Það verður ekki lengra haldið

Það er vissulega erfið vika framundan hjá ráðamönnum evruríkjanna. Þó er vart hægt að gera ráð fyrir því að ein vika dugi, nema ef sú eina rökrétta ákvörðun verður tekin, að leggja niður evru og taka upp fyrri gjaldmiðla. Þá ákvörðun er hægt að taka á einni viku, en evrunni verður ekki bjargað á þeim tíma.

Efnahagur þriggja evruríkja er hruninn, tvö hanga á bláþræði, reyndar talin hrunin einnig, önnur þrjú eru talin mjög tæp, þrjú njóta enn mikilli styrkja frá ESB vegna þess hversu stutt er síðan þau gengu inn og ljóst að þegar þeim styrkjum sleppir muni alvaran blasa við þeim, eitt vill út, tvö eru agnarsmá eyríki sem lítils mega sín í þeim ofurháu upphæðum sem þarf til.

Eftir standa þrjú evruríki sem eru í þokkalegum málum. Vart er hægt að ætlast til að þau taki á sig þetta klúður allt saman, enda jafnvel þó Þýskalnda sé eitt þeirra, er engin geta hjá þessum þrem ríkjum til að halda uppi 17 ríkjum Evrópu. Það er kvorki framkvæmanlegt né skynsamlegt að reyna slíkt.

Evrusamstarfið er mislukkuð tilraun. Það sjá allir sem vilja sjá. Upphaflega hugmyndin var svo sem göfug, að einfalda viðskipti milli landa, en skrefið var ekki stigið nema til hálfs. Sá sem stendur á öðrum fæti lengi hlýtur að detta á endanum.

Ef einn gjaldmiðill á að vera fyrir eitt svæði verður einnig að sameina efnahagsstjórnina yfir það sama svæði. Þá og einungis þá stendur gjaldmiðillinn í báða fætur og getur orðið sterkur, ef rétt er á málum haldið.

En ráðamenn ESB vissu að slík breyting hefði aldrei verið samþykkt af fólkinu sem byggir lönd Evrópu. Því var einungis farið hálfa leið, það var auðveldara að selja íbúum Evrópu einn gjaldmiðil en eitt stórríki. Fyrir þessi mistök ráðamanna ESB eru íbúar 17 ríkja þess nú að gjalda fyrir og óvíst hver endanlegur reikningurinn verður. Það sem verra er, er að þetta mun einnig bitna á öðrum þjóðum utan evruríkjanna og ESB. Ísland mun vissulega verða fyrir barðinu á þessari óstjórn, þó við eigum enga aðild að henni.

Þó er sorglegast að lesa að svo virðist sem ráðamenn ESB og evruríkjanna 17 horfi einungis rétt fram fyrir tær sér. Þeir einblýna á vanda Grikklands, sem vissulega er stór, en virðast ekkert horfa til framtíðar. Vandi Grikkja er einungis toppurinn á ísjakanum.  Allar lækningar hingað til eru einungis til skamms tíma og með þeim hætti að vandinn verður margfallt stærri eftir nokkra mánuði.

Hvernig á t.d. Grikkland að komast út úr sínum vanda þegar eina hjálpin sem þeir fá eru einungis fjármunir til að greiða gjaldfallnar skuldir og gjaldið fyrir þá "hjálp" er að grunnstoðir þjóðarinnar verði rifnar undan henni. Það þarf hvorki hagfræðing né stærðfræðing til að sjá að slík hjálp er til lítils. Vandinn skítur upp hausnum jafn harðan aftur, bara töluvert meiri en áður. Því miður var þessari aðferð einnig beitt til "hjálpar" Írum og Portugölum.

Ítalía og Spánn eru einnig farnir að grafa undan sínum grunnstoðum, þó þeir hafi ekki enn þurft að fá "aðstoð". Það er ekki spurning hvort þau þurfi slíka aðstöð, spurningin er einungis hversu lengi geta þau tórað án hennar. Ráðamenn á Ítalíu og Spáni vita sem er að þegar sá dagur rennur upp að þeir verði að fá "aðstoð" frá ESB, er orustan töpuð. Því er allt gert til að tefja fyrir þeirri hjálp, þó þessir menn viti að hið óhjákvæmilega muni hitta þá fyrir.

Þessi vika verður ráðamönnum ESB og evruríkjanna vissulega erfið. Þeir hafa í raun um tvo kosti að velja og báða slæma. Þeir gætu ákveðið að leggja niður evruna eða að sameina efnahagsstjórn ríkjanna 17 undir einn hatt.

Ef þeir ákveða að leggja niður evruna mun það valda miklum óróa með tilheyrandi kreppu. Sú kreppa mun þó væntanlega jafna sig á tiltölulega stuttum tíma. Þessi lausn er langt því frá sársaukalaus og mun bíta fast.

Ef, hins vegar, þeir ákveða að sameina hagstjórn ríkjanna 17 undir einum hatti, mun verða alger upplausn innan þessara ríkja. Fólkið mun ekki samþykkja stofnun Stórríkis Evrópu þegjandi og hljóðalaust. Íbúar þessara þjóða mun ekki sætta sig við að lönd þeirra verði gerð að héruðum í því stórríki. Það má vera að alþjóða fjármálamarkaðir verði eitthvað rórri ef slík ákvörðun verður tekin, en það verður þá einungis í mjög skamman tíma. Þegar allt verður logandi í óeirðum og jafnvel komið styrjaldarástand í þessum löndum, munu það sjónarmið fljótt breytast.

Sennilegra er þó að hvorugur þessara kosta verði valinn. Vikan fer í karp og vitleysu og niðurstaðan væntanlega einhver enn ein smáskammtalækningin, svo hægt verði að fresta vandanum örlítið, kannski einn mánuð eða svo. Ekki er að sjá að þeir sem með völdin fara, sérstaklega Merkel og Van Rompuy hafi skynsemi, kjark eða vilja til að taka á málinu af alvöru!

Því miður!!

 


mbl.is Erfið vika framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband