"Verum raunsæ og segjum satt"

Þetta er fyrirsögn greinar sem Gylfi Arnbjörnsson ritaði í Fréttablaðið. Það hefði betur farið hjá Gylfa ef hann hefði nú haft þessa fyrirsögn sína að leiðarljósi, þegar hann ritaði greinina.

Í þessari grein fer Gylfi yfir þá óánægju sem ríkisstarfsmenn hafa sýnt, vegna afskipta hans af lífeyrisréttindum þeirra. Gylfi Arnbjörnsson er forseti ASÍ og sem slíkur ætti hann að vita að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna er hluti af launakjörum þeirra. Það eitt hefði átt að segja honum að vera ekki að krukka í þeirra kjör.

Það er nokkuð ljóst að það misræmi í lifeyrisréttindum milli þeirra sem annars vegar þiggja laun af ríkinu og hins vegar þeirra sem eru á almennum kjarasamningum er ekki réttlátt. Um það deilir enginn, ekki einu sinni starfsmenn ríkisins. En það er fleira sem þarna spilar inn í. Kjör ríkisstarfsmanna eru yfirleitt frekar rýr og þeir sem starfa þar geta í flestum tilfellum fengið betri laun á almennum vinnumarkaði við sambærileg störf, þar sem þau á annað borð eru til. Að ekki sé minnst á hvað laun þessa fólks eru lægri en sambærileg störf erlendis. Því má með fullum sanni segja að laun þessa fólks væru hærri ef lifeyristrygging þeirra væri sú sama og á almennum markaði.

Gylfi gerir að umtalsefni þá staðreynd að ríki og sveitafélög séu nú ábyrg fyrir 500 miljarða halla lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna. Hann nefnir hins vegar ekkert hvers vegna þessi halli er til kominn. Er það vegna þess að fé sjóðsins hefur verið illa ávaxtað? Eða er það kannski vegna þess að ríkið hefur verið að nota þessa peninga í annað? Hann tekur heldur ekkert tillit til lægri launa ríkisstarfsmann. Þetta er aumur málflutningur og ekki manni eins og Gylfa Arnbjörnssyni samboðinn.

Gylfi rökstyður meðal annars mál sitt með því að ríkisábyrgð er í raun ábyrgð á launþegum og því sé málið honum skyllt, hann sé að hugsa um sina umbjóðendur. Það væri þá eitthvað nýtt ef Gylfi er loks farinn að hugsa um sína umbjóðendur. En eru ríkisstarfsmenn ekki líka launþegar, er þessi ábyrgð ekki einnig á þeim? Gylfi hugsar ekki mikið um sína umbjóðendur þegar hann vill ólmur að ríkið taki á sig skuldbindingu sem hæglega gæti farið yfir þessa tölu sem lífeyrisskuldbindingin er. Hann er ekki að hugsa um hag umbjóðenda sinna þegar hann talar máli ESB innlimunarinnar, þó öll verkalýðsfélög Evrópu segji að ekkert verra hafi komið fyrir þau en ESB. Viðvarandi mikið atvinnuleysi og léleg launakjör verkafólks. 

Allur launakostnaður ríkis og bæja er á ábyrgð ríkis og bæja. Tekjur hafa þau svo meðal annars af sköttum sem þau innheimta. Því er launafólk ábyrgt sem og fyrirtæki, fjármagnseigendur og allir þeir sem þurfa að skila sköttum og gjöldum til ríkis og bæja. Þar eru launþegar innan ASÍ ekkert með meiri ábyrgð en aðrir launþegar eða skattgreiðendur.

Þá má ekki gleyma þeim farsa sem í gangi er í kjarasamningum núna. Það gamanleikrit er að snúast upp í harmleik, harmleik sem gæti kostað þjóðina mun meiri fjárhæðir en við höfum efni á. Allt vegna þess að Gylfi ákvað að taka sér stöðu með vini sínum Vilhjálmi Egilssyni gegn launafólkinu í landinu. Þessi leikur Gylfa er að setja allt í verkföll í landinu, fólk lætur ekki bjóða sér ölmusu, þegar yfirstéttin, vinir Gylfa, eru að taka sér miljónir í launahækkanir.

Gylfi Arnbjörnsson var skipaður í nefnd af hálfu þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, vorið 2008, sem átti að skoða það að taka verðtrygginguna úr sambandi. Það tók þessa nefnd ekki nema eina viku að komast að því að það væri ekki hægt, fjármagnseigendur gætu tapað á því. Ekki var forseti ASÍ þá með hugann við sína umbjóðendur!

Það er aumt af Gylfa Arnbjörnssyni að ráðast á hluta launþega landsins með þeim hætti sem hann gerir nú. Sérstaklega vegna þess að hann hefur ekkert umboð frá þessum launþegum. Ástæðan skildi þó ekki vera sú að hann sé búinn að svíkja sína umbjóðendur svo mikið að ekki verði lengra komist og því best að ráðast á næsta hóp?

Það hefur engum verið til uppdráttar að reyna að upphefja sjálfan sig á kostnað annara. Það gera einungis þeir sem hafa ekki mannkosti til að upphefja sig á eigin verðleikum.

Það er löngu séð að Gylfi hefur ekki manndóm eða vilja til að standa með sínum umbjóðendum, því á hann að draga sig í hlé og hleypa öðrum að. Ef hann tæki fyrirsögn greinar sinnar, "verum raunsæ og segjum satt", alvarlega væri hann þegar búinn að segja sig úr stól forseta ASÍ.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband