Að gera illt verra?!

Þórólfur Matthíasson sem titlar sig hagfræðing og þiggur laun sem prófessor í þeim fræðum við Háskóla Íslands, ritaði grein í fréttasnáp Baugs og Samfylkingar síðastliðinn laugardag.

Í þessari grein ræðst hann að Hagsmunasamtökum heimilanna með niðrandi ummælum. Hann segir þessi samtök hafa tekið sér umboð til að krefjast niðurfellinga lána. Í fyrsta lagi hafa þessi samtök ekki tekið sér vald til eins eða neins, þetta er opinn félagsskapur, öllum opinn og hefur það markmið að standa vörð um hagsmuni heimilanna. Nú leggja þessi samtök áherslu á að fá leiðréttingu til handa þeim heimilum landsins sem voru svo óheppin að hafa tekið lán fyrir hrun. Því miður er stór hluti heimila landsins innan þessa hóps.

Þórólfur telur tvennt í málflutningi HH orka tvímælis. Í fyrsta lagi að flöt niðurfærsla muni ekki hjálpa þeim verst stöddu. Þetta sýnir hversu illa Þórólfur er í því sem hann er að tjá sig um. Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei haldið því fram að slík aðgerð muni hjálpa þeim verst stöddu, þvert á móti hafa þau alla tíð haldið því fram að þeim verst stöddu verði að hjálpa með öðrum hætti. Hitt er annað mál að með samræmdri leiðréttingu mun væntanlega þeim verst stöddu fækka verulega og því auðveldara að finna lausnir til handa þeim.

Í öðrulagi segir Þórólfur að meiri líkur en minni séu á að slík aðgerð muni skaða efnahagsreikning heimilanna. Hann fer síðan ýmsum orðum um hversu óræðinn efnahagsreikningur heimilanna er, en nefnir þó skuldir á móti eignum. Það er jú það sem flestir horfa á auk tekna sem hagfræðingurinn nefnir ekki.

Það er erfitt að átta sig á að eignir muni lækka í verði við almenna leiðréttingu lána, þvert á móti ættu þær að hækka eða að minnsta kosti að halda verðgildi sínu. Heldur hagfræðingurinn kannski að þessar eignir muni frekar hækka í verði þegar þær eru allar komnar í eigu bankanna!

Þórólfur hefur áhyggjur af lífeyrissjóðum og bönkum og heldur því fram að hugsanlega þurfi þessar stofnanir og fyrirtæki að fá aðstoð frá ríkinu og ef ekki muni það leiða til lækkunar á lífeyri og hækkunar á vöxtum. Ef lífeyrissjóðir og bankar þurfa einhverskonar aðstoð er það ekki vegna þess að lántakendur fá einhverja leiðréttingu. Lífeyrissjóðirnir þurfa aðstoð eða að lækka lífeyri vegna óstjórnar innan þeirra og bankarnir þurfa aðstoð eða hækkun vaxta vegna þess að efnahgsreikningur þeirra er rangt færður.

Hvernig eru lífeyrissjóðir og bankar í stakk búnir til að taka á hruni húsnæðislánasafnanna? Það er ljóst að jafn vel þó hægt yrði að gera sértækar aðgerðir mjög fljótvirkar eru sú leið samt of hægvirk. Því mun ekki vera hægt að komast fyrir vandann með þeim hætti, jafn skjótt og einn hefur verið afgreiddur hefur að minnsta kost einn eða fleiri bæst aftan við röðina. Því eru meiri líkur en minni að þessi lánasöfn verði verðlaus að mestu ef ekki er farið í aðgerðir sem virka hratt og vel. Það gefur einnig meiri tíma til að leysa vanda þeirra verst stöddu af einhverju viti!

Þórólfur Matthíasson gerir ekki mikið af því að rökstyðja sinn málflutning, enda sykki hann djúpt í fjóshauginn ef hann reyndi það.  Málflutnigur hans síðustu misseri er með þeim hætti að hann hlýtur að fara að þurfa að verja þann stóra titill sem hann gjarnan skýlir sér á bak við!

Það er sorglegt þegar menn sem telja sig til menntasamfélagsins falla í þá gryfju að taka pólitík fram yfir fræðin. Þetta er svo sem í lagi þegar menn snúa sér opinberlega að pólitík en er með öllu óviðunnandi þegar menn tjá sig undir sínu sérfræðiheiti. Maður hlýtur einnig að spyrja sig hvers konar mentastofnun er verið að reka vestur á melunum í Reykjavíkurhrepp.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband