Kögunarhóll?

Þorsteinn Pálson er enn á sínum Kögunarhól. Hann ritar grein í Fréttablaðið í dag um ESB. Grein sína endar hann á eftirfarandi orðum:  "Glöggt má merkja að þeir sem hafa fyrir daglegan starfa að birta persónulega níðskældni um stuðningsmenn aðildarumsóknar finna fyrir hræringum í þessa átt". Með þessum orðum á hann væntanlega við að umræðan sé ekki nógu málefnaleg. Það er mikið til í því, en skoðum aðeins málefnaflutning Þorsteins.

Í upphafi fer hann lítilsháttar yfir stofnun VG og segir þann flokk og forvera hanns vera einangraða í vestrænu samfélagi. Síðan segir Þorsteinn: "Vatnaskil urðu þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins ákvað á liðnu sumri að skipa flokknum við hliðina á vinstri væng VG varðandi kröfuna um að afturkalla aðildarumsóknina að ESB". Þarna heggur hann beint í hjartastað þeirra Sjálfstæðismanna sem vilja Ísland sem sjálfstætt og fullvalda ríki, með full yfirráð yfir kostum þess og kjörum. Þorsteinn veit sem er að það er engum Sjálfstæðismanni það að skapi að vera spyrtur við þann flokk sem lengst liggur til vinstri í stjórnmálum, hvað þá vinstri væng þess flokks.

Þorsteinn fer síðan yfir skoðanir og stefnumál stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar. Þar fullyrðir hann að allir flokkar nema VG hafi haft þá stefnu að hefja aðildarviðræður. Að vísu hafi Sjálfstæðisflokkurinn haft fyrirvara. Þetta er ekki rétt hjá honum, það var einungis einn flokkur með þetta á sinni stefnuskrá, aðrir voru með fyrirvara eða á móti. Framsóknarflokkurinn var með svo mikla fyrirvara í sínum málflutningi að nánast útilokað var að hefja umsóknarferli samkvæmt þeim.

Þá fer Þorsteinn yfir sögu sósíalista hér á landi. Hann segir að þeir hafi aldrei utan einu sinn látið utanríkismál eða deilu um þau leiða til stjórnarslita. Það var þegar Bandaríkjamenn fengu afnot af Keflavíkurflugvelli. Svo segir Þorsteinn: "Eftir stofnun NATO hafa flokkar sósíalista aldrei gert kröfu um úrsögn við stjórnarmyndun". Þarna leggur hann að jöfnu varnarsamtök í hernaðarmálum við efnahagssamband sem mun stjórna efnahag landsins og það sem meira er öllu er varðar nýtingu þeirra auðlinda sem umhverfis það eru. Enn reynir hann að höggva í viðkvæman blett þeirra Sjálfstæðismanna sem honum eru andstæðir varðandi ESB.

Þá segir Þorsteinn: "Vandinn er þó sá að sósíalistaflokkarnir sem hér eiga hlut að máli hafa aldrei tekið ábyrgð á nýjum skrefum í utanríkismálum þó að þeir hafi sætt sig við orðinn hlut eftir á. Á því er óneitanlega talsverður munur. Stjórnarsáttmálinn felur ekki í sér breytingu að þessu leyti. VG axlar ekki með honum ábyrgð á að þjóðin taki nýtt skref fram á við í Evrópusamvinnunni sem hófst með aðildinni að NATO". Hvernig í ósköpunum getur þjóð sótt um aðild að ESB án þess að stjórnvöld, öll, komi að þeirri umsókn og beri ábyrgð á henni? Það hefur verið fullyrt að umsóknin sé í umboði þingsins, en það eru ráðherrar sem bera ábyrgðina.

Þorsteinn segir: "Víðast hvar hefur Evrópusamvinnan verið borin uppi af hægriflokkum, miðflokkum og sósíaldemókrötum eins og var um NATO". Enn verið að höggva á sjálfstæðum Sjálfstæðismönnum!

Og að lokum: "Hér hefur um skeið verið tómarúm á hægri vængnum að þessu leyti. Líklegt er að það tómarúm muni fyllast fyrir næstu kosningar. Þar liggur sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn standi vilji til að nýta það". Bein hótun til þeirra Sjálfstæðismanna sem ekki þegar eru orðnir hræddir, um að kljúfa flokkinn!

Varla er hægt að tala um mikinn málefnaflutning hjá Þorsteini Pálssyni í þessari grein hans, þó hann fari ekki í persónulega níðskælni. Þess í stað beitir hann þeirri aðferð, sem hann veit að virkar, að reyna að etja saman andstæðum pólum. Hann bendlar sjálfstæða Sjálfstæðismenn við sósíalista, nokkuð sem enginn Sjálfstæðismaður getur sætt sig við, hvorki sjálfstæður né ósjálfstæður. Ef það dugar ekki, skal flokkurinn klofinn í herðar niður!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband