Nú er ég kátur !!

Samkvæmt könnunum hefur kaupmáttur aukist. Að vísu hef ég sjálfur orðið ákaflega lítið var við þá aukningu, þvert á móti. Þegar rýnt er í þessa könnun kemur í ljós að þarna er verið að tala um meðaltalskaupmátt. Það kemur einnig fram í þessum könnunum að sumir hópar hafa fengið verulegar hækkanir, gjarnan þeir sem liggja hærra á launastiganum. Það segir að við hin sem liggjum fyrir neðan þetta heilaga meðaltal höfum fengið minna, jafnvel ekkert.

Bankastarfsmenn er sá hópur sem betur hefur gengið að auka sinn kaupmátt en flestir aðrir, bæði í gegnum launahækkanir sem og vegna gjafmildi fyrrum fjármálaráðherra. Þá hefur kjararáð nú nýlega hækkað laun forstjóra ríkisstofnana verulega. Þetta hefur glatt mitt litla hjarta, enda hlýtur að fylgja þessu verulegar launahækkanir til okkar sem minnst höfum, í komandi kjarasamningum, eða hvað?

En ekki eru allir jafn kátir og benda á að þetta gæti leyst verðbólgudrauginn úr læðing, jafnvel að þetta gæti valdið þjóðargjaldþroti. Fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins ritar ágæta grein um þetta í Fréttablaðinu í gær. 

Forseti ASÍ er hins vegar ánægður og ekki hægt að skylja annað á hans málflutningi en að þessar hækkanir muni koma til alls launafólks á haustdögum, að hann ætli að sækja þetta í næstu kjarasamningum. Í það minnsta blæs hann á rök eins og að launagreiðandinn þurfi endilega að hafa efni á að greiða þessar launahækanir. Það sé algjört aukaatriði. Og gjafagjörning fyrrum fjármálaráðherra til starfsmanna ákveðins fyrirtækis sem er að mestu í eigu ríkissjóðs kallar hann lögmál markaðarins. Hann flokkar þetta fyrirtæki sem einkafyrirtæki, þó ríkið eigi enn eftir að selja það frá sér.

Því hlýtur Gylfi Arnbjörnsson að mæta til næstu kjarasamninga með það í farteskinu að ekki verði hlustað á hvort fyrirtæki hafi getu til launahækkanna, það sé bara víl. Hann hlýtur að nota sömu rök og hann notar til að verja ákvörðun kjararáðs í viðtalinu á visir.is, þau rök að nauðsynlegt sé að hækka launin vegna hækkana hjá öðrum. 

Því er ég kátur núna, alveg ofsakátur. Ég horfi fram á áð fá nokkura tuga prósentu launahækkun í haust, afturvirkt um einhverja mánuði og jafnvel einhvern vænan bónus að auki.

Hversu lengi þessi gleði varir er svo aftur annað mál, því auðvitað er það rétt sem fyrrum formaður Sjálfstæðisflokks segir að þetta sé ávísun á óðaverðbólgu, að ríkisstjórnin verður að setja strax bráðabyrgðalög sem taka af þá glórulausu hækkun sem kjararáð hefur ákveðið auk þess að beyta sínum krafti innan Landsbankans, sem lang stæðsti eigandinn, til að koma í veg fyrir gjafagjörning fyrrum fjármálaráðherra.

Það er ekki vegna þess að mér sé illa við það fólk sem þessar launahækkanir og bónusa fær, þvert á móti. Staðreyndin er einföld, ríkið hefur ekki efni á þessum launahækkunum og siðleysið í bónusgreiðslum bankans er algjört. Þá er ljóst að almennt launafólk mun ekki samþykkja einhverja aumingjasamninga ef þetta verður látið standa. Stefnan hefur verið mörkuð.

Það er auðvitað hverjum manni ljóst að ef sóttar verða launahækkanir á sama kaliberi og forstjórar ríkisfyrirtækja hafa fengið, mun hér allt fara til fjandans. Gylfi Arnbjörnsson veit þetta og hann veit einnig að ekki mun nást meiri launahækkun til almennings en sem nemur getur fyrirtækja. Því er með öllu óskiljanlegt að hann skuli nú verja þessa gjörð kjararáðs.

Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að það var alls ekki verðtryggingin sem kom böndum á verðbólguna, þvert á móti magnaði hún hana. Hins vegar gerði þjóðarsáttin, sem gerð var í byrjun tíund áratugar síðustu aldar, það. 

Því er svo mikilvægt að allir sýni ábyrgð. Það verður aldrei mynduð nein þjóðarsátt, eða sátt yfirleitt, ef einungis almennt launafólk verður að taka á sig skerðingar. Að almennt launafólk verði að horfa til þess hvort efni er til launahækkana eða ekki, meðan forstjórar ríkisfyrirtækja geta vísað til launahækkanna annara hópa.

Ef verk kjararáðs er afsakanlegt er jafn afsakanlegt að almennt launafólk fái kjarabætur upp á nokkra tugi prósenta, afturvirkt um einhverja mánuði eða ár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú er ég ekki kátur:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/07/29/endurskodar_log_um_fasteignakaup/

Halldór Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.7.2013 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband