Enn ráðast stjórn völd á landsbyggðarfólkið

Það er ótrúleg árátta hjá stjórnvöldum að ráðast alltaf á fólkið á landsbyggðinni.

Niðurskurður til heilbrigðismála kippir grundvelli undan byggð á stórum svæðum, risavaxnir eldsneytisskattar gera fólki örðugt um vik að sækja vinnu og nauðsynlega þjónustu og nú skal skattleggja innflutning á bílum með þeim hætti að nánast útilokað verður fyrir landsbyggðarfólkið að endurnýja sína bíla.

Hvað er lúxus? Er það lúxus að komast til læknis? Er það lúxus að geta stundað vinnu? Innan 101 R.vík er ekki nauðsynlegt að eiga jeppa, raunar er auðvelt að vera bíllaus á því svæði. Annað mál er fyrir það fólk sem þarf yfir fjallvegi að fara um hávetur, til að komast til læknis, til að ná sér í nauðsynjar og jafnvel til að stunda sína vinnu. Það er ekki lúxus að eiga jeppa á þeim stöðum sem snjóruðningtæki eru einungis sett í gang þegar ófærð er orðin svo mikil að útilokað er að komast á milli staða. Það er ekki lúxus að eiga jeppa þar sem saltpækill er framandi og óþekkt hugtak til umferðaröryggis! Enda sá mjöður notaður til verðmætasköpunar á landsbyggðinni!

Þessi skattbreyting mun lenda fyrst og fremst á landsbyggðinni. Íbúar í Reykjavíkurhreppi geta auðveldlega komist hjá honum, ekki fólkið út á landi. Þar að auki mun þetta leiða til þess að innflutningur jeppa mun nánast falla niður og því mun markaðsvirði notaðra bíla hækka verulega. Að lokum verða engir nothæfir jeppar til í landinu og landsbyggðarfólkin gert að lepja dauðann úr skel.

Sú stefna stjórnvalda að ráðast eilíft á landsbyggðarfólk sýnir og sannar að frekari breytingar á kjördæmaskipan eru ekki raunhæfar. Þær hugmyndir að gera landið að einu kjördæmi munu auka mismunun enn meira.

Þeir landsbyggðarþingmenn sem nú eru á þingi og sóttu marga fundi vítt og breitt um landið, nú í haust, þegar fjárlagafrumvarpinu var sem mest mótmælt, hefðu að líkindum ekki nennt að mæta ef landið væri eitt kjördæmi. Ljóst er að stjórnarþingmenn, eins og Ólína Þorvarðardóttir hefði ekki staði upp á fundi einhverstaðar úti á landi og mótmælt fjárlagafrumvarpi eigin stjórnvalda ef eitt kjördæmi væri við lýði.

Því ætti stefnan frekar að vera í hina áttina, því lengra sem kjósandinn er frá stjórnvaldinu í Reykjavíkurhrepp, því meira vægi er atkvæði hans. Ekki vil ég þó gerast svo róttækur að ætlast til þess að Reykvíkingar verði án þingmanna, þó það þekkist sumstaðar í hinum vestræna heimi að höfuðborgin sé án þingmanna.

 


mbl.is Vörugjaldsbreyting eykur verðmuninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bölvað rugl er þetta. Einkabílisminn á Íslandi gengur út í hreinar öfgar, enda erum við mestu umhverfissóðar í veröldinni. Þetta landsbyggðarjarm út af öllum hlutum er líka að verða óþolandi. Ef fólk vill endilega grafa sig lifandi á þessum krummaskuðum, hvað sem þau nú heita, þá á það að borga reikninginn fyrir það sjálft. Við höfum engin ráð á því að borga allan þann kostnað úr sameiginlegum sjóðum sem af þessu rugli leiðir.

Beneventum (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 12:43

2 identicon

En „lattelepjandi“ liðið í 101 þarf að greiða tvö- til þrefalt hærra fasteigna- og leiguverð. Hvernig viltu jafna það?

Það er vel hægt að koma á almennilegum almenningssamgöngum á landsbyggðinni. Það er einfaldlega svo ríkt í okkur Íslendingum að þurfa að geta farið þangað sem við viljum á þeim tíma sem við viljum og því þurfa allir að eiga einkabíl.

Mér finnst því þessi skattlagning því ekki árás á landsbyggðina en ég er samt á móti henni því mér finnst að bifreiðar eigi að bera einn flatan skatt eða engan og svo sé innheimtur notkunarskattur gegnum eldsneytisgjald. 

Nonni (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 12:56

3 identicon

Það er luxus að geta búið úti á landi.

Þórður (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 12:57

4 identicon

Það væri kannski betra að berjast fyrir betri vegum úti á landi, þannig að jeppar og stærri ökutæki þurfi sín ekki. Mér finnst þetta með að lækka gjöldin á eyðslulitlum bílum skref í rétta átt.

Gunni (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 13:11

5 identicon

ég er með 6 manna fjölskyldu og þarf þessvegna stóran strumpastrætó eða 7 manna jeppa.ég get ekki notað smáskrjóða því ég þarf að koma minni fjölskyldu fyrir(Kannski ég kaupi bara 2 smábíla)Alltaf gaman þegar þessir froðuheilar í ríkisstjórninni hugsar svona fyrir mann og notar umhverfisrök sem afsökun.

Sigurbjörn (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 13:54

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Beneventum, þinni athugasemd er ekki svarandi!

Nonni, vera má að fasteignagjöld séu hærri hjá "latte" liðinu í 101, en hvað með rafmagn og hita? Hvað með öll aðföng, matarverð og fleira. Þú fullyrðir að ekkert mál sé að koma á almenningssamgöngum á landsbyggðinni. Hvernig og hvað myndi það kosta? Hefur þú komið út á landsbyggðina?

Þórður, vissulega er lúxus að geta búið út á landi, en það er dýr lúxus og virðist eiga eftir að verða dýrari.

Gunni, vissulega þarf að bæta vegakerfið, en það útilokar ekki þörfina fyrir jeppa, náttúruöflin verða ekki beysluð. Lækkun skatta á eyðsluminni bílum er af hinu góða en ekki hækkun á hinum.

Sigurbjörn, stórar fjölskyldur þurfa stóra bíla. Út á landi bætist síðan við erfiðir vegir, erfið færð á vetrum og engar almenningssamgöngur. Munurinn er þó alltaf sá að fólk í Reykjavíkurhreppi og nærsveitum getur komist flestra sinna leiða með almenningsvögnum. Því er bílaeign þeirra ekki jafn bráð nauðsynleg og þeirra sem búa út á landi. Ég er þó ekki að segja að borgarbúar eigi ekki að eiga bíl, heldur að benda á þá staðreynd að það  sem hægt er, hugsanlega, að telja lúxus hjá sumum hópum getur talist lífsspursmál hjá öðrum. Því munu þessir skattar leggjast mismunandi á fólk. sumir geta komið sér undan þeim á meðan aðrir eru nauðbeigðir til að aka þá á sig.

Gunnar Heiðarsson, 23.11.2010 kl. 20:54

7 identicon

Já, hvað með rafmagn og hita?
Þar sem hitaveitu nýtur við er kyndikostnaður væntanlega svipaður og í Reykjavík og nágrenni. Þar sem rafmagn er notað til húshitunar er það niðurgreitt eftir því sem ég best veit. Hvort kostnaður er sambærilegur við hitaveitu hef ég enga vitneskju um.

Bónus og Krónan eru komnar með verslanir á nokkrum stöðum úti á landi og amk Bónus lofar sama verði um land allt. Það dugar samt ekki öllum, það er nokkuð ljóst en það er ekki hægt að eiga kökuna og borða hana líka. Þeas það fæst ekki allt fyrir ekki neitt.

Almenningssamgöngum er hæglega komið á um leið og notendagrunnurinn er til staðar. Hann er það ekki og verður líklega aldrei því svo margir eiga einkabíl, bæði í bænum og úti á landi.
Það hentar ekki Íslendingum að bíða eftir strætó. Það þarf alltaf allt að gerast strax og enginn nennir að skipuleggja tíma sinn svo það gagnist að nýta sér almenningssamgöngur.
Hvað kostnaðinn varðar, þá er ég viss um það að með sæmilegri nýtingu yrði hann lægri en ef viðkomandi ætti einkabíl.

Sem ég sagði að ofan, það er ekki bæði hægt að eiga kökuna og borða hana. Sá sem vill þægindi einkabíls verður að sjálfsögðu að greiða fyrir það.

Nonni (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 23:57

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Nonni, þú ættir að kynna þér rafmagns og hitunarkostnað út á landsbyggðinni. Ég get nefnt þér dæmi af einum stað sem hefur búið við rafmagnhitun. Þar var kostnaðurinn nokkuð hærri en á SV horninu, þar til EES reglur hömluðu niðurgreiðslur að mestu, þá rauk orkuverðið upp úr öllu valdi. Nú er rafmagnsreikningur fyrir meðalstórt einbýlishús um 45.000 á mánuði. Verið er að leggja hitaveitu um þetta pláss og er gert ráð fyrir að orkukostnaður sama húss muni lækka um 10.000 kr á mánuði við það. Orkureikningurinn verður því um 35.000 kr á mánuði eftir þá breytingu. Íbúar plássins verða þó að greiða kostnaðinn við lagningu hitaveitunnar.

Varðandi Bónus, Krónuna og almenningssamgöngur þá gerir þú þér greinilega enga grein fyrir fjarðlægðum. Ekki er óalgengt að vegalengdir í næstu verslun séu 50 til 100 km. aðra leiðina, þá á eg ekki við Bónus eða Krónuna. Enn lengra er oft til læknis.

Því er tómt mál að tala um að það "henti ekki" að bíða eftir strætó. Það getur hæglega átt við um íbúa Reykjavíkurhrepps og nágrenni en alls ekki landsbyggðina.

Varðandi það að eiga og borða kökuna, má allt eins segja að landsbyggðarfólk baki kökuna en Reykvíkingar borða hana. Stæðsti hluti verðmætasköpunarinnar veður til út á landi en mestu af fjármagni ríkisins er eytt á SV horninu!

Gunnar Heiðarsson, 24.11.2010 kl. 07:56

9 identicon

Af hverju flytur þú þá ekki í bæinn ef allt er svona mikið auðveldara og betra þar?

 Ég geri mér vel grein fyrir fjarlægðum. Oft eru þær ekkert minni í bænum, t.d. fyrir þá sem búa á Kjalarnesi og vinna í Hafnarfirði eða búa á Akranesi og vinna í Reykjavík.
Þetta er bara svona. Ég er stundum í sumarbústað úti á landi og þá þarf að aka í ca. 30 mín. eftir vistum. Það tekur tíma, það er alveg klárt. Það er án efa fólk sem þarf að aka klst. hvora leið. Mér finnst þú vilja vísa til þess smáa hóps sem býr á sveitabæ langt frá byggð þó þú segir það ekki berum orðum. Það fólk er þá með vinnuna sína á staðnum og þarf ekki að vakna eldsnemma á morgnana til þess eins að bíða í röð af bílum í hálftíma. Þetta fólk gengur til vinnu þegar því eða skepnunum hentar. Það eru kostirnir sem það fólk hefur á móti. Fyrir utan það að flestum jörðum fylgja einhvers konar hlunnindi sem ekki fylgja með íbúð í „Reykjavíkurhreppi“. Mér finnst reyndar þetta orðaval að tala um „Reykjavíkurhrepp“ lýsa alveg hræðilegri minnimáttarkennd. Sniðugra finndist mér að tala um „smáborgina“ Reykjavík.

Allt hefur sína kosti og galla. Spurningin er einfaldlega sú hvaða kostum fólk sækist eftir og hvaða göllum það telur sig geta lifað við. Ef grasið er virkilega grænna hinu megin þá flytur fólk einfaldlega enda margir sem hafa tekið sig upp af mölinni og flutt í rólegheitin úti í sveit.

Byggðasjónarmið snúast jú m.a. um það að halda kvótanum úti á landi m.a. með byggðakvóta og að niðurgreiða framleiðsluvörur landbúnaðarins svo sveitirnar haldist í byggð. Fjármagnið færist því ekki eingöngu af landsbyggðinnni og í bæinn eins og þú vilt meina.

Svo vikið sé að upphaflega innlegginu þá finnst mér þú ekki hafa fært fyrir því nein sérstaklega haldbær rök að verið sé að ráðast á landsbyggðina með þessari breytingu á lögum um vörugjald á bifreiðar, læt þessu lokið og þakka þeim sem lásu.

Ég vona að þú hafir það gott í góða veðrinu fyrir norðan. Ég ætla út að ganga með hundinn minn sem má ekki fara með mér hvert sem ég vil í smáborginni og sem ég þarf að greiða fyrir hátt leyfisgjald á hverju ári. Nokkuð sem þekkist sem betur fer ekki í sveitinni.
1-0 fyrir þér. :-)

Nonni (IP-tala skráð) 25.11.2010 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband