Að færa fé úr einum vasa í annan

Fjármálasnillingurinn Pétur H Blöndal veit hversu vitlaus þessi hugmynd er. Við hvert ár sem lífeyrisaldur hækkar, bætist eitt ár við þá sem ekki komast í vinnu í fyrsta sinn. Því er verið að spara lífeyrisgreiðslur á kostnað atvinnuleysissjóðs.

Hvers vegna hann tekur upp þetta mál nú er illskiljanlegt, nema ef vera skyldi að hann sé að vekja athygli á sér fyrir landsfundinn á komandi helgi. Þá er Pétur að falla í sömu gryfju og flestir aðrir þingmenn, að nota frasa til að koma sjálfum sér áfram. Þá aðferð hefur Pétur verið laus við hingað til og er mikil afturför hjá honum að byrja þann leik.

Vandi lífeyrissjóðanna liggur ekki í of lágu iðgjaldi, háum lífeyri eða lélegri ávöxtun. Vandinn liggur fyrst og fremst í lélegri stjórnun sjóðanna. Fé þeirra var sóað í áhættufjárfestingar fyrir hrun og tapaðist mikið af því vegna þess. Enn er verið að gambla með þetta fé launþega og þarf vissulega að koma böndum yfir þá hvítflibbamenn sem sóað hafa og sóa enn, fé lífeyrissjóðanna.

Þá er spurning hvort það geti talist eðlilegt að Alþingi hafi með það að gera og hvernig sjóðirnir ákveði lífeyrisaldur og greiðslur í þá og úr. Þessir sjóðir eru til vegna framlaga launþega í þá og því eign launþega. Því ættu launþegar einir að hafa um það að segja hverjir og hvernig þessum sjóðum er stjórnað. Afskipti atvinnurekenda af sjóðunum er þeirra versta ógn og ef Alþingi ætlar að koma með sínar krumlur inn í þá líka, er eins gott að leggja þá af og greiða launþegum iðgjaldið beint í þeirra vasa!

Lífeyrissjóðirnir eru vissulega sjúkir, helsjúkir, en til að lækna þá þarf að ráðast að innri meinsemd þeirra. Plástralækningar duga ekki og einungis til þess fallnar að auka vanda sjóðanna.

 

 


mbl.is Vill hækka ellilífeyrisaldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þessi "hugmynd" hans er á pari við margt annað misgáfulegt sem hann hefur látið frá sér fara í gegnum tíðina.  Og svo eru menn hissa á lítilli VIRÐINGU Alþingis.  Menn þurfa að fara að endurskoða hverjir veljast til setu þar????

Jóhann Elíasson, 16.11.2011 kl. 10:13

2 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Þú þarft að skýra fullyrðingar þínar hér betur, Gunnar.

Þú segir að lífeyrissjóðunum hafi verið illa stjórnað og fé þeirra sóað í áhættufjárfestingar fyrir hrun.  Lítum aðeins nánar á.

Hér voru starfandi margskonar fyrirtæki á fjármálamarkaði fyrir hrun. Bankar, sparisjóðir, fjárfestingarsjóðir, verðbréfasjóðir og hvað nöfnum tjáir að nefna. Svo voru hér líka lífeyrissjóðir. Hvað varð um þessi fyrirtæki? Hver standa eftir? Þau hrundu öll, bankarnir með brauki og bramli, flestir sparisjóðirnir (2 eða 3 þeir minnstu lifðu af), flest eða öll verðbréfa- og fjárfestingarfyrirtækin. Allt fór þetta á hvínandi hausinn. En, EKKI lífeyrissjóðirnir. Þeir urðu vissulega fyrir höggi, en ekki meira en svo að þeir stóðu af sér hrunið og vel það og hafa nú náð fyrri styrk. Það gerðist ekki vegna þess að þeim væri illa stjórnað, heldur þvert á móti: Um þá giltu strangar reglur um dreifingu áhættu sem farið var eftir og þeim var VEL stjórnað.

Þú segir að þeir "gambli" með fé sjóðfélaga. Held þú verðir að skýra betur hvað þú átt við þar. Eðli málsins samkvæmt fjárfesta lífeyrissjóðir. Það er óhætt að segja eina leiðin til að geyma fé og ávaxta það. Ekki aðeins fyrir lífeyrissjóði, heldur fyrir hvern sem er. Síðustu tvö ár hafa sjóðirnir í sífellt meiri mæli fjárfest í íslenskum ríkistryggðum skuldabréfum, sem nú er stærsti hluti eigna þeirra. Það eru aðallega húsnæðisbréf frá Íbúðalánasjóði, en líka önnur ríkisbréf til að fjármagna ríkissjóð. Eina "fjárfesting" lífeyrissjóðanna sem er ekki beintengd áhættu á markaði eru bankainnistæður, en þó er áhætta engu að síður bundin þeim.

Það skiptir ekki máli hver ætti að geyma og ávaxta sjóði, þetta er þeirra veruleiki, nema þú viljir fórna ávöxtuninni og geyma peningana undir koddanum eða í bankahólfi. Því fylgir hins vegar líka áhætta. 

Þegar eðlileg sjóðsstarfsemi eins og lífeyrissjóðirnir stunda með dreifðri áhættu í fjárfestingum sínum er kölluð að "gambla" þá annað hvort veit sá sem talar ekki hvað hann er að tala um eða hann reynir að fiska í gruggugu vatni. Þyrla upp moldviðri. Væntanlega í annarlegum tilgangi.

Lífeyrissjóðirnir eru almannastofnanir, í almannaeigu og starfa eingöngu fyrir eigendur sína og umbjóðendur: Sjóðfélagana, almenning í landinu.  Mér finnst satt að segja íslenskur almenningur hafa mátt þola nóg svo ekki bætist við að stöðugt sé reynt að níða með getsökum og óhróðri þessar stofnanir, sem almenningur treystir á og getur treyst á til að eiga von um eitthvað lágmarksöryggi á efri árum.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 16.11.2011 kl. 10:55

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þórhallur, hvað er Framtakssjóður Lífeyrissjóðanna að gera annað en að "GAMBLA" með fé félaga í Lífeyrissjóðunum?????? Og margt fleira mætti nefna í því sambandi.............................

Jóhann Elíasson, 16.11.2011 kl. 11:10

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ekki veit ég við hvað þú starfar Þórhallur, en ég er venjulegur launþegi sem hef greitt hluta af launum mínum í lífeyrissjóði alla mína starfstíð og vonaðist til að geta átt ánægulegt og áhyggjulaust ævikvöld af þeim tekjum sem ég yrði búinn að vinna mér rétt til.

Lífeyrissjóðirnir urðu fyrir meiriháttar tjóni við bankahrun, þó þeir hafi ekki fallið. Ástæða þess að þeir stóðu af sér það hrun var ekki stjórnkænska þeirra sem með völd sjóðanna fóru, heldur stærð sjóðanna.

Megin ástæða þess að sjóðirnir urðu fyrir tjóni var að þeir voru meira og minna flæktir inn í þau fyrirtæki sem allt settu á hausinn í landinu. Það kalla ég stjórnleysi. Stjórnir sjóðanna létu teyma sig á asnaeyrum, í stað þess að standa fastir fyrir.

Það má heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að gengið féll í kjölfar hrunsins. Það fall varð til þess að sjóðirnir stóðust áhlaupið betur, vegna innistæðna erlendis. Það hefði sennilega orðið banabiti lífeyrissjóðanna ef þeir hefðu ekki átt fé í erlendum bönkum.

Að halda því fram að sjóðirnir hafi náð fyrri styrk er auðvitað bábilja. Hugsanlega er eign þeirra orðin svipuð og fyrir þrem árum í krónum talið, en það er engan veginn sami styrkur. Ef svo væri þá væri væntanlega búið að leiðrétta aftur þær skerðingar á lífeyri sem sjóðirnir hafa staðið fyrir!

Þegar ég segi að sjóðirnir gambli enn með fé launþega er nærtækast að taka Framtakssjóðinn sem dæmi. Þar er verið að dæla fé í fyrirtæki sem sum standa sig ágætlega en önnur eiga ekki viðreysnar von.

Þú segir að ekki skipti máli hver geymi fé sjóðanna, hvernig ávöxtun þeirra er háttað. Þvílíkt bull! Auðvitað skiptir það höfuðmáli!

Lífeyrissjóðir eiga aldrei að fara í áhættufjárfestingu, þó gróðavonin sé kannski meiri. Þeir eiga eingöngu að fjárfesta í örugguri fjárfestingu. Það skapar vissulega minni gróða - til skemmri tíma - en lífeyrissjóðir eru ekki fjárfestingafyrirtæki heldur sjóður um lífeyri launafólks!

Þá segir þú að sjóðirnir séu almannastofnanir, í almannaeigu. Enn ferðu með rangt mál! Sjóðirnir eru eign launþega landsins, sem að vísu eru stór hluti almennings. En það eru launþegar sem greiða í sjóðina, ekki aðrir. Það eru sömu launþegar sem öðlast rétt til lífeyris úr sjóðunum, ekki aðrir.

Ef lífeyrissjóðunum væri svo vel stjórnað sem þú segir, hvers vegna hafa þeir þá ekki viljað að fram færi hlutlæg rannsókn á störfum þeirra, bæði fyrir og eftir hrun?

Staðreyndin er að lífeyrissjóðakerfið, í þeirri mynd sem það er nú, er gengið sér til húðar. Megin ástæðan er sú að við stofnun þeirra var fulltrúum atvinnurekenda hleypt að borðinu og þeir fengu jafn marga menn í stjórnir þeirra og launþegar. Það þarf að endurskoða eða endurbyggja lífeyriskerfið upp frá grunni.

Nýjustu reglur um hæfi stjórnarmanna eru ágætar meðan verið er að skoða hvaða leiðir eru bestar. Hvort stofna eigi einn stóran eða marga litla sjóði er ein spurningin. Hvoru tveggja hefur kosti og galla. Meðan sjóðir voru litlir og margir, áttu sjóðsfélagar tiltölulega góðann aðgang að stjórnarmönnum og gátu veitt þeim aðhald, eftir að sjóðunum fækkaði og þeir urðu stærri slitnaði það samband að fullu. Stærri sjóðir eru hins vegar öflugri þegar á bjátar. 

Ég stend við þá fullyrðingu mína að sjóðunum hafi verið illa stjórnað og ég stend við þá fullyrðingu mína að enn sé verið að gambla með fé launþega. Enda að mestu sömu stjórnarmenn í flestum lífeyrissjóðum nú og fyrir hrun!

Gunnar Heiðarsson, 16.11.2011 kl. 12:20

5 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þórhallur Birgir Jósepsson, 16.11.2011 kl. 10:55:

Lífeyrissjóðsgreiðslur í framtíðinni byggist á getu starfandi einstaklinga í framtíðinni til þess að greiða í sjóðina sem og skatta. Svo ríkið geti greitt lífeyrissjóðum bréfin til baka þá þurfa að vera til staðar nægar skatttekjur. Svo Íbúðalánasjóður geti greitt til baka þá þurfa að vera til einstaklingar sem geta borgað af húsnæðislánum. Þessu öllu er verið að rústa með aðgerðum/aðgerðarleysi gagnvart venjulegu vinnandi fólki í þessu landi.

Hvort sem menn vilja horfast í augu við staðreyndir eða ekki þá eru sjóðirnir ekki liggjandi á verðmætum gullbirgðum eða olíuauðlindum. Það hefur verið dælt peningum úr þeim í óraunhæfar áhættufjárfestingar í gegnum tíðina og það er ennþá verið að nýta peningana í óraunhæf verkefni - ekki í þágu eigenda þeirra. Það er hægt að nefna mörg dæmi. Bíðum eftir rannsóknarskýrslu Landssamtaka lífeyrissjóða sem verður lokið um næstu áramóti áður en við förum að telja slíkt upp.

Það sem Pétur Blöndal bendir á er að leyfa fólki að vinna áfram ef það vill það og getur það. Í dag er bannað að vinna eftir ákveðinn aldur. Ríkissjóður ræður ekki við að borga þann lífeyri sem er framundan. Almenningur getur ekki borgað hærri skatta. Lífeyrissjóðir einkageirans eru háðir greiðslugetu ríkisins (skattgreiðenda) og Íbúðalánasjóðs (íbúðarkaupenda). Hér er verið að tala mörg ár fram í tímann (hver verður staðan eftir fimm ár? Tíu ár?).

Þó "sveigjanleiki" krónunnar og pólitískur feluleikur hafi náð að blekkja stóran hluta almennings þá eru afleiðingar hrunsins að koma hægt og rólega í ljós þessi og næstu misseri.

Sumarliði Einar Daðason, 16.11.2011 kl. 12:47

6 identicon

Hmmm ... Hvað er að því að fólk fái að vinna lengur?  Í dag hefjast eftirlaunin við 67 ára og meðalæfin rúm 80 ár.  Á maður að drepast úr leiðindum í 15 ár, jafnvel lengur?

Jóhannes (IP-tala skráð) 16.11.2011 kl. 14:04

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er ekkert að því að vinna lengur, Jóhannes. Í dag hefst ellilífeyrirsréttur við 67 ára aldur en hægt er í flestum tilfellum að fá að vinna til 70 ára aldurs. Það eru helst fyrirtæki sem eru í hættuiegri framleiðslu sem ekki heimila slíkt.

Sá sem er orðinn 67 ára hefur skilað vinnuframlagi í 40 til 50 ár. Það er alveg ágætis starfsaldur. Ef menn eru ernir eiga þeir að undirbúa sig vel fyrir starfslok sín og finna sér eitthvað til dundurs, eitthvað sem hugurinn girnist.

Hitt væri svo einnig hægt að hugsa sér að lengja það bil sem fólk hefur til að hætta störfum, t.d. í tíu ára tímabil. Þá á sú lenging að koma í báða enda, frá td. 63 ára aldri til 73 ára.

Þá ætti í tengslum við slíka endurskoðun að taka inn í dæmið vinnuskipan. Þeir sem alla sína starfsævi eða stóran hlut hennar, vinna vaktavinnu þyrftu að geta lokið sinni starfsævi fyrr en þeir sem vinna dagvinnu.

Gunnar Heiðarsson, 16.11.2011 kl. 14:28

8 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Nokkrar viðbótarathugasemdir, Gunnar, í tilefni af viðbót þinni.

Þú segir:  "Lífeyrissjóðirnir urðu fyrir meiriháttar tjóni við bankahrun, ... " Tjón þeirra í heild var um 20% af eignum. Að mestu vegna hlutabréfa í bönkunum sem urðu verðlaus.

 Þú segir: "Megin ástæða þess að sjóðirnir urðu fyrir tjóni var að þeir voru meira og minna flæktir inn í þau fyrirtæki sem allt settu á hausinn í landinu. Það kalla ég stjórnleysi. Stjórnir sjóðanna létu teyma sig á asnaeyrum, í stað þess að standa fastir fyrir." Þetta er einfaldlega rangt. Ef þú hefur betri upplýsingar væri gott þú upplýstir um þær.

 Þú segir: "Það má heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að gengið féll í kjölfar hrunsins. Það fall varð til þess að sjóðirnir stóðust áhlaupið betur, vegna innistæðna erlendis. Það hefði sennilega orðið banabiti lífeyrissjóðanna ef þeir hefðu ekki átt fé í erlendum bönkum." Gengisfall hafði áhrif á stöðu sjóðanna í krónum, en skipti ekki sköpum um það hvort þeir stóðu eða féllu. Það er rangt að erlendar eignir lífeyrissjóðanna séu innistæður í erlendum bönkum, þetta eru hlutabréf.

Það rétt hjá þér að deila má um hvort þeir hafi náð fyrri styrk, en hitt er rangt hjá þér að þeir hafi "staðið fyrir" skerðingu á lífeyri.  Skerðing, í þeim tilvikum sem hún var gerð, var viðbrögð við áfalli hrunsins og skylt að lögum að gera hana, enda ekki eðlilegt að núverandi lífeyrisþegar nytu lífeyris umfram getu sjóðanna, þá á kostnað komandi kynslóða. Ekki má heldur gleyma í þessu samhengi að flestir sjóðirnir höfðu áður hækkað lífeyrisréttindi meira en nemur skerðingunni, vegna góðrar afkomu.

 Þú segir: "Þegar ég segi að sjóðirnir gambli enn með fé launþega er nærtækast að taka Framtakssjóðinn sem dæmi. Þar er verið að dæla fé í fyrirtæki sem sum standa sig ágætlega en önnur eiga ekki viðreysnar von." Þetta er rangt. Framtakssjóðurinn dælir ekki peningum í fyrirtæki, engin dæmi eru um það.

 Þú segir: "Lífeyrissjóðir eiga aldrei að fara í áhættufjárfestingu,... " Þetta er alveg rétt. Ef ég skil þig rétt ertu að tala um áhættufjárfestingar þar sem áhættan er mikil, getur orðið mikill hagnaður, en talsverð hætta á tapi. Slíka starfsemi stunda vogunarsjóðir, ég veit ekki til að lífeyrissjóðirnir hér á landi stundi slíkar fjárfestingar.

Já, ég segi að lífeyrissjóðirnir séu almannastofnanir vegna þess að öllum, sem hafa einhverjar tekjur, er að lögum skylt að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð, ekki bara launþegum, heldur líka atvinnurekendum og sjálfstætt starfandi fólki. Í tilviki hvers og eins sjóðs er einhver fjöldi sjóðfélaga virkur, þ.e. greiðir reglulega iðgjöld. Annar hópur greiðir hluta ársins, enn annar hópur hefur einhvern tíma greitt í sjóðinn. Stjórnendur sjóðsins eiga varla kost á (þótt það sé fræðilega etv mögulegt) að vita nákvæmlega fyrir hverja þeir starfa, þ.e. fyrir hvaða einstaklinga, heldur að þeir vinna fyrir breytilegan hóp af fólki úr ýmsum áttum. Í tilviki hvers sjóðs fyrir sig hefur sá hópur vaxið og stækkað um leið og sjóðir hafa sameinast og þeim fækkað. Allur almenningur á Íslandi, sem kominn er á vinnualdur og hefur einhverjar tekjur er í lífeyrissjóði og því eðlilegt að skilgreina þá sem almannastofnanir og gera kröfur til þeirra í samræmi við það.

 Þú segir: "Ef lífeyrissjóðunum væri svo vel stjórnað sem þú segir, hvers vegna hafa þeir þá ekki viljað að fram færi hlutlæg rannsókn á störfum þeirra, bæði fyrir og eftir hrun?" Það er rangt að lífeyrissjóðirnir hafi ekki viljað að fram færi hlutlæg rannsókn á störfum þeirra. Þegar ljóst var að enginn utanaðkomandi gerði sig líklegan til að rannsaka þetta, leituðu þeir til Ríkissáttasemjara og báðu hann um að finna menn í slíka rannsóknarnefnd. Sátti hafði algjört sjálfdæmi um það, skipaði rannsókknarnefnd undir forystu Hrafns Bragasonar, hæstaréttardómara á eftirlaunum. Hrafn hefur stýrt þeirri vinnu og lífeyrissjóðirnir ekki haft af henni önnur afskipti en að svara spurningum hans og borga reikninga frá nefndinni. Búist er við skýrslu nefndarinnar eftir áramótin.

 Að lokum hvet ég þig, Gunnar, til að kynna þér betur málefni lífeyrissjóðanna og staðreyndir um þá, miklar upplýsingar eru fyrirliggjandi á heimasíðum þeirra, vefföngin eru aðgengileg á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, www.ll.is 

P.S.: Þú veltir fyrir þér Gunnar hvað ég starfa. Eins og þú er ég launþegi, hef alla mína tíð verið launþegi og starfað hjá ríkinu og hjá einkafyrirtækjum, nú starfa ég hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og hef gert um það bil ár og ég verð að viðurkenna að mér sárnar dálítið að verða æ ofan í æ vitni að því að menn tjá sig um málefni lífeyrissjóðanna af annars vegar hreinum illvilja að því er virðist og hins vegar mikilli vanþekkingu (sem kannski er orsök illviljans?). Með kv. ÞJ

Þórhallur Birgir Jósepsson, 16.11.2011 kl. 15:48

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ekki ætlaði ég að særa þig Þórhallur, né nokkurn annan. Viðbrögð þín eru dálítið yfirdrifin og tæplega að þú trúir öllu sem þú segir.

Trúir þú í einlægni að það sá sem stendur að eigin skoðun á meintu misferli, fái út aðra niðurstöðu en að allt hafa verið í lagi? Þessi svokallaða rannsókn sem þú talar um er að beiðni sjóðanna og getur því ekki verið hafin yfir vafa. Ég er þó ekki að kasta rýrð á Hrafn Bragason með þessum ummælum, enda þekki ég hann ekkert og vil trúa því að hann vinni heiðarlega. Þú gefur í skyn að til hennar hafi verið stofnað vegna þess að enginn annar hafi farið fram á slíka rannsókn. Segðu annan betri! Skemmst er að minnast umræðunni um þessi mál fyrir nokkrum mánuðum síðan, reyndar áður en þú fórst að vinna hjá lífeyrissjóði

20% tap í lífeyrissjóð hlýtur að teljast meiriháttar tjón og þú staðfestir það sem ég sagði að það hefði verið vegna þess að sjóðirnir voru meira og minna í tengslum við þau fyrirtæki sem settu hér landið á hausinn, gömlu bönkunum!

Skerðing lífeyrisréttinda varð vegna taps sjóðanna, ef þú vilt kalla það einhverju orði annað en ég, er það allt í lagi.

Hvernig eignaðist Framtaksjóðurinn öll þau fyrirtæki sem hann er skrifaður fyrir? Voru þau ekki keypt? Er það ekki að sóa fé sjóðanna þegar fyrirtæki sem ekki á sér viðreysnar von er keypt á yfirverði? Hver er tilgangurinn fyrir sjóðina að eiga slík fyrirtæki?

Almannastofnun er sú stofnun sem annað hvort er rekin af almannafé og þá væntanlega á fjárlögum ríkisins, eða stofnun sem er opin öllum óháð starfi eða öðru, stofnun sem hver og einn ákveður sjálfur hvort hann er í eða ekki. Lífeyrissjóður er hins vegar sjóður sem launþegar, hverju nafni sem þeir nefnast, eru skuldbundnir til að greiða hlutfall af sínum launum í, hvort sem þeir kæra sig um eða ekki. Því getur lífeyrissjóður aldrei orðið almannastofnun. Það er leitt að þú sem starfsmaður lífeyrissjóðs skulir ekki gera greinarmun þarna á milli.

Trúðu mér Þórhallur, ég hef fylgst vel með starfi lífeyrissjóðanna í áratugi, að vísu mest þeim sjóðum sem ég greiði í hverju sinni. Meðan sjóðirnir voru smærri og aðgengi að stjórnum þeirra betra var sú fylgni hjá mér beint við stjórnir þeirra. Nú verður maður að láta sér duga að skoða vefsíðurnar, sem eru svo sem ágætar en þó verulega takmarkaðar.

Illvilji er ekki af minni hálfu til lífeyrissjóðanna, né nokkurs annars. Um kunnáttu er endalaust hægt að deila. En með þessum orðum þínum settir þú þig niður á það plan sem ég vil ekki vera á og því eru þetta síðustu orð mín til þín, Þórhallur Birgir Jósepsson, starfsmaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Gunnar Heiðarsson, 16.11.2011 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband