. Nú vilja aðrir bankar auðvitað fara sömu leið.

Fyrirtæki í útflutningi hafa allt frá hruni verið einu fyrirtækin sem í raun hafa haft getu til kjarabóta. Þó sá forseti ASÍ til þess að það rými væri ekki nýtt í síðustu kjarasamningum, vildi frekar leggja skatt á þessi fyrirtæki.

Kannski er rétti tíminn nú til þjóðarsáttar og mælir í raun margt með því. Slík sátt á þó ekki að þurfa að leiða til kjaraskerðingar. En til að slík sátt megi verða vantar einkum tvennt. Í fyrsta lagi mann með bein í nefinu, mann sem er hlustað á, mann sem fólk ber virðingu fyrir og í öðru lagi að nýta þá þekkingu og þær aðferðir sem notaðar voru vorið 1990.

Allir sem áhrif höfðu á hagkerfið voru fengnir að borðinu og látnir taka þátt, enginn var undanskilinn. Þetta leiddi í sumum tilfellum af sér það að einstakir hópar urðu að gefa eftir þær hækkanir sem þeir höfðu þegar samið um, þ.e. frágengnir kjarasamningar voru teknir upp. Til viðbótar þessu komu svo stjórnvöld að borðinu.

Í dag sæi maður þetta fyrir sér á þann hátt að allar kjarabætur síðustu mánuði gengju til baka, höft sett á hækkanir verslunar og þjónustu og að dregið yrði úr skattbyrgði. Síðan yrði komist að kauphækkun sem myndi tryggja kjör fólks. Ríkið kæmi að auki að málinu með því að stýra skattlagningu á innfluttar nauðsynjavörur með þeim hætti að hækkanir þeirra yrðu sem minnstar.

Hin leiðin er einnig fær, að hækka laun allra um svipaða prósentu og þeir sem mest hafa fengið fengu, leifa verslun og þjónustu svipaðar hækkanir. Síðan kæmi ríkið að málinu. Niðurstaðan gæti orðið svipuð, nema auðvitað fyrir lántakendur. Þeirra greiðslubyrgði myndi þá aukast verulega.

Svo má alltaf sleppa öllum hugmyndum um þjóðarsátt og krefjast verulegra kjarabóta. Þau fyrirtæki sem slíkar hækkanir ráða við munu þá væntanlega semja áður en til verkfalla kemur, en hin færu í þrot. Ekki er víst að það yrði endilega versta lausnini. Það gleymist nefnilega í þessari umræðu hvers vegna sum fyrirtæki eru svo illa stödd að þau geti ekki borgað mannsæmandi laun. Gæti verið að eitthvað í rekstri þeirra skýri það? Kannski of mikil yfirbygging, eða röng stjórnun?

Hvort hér verði gerð tilraun til þjóðarsáttar ætla ég ekki að dæma um. Þó er ljóst að eins og mörg fyrirtæki í verslun og þjónustu hafa hagað sér frá hruni, eins og bankar hafa stundað sín viðskipti og meðan þeir ógnvænlegu skattar sem fyrri ríkisstjórn lagði á þjóðinu eru við lýði, er ekki beinlínis hægt að vera bjartsýnn á að slík sátt náist. Þegar svo við bætist að starfsmönnum hjá ríkinu eru færðar tug prósenta kauphækkun, afturvirka ár aftur í tímann og sú hækkun rökstudd með því að "aðrir" hafi fengið sambærilegar hækkanir, er launafólki nóg boðið. Við skulum átta okkur á þeirri staðreynd að sumir fengu þarna hærri upphæð í hækkunina eina en sem nemur heildar launum margra launþega!

Traust fólks á stjórnvöldum glataðist að fullu á síðasta kjörtímabili. Núverandi stjórnvöldum hefur ekki enn tekist að vinna það traust upp að fullu og bætir það ekki trú á að þjóðarsátt náist 

Þá er deginum ljósara að engin þjóðarsátt næst á þeim grundvelli sem Styrmir Gunnarsson leggur til, þar sem hluti launafólks á eitt að standa undir henni og það með kjaraskerðingu. 


mbl.is Hækki meira en verðbólgan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband