Hvaða frumvarp ?

Hvaða frumvarp er Salvör að tala um? Í lögum um stjórnlagaþing, sem stjórnlagaráði var svo uppálagt að vinna eftir, kemur hvergi fram að sá hópur hafi átt að semja frumvarp, reyndar kemur það orð hvergi fram í þeim lögum. Lög um stjórnlagaþing, sem síðan áttu að gilda um stjórnlagaráð, segja að stjórnlagaþing, síðar sjórnlagaráð, skuli fara yfir gildandi stjórnarskrá og meta hvort og þá hvað þarfnist endurskoðunar. Tillögum um það átti svo stjórnlagaþing, síðar stjórnlagaráð, að skila til Alþingis. Þó var stjórnlagaþingi, síðar stjórnlagaráði, heimilt að koma fram með tillögur að nýrri stjórnarskrá.

Að þessi hópur hafi átt að skila inn einhverju frumvarpi kom aldrei til, enda slíkt vandasamara en svo að verði unnið á tveim mánuðum, jafnvel þó sá tími hafi verið tvöfaldaður. Sá stutti tími dugir vart til að fara efnislega yfir gildandi stjórnarskrá og finna bætur á henni. Sá stutti tími dugir engan veginn til samningu nýrrar stjórnarskrár og alls ekki til samningu frumvarps um hana. Til þess eru lagalegar flækjur meiri en svo að hægt sé að afgreiða það á svo stuttum tíma sem stjórnlagaþingi, síðar stjórnlagaráði, var ætlað.

Það má þó kannski segja að betra hefði verið að gefa stjórnlagaþingi, síðar stjórnlagaráði, meiri tíma og að því hefði beinlínis verið ætlað það hlutverk að semja frumvarp til breytingar á gildandi stjórnarskrá, eða samningu nýrrar. Að því hefði verið ætlaður nægur tími til verksins, svo skila hefði mátt fullbúnu frumvarpi. Þá væri ekki fyrir hendi sú óvissa sem nú ríkir og fólk væri ekki í vafa um hvað það væri að kjósa, næsta laugardag.

En til að svo mætti vera, hefði þurft að standa betur að undirbúningi málsins. Svokallaður þjóðfundur sem kallað var til er einn stór brandari. Þar var vissulega kallað til um þúsund manns og sjálfsagt var valið á þann fund nokkurskonar þverskurður þjóðarinnar. En til að slíkur fundur geti skilað af sér einhverjum læsum tillögum, þarf að skipta þessum stóra hóp í aðra minni, eftir málefnum. Það var vissulega gert og yfir þessa hópa voru svo settir hópstjórar. Þeir voru ekki valdir af handahófi. Þeir sem tekið hafa þátt í slíkri vinnu vita að hópstjórar í slíkum vinnuhópum hafa mikil áhrif og leiða vinnu hópsins. Þá er vitað að þessir hópstjórar mættu á fundinn með "minnismiða" um hvert málefni og þeir sem voru á öðru máli máttu sín einskis. Niðurstöðu þjóðfundarins var því handstýrt eftir fyrirfram ákveðnu plani.

Lög um stjórnlagaþing voru svo samin og þau keyrð með hraði gegnum Alþingi. Síðan var gengið til kosninga um fulltrúa á það þing. Allir vita hvernig það fór, svo illa var staðið að þeirri kosningu, sumpart vegna þess hve illa lögin um stjórnlagaþing voru samin, en mest þó vegna þess ofsahraða sem stjórnvöld lögðu á málið, að Hæstiréttur sá sér ekki fært annað en að ógilda þá kosningu.

Nú hófst einhver undarlegasta leikflétta íslenskrar pólitíkur. Í stað þess að viðurkenna niðurstöðu Hæstaréttar og efna til nýrrar kosningar til stjórnlagaþings, ákvað naumur meirihluti Alþingis að stofna svokallað stjórnlagaráð og skipa það sama fólk og hlaut kosningu í hinni ólöglegu kosningu til þess ráðs. Þarna var svo fram gengið að trúverðugleiki málsins hvarf sem dögg fyriir sólu.

Nú á laugardaginn mun þjóðin ganga til kosninga. Þetta er þó engin venjuleg kosning, þar sem ekki er vitað hvað atkvæði kjósenda merkir. Það er þó deginum ljósara að ekki er verið að kjósa um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Væri svo þyrfti ekki að deila um þann þátt málsins, en einmitt vegna þess að svo er ekki, hafa myndast miklar deilur meðal þjóðarinnar. Það getur varla verið gott upphaf af nýrri stjórnarskrá, nema auðvitað að vilji þeirra sem að málinu standa sé að ósátt sé sem mest meðal þjóðarinnar. Þá má vissulega segja að markmiðinu sé náð.

Það er sama hvernig á málið er litið. Það er útilokað að samþykkja að tillögur þessa stjórnlagaráðs verði lagðar að grundvelli nýrrar stjórnarskrár. Um málið er of mikil ósátt til að það geti þjónað þeim tilgangi sem að var stefnt. 

Þeir sem munu samþykkja fyrstu spurningu skoðanakönnunarinnar, vilja þá viðhalda þeirri ósátt.

 


mbl.is Skiptar skoðanir innan stjórnlagaráðs um frumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband