Ég er líka með sorg í hjarta

Nú flykkjast stjórnarþingmenn, hver um annan, í ræðustól Alþingis og lýsa yfir sorgum sínum. Ólína telur sig vart geta mælt og sennilega fáir sem sýta hennar þögn.

En ég er líka með sorg í hjarta. Ekki vegna þess að stjórnarskrármálið virðist nú loks vera að fá þann endir sem hæfir, heldur yfir þeirri skopstælingu sem stjórnarliðar hafa gætt Alþingi með þessu máli.

Fyrst var þjóðinni talin trú um að stjórnarskráin okkar væri gamaldags og úrelt og bráð nauðsynlegt væri að fá nýja. Því næst var þessi stjórnarskrá okkar, sem hefur dugað okkur með örfáum breytingum frá stofnun lýðveldisins, hundsuð af stjórnarliðinu og farin leið til breytinga hennar í bága við þá grein stjórnarskrárinnar um breytinga á henni. Stjórnarskráin var brotin til að búa til nýja!

Þegar þetta afrek var afstaðið fór fram skrípakosning til stjórnlagaþings. Hæstiréttur úrskurðaði þá kosningu ólögmæta, en stjórnarliðið fann leið framhjá þeim úrskurði. Í stað stjórnlagaþings skildi koma stjórnlagaráð! Úrskurður Hæstaréttar var því hundsaður til að halda málinu áfram.

Loks þegar stjórnlagaráði hafði tekist á fjórum mánuðum að semja nýja stjórnarskrá, sem verður að teljast mikið afrek á svo stuttum tíma, var afurðin lögð fyrir forseta Alþingis. Nú liðu nokkrir mánuðir þar sem þjóðin fékk að mestu frið fyrir þessari umræðu, tillögurnar voru settar niður í vel læsta skúffu. Hvort stjórnarliðar voru svo hræddir að leggja málið fyrir Alþingi, eða hvort það var af ásetningi gert að halda því sem lengst frá afgreiðslu, í þeirri vissu að þá mætti nota það til að halda annari umræðu niðri fyrir kosningar, eins og vanda heimilanna, skal ósagt látið. Í öllu falli var ekkert gert til að koma málinu áfram af hálfi stjórnvalda fyrr en ljóst var að tíminn væri orðinn of skammur.

Loks var ákveðið að fá álit þjóðarinnar á þessum tillögum, áður en Alþingi fengi nokkuð um þær sagt. Efnt var til kosninga og fyrir þjóðina lagðar nokkrar spurningar. Fyrsta og í raun eina marktæka spurningin var hvort Alþingi ætti að nota tillögur stjórnlagaráðs sem grunn að breytingu stjórnarskrárinnar. Engin spurning var um hvort nota ætti þessar tillögur sem nýja stjórnarskrá. Einhverrahluta vegna tók umræðan þó þann sveig að túlka niðurstöður skoðanakönnunarinnar á þann veg að ekki mætti hrófla við þessum tillögum, að Alþingi bæri að samþykkja þær óbreyttar. Þarna var stjórnarskrárbrotið við upphaf þessa ferlis fullkomnað.

Það er ljóst að aldrei mun nást samstaða um nýja stjórnarskrá sem byggð er á því að brjóta gildandi stjórnarskrá, hundsa úrskurði Hæstaréttar og afbaka skoðanakönnun meðal þjóðarinnar. Verk sem byggt er á þessum gildum getur aldrei orðið annað en hálfkák og klastur! Enda eru allar umsagnir um málið á einn veg, hvort sem þær eru sóttar til innlendra eða erlendra aðila.

Það er Alþingis að breyta sjórnarskrá og enginn annar hefur vald til þess, ekki meðan okkar gamla og góða stjórnarskrá er við lýði. Hitt er annað mál að öll sú vinna sem lögð hefur verið í þetta mál og hefur kostað okkar fjársveltu þjóð nærri tvo milljarða króna, má auðvitað nýta við endurbætur á stjórnarskránni okkar. Það verk sem stjórnlagaráð vann á aðeins fjórum mánuðum er um margt ágætt og sumar hugmyndir þaðan sem eiga fullt erindi inn í okkar stjórnarskrá. Því getur Alþingi gengið að nokkuð góðum grunni sem þessi vinna skilaði, enda þjóðin ásátt um það, samkvæmt skoðanakönnuninni.

En slík vinna verður ekki unnin á nokkrum dögum, ekki einu sinni nokkrum vikum. Þetta er vinna sem þarf að vanda til. Þá er vandséð hver ávinningur er af því að gera slíkar breytingar á einu bretti, miklu vænlegra að taka þau málefni sem hellst þurfa skoðunar fyrst og afgreiða þau. Vinna þetta stig af stigi.

Það eru margir með sorg í hjarta vegna þessa ólánsmáls. Stjórnarliðar vegna þess að þeir eru loks að átta sig á að þeir hafa klúðrað málinu. Það var jú á valdi stjórnarliða að fylgja því eftir og afgreiða það með þeim hætti að sómi væri af. Því tækifæri glutruðu þeir og súpa nú seiðið af því. Það er því von að þeim vökni um augun.

Við hin, sem höfum þurft að horfa upp á þann skrípaleik sem þetta mál allt hefur verið og höfum þurft að horfa á eftir nærri tveim milljörðum króna fara til spillis, meðan sjúkrastofnanir berjast í bökkum og aldraðir hafa þurft að taka á sig miklar skerðingar, erum einnig með sorg í hjarta.

 


mbl.is Sorg í hjarta yfir stjórnarskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Góð umfjöllun um málið eins og kemur oft frá þér Gunnar.

Ég spyr; hvar eru tárin fyrir fjárhagsörðuleikum heimilana?

Ekki borðar fólk stjórnarskrá.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 6.3.2013 kl. 15:12

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sjálfsagt mætti japla á pappírnum sem hún er rituð á, Jóhann, en næringargildið er sennilega frekar rýrt og alveg öruggt að bragðið er vont!

Tárin vegna vanda heimilanna eru upp urin, þar er einungis saltsárir hvarmar eftir.

Gunnar Heiðarsson, 6.3.2013 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband