Hver blekkti hvern ?

Í vikulegum pistli sínum í Baugsblaðinu heldur Þorsteinn Pálsson áfram ESB áróðri. Nú, sem oft áður, ræðst hann að þingmönnum og ráðherrum VG. Því fólki sem þó gerði fært að leggja inn umsókn, í andstöðu við þjóðin og þá sérstaklega sína kjósendur.

Fyrir síðustu kosningar var VG eini stjórnmálaflokkurinn sem hafði algera andstöðu við umsókn, Samfylkingin var eini flokkurinn með skilyrðislausa aðild á sinni stefnuskrá og aðrir flokkar vissu ekki í hvorn fótinn átti að stíga.

Það er ljóst að ekki var meirihluti fyrir aðildarumsókn á þingi, NEMA hluti þingmanna VG svikju sína kjósendur. Því væri nær fyrir aðildarsinna að þakka þeim í stað þess að skamma!

Þorsteinn talar um að mikið fylgi sé innan annara flokka við það ferli sem við erum í, ekki veit ég hvar hann leitar sér upplýsinga, þetta fer alla vega ekki saman við þær fréttir sem fjölmiðlar flytja og eru þeir nú frekar á því að gera betur úr hlutunum gagnvart ESB aðlögunarferlinu. Þetta er einnig í algerri andstöðu við þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið meðal þjóðarinnar, en okkur hefur verið sagt að við fáum að hafa síðasta orðið. Er kannski verið að draga það til baka?

Þorsteinn ætti að skoða samþykktir eigin flokks um þetta mál, þá kemst hann að því að sá flokkur er andstæður þessu ferli, þó nokkrir þingmenn séu því hlynntir. Framsóknarflokkur hefur tekið afgerandi afstöðu gegn aðild. VG var og er reyndar enn með í sinni stefnuskrá að Ísland skuli vera utan ESB, þó sumir þingmenn þess flokks hafi ákveðið að samþykkja umsókn til að komast í ríkisstjórn.

Það er því staðreynd að þrír af fjórum svokallaðs fjórflokks er á móti aðlögun, sama hvað þingmenn þessara flokka segja eða gera. Einungis einn er samþykkur aðild og er reyndar tilbúinn að fórna því sem þarf að fórna því máli til framgangs!

Það er einnig staðreynd að stór meirihluti þjóðarinnar er andvígur ESB aðlöguninni.

Þessum staðreyndum kemst Þorsteinn ekki framhjá og því er ráðist á þá sem eiga sök á, eða í hans huga heiður af, að því að umsókn var lögð fram. Hann ræðst á þá sem gerðu það að verkum að hann er nú launaður af Íslenska ríkinu við að "semja" um það sem ekki er hægt að semja um!

Þorsteinn Pálsson segir að Samfylkingin hafi látið VG blekkja sig með því að hægt væri að klára umsóknina án þess að báðir stjórnarflokkar stæðu að henni. Þvílíkt bull! Hver blekkti hvern? Samfylkingin og þeir sem harðast börðust fyrir aðild blekktu þingheim og reyndar þjóðina líka með því að halda því fram hægt væri að "kíkja í pokann", gera samning til að sjá hvað væri í boði! Þeir sem til þekktu þá vissu að þetta er ekki hægt og nú hefur þjóðin fengið þetta marg oft staðfest.

Aðildarumsókn felst fyrst og fremst í aðlögun að regluverki ESB, enda sækir engin þjóð um aðild nema fullur vilji sé fyrir hendi. Allt stjórnkerfið verður að vera búið að aðlaga sig að stjórnkerfi ESB áður en til aðildar getur komið. Minnsti hluti aðildarumsóknar felst í samningaviðræðum, enda ekkert um að semja. Þær þjóðir sem vilja ganga inn í ESB verða að sjálfsögðu að aðlaga sig að því, ekki öfugt. Hugsanlega er hægt að gera einhverja samninga um undanþágur, en þá einungis til ákveðins tíma og málefni sem litlu máli skipta.

Þetta veit Þorsteinn, eða við skulum alla vega vona það, annars er hann ekki starfi sínu í samninganefnd Íslands vaxinn. Þá er hann eins og hver annar aumur bloggari sem ekkert mark er takandi á!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband