Afdrifarík tilraun

Það má segja að tilraunir Vegagerðarinnar á vegklæðningum hafi orðið afdrifaríkar og dýrar.

Það er vissulega gott og þarft verk að útrýma innfluttum efnum fyrir innlend, þar sem slíkt er hægt. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða mengandi efni fyrir náttúruvæn. Því er bara gott um það að segja að Vegagerðin skuli hafa ákveðið að finna önnur efni en White Spirit sem mýkingarefni í vegklæðningar.

En slíkar tilraunir ber að framkvæma með varúð og kanna allar hugsanlegar afleiðingar þeirra, áður en farið er að leggja á vegi slitlag með nýjum efnum í stórum stíl. Þarna virðist Vegagerðin farið heldur hratt yfir og tekið fram úr sjálfri sér.

Það er svo spurning hvað repjuolía eða lýsi eigi sameiginlegt með White Spirit. Í flestra hugum er þarna um andstæð efni að ræða, annars vegar olíuefni og hins vegar leysiefni. Það er því ljóst að um gjörólík efni er að ræða og því ætti ekki að koma á óvart þó upp komi vandamál af áður óþekktri gerð. Þess heldur hefði Vegagerðin átt að kanna málið betur.

Það er ljóst að nú þegar hefur verið lagt slitlag í miklu mæli á þjóðvegi landsins með þessum tveim íslensku efnum. Vegagerðin á að vita upp á hár hvort þarna hafi verið notuð repjuolía eða lýsi og því ætti að liggja fyrir að það efnið sem notað var, er óhæft. Vegagerðinni ber því að merkja alla þá vegi sem lagðir hafa verið slitlagi með því efni sem hættulega vegi, svo vegfarendur viti að hverju þeir ganga.

Ég endurtek að það er af hinu góða að útrýma innfluttum efnum fyrir innlend, á sem flestum sviðum. En allar slíkar tilraunir verður að vinna að ábyrgð og skynsemi. Ekki æða af stað í framkvæmdir án þess að allar staðreyndir liggi fyrir.

Svo er vonandi að Vegagerðin og Sjóvá sjái sér sóma í því að bæta það tjón sem bíleigendur hafa orðið fyrir. Þetta er vissulega stór ósk og varla von til að hún nái fram. Meiri líkur eru á að næstu daga og mánuði muni verða karpað um hver beri ábyrgð á klúðrinu og bíleigendur verði látnir bera sitt tjón á meðan. Sennilegt að þeir þurfi að leita til dómstóla svo þeir fái sitt tjón bætt.

 


mbl.is Veginum hætt að blæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli Már Guðmundsson

Það væri nú kanski hægt að nota aðra vegarkafla en þjóðveg 1 til tilrauna. Svo gæti vegagerðin athugað hvort ekki er hægt að fá keypta ódýra steikingarolíu af skyndibitastöðum.

Óli Már Guðmundsson, 23.1.2013 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband