Færsluflokkur: Fjármál
Verslunin grefur hægt en örugglega undan sjálfri sér
19.12.2016 | 17:38
Verslunareigendur og samtök þeirra geta barið hausnum við stein. Þessir aðilar halda áfram að reyna að afsaka þá svívirðu sem þeir stunda gagnvart neytendum. Meðan þessir aðilar geta ekki komið því í sinn þykka haus að verslun er þjónusta fyrir neytendur, munu þeir stunda þennan leik. Og enginn mun tapa meira á þessu en einmitt verslunin sjálf.
Neytendur eru ekki hálfvitar, neytendur láta ekki segja sér hvar þeir eiga að versla. Þeir líta einfaldlega á tvo þætti, verð og þjónustu. Út frá þessum punktum versla neytendur. Eins og álagning er almenn hér á landi, er auðvitað leitað annarra leiða og meðan viðhorf talsmanna verslunar breytist ekki, líta neytendur það sem lélega þjónustu.
Það er alveg sama hvernig reiknað er, íslensk verslun leggur óhóflega á allar vörur, sérstaklega svokallaðar nauðsynjavörur. Talsmenn verslunar hafa borið við íslenskri krónu, flutningskostnaði og smáum innkaupum af erlendum heildsölum. Venjulegur neytandi, sem verslar á netinu býr líka við íslenska krónu, þarf að borga hlutfallslega mun hærri flutningskostnað og hefur ekki tök á að versla við erlendan heildsala, heldur verslar hann af smásala!
Þrátt fyrir þetta eru mörg dæmi þess að íslenskur neytandi geti keypt sér far til útlanda, verslaða þar þann hlut sem honum vantar (t.d. dekk undir bílinn sinn), flogið með vöruna heim, borgað af henni öll tilskilin gjöld til ríkisins og átt eftir afgang í samanburði við íslenska verslun með sama hlut!
Ef það er rétt hjá SVÞ að sterkara gengi og lækkun tolla hafi skilað sér til neytenda, segir það einungis það eitt að álagningin sé svo yfirdrifin að þessar lækkanir vigta nánast ekki neitt í verðinu!!
![]() |
Sterkara gengi og lækkun tolla hefur skilað sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Örfá orð um hina svokölluðu Vigdísarskýrslu
26.9.2016 | 08:18
Fátt hefur vakið meiri athygli en skýrsla meirihluta fjárlaganefndar um síðari einkavæðingu bankanna, skýrsla sem nú er reyndar nefnd við formann nefndarinnar, Vigdísi Hauksdóttur. Og sjaldan hefur þarfara verk verið unnið.
Það hefur því vakið undrun að efni þessarar skýrslu hefur alveg fallið í skuggann í umræðunni og hún snúist að mestu eða öllu um form skýrslunnar, höfunda hennar og þar fram eftir götum. Fréttamiðlar hafa einstaka sinnum tekið einhver takmörkuð efnisatriði skýrslunnar til umfjöllunar, slitið þau úr samhengi og snúið staðreyndum á haus.
Þessi skýrsla er ekki löng, einungis upp á 36 blaðsíður, með forsíðu, efnisinnihaldi og heimildaskrá. Það ætti því ekki að vefjast fyrir fólki að lesa skýrsluna alla, þannig að það hafi svona örlitla hugmynd um hvað í henni stendur, áður en það tjáir sig um hana.
Ekki ætla ég að kryfja skýrsluna hér, enda aðrir mér hæfari til þess verks. Marinó G Njálsson þekkja flestir landsmenn og vart hægt að hugsa sér traustari og skynsamari mann, sér í lagi þegar kemur að því að plægja þarf í gegnum fjármálalega órækt. Góð greining sem hann setur fram á bloggsíðu sinni ætti að vera öllum skyldulesning. Það eina sem hann setur út á þessa skýrslu er að í hana vanti meira af tölulegum staðreyndum, sem raunar koma allar fram í fylgiskjölum skýrslunnar. Þennan löst tel ég hins vegar kost, þar sem það gerir skýrsluna auðlesnari, þó kannski manni verði á að missa af einhverjum enn frekari hryllingsupplýsingum.
Það er hins vegar ekki heiglum hent að finna þessa ágætu skýrslu í netheimum. Einungis einn fréttamiðill lætur svo lítið að opinbera hana í heild sér, þegar skýrslan ætti auðvitað að vera opin á öllum fréttamiðlum. Um það snýst jú fréttamennska, að upplýsa og fræða almenning.
Til að auðvelda fólki lestur skýrslunnar set ég hér fyrir neðan link á hana, þar sem ég fann hana hjá Útvarpi Sögu. Einnig set ég link á greiningu Marinós G Njálssonar á skýrslunni.
Skýrsla meirihluta fjárlaganefndar (Vigdísar skýrsla)
Greining Marinós G Njálssonar á skýrslunni
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óhæf peningastefnunefnd
25.8.2016 | 10:04
Loksins kom vaxtalækkun, svo sem ekki mikil en lækkun þó og ber vissulega að fagna henni. En hún er bæði allt of lítil og kemur allt of seint.
Sama dag og Seðlabankinn kynnti lækkun á stýrivöxtum um 0,5%, kom frétt frá umboðsmanni skuldara um eftirgjöf skulda upp á 23,5 milljarða, til handa húsnæðiskaupendum í vanda. Til að setja þessa "rausn" í samhengi við vaxtaokrið hér á landi, þá jafngildir þessi eftirgjöf skulda rétt rúmu einu prósentustigi vaxta af lánum til húsnæðiskaupa. Því má með sanni segja að ef vextir hér á landi væru lægri, hefði sennilega ekki þurft að koma til afskrifta þessara lána,a.m.k. ekki í sama mæli.
Annar vandi, mun hættulegri, er að erlendir spákaupmenn eru farnir að spila á vaxtagróðann hér á landi. Við hrun bankanna kom í ljós að slíkir spákaupmenn áttu gífurlega fjármuni í íslenska hagkerfinu. Með fjármagnshöftum samkvæmt neyðarlögum, sem sett voru í kjölfar bankahrunsins, tókst að koma í veg fyrir að allt þetta fé færi úr landi og setti okkur beinlínis á hausinn. Það tók síðan nærri átta ár fyrir okkur að komast út úr þeim vanda. Eða hvað? Vandinn er enn til staðar, þar sem vaxtamismunur við útlönd er þvílíkur og enn streyma hingað spákaupmenn í stórum stíl og ekkert lát á.
Fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu er þessi stefna Seðlabankans skelfileg. Fyrirfjármagnsöflin,sérstaklega erlend, er hún hins vegar sem himnasending.
Peningastefnunefnd Seðlabankans er algjörlega óhæf. Hingað til hefur henni ekki tekist að rökstyðja hávaxtastefnu sína. Oftast hafa verið notuð rök um að verðbólgan væri handan hornsins, launahækkanir til almennings hafa einnig verið notaðar sem afsökun.
Verðbólgan hefur hins vegar ekki enn sýnt sig, en mun vissulega gera það á endanum. Ekkert hagkerfi getur lifað lengi með lága verðbólgu meðan vöxtum er haldið í hæstu hæðum.
Svo merkilegt sem það er, þá höfðu launahækkanir ekki heldur áhrif á verðbólguna. Þó laun almennings hafi hækkað verulega miðað við verðbólgu, þá var þarna einungis um örlítið brot á leiðréttingu launafalls vegna hrunsins að ræða, ekki eiginlegar launahækkanir heldur einungis örlítið brot á leiðréttingu launa hins almenna launamanns. Slík leiðrétting hefur ekki áhrif á verðbólgu, enda fæstir þeirra sem hennar nutu að fá einhverjar stórar upphæðir til að velta út í þjóðfélagið. Hitt er undarlegra að launahækkanir til hátekjufólksins, sem hefur fengið mun meiri hækkanir í prósentum talið og margfaldar í krónum, skuli ekki hafa vakið verðbólgudrauginn.
En nú hafa þessir snillingar sem fylla peningastefnunefnd fundið ný rök, happdrættisrökin. Ég þurfti þó að lesa aftur þessi orð Seðlabankastjóra, svona til að vera viss, svo undarlega og barnaleg sem þau eru. Ekki ætla ég að hella mér út í frekari orðræðu um þessi rök bankastjórans, vil að hann eigi þá skömm einn og óstuddur.
Vandi heimila landsins eru háir vextir, vandi fyrirtækja landsins eru háir vextir, vandi hagkerfisins eru háir vextir.
Gróði bankanna er fyrir háa vexti, gróði erlendra fjármagnseigenda eru háir íslenskir vextir.
Hvort viljum við að Ísland sé fyrir fólkið í landinu og fyrirtækin, svo þjóðfélagið fái blómstrað, eða fyrir bankana og erlenda fjármagnseigendur?
![]() |
Lægri vextir raunhæfir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eitraði kokkteillinn
15.8.2016 | 21:16
Maður veit ekki hvernig taka skal þessari frétt, hvort mogginn sé þarna að gera grín, eða hvort stjórnarherrarnir séu gengnir af göflunum!
Fyrir það fyrsta er þetta frumvarp, þ.e. ef um raunverulegt frumvarp er að ræða, svo langt frá raunveruleikanum og þeim loforðum sem kjósendum voru gefin fyrir síðustu kosningar, að varla er hægt að tala um þetta sem sama málefni. Stjórnarsáttmálinn er skýr í þessu máli, en þar stendur m.a. orðrétt:
"Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.
Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Lækkun höfuðstóls nýtist þá til að koma í veg fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði aukist verulega, jafnvel þótt lán verði greidd hraðar niður. Þannig má einnig koma í veg fyrir þensluhvetjandi áhrif leiðréttingarinnar og styrkja grundvöll peningastefnunnar, en það er mikilvægur liður í afnámi hafta.
Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót."
Þarna kemur skýrt fram að unnið skuli að afnámi verðtryggingar og að nefndu um slíkt afnám og hvernig að því skuli staðið, verði skipuð. Sú nefnd var vissulega skipuð og hún skilaði af sér tillögum. Vandinn var bara sá að einungis einn nefndarmaður skildi sitt hlutverk, meðan aðrir nefndarmenn héldu að verkefni nefndarinnar væri að meta "hvort", en ekki "hvernig", ætti að afnema verðtrygginguna. Engin spurning er þó að nefndin átti einungis að koma með tillögur um "hvernig" afnema ætti verðtrygginguna!!
Í öðru lagi er þetta frumvarp svo gjörsamlega úr korti við raunveruleikann og þann vanda sem húsnæðiskaupendur búa við og kemur hvergi nærri því að taka á þeim vanda. Verðtrygging hefur áhrif á vexti og er verðbólguhvetjandi. Vandi húsnæðiskaupenda liggur fyrst og fremst í háum vöxtum hér á landi, svo háum að jafnvel hörðustu mafíósar, bæði vestan hafs og austan, myndu blygðast sín fyrir slíka okurvexti. Fjármagnskostnaðurinn er hærri en nokkur möguleiki er fyrir venjulegt fólk að ráða við. Ofaná þetta velur Seðlabankinn að reikna út verðbólgu með allt öðrum hætti en þekkist erlendis, þ.e. að reikna húsnæðiskostnað inn í slíkan útreikning, en slíkt þekkist hvergi í þeim löndum sem við miðum okkur við. Væri þessi hluti tekinn út úr útreikningi þeirrar vísitölu sem notuð er við útreikning verðtryggðra lána, væri verðtryggingar.áttur þeirra nánast enginn, eins og staðan er í dag. Eftir sætum við samt með vexti ofaná þessi verðtryggðu lán, sem eru nálægt því að vera helmingi hærri en vextir óverðtryggðra húsnæðislána erlendis. Í þessu liggur vandi húsnæðiskaupenda, fjármagnskostnaðnum. Aðgengi að lánum er ekki vandamál, enda varla til öruggari og betri fjárfesting en lán til húsnæðiskaupa. Greiðslumat á síðan að tryggja að enginn reisi sér burðarás um öxl. Lengd lánstíma er heldur ekkert vandamál, þar sem veðið að baki láninu lifir í flestum tilfellum lántakann og jafnvel mun lengur!
Í þriðja lagi gerir þetta svokallaða frumvarp ráð fyrir að undanþágu megi gera frá megin reglunni, bæði lánstíma sem og greiðslumati. Þessa undanþágu má þó einungis gera fyrir þá sem illa stadda fjárhagslega! Þvílíkt bull! Þetta er eins og að taka ávaxtaskálina af borðinu og henda tveim þrem súkklaðimolum á það í staðinn, þegar séð var að of langt var gengið!
Hverjir eru í mestum vanda vegna húsnæðiskaupa? Eru það ekki einmitt þeir sem verr standa fjárhagslega? Ef hinn eitraði kokteill 40 ára lánanna er svona hættulegur, ætti þá ekki einmitt að víkja þeim bikar frá þeim sem minnst hafa? Ef greiðslumat kemur í veg fyrir að það fólk geti tekið lán, er þá lausnin fólgin í að fara framhjá greiðslumatinu? Þvílíkt rugl, þvílík fjarstæða!!
Hvort málflutningur sjálfstæðismanna um að "markaðurinn" eigi sjálfur að sjá til þess að fólk hætti að taka verðtryggð lán og færa sig yfir í óverðtryggð, er barnaskapur sem þeir trúa, eða hvort aðrar hvatir liggja þar að baki, breytir litlu. Hvoru tveggja er galið.
Það er enginn "frjáls markaður" hér á landi, þegar kemur að fjármálastofnunum. Enda landið það fámennt og dreifbýlt að slíkt frelsi gæti aldrei virkað sem skyldi, ekki frekar en á matvöruverslun í landinu. Seðlabankinn setur svokallaða stýrivexti og enginn banki getur lánað undir þeim. Í raun eru vextir allra útlánsbanka á svipuðu róli, ákveðnu hlutfalli fyrir ofan stýrivexti. Undantekningin er auðvitað okurlánastofnanir sem kallast "smálánafyrirtæki", en það er annar kapítuli, sem er svartur blettur á okkar þjóðfélagi.
Þá er það að öllu leyti á valdi bankanna sjálfra, hvernig lán fólk tekur. Uppsetning á kostunum sem í boði eru, er á valdi bankanna sjálfra. Það gengur enginn venjulegur maður inn í banka til að semja um lán, hann hefur einungis um að velja þá kosti sem bankinn býður og svo auðvitað þann kost að ganga tómhentur út. Það hefur í umræðunni verið notað sem rök að fleiri taka verðtryggð lán en óverðtryggð. Meðan bankinn ræður mun svo vera, hann vill auðvitað tryggara lánið, fyrir sig!
Það er því annað hvort barnaskapur að halda því fram að þessi breyting geti orðið af sjálfu sér, nú eða þeir sem þannig tala séu að verja einhverja annarlega hagsmuni. Verðtryggð neytendalán verða aldrei afnumin nema með lagasetningu, rétt eins og þeim var komið á. Til þess er sætabragðið af þessum lánum of mikið fyrir bankanna.
Undanfarin tvö ár hefur peningastefnunefnd Seðlabankans lagt reglulega leið sína út á svalir bankans, bleytt á sér puttann og rekið hann út í loftið. Þannið hefur þessir svokallaðir fræðingar, með sjálfan seðlabankastjóra í fararbroddi, komist að því að "verðbólguskot sé í vændum". Enn bólar ekkert á þessu voðaskoti, verðbólgan bara lækkar og lækkar og nú svo komið að ef húsnæðisliður er tekin út úr mælingunni, svona eins og siðaðar þjóðir gera, þá búum við nú við verðhjöðnun! En fræðingarnir í Svörtuloftum spá samkvæmt puttanum sínum og því eru stýrivextir frá bankanum nú á þeim mælikvarða annað eins þekkist hvergi í hinum vestræna heimi! Þrátt fyrir þetta hefur tekist að halda verðbólgunni niðri, en vegna gífurlegs þrýstings frá ofurvöxtum Seðlabankans, er bara spurning hvenær stíflan springur. Hvað ætlar peningastefnunefnd þá að gera?
Eins og áður segir liggur vandi húsnæðiskaupenda fyrst og fremst í miklum fjármagnskostnaði. Rót þess kostnaðar liggur fyrst og fremst í verðtryggingu lána, þó aðrir hlutir komi þar einnig við sögu. Verðtryggingin er þó stæðsti skaðvaldurinn.
Nú liggur fyrir að kosið verði í haust, svo undarlegt sem það er. Nánast öruggt má telja, verði þetta frumvarp að lögum, að til valda komist einhverskonar samsteypustjórn margra flokka, á vinstri vængnum. Slíkar ríkisstjórnir eru sjaldan langlífar, en geta valdið miklum skaða á starfstíma starfstíma.
Eins og áður segir, er kominn gífurlegur þrýstingur á hagkerfið vegna hárra stýrivaxta Seðlabankans. Það þarf sterka stjórn til að standast þann þrýsting. Ríkisstjórn margra flokka, þar sem hver höndin er upp á móti annarri og mál rekin áfram með ýmiskonar hrossakaupum, er vísasta leiðin til að þessi stífla bresti. Guð hjálpi Íslandi, verði mynduð slík margflokka ríkisstjórn.
Þá mun ekki langt að bíða þess að verðbólgudraugurinn, sem peningastefnunefnd og seðlabankastjóri þykjast hafa fundið með puttanum, láti á sér kræla. Og þá mun verðbólgan ekki mæld með einnar stafa tölu, jafnvel ekki tveggja stafa. Auðveldlega gæti verðbólgan þá ætt yfir 100%, á örstuttum tíma.
Hvað ætli farmiði aðra leiðina úr landi, kosti?!
![]() |
Verðtryggingin ekki afnumin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hvers vegna?
24.5.2016 | 19:53
Hvers vegna þarf að taka ruv af auglýsingamarkaði? Þessi stofnun hefur verið á á þeim markaði frá stofnun og engin ástæða til að breyta þeirri stefnu. Mun frekar ætti að lækka lögbundin gjöld á landsmenn, sem til stofnunarinnar fer, jafnvel að afnema lögbindinguna og gera afnotaskattinn valfrjálsan. Að koma þessari stofnun í eðlilega samkeppni við aðra fjölmiðla.
Með því að taka ruv af auglýsingamarkaði er verið að gera hana enn háðari stjórnvöldum, hverjum tíma. Það er magnað að ráðherra úr þeim eina flokki sem setur frjálsræði og heilbrigða samkeppni á oddinn skuli tala fyrir því að ríkisvæða enn frekar ákveðna stofnun.
Helstu rök þeirra sem vilja ruv af auglýsingamarkaði eru að með því sé liðkað til fyrir "frjálsa" fjölmiðla og samkeppni þeirra geti verið betri, væntanlega fyrir þá sjálfa. Önnur rök eru að hér þurfi að vera ríkisrekinn óháður fjölmiðill, rekinn af sameiginlegum sjóðum landsmanna.
Hvorug þessara raka halda vatni. Fyrir það fyrsta er ekkert samhengi milli einkarekins fjölmiðils og frjáls fjölmiðils. Einkareknir fjölmiðlar eru alltaf háðir eigendum og því frjálsræði þeirra ekkert. Samkeppni milli fjölmiðla byggir ekki á því auglýsingamagni sem þeim kemst að koma frá sér, heldur þeirri dagskrá sem þeir velja að flytja og trúverðugleik starfsfólks þeirra.
Og ekki verður séð að sá ríkisrekni fjölmiðill sem við landsmenn rekum fyrir lögbundið fé úr vösum okkar sé neitt sérstaklega óháður. Þar, eins og í öðrum fjölmiðlum, ríkir bullandi pólitík og starfsmenn þessa fjölmiðils ekki sparir á að nýta sér hann í þeim tilgangi. Enda kannski ekki von til að starfsmenn ruv telji sig þurfa að gæta hlutleysis, þegar stjórnarmenn stofnunarinnar telja sig ekki bundna af slíkri kvöð. Skemmst er að minnast ummæla eins stjórnarmanns ruv, sem nú á yfir höfði sér saksókn, vegna pólitískrar árásar á einn frambjóðandann til forsetaembættisins.
Í stað þess að taka ruv af auglýsingamarkaði á auðvitað að lækka lögbundna innheimtu af landsmönnum, til handa stofnuninni. Jafnvel að láta hana keppa alfarið á samkeppnisforsendum. Auðvitað myndi stofnunin ekki lifa af slíka samkeppni, en það er kannski einmitt mergur málsins. Meðan starfsfólk hennar kemst upp með að nýta sér þessa stofnun í eigin pólitísku stríði, í nafni málfrelsis, er stofnunin tímaskekkja og kannski betur geymd undir torfu!
![]() |
Vill RÚV af auglýsingamarkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gamlar fréttir
21.4.2016 | 12:25
Þessi "opinberun" er í sjálfu sér ósköp fátækleg. Allir landsmenn vita að gífurlegt fjármagn "týndist" í tengslum við bankahrunið.
Hvar fólk geymir sitt fé skiptir ekki höfuð máli. Það sem máli skiptir er hvernig það fé er til komið, hvort um vafasöm eða ólögleg viðskipti er að ræða og það þá þýfi, eða hvort um er að ræða heiðarlega fengið fé. Þá skiptir öllu máli að það hafi verið upplýst hjá skattayfirvöldum um þá eign og greiddir af henni skattar.
Varðandi hjónakornin Jón Ásgeir og Ingibjörgu, kemur ekki enn fram hvort þetta er illa fengið fé né hvort af því hafa verið greiddir skattar hér á landi. Samkvæmt ummælum Ingibjargar, þá gerir hún greinarmun á hvar fé er geymt, hvort skattar skuli greiddir hér og því líklegt að ekki hafi verið greiddir skattar til íslenska ríkisins af því. Þá segir hún að viðskipti með það fé sem geymt er í skattaskjóli komi ekki við íslenskum fyrirtækjum hennar, að engin tengsl séu þar á milli. Eignarhald hennar af 365 miðlum er þó í gegnum fyrirtæki sem hún geymir í skattaskjóli, svo þar féll sú kenning.
Fréttamenn eða fréttamiðlar hafa þó hvorki vald né kunnáttu til að rannsaka þetta. Það er einungis saksóknari sem slíkt vald hefur og getu. Það er því með öllu óskiljanlegt að þessi gögn skuli ekki vera fyrir löngu komin í hendur hans, áttu að berast honum jafn skjótt og þau komu hingað til lands. Að öllum líkindum er meðferð Jóhannesar Kr á gögnunum og sú tregða að afhenda þau réttbærum yfirvöldum, búin að skaða málið svo að það verður ekki lengur dómtækt.
Það er búið að rústa mannorði nokkurra pólitíkusa hér á landi með þessum skjölum. Vel getur verið að hjónin Jón Ásgeir og Ingibjörg eigi sér einhverjar málsbætur í þessu máli. Það verður ekki vitað fyrr en saksóknar fær skjölin og rannsakar þau. Ef hann þá fær þau einhvertímann. Á meðan er mannorð JÁJ og IP rústað, að seku eða ósekju.
Er ekki búið að valda þjóðinni nægum skaða með þessum skrípaleik Jóhannesar Kr og sérvaldra fjölmiðla? Er ekki kominn tími til að taka réttarkerfið í notkun og láta fólk sem hefur vald og getu til að skoða þessi mál.
Hrunið olli þjóðinni miklum skaða, sumum varanlegum. Opinberun Panamaskjalanna er einungis einn liður í að rétta okkur af sem þjóð, liður sem vissulega kemur nokkuð seint. Að nýta þau til að rústa mannorði fólks, hvort sem það er sekt eða saklaust, að nýta þessi skjöl til að stofna til uppþota í þjóðfélaginu, að nýta þessi skjöl til eiginn frama, bæði fjárhagslega og pólitískt, lýsir best fávisku og siðleysi þeirra sem með skjölin höndla. Þetta fólk er engu betra en þeir sem sekastir kunna að vera, samkvæmt þessum skjölum.
Einhver kann að segja að með þessari færslu sé ég að taka málstað JÁJ og IP. Ekkert er fjarri mér en að mæra þau hjón, en allir verða að njóta réttmælis, líka þeir sem kunna að reynast sekir.
Við verðum að standa vörð réttaríkisins, ef við viljum halda sjálfstæði. Um leið og við færum dómsvaldið frá dómstólum og yfir til götunnar og fjölmiðla, hrynur lýðveldið.
Ég skora á Jóhannes Kr að afhenda þessi gögn strax til saksóknara, áður en skaðinn verður meiri á okkar þjóðfélagi. Hann er þegar orðinn nægur. Jóhannes Kr er örugglega búinn að taka afrit af gögnunum og því hefur hann það vald að geta opinberað gögnin síðar, ef saksóknari er ekki nógu duglegur að vinna úr þeim.
Mestu máli skiptir að saksóknari fái gögnin sem fyrst. Kannski er það þegar orðið of seint vegna meðferðar á þeim til þessa og þau ekki nýtanleg lengur fyrir dómstólum. Hins vegar gætu þau nýst honum til að finna eitthvað af því glataða fé sem hér hvarf í tengslum við hrunið. Kannski þarna sé eitthvað brot af þeim á annað þúsund milljörðum sem glötuðust vegna bónuskeðjunnar og tengdra fyrirtækja, fundið. Það getur enginn né má, rannsakað annar en embætti saksóknara. Þá er hugsanlegt að gögnin geti hjálpað til við saksókn á þeim málum sem enn á eftir að dæma í, vegna hrunsins.
Hvað sem öllu líður, þá má ekki gerast að rannsókn mála, saksókn og dómur, færist á hendi fjölmiðla og götunnar. Það er ekki lausn þess vanda sem hér skapaðist við hrunið, vanda sem margir eiga enn eftir að vinna sig úr og sumum tekst aldrei. Slík meðferð sakamála er einungis til þess fallin að auka enn á sundurlindi þjóðarinnar og valda sárindum hjá þeim sem verst urðu fyrir afleiðingum hrunsins.
Eina von þess fólks er að þessi mál gangi veg réttvísinnar, að réttarkerfið fái staðist!!
![]() |
Vísaði í frétt DV í svari til Kjarnans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Allir vilja rannsaka
20.4.2016 | 22:31
Vg liðar vilja að Alþingi rannsaki Panamaskjöl.
Birgitta og væntanlega Píratar vilja að menntalmálaráðherra skaffi ruv aukið fjármagn svo sú stofnun geti rannsakað skjölin.
Veit þetta fólk ekki að hér er réttaríki, að hér höfum við byggt upp sérstakt kerfi rannsóknarstofnanna til að rannsaka mál, ef grunur er um að lög hafi verið brotin? Að innan þessara stofnana er fólk með sérþekkingu á því sviði og styðst við þau lög sem við höfum byggt upp í okkar lýðveldi. Og eftir að þessar stofnanir hafa lokið sínum rannsóknum þá sæki þær til saka fyrir dómstólum þá menn sem taldir eru sekir. Að dómstólar, setnir af löglærðu fólki,taki síðan við og dæmi samkvæmt lögum.
Þekkir þetta fólk ekki hvernig réttarkerfið virkar?
Hvern fjandann er þetta fólk að gera á Alþingi? Hvað telur þetta fólk sig eiginlega vera?
Almáttugan guð?
Ein afskipti Alþingis í þessu máli gæti hugsanlega verið að skýra enn frekar lög og sektarákvæði varðandi það að menn skuli liggja á gögnum sem hugsanlega innihalda saknæmt athæfi einhverra. Að engum sé heimilt nema til þess bærum aðilum að rannsaka og flokka slík gögn.
Það er óhæfa í réttarríki að einstaklingur geti legið með slík gögn í 10 mánuði áður en þau eru opinberuð, flokkað þau og hugsanlega spillt þeim varanlega. Og hafna síðan réttbærum aðilum um aðgang að þeim. Við slíku athæfi þarf að vera ströng hegningarákvæði.
![]() |
Spurðu út í rannsóknarnefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gatslitnar nærbuxur
13.4.2016 | 10:24
Þessi yfirlýsing eftirlitsstofnunnar EFTA er jafn haldlítil sem gatslitnar nærbuxur.
Að heimilt sé að setja bann við vistun eigna á lágskattasvæðum, bara ef þau eru utan EES svæðisins breytir engu. Þeir sem enn hafa verið nafngreindir varðandi svokölluð Panamaskjöl, geymdu allir sínar eignir innan EES landa, þó bakfyrirtæki hafi verið stofnuð utan þeirra.
Skilgreining á lágskattalandi er að skattar í viðkomandi landi séu að ákveðnu hlutfalli lægri en skattar í heimalandi fjáreigandans. Við getum fundið mörg lönd innan EES þar sem skattar eru mun lægri en hér á landi og munu þau því kallast lágskattaríki samkvæmt þeirri skilgreiningu.
Það sem kannski mest hefur verið gagnrýnt í þeirri umræðu, sem fram hefur farið undanfarna daga, er leyndarhyggjan. Og sannarlega er hægt að skríða undir slíka vernd innan EES. Nægir að nefna Lúxemborg og Danmörk í því samandi, en bankaleynd í þeim löndum er heilagri en páfinn. Sjálfsagt má finna fleiri lönd innan EES þar sem bankaleyndin er í hávegum höfð, þó sennilega standi Lúxemborg þar ofar öðrum, enda núverandi forseti ráðherraráðs ESB sem gerði það land að einhverju "besta" og mesta feluríki fyrir fé auðmanna, "dásamlegri" skattaparadís.
Þessi yfirlýsing eftirlitsstofnunnar EFTA segir því ekki neitt. Samkvæmt henni eru allir þeir sem nefndir hafa verið hér á landi varðandi Panamaskjölin alsaklausir. Þeir skiptu við banka innan EES landa og geymdu sitt fé þar. Að banki þeirra skuli síðan hafa stofnað fyrirtæki utan EES landa, utanum eitthvað skjal, breytir þá engu.
Það fer síðan eftir heiðarleik hvers og eins, hvort hann taldi þessa eign til skatts hér á landi eða ekki. En jafnvel sá eini sem hefur orðið uppvís að skattsvikum upp á nærri eitthundarð milljónir króna, fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingar, er saklaus samkvæmt þessari skilgreiningu eftirlitsstofnunnar EFTA, jafnvel þó hann hafi ekki talið sitt fé fram til skatts hér á landi.
![]() |
Mega banna vistun eigna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aflandseyjan Ísland
2.4.2016 | 23:13
Sennilega er engin aflandseyja meiri og betri en Ísland, þ.e. fyrir þá sem búa erlendis. Auðvitað getur Ísland aldrei orðið aflandseyja fyrir þá sem hér búa, ekki frekar en Tortóla getur ekki verið aflandseyja fyrir íbúa þeirrar eyjar. AFLANDS þýðir auðvitað eingöngu annað land en viðkomandi býr í. Hvergi þekkjast hærri vextir en hér á landi.
Reyndar ætlaði ég ekki að rita staf um þær deilur sem nú hafa litað umræðuna hér á landi síðustu daga, fyrr en allar staðreyndir lægju á borðinu, þó margir hverjir hafi verið fljótir til að dæma án staðreynda. Það liggur fyrir að þetta dæmi er mun stærra en hingað til hefur komið fram og við einungis séð toppinn af ísjakanum. Þó verð ég að segja að mér brá nokkuð þegar í ljós koma að ég sjálfur, sem hef samviskulega greitt alla mína skatta og gjöld til samfélagsins hér á landi, alla mína tíð, er eigandi fjár á aflandseyjum eða svokölluðu skattaskjólum. Nú nagar mig efinn um hvort ég er lögbrjótur við skattaskil á Íslandi, en útilokað er fyrir mig að komast að því, þar sem umsjónaraðili minn fyrir þessu fé eru lífeyrissjóðir. Samkvæmt þeirri sömu frétt eiga flestir landsmenn töluverða fjármuni í aflöndum og hugsanlega skattaskjólum. Það tók vissulega á mig að komast að þessari staðreynd.
En hvað er skattaskjól? Það er með það orð eins og aflandslönd að þar fer túlkun auðvitað eftir framkvæmd. Ef geymt er fé erlendis kallast það aflands og ef greiddur er skattur af því fé erlendis eða ekki, kallast það skattaskjól. Þeir sem geyma fé erlendis og greiða af því skatta hér á landi, eru því ekki í skattaskjóli, hvert sem nafn á því aflandi er sem peningarnir eru geymdir í. Þeir sem geyma sitt fé erlendis og greiða ekki af því skatta eru sannarlega brotlegir við lög, ekki hinir. Þetta er auðvitað einfalt og ætti öllum að vera ljóst.
En að umræðunni hér á landi síðustu daga. Ekki ætla ég að gera tilraun til að skrifa um þátt ruv í þessari umræðu. Fréttastofan hefur sjálf dæmt sig í þeim leik og allt of langt mál að skrifa um þá firru alla. Fáránleiki fréttastofu og pólitísk ítök sumra stjórnmálaflokka innan stofnunarinnar hefur þar opinberast svo vart verður um deilt. Engin furða þó Sigmundur Davíð vilji ekki ræða þessi mál við þá stofnun. Reyndar er vandséð að lengur verði haldið uppi þessari stofnun af sameiginlegum sjóðum landsmanna, eftir afrek síðustu daga og spurning hvort ekki eigi bara að arfleiða VG og Samfylkinu hana. Mun réttara að þeir flokkar greiði fyrir þann ósóma sem frá ruv kemur, en saklausir landsmenn sem vilja það eitt að fá réttar og sannar fréttir.
Fljótlega kom í ljós að fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingar er einn þeirra sem á peninga erlendis. Þessi maður var vel virkur innan stjórnkerfisins og mótandi þar meðan síðasta ríkisstjórn sat. Hann hefur hins vegar aldrei setið á Alþingi, en það er ekki mælikvarði á vald eða áhrif á það sem stjórnvöld framkvæma hverju sinni. Svo merkilegt sem það er, þá kallar núverandi formaður Samfylkingar eftir að þessi maður fái friðhelgi. Þetta væri kannski ekki undarlegt, nema fyrir það að téður formaður hefur gengið hart fram í árásum á forsætisráðherra. Þó liggur fyrir að það er eiginkona forsætisráðherra sem á peninga erlendis, ekki hann sjálfur og af þeim peningum hefur samviskusamlega verið greiddir skattar hér á landi. Það liggur einnig fyrir að fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingar á ekki einungis fé í einu aflandi, heldur nær net hans yfir fjölda aflanda og að skattar hafa ekki verið greiddir af því fjárhaldsneti hér á landi. Með þessari kröfu sinni hefur formaður Samfylkingar opinberað tvískinnungshátt sinn að fullu. Ekki að furða þó flokkur hans sé að þurrkast út af pólitíska sviðinu hér á landi.
Enn hafa einungis nokkur nöfn verið nefnd í þessari umræðu og víst er að þeim mun fjölga verulega. Pandóruboxið hefur verið opnað og snákarnir flæða úr því. Sennilega eru allir stjórnmálamenn stjórnarflokkanna þegar nefndir, en hugsanlegt er að fréttastofa ruv haldi verndarhendi sinni yfir einhverjum þingmönnum, núverandi eða fyrrverandi, stjórnarandstöðuflokkanna.
Hvað sem því líður, þá er ljóst að eignir Íslendinga erlendis eru margfalt meiri en þegar hefur komið fram, jafnvel þó eignir landsmanna erlendis gegnum lífeyrissjóðanna sé dregin þar frá. Því er ljóst að enn eiga eftir að koma upp mörg nöfn. Margir þeirra sem nefndir munu verða eru einfaldlega fólk úr viðskiptalífinu, en eins og landsmenn þekkja er siðferði flestra þeirra á afar lágu plani. En það munu örugglega einnig dúkka upp nöfn manna sem eiga eða hafa átt beinan þátt í stjórnun landsins. Þingmenn og ráðherrar eru einungis hin opinberu andlit stjórnkerfisins, hinir raunverulegu stjórnendur sjást sjaldan. Ekki mun ég dæma þetta fólk af eignum þess, né hvar þær eru geymdar. Dómur minn mun alfarið verða um hvort þetta fólk hefur greitt sín gjöld af þessu fé til sameiginlegra sjóða okkar og auðvitað af því hvernig þessir fjármunir urðu til. Um það snýst málið og ekkert annað.
Siðferði. Mikið hefur verið rætt um siðferði stjórnmálamanna og margir sem halda því fram að það sé siðlaust að eiga mikið fé. Að það sé siðlaust að geyma það erlendis. Þetta er vissulega skoðun og hverjum frjálst að hafa hana. En menn ættu aðeins að spá í hvað felst í slíkri skoðun, hvort mismuna eigi fólki eftir efnahag og útilokun efnafólks frá stjórnun landsins sé af hinu góða. Þar eiga allir að sitja jafnir, þó vissulega megi halda því fram að efnað fólk sem velur að fara í stjórnmál geri slíkt af hugsun, meðan sá efnaminni gerir slíkt kannski frekar fyrir launin.
En siðferði snýr ekki að peningum, svo fremi að þeir séu taldir fram til eignar og af þeim greidd þau gjöld sem lög hverju sinni kalla eftir. Siðferði snýr að því hvernig ákvarðanir eru teknar og þar getur margt legið að baki. Var það merki um gott siðferði að lofa þjóðinni kvöldi fyrir kosningar að ekki yrði sótt um aðild að ESB en svíkja það síðan daginn eftir? Var það merki um gott siðferði að segja þjóðinni tveim dögum fyrir kosningar að enginn icesave samningur væri í burðarliðnum en taka síðan á móti sendiboðum sínum þrem dögum síðar, með samning undir höndum? Var það merki um gott siðferði að krefjast þess af þingheim að sá samningur skyldi samþykktur óskoðaður, af Alþingi? Svona mætti lengi halda áfram, en megin málið er að öll verk síðustu ríkisstjórnar báru merki um algeran siðferðisbrest. Hverjar ástæður þess voru á eftir að koma í ljós.
Það er því siðferðisbrestur þegar stjórnmálamenn breyta ekki eftir því sem þeir lofa. Alvarleiki þess brests fer síðan eftir því hversu mikilvægt málefnið er og hversu oft menn verða uppvísir af slíkum brotum. Núverandi ríkisstjórn gæti sannarlega orðið uppvís af slíkum siðferðisbrotum, en enn er ekki hægt að dæma hana. Það verður ekki gert fyrr en að loknu kjörtímabilinu, þá mun sjást hvort við öll loforð verður staðið. Margt hefur þó áunnist og engin ástæða að ætla að ekki verði þau mál sem eftir eru kláruð. Þar vigtar auðvitað mest afnám verðtryggingar.
Og þegar það orð kemur upp, verðtryggingin, þá vakna ýmsar spurningar, svona í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið undanfarna daga. Mun t.d. nafn Seðlabankastjóra koma upp í þeirri umræðu? Allir vita að hann er ekki á flæðiskeri staddur fjárhagslega og spurning hvar hann geymir sitt fé. Er það í Svissneskum banka og ef svo er hafa verið greiddir af þeim skattar hér á landi? Eða flutti hann sitt fé til landsins? Og ef svo er, nýtti hann sér þá þá aflætti sem bankinn gefur? Hvort heldur er, þá væri skömminni skárra að hann geymdi sitt fé í Svissneskum banka, svo fremi að af því fjármagni séu greiddir skattar hér á landi. Hitt væri merki um mjög mikinn siðferðisbrest, ef hann hefur flutt sitt fé hingað heim, að maður tali ekki um ef hann hefur notið afsáttarins og aukið fjármagn sitt um 20% með því. Verst væri þó að vita að hann geymdi sitt fé hér heima í ljósi þess að hann er nánast einráður um hvert vaxtastig er hér á landi hverju sinni, en hvergi í heiminum er það hærra.
Nafn annars manns, sem hefur verið drjúgur í stjórnmálaumræðunni síðustu misseri og kallast því sannarlega stjórnmálamaður, en það er Kári nokkur Stefánsson. Upplýst hefur verið að hann flutti gegnum Seðlabankann inn 800 milljónir króna. Væntanlega hefur það fé aukist um 20% við þessa millifærslu. En hvernig eignaðist Kári þetta fé? Hvernig gat hann átt yfir 800 milljónir aflands? Hvernig varð það fé til? Greiddi hann skatta af þessu fé hér á landi, meðan það var í geymslu aflands? Kári þessi átti viðskipti við stórann hluta þjóðarinnar, fyrir nokkrum árum síðan. Allir töpuðu á þeim viðskiptum við Kára, margir hverjir aleigunni!!
Ég kaus Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum og skammast mín ekkert fyrir það. Ekki er ég þó flokksbundinn, heldur vel mínu atkvæði stað í hverjum kosningum sem mér þóknast best. Oft hef ég einfaldlega haldið því fyrir mig.
Ástæða þess var fyrst og fremst málflutningur Sigmundar Davíðs, jafnvel þó allir segðu hann vera óraunhæfan. Hann hélt því fram að hægt væri að losa um fjármagnshöftin með því að láta kröfuhafa greiða fyrir þann skaða sem slík aflétting gæti valdið. Aðrir flokkar voru allir með lausnir sem byggðu á lántökum til að greiða þann skaða, þáverandi stjórnarflokkar ætluðu að fá slíkt lán hjá ESB, í tengslum við inngöngu í þá brunarúst. Sjálfstæðisflokkur var með ákaflega loðnar lausnir, sem í stuttu máli fólust í að þjóðin tæki þann skaða á sig. Þetta markmið Sigmundar Davíðs er langt komið með að takast, alla vega sá þáttur að láta kröfuhafa greiða lausnargjald sitt. Svo undarlega beri við nú að þeir sem sögðu hann fara með fleipur fyrir kosningar, telja nú að ekki hafi verið nógu langt gengið! Íslensk stjórnmál eiga engan sinn líka!
Auðvitað vissi ég að Sigmundur Davíð væri að efnafólki kominn og eiginkona hans einnig. Ég vissi líka að þau hjón bjuggu erlendis síðustu árin áður en hann kom í íslensk stjórnmál. Því kom mér ekkert á óvart þegar eiginkona hans upplýsti þjóðina um erlenda eign sína, fannst það frekar vera léttir. Það er með hann eins og Seðlabankastjóra, að mér líður betur að vita að peningarnir séu geymdir erlendis, enda þá minni hagsmunir af þeim við ákvarðanatökur hér heima. Hitt áttaði ég mig ekki á að hann væri beinlínis að snuða sína fjölskyldu með framgöngu sinni og vænt þætti mér um ef einhver annar stjórnmálamaður gæti sýnt fram á það sama! Þau rök að ekki hafi verið gengið nægjanlega langt gegn kröfuhöfum, sé vegna þessarar eignar eiginkonunnar, standast ekki. Sér í lagi þegar slík rök koma úr kjafti þeirra sem héldu því fram að til kröfuhafa væri ekkert að sækja, að eignaréttur þeirra væri heilagur. Tvískinnungur þeirra sem svo tala lýsir best pólitískri heimsku þeirra!
Menn ættu að hræra svolítið upp í gráa grautnum sem er í kúlunni sem situr á búk þeirra og mynnast umræðunnar fyrir síðustu kosningar. Þá geta menn séð að Sigmundur Davíð gekk þá götu sem hann ætlaði, götu sem allir aðrir töldu ófæra. Þá geta menn einnig spurt sig hvers vegna aðrir stjórnmálaflokkar töldu þá leið ófæra og hvort hugsanlega einhverjir eiginhagsmunir hafi stjórnað þeirra hugsun. Hvort það gæti verið að fylgispekt síðustu ríkisstjórnar, bæði fyrir kosningar og ekki síður eftir að þjóðin hafði kastað henni frá völdum, við kröfuhafa föllnu bankanna hafi stafað af einhverjum eiginhagsmunum!!
Eins og fyrr segir þá höfum við enn einungis séð toppinn af ísjakanum. Auðvitað er nauðsynlegt að öll spil verði lögð á borðið, að nöfn allra þeirra sem í skjalinu eru verði gerð opinber. Að fyrir hvern og einn þeirra verði upplýst hvernig þeir eignuðust það fé sem þeir geyma erlendis og hvort af því hafi verið greiddir skattar og gjöld. Innan þessa hóps er örugglega fjöldi fólks sem er heiðarlegt og hefur greitt sín gjöld til samfélagsins. Fyrir það er mikilvægt að afbrotamenn verði afhjúpaðir.
En það þarf auðvitað að opna fleira en þetta. Alla leynd af skjölum Alþingis varðandi stofnun nýju bankana og samskipti stjórnvalda við kröfuhafa verður að opna. Hugsanlega er með því hægt að fá útskýringar á þeirri hegðun sem síðasta ríkisstjórn viðhafði. Mögulegt er að sú hegðun eigi sér eðlilegar skýringar og afléttu leyndar yfir þessum skjölum mun þá sýna það.
Þetta er ekki allt, það þarf einnig að upplýsa þjóðina hvers vegna sumir fengu að halda sínum eignum eftir hrun meðan aðrir urðu að sætta sig við að þær voru af þeim teknar. Þarna er fyrst og fremst verið að tala um fyrirtæki landsins, en auðvitað má einnig skoða hvers vegna bönkum var gert kleyft að taka íbúðarhúsnæði af fólki, sem svo var svo óheppið að taka ólögleg lán fyrir þeirri fjárfestingu eða hin landsfrægu verðtryggðu lán. Hvort þeir aðilar sem misstu sínar eignir á þeim forsemdum eigi ekki einhverjar kröfur á bankana.
Þá þarf ekki seinna en strax að afnema verðtryggingu lána hér á landi og taka upp heilbrigt vaxtakerfi, eins og þekkist í öllum hinum vestræna heimi.
![]() |
Vill að Vilhjálmur njóti friðhelgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)