Færsluflokkur: Fjármál

Að berja hausnum við stein

Það hefur aldrei þótt merki um heilbrigði að berja hausnum við stein. Þeir sem standa samtökunum "Spítalinn okkar" eru þó duglegir við þessa iðju. Allir landsmenn geta sett sig undir nafnið "Spítalinn okkar" og fagnað byggingu á nýjum spítala, en eins og þessum samtökum er stjórnað forðast flestir að láta bendla sig við þau. Heilbrigða skynsemi vantar sárlega inn í þessi samtök!

Engin haldbær rök koma frá þessu fólki, enn fabúlerað um hluti sem koma þessu máli ekkert við og sannleikanum snúið á haus.

Fyrir það fyrsta fagna samtökin þeim framkvæmdum sem þegar eru hafnar. Sjúklingarnir, sem spítalinn er þó fyrst og fremst fyrir, eru ekki eins ánægðir og sumir sjúklingar útskrifa sig sjálfir af spítalanum, í ótíma, vegna þess ónæðis sem þar er.

Samtökin leggja áherslu á að uppbyggingin gangi hratt fyrir sig. Það er úrtilokað að hafa hraðann framkvæmdahraða þegar verið er að vinna við þröng skilyrði, milli húsa og fast við hús. Slíkar framkvæmdir eru seinlegar og viðkvæmar og taka mun lengri tíma en ef byggt er á opnu svæði.

Samtökin telja staðsetninguna mikilvæga. Hvers vegna? Jú nálægð við Háskólann! Er verið að byggja þennan spítala fyrir háskólasamfélagið eða sjúklinga? Þessi spurning kemur alltaf upp í hugann þegar þessi samtök senda eitthvað frá sér. Fyrir einum og hálfum áratug má kannski segja að þessi rök hafi haft eitthvað gildi, en varla þó. Í dag eru þau haldlaus með öllu!

Spítalann á fyrst og fremst að byggja fyrir sjúka og slasaða, háskólarnir geta síðan fengið aðgengi að honum fyrir sýnar tilraunir, rannsóknir og þróun. Því hlýtur staðsetningin að miða að þörfum sjúkra og slasaðra. Varðandi háskólana skiptir staðsetningin engu máli, enda tæknin kominn á það stig að samskipti þar á milli geta verið með ágætum, þó vegalendir séu meiri. Enn þurfa sjúklingar og slasaðir að treysta á sömu tækni til að komast á spítalann og verið hefur síðustu áratugi og engin von á að það breytist. Sé ekki fyrir mér að hægt verði að senda þá eftir ljósleiðara á sjúkrahús.

Það má hins vegar taka undir með Klöru Guðmundsdóttur, læknanema. Það er mikið óhagræði af því að reka bráðaþjónustu á tveim stöðum í borginni og aðstaðan fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk er óviðunnandi.

Að klastra saman mörgum húsum á þröngu svæði, með óteljandi óralöngum göngum, er þó vart til að leysa þann vanda. Að flytja síðan alla bráðamóttöku á stað þar sem aðgengi er verulega takmarkað, er ávísun á stórslys.

Leggjum niður allar deilur um þetta mál. Háskólasamfélagið verður að sætta sig við að landspítali er ekki byggður fyrir það, heldur sjúklinga, þó að sjálfsögðu háskólarnir eigi að hafa aðgengi að þeim spítala. Pólitíkusar verða að draga þetta mál burtu frá skotgröfum pólitíkunnar og sameinast um nýja og betri staðsetningu. Það er allt of mikið í húfi fyrir þjóðina til að láta þetta mál halda áfram á þeirri feigðarför sem það er.

Með því að byggja á betri stað má stytta byggingartíma veruleg, mun meira en nemur þeim tíma er tekur að undirbúa framkvæmdina. Því mun það skila nýjum spítala til þjóðarinnar mun fyrr en ef haldið verður áfram að berja haus við stein. Ný staðsetning yrði auðvitað valin þar sem aðgengi er mun betra og nægt landrými er. Þannig er hægt að tryggja að bráðaþjónustan kemst á einn stað mun fyrr en ella, tryggja að aðgengi fyrir sjúka og slasaða verður mun betra, hægt að tryggja að hægt verður að koma á einn stað allri þeirri þjónustu sem landspítali þarf að geta veitt og síðast en ekki síst tryggður möguleiki á að stækka og bæta eftir því sem tækninni fleytir áfram.

Viðhald og endurbætur á núverandi húsnæði þarf eftir sem áður að framkvæma, svo viðunnandi ástand verði á spítölunum meðan framkvæmdir standa yfir. Sá kostnaður skilar sér aftur.

Ef haldið verður áfram á þeirri feigðarför sem mörkuð hefur verið, munu framkvæmdir á Landspítalalóðinni standa yfir í a.m.k. 10 ár. Þegar sjúklingar eru farnir að flýja stofnunina áður en heilsa þeirra leifir, núna strax í upphafi framkvæmda, ættu augu fólks að opnast fyrir því að lengra verður ekki haldið á þessari leið, að endurskoða þarf kúrsinn.

Hvar nákvæmlega skal byggja nýjan spítala ætla ég ekki að segja til um. Til þess verks á að fá dómbæra menn sem þekkja vel til slíkra mála og þeir eiga að hafa fullt frjálsræði um hvaða staðsetning er best. Engar kvaðir eða skilyrði á að setja þeim mönnum.

 

 


mbl.is Fagna uppbyggingu við Hringbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er aldrei of seint að snúa á rétta leið

Það er rétt hjá Ragnheiði, umræða í þjóðfélaginu breytir ekki samþykktum Alþingis. Hins vegar er ákaflega auðvelt að breyta slíkum samþykktum, þarf einungis meirihluta þingmanna til.

Umræða í þjóðfélaginu er hins vegar alltaf af hinu góða, svo fremi menn haldi sig við efnislega umræðu. Svo á ekki síst við um ákvarðanir sem miklu máli skipta fyrir þjóðina og kosta mikla fjármuni. Og Alþingi ber að hlusta á slíka umræðu og breyta kúrs komi í ljós að röng stefna hefur verið tekin.

Engin efnisleg rök hafa enn komið fram um staðsetningu nýs landspítala við Hringbraut. Alltaf verið bent á einhverja skýrslu sem unnin var með skilyrðum rétt eftir síðustu aldamót. Nú upp á síðkastið hafa síðan bæst við þau "rök" að of langt sé komið með verkið til að snúa á rétta leið.

Hins vegar hafa fjölmörg rök komið gegn staðsetningu spítalans við Hringbraut, rök sem snúa nánast að öllum þáttum verkefnisins. Fjárhagslega er þessi staðsetning verri, byggingatími lengri og dýrari, aðkoma með því versta sem hægt er að hugsa sér, svæðið allt of lítið fyrir núverandi starfsemi hvað þá starfsemi morgundagsins. Það er nánast að öllu leyti sem Hringbrautin er versti kostur.

Ragnheiður og félagar hennar á Alþingi ættu að hlusta á þjóðina, hlusta á rökin. Að sjá að með því að byggja spítalann við Hringbraut er verið að stefna í enn eitt Landeyjarsands- eða Vaðlaheiðarævintýri.

Það er aldrei of seint að snúa á rétta leið.


mbl.is Breytir ekki samþykktum þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kári og skemmdarverkin

Kári Stefánsson fór mikinn um helgina, eins og hans er von og vísa. Kannski telur hann að síðustu rannsóknir IE, þar sem fram kom að stæðsti hluti landsmanna er heimskur, gefi honum leifi til að tala til þjóðarinnar út frá þeim punkti.

En aftur að ummælum Kára. Þar segir hann forsætisráðherra vinna skemmdarverk á íslensku heilbrigðiskerfi. Að þessu kemst Kári eftir að hafa lesið hugrenningar forsætisráðherra um byggingu á nýjum landsspítala fyrir þjóðina og hvar best væri að staðsetja slíkan spítala.

Ekki gerir Kári þó eina einustu tilraun til að gagnrýna hugrenningar forsætisráðherra á efnislegum grunni. Fyrst og fremst ræðst hann að persónu forsætisráðherra, auk þess bullar hann bara gamla tuggu og klikkir síðan út með því að segjast mun ætla að nýta undirskriftasöfnun sína gegn núverandi stjórnvöldum. Það væri hins vegar svik við þá sem létu tilleiðast að rita nafn sitt í þá söfnun, enda skýrt tekið þar fram að ekki væri verið að ráðast gegn sérstökum stjórnvöldum, heldur afskiptaleysi allra stjórnvalda síðustu áratugi.

Ég er bara ósköp venjulegur Íslendingur, sem Kári skilgreinir sjálfsagt heimskan, samkvæmt þeim rannsóknum sem fyrirtækið sem hann vinnur hjá hefur komist að. En mér er annt um heilbrigðiskerfið og vil að við byggjum landspítala af reisn. Landspítala fyrir alla þjóðin, með góðu aðgengi og eins takmarkalausum stækkunarmöguleikum og kostur er, landspítala sem getur þjónað þjóðinni um langan tíma.

Þetta er útilokað við Hringbrautina í Reykjavík. Takmörkun lóðarinnar gerir það að verkum að ekki er hægt byggja þar undir alla þá starfsemi spítalans sem nú er þekkt, hvað þá þá starfsemi sem örugglega mun bætast við á næstu árum og áratugum. Aðgengi að Hringbrautinni er með því versta sem hugsast getur hér á landi. Gatnakerfið með þeim ósköpum að á álagstímum eru umferðatafir svo kílómetrum skiptir og nánast útilokað að bæta þar úr svo einhverju máli skiptir.

Þá er ótalið það óhagræði sem hlýst af stækkun og viðbótum við núverandi spítala. Smá smjörþefur hefur þó verið af slíku ástandi, síðustu daga, en umfangið á þó eftir að magnast mikið og standa yfir um langa framtíð.

Ef hægt er að byggja nýjan spítala á stað þar sem engar eða litlar truflanir verða á byggingatíma, er ljóst að byggingahraði getur orðið mun meiri og víst að slíkt myndi flýta mjög að nýr spítali komist í gagnið. Ef þetta er síðan hægt fyrir minna fé en ella, er hagurinn augljós. Og ef sú staðsetning verður valin með tilliti til stækkunarmöguleika, eftir því sem tækni fer fram á sviði heilbrigðismála næstu áratugina, ætti enginn að veltast í vafa um kostina.

Við Íslendingar erum gjarnir á að æða af stað án umhugsunar eða vandlegrar skoðunar á kostum. Þetta rennir vissulega stoðum undir rannsóknir IE á þjóðinni. Þarna má nefna mörg dæmi en ég læt duga að nefna tvö; Vaðlaheiðagöng og Landeyjarhöfn. Bæði þessi verkefni höfðu langan aðdraganda en þegar upp var staðið var skoðun og rannsóknir fjarri því að vera viðunandi og langt frá því að hægt sé að telja þessar framkvæmdir til sóma. Rökin þá eru þau sömu og nú, að of langt sé komið í ferlinu, að tafir gæti hlotist af ef málið verður skoðað frekar. Það er hverjum manni ljóst að meiri tafir hljótast af því að vaða blint út í fen, en ef tekinn er krókur framhjá því.

Verði af byggingu á nýjum spítala við Hringbraut mun sú framkvæmd fljótlega verða sett á sama bekk og Vaðlaheiðagöng og Landeyjahöfn. Innan fárra ára, löngu áður en verkinu lýkur, mun því verða komin upp sama staða, að spítalinn er of lítill og finna þurfi honum betri stað.

Það er í raun alveg stórundarlegt að enn skuli deilt um hvort betri staður sé til fyrir nýjan landspítala. Að menn skuli ekki heldur taka höndum saman um að finna spítalanum betri stað og einhenda sér í byggingu hans. Sér í lagi er undarlegt að forstjóri spítalans og verkstjórinn um byggingu hans skuli ekki opna augu og eyru fyrir þessu. Þvermóðskan ríður ekki við einteyming og svo sem allt í lagi þó menn sem koma þessu máli ekkert við séu helsjúkir af þeim sjúkdóm. Verra er þegar þeir sem um málið eiga að fjalla og eru fremstir í stafni þess að fá hér nýjan spítala, eru haldnir þvermóðskusýkinni.

Það er spurning hverjir eru meiri skemmdarverkamenn, þeir sem vilja æða áfram eins og naut í flagi og byggja spítalann á lóð sem allt mælir gegn, eða hinir sem vilja að spítalanum verði fundinn staður sem getur dugað til langrar framtíðar.

Að sjálfsögðu þarf að tryggja núverandi spítala nægt fjármagn til viðhalds og þeirrar starfsemi sem þar þarf að fara fram, þar til nýr spítali er tekinn í gagnið. Því má segja að þær framkvæmdir sem nú eru hafnar og hugsanlega einhverjar til viðbótar, séu réttlætanlegar. Sá kostnaður fæst til baka að hluta eða öllu leyti þegar síðan núverandi spítali verður seldur.

En markmiðið hlýtur að vera að finna spítalanum nýjan og betri stað og hefja þar framkvæmdir svo fljótt sem verða má. Að við tökum í dag það skref sem við að öðrum kosti þurfum að taka eftir örfá ár.

 


mbl.is Bið eftir nýjum spítala yrði enn lengri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og enginn efast

Hér á landi snýr allt á haus og enginn sér ruglið. Hagnaður fyrirtækja er í þveröfugu hlutfalli við verðmætasköpunina og umræðan í þjóðfélaginu fylgir þeirri stefnu dyggileg eftir.

Ef maður rekur útgerðafyrirtæki, svona í stærri kantinum, má búast við að hagnaðurinn geti náð allt að 5 milljörðum króna, svona ef vel árar. Stórt fyrirtæki í verslunarrekstri getur jafnvel tvöfaldað þennan hagnað. En ef maður stofnar banka og gerir það eitt að höndla með peninga annarra, leggur engin verðmæti til þjóðfélagsins, þá væri maður sagður lélegur ef hagnaðurinn væri ekki allt að tíu sinnum meiri en hagnaður útgerðafyrirtækisins. Þetta er alveg magnað.

Hvers vegna að standa í útgerð, með öllu því veseni sem það fylgir og allri þeirri neikvæðu umræðu sem þeir fá á sig sem hana stunda? Í sjálfu sér má einnig spyrja, hvers vegna að standa í verslunarrekstri? Að vísu eru ekki sömu árásir á verslunina og útgerðina, en í ljósi hagnaðarvonar mætti halda að mun skynsamlegra væri að reka bara banka. Þar verða peningarnir til, eða þannig.

Og hvers mega svo bændur gjalda. Eina leiðin fyrir þá til að sýna hagnað er að lækka eigin laun, sem eru svo sem ekki til að hrópa húrra fyrir, sama hversu mikið er á sig lagt og vinnudagurinn langur. Ofaná það er svo þessi stétt í landinu ofsótt úr öllum áttum og ráðist gegn henni með offorsi í fjölmiðlum, fyrir það eitt að vilja vera meðhöndlaðir með sama hætti og bændur allra vestrænna ríkja, þ.e. að geta stundað sinn búskap, framleitt matvæli og haft þetta sem sitt lifibrauð og að sameiginlegir sjóðir þjóðarinnar greiði síðan þennan kostnað niður svo almenningur geti brauðfært sig. Að hér á landi sé stunduð sama aðferðafræði við matvælaframleiðslu og í öllum hinum vestræna heimi.

Nei, það er með þetta eins og hagnaðinn, umræðan í þjóðfélaginu er á villigötum. Mest og hæst er rifist um smáaurana og umræðan minnkar í beinu hlutfalli við þann auð sem að baki liggur. Þegar svo komið er upp í bankakerfið, sem hagnast yfir 100 milljarða króna fyrir það eitt að höndla með annarra manna fé, þegja fjölmiðlar, þegja bloggarar og þegir almenningur. Engum dettur í hug að spyrja hvernig þessi hagnaður verður til, enginn efast um að þetta sé bara eðlilegt. Dettur fólki virkilega í hug að þessi hagnaður sé bara eðlilegur, að hann komi ekkert við buddu fólks? Bara ef 10% prósent af hagnaði bankanna kemur úr vasa almennings, sem reyndar er ákaflega varlega áætlað, er almenningur að borga allt að því sömu fjárhæð til bankakerfisins og mun verða greidd til matvælaframleiðslu úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Munurinn er hins vegar að hagnaður bankanna mun halda áfram að aukast meðan niðurgreiðslur til matvælaframleiðslu lækkar.

Ekki ætlaði ég að nefna þátt þingmanna í þessu sambandi, enda ekki að sjá að á háttvirtu Alþingi sitji nema örfáir einstaklingar með viti. Þeir hafa vissulega látið í sér heyra, þó sérstaklega Frosti Sigurjónsson. En í hvert sinn sem hann tjáir sig er hann úthrópaður af vinnufélögum á Alþingi, utan þeirra örfáu sem hafa kjark til að taka undir með honum.

Hvað veldur því að saman safnast svo margt fólk inn á Alþingi sem virðist hafa það eitt hlutverk að lesa athugasemdadálka netmiðla og tjá sig í samræmi við þá, er óskiljanlegt. Hitt gæti einnig verið, þó ég neiti að trúa því vegna þess sem á undan hefur gengið, að þingmenn séu almennt á launum hjá fjármálastofnunum landsins, launum við að tryggja framgang þess sem mest á kostnað almennings. 

Í öllu falli eiga þingmenn að skammast sín og reyna að fara að vinna sína vinnu, þá vinnu sem þeir voru kosnir til að sinna!


mbl.is Bankarnir með 107 milljarða hagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr búvörusamningur, sitt sýnist hverjum

Langt er frá að eining ríki um búvörusamninginn og víst er að innan bændastéttarinnar eru æði misjafnar skoðanir á þeim breytingum sem samningurinn hefur í för með sér.

Sumir gagnrýna samninginn út frá innihaldi hans og fara þar fremstir þeir bændur sem ekki eru sáttir. Það sem þeir hellst gagnrýna er afnám beingreiðslna, enda hafa þær verið notaðar sem stjórntæki á framleiðsluna. Þessir bændur óttast að til offramleiðslu komi og því fylgi verðfall á búvörum. Fari svo munu hinir stóru hugsanlega hafa burði til að standa slíkt verðfall af sér, sér í lagi ef þeir eru með góðan bakhjarl eins og útgerðafyrirtæki, en smærri bændurnir, fjölskyldubúin, munu hins vegar eiga erfiðara með að taka á sig slíkar lækkanir. Þetta gæti hæglega orðið til mikillar samþjöppunnar í landbúnaði með enn frekari fátækt á byggð í landinu, fátækt sem síðan bitnar á öllu samfélaginu. Þorp og smærri kaupstaðir munu blæða og ferðaþjónustan gæti hrunið.

Flestir gagnrýna þennan nýja búvörusamning til þess eins að gagnrýna hann. Þarna fara fremstir í flokki hinir ýmsu misvitru álitsgjafar og bloggarar. Engin haldbær rök hefur þetta fólk, er bara einfaldlega á móti. Um þennan hóp er ekkert frekar að segja.

Svo stíga nokkrir á stokk og gagnrýna þennan samning út frá eigin græðgihugsun, telja að hann muni hamla eitthvað þeirra eigin möguleikum til enn frekari gróða. Þarna fer fremstur í flokki formaður samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og margir sem gípa hans "rök" á lofti og apa þau eftir.

Formaður SVÞ gerir sér leik að því að koma fram með tölur sem enga skoðun standast og bera þær saman við annað sem kemur þessu máli ekkert við og er alls óskylt. Jafnvel hefur hann borið saman þessar tilfærslur á fé hér innanlands við útkast á fjármunum úr landi Ber ekki saman epli og appelsínur, heldur epli við vínber.

Andrés Magnússon tekur heildargreiðslu samningsins á fyrsta ári, margfaldar hana með samningstímanum og leggur síðan við þá tölu einhverja ímyndaða upphæð sem hann kallar tolla og aðflutningsgjöld, upphæð sem er jafn há samningsupphæðinni og fær út úr dæminu að þetta kosti launþega landsins eitthvað yfir tvöhundruð milljarða króna. Ofaná þetta lætur Andrés eins og þessi upphæð sé viðbót við útgjöld ríkissjóðs. Þvílíkt og annað eins hefur sjaldan sést á opinberum vettvangi og að það skuli koma úr ranni þess manns sem er í forsvari fyrir verslun í landinu er aldeilis ótrúlegt.

Auðvitað er þessi útreikningur Andrésar eitt bull, frá upphafi til enda.

Fyrir það fyrsta þá er nú þegar í gildi samningur við bændur. Nýi samningurinn er 900 milljónum hærri á fyrsta ári og fer síðan lækkandi. Þarna fellur grunnurinn af dæmi Andrésar. Þá verður í þessari umræðu að benda á að sumarið 2009 stigu bændur fram af fyrra bragði og buðu þáverandi ríkisstjórn að lækka gildandi samning um einn milljarð króna. Þetta boð var þegið og því má segja að hækkunin nú sé langt frá því að bæta bændum þessa fórn. Engin önnur atvinnugrein né nokkur annar hópur í landinu tók þessa framgöngu bænda til fyrirmyndar. Og auðvitað urðu bændur landsins síðan að taka á sig ýmis áföll og skerðingar, til jafns við aðra landsmenn, skerðingar sem urðu til vegna afleiðinga hrunsins.

Að leggja saman við þessa umræðu tolla og innflutningsgjöld, eins og Andrés gerir, er auðvitað kol rangt. Tollar og innflutningsgjöld af landbúnaðarvörum hafa farið mjög lækkandi undan farin ár og áratugi og sú stefna er enn í gangi. Nýlegur samningur landbúnaðarráðherra við ESB á þessu sviði var heljarstökk og ekki enn séð hvaða afleiðingar hann mun hafa fyrir landbúnað hér á landi. Að taka síðan stöðuna á þessum greiðslum, eins og hún er áður en samningur landbúnaðarráðherra við ESB tekur gildi og uppfæra hana til næstu tíu ára, er ekki bara svindl. þetta er vísvitandi lygi og sæmir ekki formanni SVÞ að láta slíkt frá sér.

Þá er rangt hjá Andrési að tala um að þetta sé tekið úr vasa launafólks í landinu. Vissulega eru skattatekjur ríkissjóðs af launafóli hærri en gott má telast, en það eru samt fyrirtækin sem standa undir stæðstum hluta af greiðslum í ríkissjóð.

Þegar litið er á dæmið og það reiknað út á réttum grunni, kemur í ljós að þessi nýi búvörusamningur sparar ríkissjóð strax á fyrsta ári einhverjar hundruð milljóna króna og eykst sá sparnaður ár frá ári eftir það. Þar mælist stæðst að ekki er leiðrétt sú lækkun sem bændur sjálfir færðu stjórnvöldum, þegar landið var í djúpum sárum, eftir framgöngu auðhyggjumanna.

En um hvað er raunverulega verið að tala með búnaðarsamningnum?

Sumir eru mjög áfram um að tengja tölur við landsframleiðslu og vilja mæla sem flest með þeirri mælistiku. Þetta gera líka alþjóðleg samtök stundum, þegar þau bera saman lönd.

Eftir að þessi nýi búvörusamningur tekur gildi mun hann verða um 1% af landsframleiðslu. Útilokað er að nota þennan samanburð varðandi landbúnaðarstyrki ESB, þar sem engin landsframleiðsla er á þeim bænum, einungis útgjöld. En ef landbúnaðarstyrkir ESB eru reiknaðir af landsframleiðslu þeirra landa sem að sambandinu standa, kemur í ljós að þeir eru um 0,8% og mitt þarna á milli kemur síðan Noregur, með alla sína olíusölu, með landbúnaðarstyrki upp á 0,9% af landsframleiðslu. Því er ljóst að búvörusamningurinn hér á landi er nánast sambærilegur þeim löndum sem við miðum okkur við.

Varðandi tolla og innflutningsgjöld, þá þekist ekkert slíkt milli þeirra landa sem að ESB standa, en eru þeim mun hærri inn á sambandið. Í þeim samanburði getum við borið höfuðið hátt.

Það má vissulega gagnrýna þennan nýja búvörusamning, en sú gagnrýni hlýtur að beinast að innihaldi hans. Og þar má finna margt gagnrýnivert.

Að halda uppi áróðri, á fölsuðum forsemdum, er hins vegar skammarlegt.

Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að hér á landi ríkir sama aðferðarfræði og í öllum hinum vestræna heimi, að niðurgreiða matvörur með fé úr sameiginlegum sjóðum. Vel má vera að þetta sé röng stefna, sé gamaldags. En það kostar að framleiða matvæli og þann kostnað verður að greiða, annars eru engin matvæli framleidd. Því yrði að hækka laun fólks sem þessu nemur svo það geti brauðfært sig. Ekki er ég viss um að Andrés sé tilbúinn að hækka laun hjá kassadömunum sínum.

Auðvitað má hætta að framleiða matvæli hér á landi og flytja þau bara inn. Því miður eru flestar þær matvörur sem framleiddar eru hér á landi dýrari erlendis, þ.e. þær sem  eru næstar því að teljast jafn hollar og vistvænar og íslensk matvælaframleiðsla. Því myndi matarverð hækka verulega við þau skipti, nema við gengisfellum verulega kröfur um heilnæmi þeirra. Þá þarf ekki nokkur maður að láta sér detta til hugar að ESB, Noregur eða hvaða það land sem við myndum vilja versla við, muni vera tilbúið að selja okkur vörurnar á því verði sem þegnar þeirra landa fá þær á. Þessi lönd fara ekki að niðurgreiða úr eigin sjóðum landbúnaðarvörur til okkar, nema því aðeins að við séu tilbúin að borga okkar hlut í þeim niðurgreiðslum.

Er þá ekki betra að greiða niður matvælaframleiðslu hér heima og vera á sama grunni og aðrar vestrænar þjóðir, a.m.k. þar til komist er að samkomulgi milli allra þjóða hins vestræna heims að hætta þeirri aðferðarfræði? Að stuðla þannig að nýtingu landsins og styrkingu byggðar um allt land og að framleiða hér áfram matvæli sem eru á algjörum sérklassa hvað hreinleika varðar.

Að lokum má benda á að þessi nýi búvörusamningur er í raun niðurgreiðsla til launagreiðenda í landinu, þó menn kalli það niðurgreiðsla á mat til neytenda. Kostnaðurinn við þennan samning getur varla talist hár í samanburði við þann kostnað sem þjóðin hefur þurft að reiða fram til hinna ýmissa fyrirtækja á sviði verslunar hér á landi, eftir hrun. Bara vegna einnar verslunar þurfti þjóðin að taka á sig byrgðar upp á rúma 300 milljarða króna og það á einum degi, haustið 2008!

 

 


mbl.is Þetta er frágengið mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggðir andskotar

Það er alveg magnað hvað margir eru fastir í þeirri hugsun að verðtrygging lána sé alfa og omega alls. Að jörðin geti ekki snúist nema lán á Íslandi séu verðtryggð. Að forsætisráðherra teljist til þessa fólks kemur kannski ekki á óvart, en þó.

Hvers vegna í ósköpunum þurfa bankar á Íslandi að fá miklu meiri ávöxtun af sínu lánsfé, sem nemur hundruðum prósenta, en bankar annarra landa? Hvers vegna í ósköpunum þurfa bankar á Íslandi að vera tryggðir í bak og fyrir, þegar þeir lána til fasteignakaupa? Við vitum að bönkum hér á landi er einstaklega illa stjórnað og að varla er hægt að segja að þeir sem þar fara fyrir stafni séu menn með lágmarks þekkingu eða skynsemi. Kannski vegna þess að ekki þarf vitibornara fólk til þessara starfa, bankinn er hvort eð er gulltryggður í bak og fyrir. Verst er þó að lesa í fréttum að þessir sömu bankar eru að lána fé til fyrirtækja erlendis. Varla eru sömu vextir á þeim lánum og sannarlega ekki verðtrygging. Um þau lán hljóta að gilda sömu vaxtareglur og gilda í viðkomandi landi.

En aftur að orðum fjármálaráðherra. Þar örlar ekki á þeirri hugsun að afnema verðtryggingu lána, einungis að stytta þau lán sem verðtrygging eru á. Og helsta áhyggjuefni ráðherrans er að 40% þeirra sem taka lán gætu þá ekki tekið lán. Vel má vera að það sé rétt hjá ráðherranum, enda ætlar hann að halda helvítis verðtryggingunni áfram og ekki dettur honum í hug að nefna hámark á vexti á lán til fasteignakaupa.

Hins vegar með afnámi verðtryggingar og hámarksvexti á lán til fasteignakaupa, mætti gera ráð fyrir að mun fleiri gætu tekið lán en nú og það sem meira er, gætu borgað það upp að fullu. Það er engin glóra í því að fasteignalán séu sett í sama flokk og önnur lán, þegar vextir eru annars vegar. Það fæst ekki betri trygging fyrir láni en fasteign og því geta vextir af lánum með slíkri tryggingu verið mun lægri en lán af áhættufjárfestingu. Íslenskir bankar munu þó aldrei taka upp hjá sjálfum sér að meta áhættu lána og ákvarða vexti út frá því. Samráð þeirra er allt á hinn veginn. Af þeim sökum er nauðsynlegt að löggjafinn setji í lög hámark á vexti fasteignalána.

Við afnám verðtryggingar er fyrst hægt að tala um heilbrigðara fjármálakerfi hér á landi. Sjálfstæðismenn vilja frjálsræði í fjármálum, að markaðurinn fái að ráða. Það ætti því að vera forgangskrafa hvers Sjálfstæðismanns að afnema verðtryggingu, þannig að forsenda fyrir frelsinu sé til staðar. Eða er þetta frelsistal þeirra einungis á annan veginn, þ.e. til að græða? Má frelsið ekki vera út á að þeir sem vel fara með fé græði en hinir sem ekki kunna með það að fara tapi? Má frelsið ekki vera frelsi?

Eins og áður segir þá er afnám verðtryggingar forsemda fyrir því að hagkerfið geti virkað eðlilega. Hagkerfi sem er með einn þátt bundinn getur aldrei orðið heilbrigt, það er fársjúkt.

Með afnámi verðtryggingar fæst einnig stjórn á hagkerfinu. Þá munu vaxtaákvarðanir Seðlabankans virka, sem þær gera ekki fyrr en seint og um síðir þegar stæðsti hluti lánakerfisins er bundinn verðtryggingu. Þá mun verða auðveldara að ná tökum á verðbólgu, ef hún sýnir sig, meðan verðtrygging magnar hana.

Mestu skiptir þó að með afnámi verðtryggingar munu fjármálakerfið jafna sig og vextir verða eðlilegri, meira í átt að því sem þekkist erlendis. Og ef samhliða því verði bönkum gert skylt að hafa vexti á öruggustu lánin, fasteignalánin, lægri en öðrum lánum, mun fólki verða mögulegt að koma þaki yfir höfuð sér. Þannig má stuðla að því að flótti menntafólks úr landi minnki, t.d. fólk úr heilbrigðisgeiranum. Ekki fer það erlendis vegna hærri launa, en hins vegar eru margir sem ekki treysta sér til að stofna heimili hér á landi.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og allir þeir sem eru fastir í viðjum verðtryggingarhams ættu að reyna að opna hug sinn örlítið. Ættu að velta fyrir sér hvers vegna allar aðrar þjóðir geti verið án verðtryggingar lána. Sérstaklega ættu Sjálfstæðismenn, menn frelsisins að skoða þá andhverfu sem verðtrygging er á frelsið, frelsið til að græða og frelsið til að tapa!

Það er einungis ein ástæða fyrir verðtryggingunni. Getuleysi og aumingjaskapur bankamanna og stjórnmálamanna. Þeir hafa ekki getu, kunnáttu né kjark til að vera án verðtryggingar. Þeir eru kollegum sínum erlendis svo langt að baki að þeir verða að hafa hækjur við hlið hjólastólsins!!

Þetta eru verðtryggðir andskotar!!


mbl.is 40% gætu ekki tekið lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það liggur ekkert á

Menn geta haft skiptar skoðanir á því hvernig til tókst með fyrri einkavæðingu bankanna. Enginn getur þó sagt að sú leið hafi endað vel, haustið 2008.

Um síðari einkavæðinguna þarf hins vegar ekkert að deila. Þar var gengið lengra en hörðustu kapítalistar hefðu nokkurn tímann getað óskað sér.

Með samningum við þrotabú gömlu bankanna tókst að snúa þeirri endemis þvælu til baka. Ekki held ég að nokkrum Íslending hafi dottið til hugar, þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum, að slíkt tækifæri gæfist okkur aftur, eftir niðurrif vinstriflokkanna á fjármálakerfi landsins.

Í ljósi þess hvernig fyrri einkavæðing bankakerfisins endaði og að hin síðari og enn verri, skuli nú vera gengin til baka, er rétt að fara varlega. Það liggur ekkert á.

Nú þurfa ráðamenn að hlusta á þjóðina, hlusta á allar tillögur um hvernig fjármálakerfinu skuli skipa í framtíðinni. Hvort minnka skuli bankakerfið og gera það meira í takt við að hér á landi búa ekki nema um 330.000 manns. Hvort kannski eigi að breyta einhverjum bankanum í samfélagsbanka, þar sem viðskiptavinurinn verður settur í öndvegi. Eða yfirleitt hvernig fjármálakerfi við viljum búa við hér á landi.

Meðan ekki hefur farið fram eðlileg og hreinskiptin umræða um þessa þætti, hafa stjórnvöld enga heimild frá þjóðinni til einkavæðingar bankakerfisins.

Það liggur ekkert á, tökum hvert skref af yfirvegun og í þeirri vissu að aldrei, aldrei aftur muni koma upp sama staða og olli hér bankahruni líkt því sem varð haustið 2008.


mbl.is Hafi sig hæga um hagsmuni þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski fá einhverjir aðrir "bónushækkun" seinna, því tökum við okkur vænlegann ´"bónus" núna

Að réttlæta launaábót með því að hugsanlega muni aðrir greiða slíka ábót seinna, er eitthvað sem mér er útilokað að skilja. Hins vegar er nokkuð öruggt að þegar einn aðili hefur brotið skelina munu aðrir fylgja á eftir. Man enginn lengur eftir árunum fyrir hrun?!

En hvað er bónus? Hingað til hefur skilgreiningin á bónus verið eitthvað sem starfsmenn gera sem eykur verðmæti og fá hlut í þeirri verðmætaaukningu. Um þetta er alltaf samið fyrirfram og fyrirséð hvaða atriði geti gefið bónusa. Þetta er þekkt t.d. í fiskvinnslu, þar sem aukið vinnuframlag eða betri starfsaðferðir verkafólks geta aukið verðmæti. Um þetta er samið, hvaða það er sem aukið vinnuframlag gefur og hvað betri starfsaðferðir gefa. Síðan er mældur árangur og laun greidd samkvæmt því. Allt er þetta gert til að auka verðmætin sem frá fyrirtækinu fara og skila sér í meiri tekjum þess.  Þannig er þetta gert og nær eingöngu þar sem verðmætasköpun verður til, enda þarf mælikvarða til að geta greitt bónus á laun.

Engin verðmætasköpun verður í banka- eða fjármálastofnun. Þar er einungis höndlað með peninga, peninga annarra. Hvernig er þá hægt að mæla bónus í fjármálafyrirtæki? Hvert er viðmiðið? Er það dugnaður í útlánum? Eða dugnaður í innheimtu? Hvorugt telst þó til verðmætasköpunar. Kannski er telur mest hugmyndaauðgi við gjaldtöku af viðskiptavinum?

Það er því útilokað að tala um bónusgreiðslur til starfsfólks fjármálafyrirtækja, sér í lagi ef ekki er um það fyrirfram samið, heldur ákvörðun tekin eftirá.

Hins vegar má segja að þetta geti verið greiðsla vegna hagnaðar. Það þekkist einnig á almennum markaði. Sum vel rekin fyrirtæki hafa tekið upp hjá sér að greiða starfsfólki hlut af hagnaði, þó upphæðirnar séu langt undir því sem um ræðir í fréttinni.

Að greiða hlut af hagnaði er því í sjálfu sér ekki óeðlilegt, sé það í hófi. En þá þarf líka að skoða hvernig sá hagnaður varð til. Varð hann til vegna verðmætasköpunar eða kannski bara sóttur í vasa einhvers annars. Það var gífurlegur hagnaður af fjármálafyrirtækjum fyrir hrun, en engin innistæða var fyrir þeim hagnaði. Er einhver ástæða að ætla að svo sé nú?

Fyrrum forstjóri bankans gat notað hvaða rök sem var önnur en þau að hugsanlega muni einhver önnur fyrirtæki greiða svona ofurbónusa seinna, eða að þetta sé í takt við það sem þekkist erlendis. ALMC, áður Straumur-Burðarás er ekki erlent fyrirtæki. Þetta er íslenskt fyrirtæki, starfandi hér á landi.

Þá ætti bankinn kannski að skila einhverju aftur af þeim fjármunum sem þjóðin hefur tekið á sig vegna afskrifta þessa fyrirtækis. Fyrst gróði þess er svo óskaplegur að það neyðist til að greiða stjórnendum sínum milljarða í aukagreiðslur ofaná laun, sem sjálfsagt eru ekki alveg byrjunarlaun verkamanns, ætti bankinn að geta greitt eitthvað af skuld sinni við þjóðina til baka!!


mbl.is Bónusinn í takti við erlenda þróun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggingin og Framsókn

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, ritar ágætan pistil á pressan.is. Allir ættu að lesa þennan pistil Vilhjálms, þar sem hann veltir fyrir sér kosningaloforðum Framsóknar og hvernig hefur tekist til með þau.

Vilhjálmur nefnir að Framsókn geti að mestu leyti þakkað þann sigur sem hann hlaut í síðustu kosningum þrem málefnum, loforð um afnám verðtryggingar, leiðréttingu forsendubrest húsnæðislána í kjölfar hrunsins og afnám fjármagnshafta á kostnað kröfuhafa.

Vilhjálmur bendir á þá staðreynd að afnám hafta hefur tekist og það í þeim anda sem Framsókn lofaði, anda sem enginn frambjóðandi annarra flokka taldi mögulegan. Leiðrétting forsendubrests lána tókst einnig þokkalega, þó auðvitað lánþegar hefðu viljað sjá meiri leiðréttingu en raunin varð. Þetta var þó mikið framfaraskref miðað við málflutning annarra flokka fyrir kosningar, þar sem enginn þeirra taldi svigrúm til þessarar leiðréttingar.

Þegar kemur að afnámi verðtryggingar á húsnæðislán og setningu vaxtaþaks á þau, er aftur minna um efndir. Strax að lokinni stofnun núverandi ríkisstjórnar var ákveðið að setja þetta mál í nefnd. Sú nefnd skilaði af sér, að vísu ekki samróma áliti, en síðan hefur akkúrat ekkert gerst. Þetta atriði átti þó óumdeilanlega stæðstan þátt í sigri Framsóknar í síðustu kosningum.

Nú um þessar mundir hafa þingmenn Framsóknar ferðast um landið með fundaherferð. Sammerkt með flestum eða öllum þessum fundum er að kjósendur krefja flokkinn um efndir afnáms verðtryggingar, enda það atriði hluti af stjórnarsáttmálanum. Þingmönnum flokksins hefur verið gert vel skiljanlegt að engin ástæða sé til framboðs fyrir næstu kosningar, ef ekki verður við þetta atriði staðið og ættu þeir að taka þær athugasemdir alvarlega. Verði ekki staðið við þetta kosningaloforð, sem gekk inn í stjórnarsáttmálann, þarf hvorki formaður flokksins né nokkur annar þingmaður hans að rita bréf í anda þess sem Árni Páll sendi sínum flokksfélögum nýlega. Slíkt bréf verður með öllu óþarft af hendi þingmanna eða formanns Framsóknar, þar sem engir viðtakendur verða. Það er því mikilvægt fyrir framsókn að þetta mál verði tekið upp sem fyrst, með eða án samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Ef samstarfsflokkur Framsóknar kýs að láta þetta verða málefni til slita samstarfinu og ganga þannig gegn stjórnarsáttmálanum, verður svo að vera.

En það er eitt mál enn sem gaf Framsókn atkvæði í síðustu kosningum. Afturköllun aðildarumsóknar er mörgum kjósanda Framsónar sem heilagt mál. Utanríkisráðherra hefur nú klúðrað því máli hressilega og það sem verra er, hann vill ekki viðurkenna þau mistök. En þar er þó ekki alfarið við ráðherrann að sakast. Ríkisstjórnin hefur sterkan meirihluta á þingi. Samt var þingsályktunartillaga ráðherrans gerð afturræk af þinginu, skömmu eftir að hún var lögð þar fram. Menn vilja kenna málþófi stjórnarandstöðu um, en það er kolröng kenning. Ríkisstjórn sem hefur slíka yfirburði á Alþingi, sem raun er nú, þarf ekki að gefa eftir vegna málþófs, einungis tafir verða af slíku. Það reyndi þó ekki alvarlega á þetta málþóf stjórnarandstöðunnar, þar sem ráðherrann dró tillöguna til baka með jafn skörpum hætti og hún var lögð fram, eftir einungis stutta umfjöllun.

Hver var ástæða þess? Hvers vegna dregur ráðherra í ríkisstjórn, sem hefur góðan meirihluta á Alþingi til baka tillögu, nánast strax í upphafi umræðu um hana? Þarna er einungis ein skýring, að ekki hafi verið meirihluti stjórnarþingmanna fyrir tillögunni, þrátt fyrir afgreiðslu í báðum stjórnarflokkum. Allir þekkja að núverandi þingmenn Framsóknar stóðu sem einn maður baki tillögunni, það sama verður ekki sagt um þingmenn samstarfsflokksins. Því er rangt að kenna alfarið utanríkisráðherra um hvernig komið er í þessu máli, nema auðvitað að hann skyldi ekki láta á það reyna fyrir Alþingi. Sökin er miklu fremur hjá samstarfsflokknum og enn og aftur velur sá flokkur að ganga gegn stjórnarsáttmálanum.

Það er klárt mál að ef Framsókn ætlar að ná einhverjum þingmönnum inn á Alþingi í næstu kosningum þurfa þingmenn hans að girða sig í brók. Í fyrsta lagi verða þeir að koma þingmönnum samstarfsflokksins í skilning um að það var gerður stjórnarsáttmáli um þessa ríkisstjórn og hann ber að halda. Í öðru lagi verða þingmenn Framsóknar að standa fastir á sínum málum um önnur málefni, sem ekki eru innan stjórnarsáttmálans, s.s. uppstokkun bankakerfisins. Engum datt til hugar að slíkt tækifæri byðist aftur, eftir að vinstri flokkarnir höfðu klúðrað því svo hressilega sem raun varð á.

En þetta vandamál snýr ekki bara að Framsóknarflokki. Fjölmargir kjósenda Sjálfstæðisflokks munu einnig snú baki við sinn flokk, standi þingmenn hans gegn afnámi verðtryggingar og gegn afturköllun aðildarumsóknar. Hins vegar gæti formaður Sjálfstæðisflokks hugsanlega getað samið bréf a la Árni Páll, að hugsanlega verði einhverjir til að taka móti slíku afsalsbréfi, jafnvel þó sá flokkur muni ekki eiga marga þingmenn.

Arfa slakt gengi beggja stjórnarflokka í skoðanakönnunum verður ekki skrifað á vinstri flokkanna, enda treysta kjósendur þeim ekki, eftir fjögurra ára sýnishorn af þeirra skelfingar stjórnháttum og þeir því að þurrkast út af vígvelli íslenskra stjórnmála. Og ekki verður þetta slæma gengi stjórnarflokkanna skrifað á Pírata.

Slæmt fylgi stjórnarflokkanna er alfarið þeirra eigin sök og því halla kjósendur sér að Pírötum, enda þeir óskrifað blað. Fylgisaukning Pírata er því ekki vegna þess hversu vel þeir eru að sér, heldur hinu, hversu slakir stjórnarflokkarnir eru og þeirri staðreynd að vinstriflokkarnir eru að hverfa.

Aðgerðarleysi, stefnuleysi og gunguskapur í þeim málefnum sem mest brenna á þjóðinni er einfaldlega ekki í boði. Kjósendur láta ekki bjóða sér slíkt og leita annað. Þetta annað formgerist í Pírötum.

Engin ríkisstjórn hefur þó verið í betri aðstöðu til að framkvæma vilja þjóðarinnar og einmitt núverandi ríkisstjórn. Hún þarf einfaldlega að efna loforðin og til þess eru allar forsendur einmitt nú um þessar mundir.

Ef einhvertímann er lag til afnáms verðtryggingar er það þegar verðbólga er lág. Núverandi ríkisstjórn hefur tekist að halda lágri verðbólgu um langan tíma, þrátt fyrir að Seðlabankinn geri allt sem er í hans valdi til að magna hana upp og þrátt fyrir að launahækkanir hafi verið mun hærri en hagfræðingar töldu gerlegt. Því mun sennilega seint gefast jafn gott tækifæri og nú til að afnema verðtrygginguna.

Aðstæður í ESB og sá vandi sem þar er óleystur og magnast dag frá degi, hefur gert enn fleiri afhuga aðild að því sambandi. Jafnvel höfuðvígi ESB á Íslandi, Samfylking, er að þrotum komið. Því er formleg afturköllun umsóknarinnar einungis afgreiðslumál fyrir stjórnarflokkanna.

Og þar sem svo vel virðist vera að takast að losa um fjármagnshöftin, miklu betur en nokkur þorði að vona fyrir síðustu kosningar, nema Framsókn, ætti ekki að vera mikill vandi að laga aðstæður aldraðra og öryrkja. Uppbygging heilbrigðiskerfisins er á góðri leið, þó betur mætti kannski gera. Helsti vandinn þar er að það gegndarlausa svelti sem það varð fyrir á síðasta kjörtímabili er að koma í hausinn á okkur með hruni þeirra húsa sem hýsa stæðsta spítala landsins, vegna skorts á viðhaldi. Þá er stór vandi í heilbrigðiskerfinu algert stjórnleysi innan Landspítalans, þar sem smákóngarnir berjast á banaspjótum meðan sjálfur forstjórinn spilar á hörpu.

Það væri synd ef núverandi stjórnarflokkar, sérstaklega Framsókn, þar sem þar virðast einu þingmenn Alþingis sem búa yfir einhverjum kjark vera, utan auðvitað Guðlaug Þór sem er eini þingmaður Sjálfstæðisflokks sem hefur kjark, færu frá í næstu kosningum. Væri synd ef afturhaldið sem réði ríkjum síðasta kjörtímabil kæmist aftur til valda, með sinni skattpíningu og reglugerðafargani, sem allt lamar.

Það eina sem núverandi stjórnarflokkar þurfa að gera er að standa við loforð sín, afnema vertryggingu og setja hámark á vexti húsnæðislána, afturkalla aðildarumsóknina með formlegum hætti, auka fjármagn til aldraðra og öryrkja enda flestir kjósendur sem eiga rætur til einhverra úr þeirra hópi og efla heilbrigðiskerfið enn hraðar. Með auknum fjárframlögum til þess þarf einnig að fylgja uppskurður á stjórnun Landspítalans.

Ef stjórnarflokkarnir hafa kjark og þor til að framkvæma þetta, erum við Íslendingar í góðum málum og stjórnarflokkarnir geta gengið til kosninga knarrreystir. Ef ekki er vilji innan Sjálfstæðisflokka að ganga þessa leið og standa þannig við stjórnarsáttmálann, á Framsókn ekki að hika við taka sóló og láta reyna á stjórnarsamstarfið. Sá flokkur hefur engu að tapa en allt að vinna og reyndar á það við um báða stjórnarflokka.

Að lokum bendi ég fólki aftur á að lesa pistil Villa Bigg.

 


Hvar nema á Íslandi ?

Ísland er dásamlegt land og hér er gott að búa. En fyrir enga er Ísland samt dásamlegra og betra en þá sem spila með peninga.

Hér er hægt að stofna fyrirtæki, hvert af öðru. Hvert þeirra er rekið í skamman tíma og síðan eru eignir færðar yfir í annað og skuldir skildar eftir. Sömu menn áfram við stjórnvölinn, en skuldir upp á hundruð milljóna og í sumum tilfellum hundruð milljarða, færðar yfir á landsmenn.

Lærðum við ekkert á hruninu? Eru allir stjórnmálamenn svo  hræddir við fjármálaöflin að þeir hafa ekki kjark til að taka á málinu? Hvorki síðasta ríkisstjórn né sú sem nú er við völd hefur breytt nokkru, allt við það sama og fjárglæframönnum hampað!

Einstaka þingmaður stjórnarflokkanna rísa upp og benda á ruglið, en samstundis er reynt að gera þá tortryggna og jafnvel formaður samstarfsflokksins í ríkisstjórn farinn að taka þátt í þeim leik.

Fjölmiðlar, sem stundum eru kallaðir fjórða valdið, eru engu betri. Þeir taka þátt í ruglinu, svona rétt eins og fyrir hrun. Reyndar má kannski ekki búast við miklu af fjölmiðlum þessa lands, meðan stór hluti þeirra er í eigu þeirra manna sem voru í aðalhlutverkum hrunsins.

Ekki einu sinni á því sviði höfum við Íslendingar lært.


mbl.is 453 milljóna gjaldþrot gamla Ormsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband