Sorglegur málflutningur

Það er með ólíkindum að menn sem eru jafn utangátta um þann vanda sem að þjóðinni stafar, skuli opinbera það með þeim hætti sem  Arnar Sigurðsson, starfandi á fjármálamarkaði, gerir.

Það er greinilegt að hann skilur ekki, eða vill ekki skilja vandann og fer fram með frasa sem engu máli skipta og koma þessum vanda í raun ekkert við. Að líkja verðtryggingunni við tryggingar sem hægt er að kaupa af tryggingarfélugum, er einhver fátæklegasta samlíking sem enn hefur komið fram.

Þá fer Arnar fram með staðreyndir sem ekki standast, þegar hann segir einungis 20% heimila berjast við greiðslu og skuldavanda. Þessar tölur sækir hann væntanlega til Seðlabankans eða Hagstofunnar. Þær eru byggðar á úreltum upplýsingum. Það er ljóst að vandi fjölskyldna er mun meiri og fer hratt hækkandi. Fram til þessa hafa margar fjölskyldur getað staðið í skilum. Það hafa þær gert vegna þess bæði var skuldabyrgði þeirra hófleg fyrir hrun og einnig átti það einhverjar krónur í sjóð. Nú hafa lán þessa fólks hækkað svo mikið að vonlaust er fyrir það að standa undir afborgunum. Sjóðirnir sem notaðir hafa verið til að greiða af lánunum eru að klárast og fyrir þessu fólki liggur að velja á milli þess að greiða áfram af lánunum, eða kaupa mat fyrir börnin sín. Þetta eru staðreyndirnar, ekki einhverjar prósentutölur sem Seðlabankinn eða Hagstofan gefur út.

Arnar býsnast yfir því að kostnaður vegna leiðréttingar lána geti kostað um 200 milljarða. Hvernig skyldi honum þá líða yfir þeim rúmu 400 milljörðum sem lagðir hafa verið á almenning vegna endurreysnar bankakerfisins? Hvernig skyldi hunum þá líða að vita að enn hærri upphæðir hafa verið afskrifaðar hjá örfáum einstaklingum, meira að segja einstaklingum sem voru beinir þáttakendur í hruninu. Þetta hlýtur að fara illa í maga Arnars!

En þessir 200 milljarðar eru þó ekki glatað fé, ólíkt þeim hundruðum milljarða sem afskrifaðir voru hjá "fjármálamönnunum". Þá eru 200 milljarðar lágt gjald við endurreysn landsins, í samanburði við annað sem hefur verið afskrifað. Það skal heldur ekki gleymast í þessari umræðu að þarna er í raun einungis verið að tala um helming þess fjár sem verðtrygging hefur lagt á lán fjölkyldna frá hruni!

Hvernig Arnar fær út að laun almennings hafi hækkað umfram verðlag, er með öllu óskyljanlegt. Honum til fróðleiks er hægt að benda á að enn vantar á milli 20% og 30% til að laun nái sama verðgildi og fyrir hrun. Hjá sumum hópum meira og ef skattahækkanir og verðhækkanir opinberra fyrirtækja eru meðtaldar, mun meira!

Þá nefnir hann að fasteignir hafi haldið verðgildi sínu. Vera má að enn sé verð fasteigna skráð hátt, en það er þá eingöngu vegna þess að fjármálastofnanir liggja á þúsundum íbúða og setja ekki á markað. Þannig er fasteignaverði ranglega haldið hærra en raunveruleikinn segir til um.

Málflutningur Arnars er frekar sorglegur og fátækur af rökum. Verðtryggingin er verðbólguvaldandi, það er staðreynd. Engin leið er fyrir stjórnvöld að stjórna hagkerfinu og vaxtahækkanir Seðlabankans verða ansi haldlitlar meðan verðtrygging er allsráðandi. Þetta er hluti staðreyndanna.

Hitt er svo kannski það sem meiru máli skiptir, en það er siðferðið. Hvaða siðferði er í því að einn hópur í þjóðfélaginu skuli þurfa að sætta sig við álögur sem enginn annar hópur þarf að taka á sig og afhverju getur einn hópur í þjóðfélaginu lagst í rúm sitt á hverju kvöldi, áhyggjulaus, vitandi að verðtryggingin mun alltaf bæta hag hans, sama hvað á gengur?

Eru íslenskir fjármálamenn upp til hópa svo heimskir að þeir verði að hafa verðtryggingu til að tryggja sitt fé? Hvers vegna þurfa erlendir fjármálamenn ekki slíka tryggingu? Geta íslenskir fjármálamenn ekki spilað á sama grunni og erlendir kollegar þeirra?

Staðreyndin er einföld. Þeir sem vilja að Ísland lifi áfram leita allra leiða til að finna lausn á vanda heimila landsins og ef það kostar 200 milljarða, verður svo einfaldlega að vera. Þeir sem þverskallast og vilja halda verðtryggingunni áfram og vilja ekki leiðrétta stökkbreytingulána, hafa engan áhuga á að reysa Ísland úr þeirri öskustó sem það er í. Áframhald verðtryggingar mun draga heimili landsins í gjaldþrot og þá er bankagjaldþot og þjóðargjaldþrot óumflýjanlegt.

Því er spurningin hvort 200 milljarðar séu of hátt verð fyrir sjálfstæði landsins.

 

 


mbl.is Verðtrygging
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband