Á að fara að kjósa til þings?

Úr ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, bráðum fyrrverandi forsætisráðherra.

"Hitt vissum við ekki að andstaða væri í öðrum stjórnarflokknum við mikilvæg verkefni í samstarfyfirlýsingu flokkanna". Það er ekki von að Heilög Jóh hafi ekki vitað það, hún heyrir bara það sem hún vill heyra. Það vita allir, sem eitthvað fylgjast með stjórnmálum, hver hugur SJS og hans flokks er til AGS. 

"Við vissum heldur ekki að forseti Íslands kysi að taka fjárstjórnarvaldið af Alþingi í erfiðri milliríkjadeildu". Enn er ráðist á forsetann, það er gefið í skyn að ákvörðun hanns væri eingöngu til að stríða stjórninni. Hann vísaði lögunum til þjóðarinnar vegna þess að þeim var nauðgað gegn um þingið. Hvernig getur nokkur haldið því fram að við værum betur sett ef forsetinn hefði skrifað undir þessi lög? Það þarf alvarlega brenglaðan hugsanahátt til þess.

"Ríkisstjórnin beinir nú kröftum sínum að því að rýmka möguleika Íslands til eðlilegra fjármálasamskipta við önnur ríki þrátt fyrir að Icesave deilan sé óleyst".  Er þetta ekki eitthvað sem stjórnin átti að snúa sér að strax.

"Ríkisstjórnin var mynduð til þess að koma á velferðarstjórn að norrænni fyrirmynd, hreinsa til eftir óstjórn fyrri ára og endureisa atvinnulífið"  Það eina sem við höfum fengið af þessari svokallaðri norrænu velferðarstjórn eru skattahækkanir. Varðandi hreinsunina hefur aldrei verið meira flokkspot en hjá þessari stjórn, flokksgæðingar eru ráðnir til sex mánaða sem ráðgjafar eða hvað það nú heitir, þegar sex mánuðurnir eru liðnir er mönnum skákað til, til næstu sex mánaða. Stjórnin hefur gert minna en ekkert til endurreisnar atvinnulífsins. 

"Stuðningsmenn stjórnarinnar meðal almennings eiga rétt á skýrum svörum"  Nú, en hvað með okkur hin, eigum við ekki rétt á skýrum svörum?

"Við munum mæta margvíslegri andstöðu hjá hagsmunahópum við þá uppstokkun sem lofað hefur verið"  Að sjálfsögðu, til þess eru hagsmunasamtök, til að verja rétt sinna félagsmanna. Þó einn stjórnmálaflokkur telji að rétt sé að gera þetta eða hitt, er ekki þar með sagt að það sé best fyrir þjóðina og ef það kemur niður á einhverjum hópum innan hennar er eðlilegt að viðkomandi hópur standi á sínum skoðunum.

"Forsenda þess að nokkur ríkisstjórn geti komist í gegnum þau erfiðu verkefni og þá pólitísku brimskafla sem Íslendingar þurfa að fara í gegnum er skýr framtíðarsýn, og óbilandi stuðningur stjórnarflokkanna til að fylgja henni eftir"  Heilagri Jóh virðist vera fyrirmunað að skilja það að þegar tveir flokkar eru í stjórn, þá getur skýr framtíðarsýn annars flokksins ekki verð framtíðarsýn stjórnarinnar.

"Hoppandi meirihlutar á Alþingi duga skammt við aðstæður eins og okkar þjóð er í nú og of mikil orka og tími fer í að smala þeim saman og ná málum í gegn. Ein flokkssystir okkar orðaði þetta ágætlega þegar hún sagði að þetta væri "eins og að smala köttum".  Þvílík vanvirðing við samstarfsflokkinn, það er ekki nóg með að svipunni sé hótað, heldur er þingmönnum samstarfsflokksins líkt við ketti. Það skiptir engu þó vitnað sé í ummæli annara, með því að vitna í þessi ummæli gerir Heilög Jóh þau að sínum.

"Á ársfundi Samtaka iðnaðarins nýverið líkti Jón Sigurðssonar, forstjóri fyrirtækisins Össurar, ástandinu á Íslandi við gróðurfar í gömlum árfarvegi sem er nærri uppþornaður"  Nokkuð góð samlíking, lýsir akkúrat því sem er að gerast hér, fyrirtækin eru að þorna upp.

"ég hef tekið eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins, getur skipt um skoðun. Hver veit hvað gerist ef hann hristir af sér Hádegismóana?"  Er verið að biðla til sjálfstæðisflokksins?

"Þess vegna höfum við knúið það í gegn að gengið verði úr skugga um það hvort Ísland geti náð aðildarsamningi við Evrópusambandið"  Mikið rétt, KNÚIÐ er orð að sönnu, það skiptir ekki máli hvað fólkið í landinu vill eða telur best, það eina sem skiptir máli er hvað samfylkingin vill.

"Þann 10. mars 2004 – nærri fjórum árum fyrir hrun bankanna – ræddi ég ógnvekjandi vöxt á skuldastöðu þjóðarbúsins og skuldum heimilanna".  Hvers vegna gerði Heilög Jóh þá ekkert í málinu þegar hennar flokkur komst í stjórn með sjálfstæðisflokki, hæg hefðu heimatökin verið, flokkur hennar með bankamálin á sinni könnu. Hún hafði nærri tvö af þessum fjórum árum til þess.

"okkar vandi var og er uppsafnaður vandi frá óstjórnarárum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks"  Var ekki flokkur Heilagrar Jóh í stjórn fyrir hrun, hvað gerði flokkur hennar? Ekki neitt, það var tekið þátt í græðginni af fullum krafti, bæði fyrir flokkinn og stuðningsmenn hans. Það er hræsni að reyna að halda því fram að samfylkingin sé stikk frí af hruninu.

"Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessu verða gerð skil í rannsóknarskýrslunni, en ég hef þegar ákveðið að verði þau ekki ítarleg mun ég beita mér fyrir setningu laga um sérstaka rannsókn á einkavæðingunni". Ef skýrslan verður Heilagri Jóh ekki þóknanleg, skal sett lög sem á að ransaka eitthvað annað, helst á því tímabili sem hennar flokkur var ekki við stjórn.

"Ég hef góðar vonir um..."   "Á næstu vikum mun..." Hversu oft höfum við heyrt þessi orð.

"Byggingariðnaðurinn er sérstakt vandamál sem ríkisstjórnin hefur fengist við t.d. með því að ýta undir viðhaldsframkvæmdir um land allt"   Hvar á fólk að fá peninga til framkvæmda? Þegar stór hluti vinnandi fólks er atvinnulaust og enn stærri hluti hefur rétt í sig og á, eru svona aðgerðir marklausar.

"Framkvæmdir í orkugeiranum geta ráðið úrslitum um ástandið í atvinnumálunum".  Af hverju er þá ekkert gert? Hvers vegna eru löngu ákveðnar framkvæmdir stöðvaðar vegna einkahugsjónar ákveðinna ráðherra?

"Ég leyfi mér að fullyrða að hvergi í hinum vestræna heimi hafa stjórnvöld gripið til eins viðamikilla aðgerða til að koma til móts við skuldavanda heimila"  Hvers vegna eru þessar aðgerðir ekki að skila sér, er það kannski vegna þess að þær eru hvorki fugl né fiskur fyrir fólkið sem á þeim þarf að halda? Þegar stjórnvöld miða allar sínar aðgerðir við að bjarga þeim sem eru komnir í þrot, verður þessi vandi endalaus. Aðstoðin verður að byrja fyrr, meðan fólk á sér endurreisnar von. Það er mjög stór hluti þjóðarinnar sem er að horfa upp á eigið fé í sínum fasteignum vera að brenna upp, á meðan hækka lánin. Að óbreyttu verður þetta fólk einnig komið í þrot fyrr en seinna. 

"Ég tel að það sé raunsætt markmið að fækka ríkisstofnunum um 30 -40% á næstu 2 – 3 árum". Þetta er svo sem gott og blessað, en hvar á þetta blessaða fólk að fá vinnu?

"Útgerðarmenn hafa svarað öllum tillögum stjórnvalda með hótunum. Það er stundum stór á þeim kjafturinn eins og á skötuselnum!"  Það er mikið til í þessum orðum Heilagrar Jóh, hún virðist samt algerlega gleyma því að hún er forsætisráðherra, að minnsta kosti ennþá. Þegar forsætisráðherra leyfir sér að kasta svona framan í stór hagsmunasamtök, samtök sem hún kemst ekki hjá að vera í samstarfi við til að halda sátt á vinnumarkaði, sýnir það mikinn skynsemisskort, svo ekki sé meira sagt. Þegar við erum að reyna að koma okkur út úr kreppunni verða allir aðilar að virða hinn, það er því alger óþarfi að vera með skítkast. Skötuselsmálið er svo lítið á mælikvarða vanda okkar, að það er alveg með ólíkindum að stjórnin skuli hafa verið að koma með það fram núna. Alveg sama þó ég sé meðmæltur því og ósammála útvegsmönnum, það er bara ekki tímabært að vera með svona stríðyfirlýsingu.

"Það er raunar sérstakt markmið í sveitarstjórnarkosningum eins og í landsstjórninni að halda þannig á málum að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn nái ekki að læsa saman klónum".  Sérstakt markmið? Ég er nú svo einfaldur að ég hélt að aðalmarkmiðið væri að koma okkur út úr kreppunni. Er Heilög Jóh virkilega svona föst í flokkspólitík? Flokkurinn ofar þjóðinni!!!

"Sérhyggjan verður allsráðandi þangað til næsta hrun, næsta strand"  Verðum við ekki að komast á flot fyrst til að geta strandað?!

 

Eftir að hafa lesið þessa ræðu verður maður eiginlega hálf miður sín. Heilög Jóh sem enn er forsætisráðherra lætur þarna ýmis orð falla sem hljóta að verða til þess að hún verði að segja af sér. Það er ekki nóg með að hún ráðist með skítkast á stór aðildarsamtök að þjóðarsáttinni, hún ræðst á hinn ríkisstjórnarflokkinn og lýsir því í raun að stæðsti hluti fólks í landinu séu hálfvitar. Til að kóróna frekjuna ræðst hún svo enn einu sinni á forsetann. Frekjan, fyrirlitningin og fyrringin í þessari ræðu er því lík að varla þekkist annað eins. Það mætti halda að Heilög Jóh sé komin í kosningaslag.

Það er kannski málið, kannski ætlar hún að leyfa okkur að kjósa til þings í vor.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Ég þakka fyrir góða úttekt á ræðu Jóhönnu.

Ragnar Gunnlaugsson, 28.3.2010 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband