Hver er raunverulegur vilji þjóðarinnar ?

Umræðan um stjórnlagaþingi í framhaldi af niðurstöðu hæstaréttar hefur verið nokkuð undarleg í dag. Sumir stjórnarliðar, þó ekki allir sem betur fer, hafa tekið undir hróp Jóhönnu um að íhaldið vilji ekki breytingar á stjórnarskrá af hræðslu við að auðlindirnar verði teknar af einhverjum hópum. Fréttastofa RUV hefur verið dugleg til hjálpar í þessum málflutningi. 

Þessi rök falla náttúrulega um sjálf sig, þar sem sá sem þau hrópaði vinnur hörðum höndum að því að koma öllum auðlindum úr eigu þjóðarinnar yfir í umsjón ESB. Eftir að þangað er komið skiptir litlu máli hver er skráður eigandi auðlindanna, eða yfirleitt nokkurra eigna hér á landi. Okkur verður stjórnað frá Brussel.

Auðvitað vita allir sem vilja vita að ákafi Jóhönnu til breytinga á stjórnarskrá hefur einungis einn tilgang, að fá breytingu á henni til að hægt verði að afsala öllum völdum yfir til ESB, án aðkomu þjóðarinnar! Þetta er eina atriðið sem hún leggur áherslu á, enda lítið gagn af stjórnarskrá fyrir land og þjóð eftir að við höfum undirgengist þau samtök. Þá verðum við að sitja og standa eftir þeirra höfði, hvað sem einhver Íslensk stjórnarskrá segir! Þetta kom einnig skýrt fram í málflutningi Þorvaldar Gylfasonar, fulltrúa Jóhönnu innan fyrirhugaðs stjórnlagaþings, þegar hann sagði að best væri að semja "bráðabirgðastjórnarskrá". Í hugum Samfylkingarfólks er það alveg nóg, ef afsalskrafan kemur inn!

Hróp Jóhönnu um hræðslu íhaldsins lýsti best hennar eigin hræðslu!

Þá hafa þeir sem vilja stjónlagaþing haldið fram þeirri fásinnu að alþingi eigi að setja lög um að skipaður verði 25 manna hópur, sá hinn sami og var kosinn ólögmætri kosningu, til setu á stjórnlagaþingi. Þvílík fjarstæða! Kosningin var ólögmæt og því verður að kjósa aftur ef vilji manna er til þess að halda áfram þessu rugli. Hellstu rök þeirra sem vilja fara þessa leið eru að ef kosið verður aftur mun kosningin jafnvel verða enn verr sótt en sú fyrri, sem var þó í sögulegu lágmarki. Hvað segir það okkur? Minni kosningaþáttaka hlýtur að þíða minni vilji fyrir stjórnlagaþingi! Einfaldara getur það varla verið! Raunveruleg andstaða við nýjar kosningar eru þó þær að hugsanlega gætu einhverjir vilhallir stjórninni fallið út og aðrir ekki eins leiðitamir komið í staðinn!

Nú hefur það komið fram að þau atriði sem hæstiréttur setti út á eru samhljóða því sem eftirlitsstofnun ÖSE leggur áherslu á að séu virt í kosningum. Það merkilega var þó að þetta kom fram í speglinum á RUV!! Sú stofnun hefur þó verið dugleg að halda uppi áróðri stjórnarinnar í þessu máli í dag og verið trú sinni stefnu. Vonandi fá umsjónarmenn spegilsins þó ekki ákúrur eða uppsagnarbréf fyrir þessa frétt. Til marks um áróður RUV, var á fyrsta korteri morgunútvarps fréttastofu í morgun, frá korteri í sjö til sjö, tvisvar fluttur valinn kafli úr snánarræðu Jóhönnu frá því á þingi í gær og gátu fréttamennirnir varla dulið aðdáun sína yfir "ræðusnild" hennar.

Þær fullyrðingar að íhaldið vilji ekki neinar breytingar á stjórnarskrá eru ekki réttar. Stjórnarskráin á að vera í stöðugri endurskoðun. Vissulega er okkar stjórnarskrá orðin gömul og margt sem þarf að skoða í henni, en hún hefur þó dugað okkur vel til þessa. Það sem deilt er um er fyrst og fremst hvaða aðferð eigi að nota við endurskoðun hennar, hvort fara eigi eftir ákvæðum hennar um hvernig það skuli gert eða hvort nota eigi einhverja aðra aðferð. Fyrir krata er náttúrulega forstýrt lýðræði heppileg aðferð. Það var þó vilji Jóhönnu í upphafi að þetta forstýrða lýðræði fengi vald til að gera bindandi breytingar á stjórnarskránni en hún varð að bakka með það, núverndai stjórnarskrá er nefnilega í gildi þar til önnur hefur tekið við!

Hvort stjórnarskrá þjóða sé góð eða ekki skiptir ekki mestu máli, heldur hvort ríkjandi stjórnvöld hlýti henni eða ekki. Hér á landi hefur nokkrum sinnum komið upp sú staða að stjórnvöld hafa farið á svig við stjórnarskrá. Þetta hefur gerst nokkrum sinnum frá stofnun lýðveldisins, en þó hefur þetta aldrei verið eins slæmt og hjá núverandi ríkisstjórn. Ekki einungis hefur hún farið á svig við stjórnarskrána heldur beinlínis brotið hana nokkrum sinnum! Þetta er alvarlegt mál. Þó ný stjórnarskrá verði samin og samþykkt, er engin ástæða til að ætla að núverandi stjórn færi frekar eftir henni! 

Í þessu sambandi er kannski rétt að benda á að einhver sú allra besta stjórnarskrá sem samin hefur verið í heiminum, var stjórnarskrá Sovésku ráðstjórnarríkjanna. Vandamálið var þó að stjórnvöld í Sovét fóru bara alls ekki eftir henni á neinn hátt!

Mikið hefur verið rætt um vilja þjóðarinnar í þessu máli öllu. Þó hefur aldrei farið fram kosning um þennan meinta vilja. Eina vísbendingin sem við höfum er kosningin sjálf til stjórnlagaþings. Vissulega spila fleiri atriði inn í þá kosningu og fráleitt að halda fram að einungis þeir sem höfðu áhuga fyrir að stjórnlagaþing kæmi saman hefðu kosið, vissulega kusu einhverjir einnig sem mótfallnir voru þessari aðferð. Þó verður að áætla að lang flestir þeirra sem áhugann höfðu fyrir stjórnlagaþingi, hafi kosið. Því verður varla annað ályktað en að að minnsta kosti tveir þriðju þjóðarinnar sé á móti stjórnlagaþingi. Jóhanna hrópaði að farið skyldi að vilja þjóðarinnar. Húnn ætti þá að gera það og fella málið niður. Að öðrum kosti gæti hún efnt til kosninga um hvort sá vilji sé til staðar eða ekki!!

Auðvitað gerir Jóhanna það ekki, hún vill ekki að í ljós komi að um eða yfir tveir þriðju kjósenda séu íhaldsmenn, samkvæmt hennar skilgreinigu!!

 


mbl.is Skapa þarf vissu um framhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband