Taboo

Þöggun er ein versta birtingarmynd ofbeldis.

Fjölmiðlar og bloggarar hafa farið mikinn í fordæmingu á bloggum Marinós G Njálssonar og Þórs Saari, þar sem þeir skrifa um þann hræðilega atburð er átti sér stað á einni lögmannstofu í Reykjavík. Þessum mönnum er gert upp að þeir séu að lofa ofbeldi, jafnvel þó þeir báðir fordæmi verknaðinn harðlega. Þeirra sök virðist vera að opna á umræðu um þá skelfingu sem margir landsmenn búa við.

Nú er það svo að ekkert getur réttlætt það ofbeldi sem þarna átti sér stað og ekkert getur yfir höfuð réttlætt ofbeldi. En það er engum til hagsbóta að þegja um slíkann atburð, það er engum til hagsbóta að leita ekki skýringa. Þöggun er jafngild samþykkt og þeir sem vilja þegja eru um leið að samþykja þetta voðaverk.

Meginþemað í bloggum Marinós og Þórs var ekki voðaverkið sjálft, heldur sú skelfilega staða sem þjóðfélagið er komið í. Og vissulega búum við í breyttu þjóðfélagi, breyttu til hins verra.

Flestir Íslendingar eru aldir upp við það að bankar séu einhver öruggustu og heiðarlegustu stofnanir landsins. Þetta hefur verið innprentað í okkur frá fæðingu. Þar hefur fólk getað lagt sitt fé til geymslu, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því. Sama marki hafa lífeyrissjóðir verið merktir. Jafnvel þó sumir hafi verið farnir að efast, undir það síðasta fyrir hrun, var þeirri hugsun bægt frá. Við hrun bankanna og þann sannleik sem það gaf af sér varð mikil breyting, traustið hvarf. Eitt af grundvallar gildum hvarf út um gluggnn eins og hendi væri veifað. Lífeyrissjóðirnir hafa einnig glatað trausti sínu. Það munu líða mörg ár áður en fólk ber traust til þessara stofnana og þetta hefur valdið varanlegum skaða á trausti fólks almennt.

Við bankahrun stökkbreyttust lán almennings, um það deilir enginn. Stjórnmálastéttin hefur algerlega brugðist. Eftir mótmæli í kjölfar hrunsins var boðað til kosninga og þeir flokkar sem komust til valda lofuðu skjaldborg um heimili landsins. Sú skjaldborg var reyst um fjármálafyrirtækin og þau varin í rauðann dauðann, þrátt fyrir dóma Hæstaréttar. Fyrir heimilin hefur ekkert verið gert að viti og það litla sem þeim hefur fallið í skaut einkum komið fjármálafyrirtækjum til góða. Stjórnvöld brugðust trausti almennings!

Þá mætti skrifa langann pistil um störf ríkisstjórnarinnar, en í stuttu máli þá var hennar fyrsta verk að kljúfa þjóðina í tvær gagnstæðar fylkingar, einmitt á þeim tíma er samstaða var henni nauðsynleg. Þá hefur hún fengið höfnun kjósenda í tvennum kosningum og háð í þeim þriðju, stjórnvöld hafa fengið í það minnsta fimm hæstaréttardóma á sig og hún situr enn!! Þetta er ekki það nýja Ísland sem þjóðin vill. Traustið til stjórnvalda er ekkert!

Fjármálafyrirtækin hafa fengið að stunda óbilgjarna innheimtustarfsemi í skjóli stjórnvalda og í trássi við lög landsins. Þar er ekkert gefið eftir. Fjölskyldum er miskunnarlaust kastað á götuna, þar sem það verður að treysta á guð og gaddinn. Þar eru heimili fólks tekin af þeim vegna þess að ekki má lækka skuldabyrgði þeirra, jafnvel þó bankinn selji svo þessar eignir á mun lægra verði en heimilisfaðirinn var tilbúinn og hafði getu til að greiða. Bankinn vill heldur selja sínum vildarvin eignina á hálfvirði, en að lækka skuld niður í viðráðanlega upphæð fyrir fjölskylduna.

Það er staðreynd að þetta ástand hefur leitt til þess að fólk hefur einfaldlega gefist upp og einhverjir tekið sitt líf. Hvort það er nægjanlegur fjöldi til að breyta tölfræðinni skal ósagt látið, en eðli málsins samkvæmt koma þessar fréttir ekki í fjölmiðla. Skelfingin situr þó eftir í eftirlifandi fjölskyldumeðlimum og þeir munu búa að því alla ævi.

Þegar svo einhver truflast og fremur það voðaverk að ráðast á innheimtumann bankans með hnífi og stór skaða hann, má ekki ræða um það, það er taboo. Ástæðan er einkum sú að hann var einungis að missa mótorhjól! Það er auðvitað með öllu óafsakanlegt að ráðast með ofbeldi gegn öðrum, hvaða ástæður sem liggja að baki. Ofbeldið er með öllu óafsakanlegt.

Ekki hef ég fylgst náið með skrifum Þórs Saari, þó maður komist ekki hjá að hlusta á hann í fjölmiðlum. Hversu góðu sambandi hann er við þjóðina veit ég því ekki.

Marinó G Njálsson er hinsvegar í góðu sambandi við þann raunveruleika sem í þjóðfélaginu býr. Því má hiklaust taka mark á hans orðum varðandi skuldavanda heimilana.

Þöggun er aldrei af hinu góða og sá málflutningur sem Helgi Seljan var með í Kastljósi í gærkvöldi er með öllu óskiljanlegur. Þar setti hann útá Þór fyrir að hafa rætt um það atvik er maður einn á Álftanesi braut niður hús sitt, vegna þess að mörgum mánuðum seinna var sá maður dæmdur fyrir svik. Ég man ekki betur en allir fjölmiðlar hefðu verið undirlagðir fréttum að þessum atburði þegar hann átti sér stað. Nei, samkvæmt skilgreiningu Helga mátti þingmaður ekki ræða þetta mál fyrr en allar staðreyndir lægju upp á borðinu, einnig dómur sem féll mörgum mánuðum seinna!

Og Helgi átaldi Þór fyrir að ræða um voðaverkið á lögmannstofunni. Hann sem þingmaður má ekki ræða það mál, fyrr en allar staðreyndir þess liggja á borðinu. Jafnvel þó Þór hafi fyrst og fremst verið að ræða hugsanlega orsök verknaðarins, en ekki verknaðinn sjálfann og jafnvel þó skýrt hafi komið fram í skrifum hans að hann fordæmdi verknaðinn!

Eða má kannski ekki ræða þau mál sem lýsa vangetur ríkisstjórnarinnar? Er Helgi Seljan kannski bara að standa vörð Samfylkingar í sínum fréttaþáttum?

Þögn er sama og samþykki, að þegja um voðaverk er sama og samþykkja það. Þegar slíkir hörmungaratburðir gerast, á og skal ræða þá. Ekki endilega verknaðinn sjálfann, heldur rót hans. Einungis þannig er hægt að koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig. En sú umræða má þó ekki vera einhver skrautumræða, það þarf að vera alvöru umræða og ekkert skilið undan.

Þau viðbrögð að auka gæslu í fjármálastofnunum og innheimtustofum þeirra leysa engann vanda. Það getur verið nauðsynlegt til skamms tíma, en er engin lausn. Sá sem ætlar sér að fremja voðaverk gerir það hvort sem gæslan er mikil eða lítil. Það þarf að finna rót vandans og ráðast gegn honum. Aukin gæsla staðfestir einungis þá breytingu sem orðin er í þjóðfélaginu, breytingu til hins verra! Viljum við að nýja Ísland verði með lögreglumenn við allar inngöngudyr og í sölum fjármálafyrirtækja, svona eins og þekkist í Ameríku?

Rót vandans er þekkt.

Skuldavandi. Það verður með öllum ráðum að leysa þann vanda, ekki eingöngu til hjálpar heimilum landsins, heldur ekki síður til bjargar landinu frá enn meiri hörmungum og til bjargar fjármálakerfi þjóðarinnar. Með óbreyttri stefnu munu fjármálafyrirtækin fara aftur á hausinn með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina.

Vantraust. Stjórnmálastéttin verður að byggja upp traust sitt aftur, einungis þannig getur þjóðfélagið lifað. Lýðræði án trausts á þingmenn er ekki lýðræði! Fjármálafyrirtækin hafa ekkert gert til að byggja upp siit traust. Þetta verður að breytast og það fyrr en seinna. Tilvera þssara fyrirtækja byggist á trausti, án þess eru þau ekki neitt!!

En þetta má sennilega ekki ræða, ekki fyrr en allar staðreyndir liggja á borðinu! Þetta er Taboo!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Menn þurfa að vera blindir strútar með hausinn uppi í eigin rassgati til að sjá ekki að ástandið hér er mjög brothætt.
Mér finnst að þessi geðlæknir eigi að taka geðlækinsprófið sitt aftur.. hann á að vita það best af öllu að þunglynt fólki í örvæntingu og blankheitum.. kemur oftar en ekki síðastir af öllum inn í heilbrigðiskerfið.. og til þessa geðlæknis.
Geðlæknirinn gróf algerlega undan sjálfum sér, ég ráðlegg öllum hans sjúklingum, ef hann er með alvöru sjúklinga, ég ráðlegg þeim að finna annan geðlækni.. þessi er ekki trúverðugur, hefur kannski fengið prófið í Cheeriospakka;
Löggan tekur heldur ekki eftir neinu, talar um gott ástand.. halló

DoctorE (IP-tala skráð) 8.3.2012 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband