Færsluflokkur: Fjármál
Og landsmenn fá timburmenn
3.2.2016 | 20:49
Það liggur fyrir að síðustu misseri fyrir hrun streymdi fé úr landi, til hinna ýmsu skattaskjóla út um heiminn. Enn hafa menn á því misjafnar skoðanir hvort þarna hafi alltaf verið farið að lögum í þessu fjárflutningum, en enginn efast um hver áhrif þessa voru á íslenska fjármálakerfið og þjóðina.
Ekki hefur gengið vel að ná þessu fé til baka eftir dómstólaleiðinni, þó einstaka gerandi þessara fjárflutninga hafi hlotið dóma. Síðustu ríkisstjórn datt það snjallræði í hug að verðlauna þá sem kæmu færandi hendi með þessa fjármuni, til landsins aftur og gaf veglegan afslátt á gjaldeyrisfærslunni, þannig að hver innflutt króna var 20% verðmeiri en sú sem fyrir var í landinu og landsmenn þurftu að lifa af. Var þetta rökstutt með því að þessar innfluttu krónur, sem áður höfðu verið fluttar út með vafasömum hætti, væru nýttar til uppbyggingar atvinnu í landinu.
Víst er að margur nýtti sér þessa leið til að auka verðmæti þess fjár sem þeir höfðu áður komið úr landi. Í einstaka tilfellum var það nýtt til atvinnuuppbyggingar, stæðsti hlutinn fór þó til að komast aftur yfir þau fyrirtæki sem af þeim höfðu verið tekin og stendur sú vinna enn yfir á fullu. Svo voru sumir sem nýttu sér gjafmildi stjórnvalda til einkanota, eins og fanginn Sigurður Einarsson, sem nýtti þessa leið til að eignast aftur jörð og sumarhús í Borgarfirði, sem hann hafði komist yfir fyrir hrun en glataði í hamaganginum eftir það.
Þetta á svo sem ekki beinlínis við um fyllerí Seðlabankans þessi misserin, annað en með því er hann að skapa sömu skilyrði og fyrir hrun, með kolrangri vaxtastefnu. Þeirri sömu vaxtastefnu og átti þátt í að bankakerfið féll.
Hvorki Seðlabankinn né bankastjóri hans mun þó þurfa að díla við timburmennina, þeir munu að vanda lenda á hinum almenna landsmanni, með tilheyrandi skelfingu!
![]() |
Seðlabankinn dottinn herfilega í það |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Komið að uppgjöri?
2.2.2016 | 20:48
Það er gott að 365 miðlar skuli skila góðum hagnaði. Þá geta eigendur þessa fyrirtækis kannski skilað aftur einhverjum þeirra fjármuna sem þeir hafa haft af landsmönnum, bæði beint og óbeint.
Eitt sinn var til fyrirtæki sem hét Bónus Group og var það í eigu núverandi eigenda 365 miðla. Við hrun ákváðu eigendur þessa fyrirtækis að selja öðru fyrirtæki í sinni eigu, Högum, eignir Bónus Group, en skilja skuldirnar eftir. Við þetta losuðu þessir eigendur sig við 319 milljarða skuld, sem lenti á landsmönnum. Síðar var svo "eignarréttur" núverandi eigenda 365 miðla afnuminn í Högum. Reyndar ber núverandi forstjóri Haga sama nafn og lítur eins út og sá forstjóri sem þar sat þegar eignir voru færðar frá Bónus Group yfir í Haga, en kannski er það bara einskær tilviljun.
Það var líka eitt sinn til fyrirtæki sem hét 365hf. og var það einnig í eigu sama fólks. Við hrun var ákveðið að selja verðmæti þessa félags til annars fyrirtækis sem hét Rauðasól ehf., einnig í eigu sama fólks. Að sjálfsögðu voru skuldir skildar eftir og losnaði þetta fólk þá við 5 milljarða skuld, sem einnig lenti á landsmönnum. Strax að loknum þessum "kaupum" var stofnað enn eitt félagið og það kallað 365 miðlar.
Eignir Rauðsólar voru fljótlega færðar yfir í 365 miðla og skuldir skildar eftir. Síðan þá hefur orðið smá eignarbreyting á 365 miðlum, þar sem stæðsti eignarhlutinn færðist frá eiginmanninum yfir til eiginkonunnar.
En þetta gat aldrei gengið nema með hjálp góðra manna og komu þar að sjálfsögðu til sögunnar stjórnendur hinna nýju bankar sem stofnaðir höfðu verið, á rústum föllnu bankanna. Einkum var þar Landsbankinn í aðalhlutverki en þó með dyggum stuðningi frá Aríonbanka.
Með hjálp þessara banka tókst að afmá nokkur hundruð milljarða skuld, sem núverandi eigendur 365 miðla höfðu stofnað til og koma þeim klafa á þjóðina.
Er ekki kominn tími til, nú þegar fyrirtæki þessa fólks skilar hagnaði, að það skili þjóðinni aftur einhverjum smáaurum upp í þá skuld, s.s. eins og einum milljarði þetta árið?
![]() |
Segir rekstrarhagnað 365 nálægt milljarði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gruggugt prinsipp ?
1.2.2016 | 20:50
Það er vissulega gruggugt vatn sem bankakerfið liggur í og því má til sanns vegar færa að öll umræða um það sé eins og að fiska í gruggugu vatni. Kannski væri rétt að láta setjast aðeins til í því, svo menn sjái til botns og sigli ekki á sker.
Bjarni segir að um "prinsipp" spurningu sé að ræða hvort bankarnir verði einkavæddir. Eiga slík "prinsipp" að ráða för, eða skynsemi? Er það rétt stjórnun að pólitísk "prinsipp" séu látin ráða? Síðast þegar maður heyrði þetta orð nefnt af ráðherra, var þegar Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, tók sér það vald sem ráðherra að láta "prinsipp" ráða för í lagagerð. Þegar hún tók frumvarp sem samið hafði verið í sátt og breytti því til samræmis við sínar "prinsipp" hugsjónir. Ekki man ég hvort Bjarni andmælti því á þeim tíma, en það gerði sannarlega margir aðrir þáverandi stjórnarandstöðu þingmenn. Meðan það eru einungis pólitísk "prinsipp" sem ráða för við einkavæðingu bankanna, er engin ástæða til að fara þá vegferð.
Ekki ætla ég að taka afstöðu til þess hvort betra sé að bankar séu í ríkiseigu en einkaeigu. Þó má sannarlega segja að þau rök sem eru fyrir einkavæðingu þeirra haldi skammt. Af því höfum við bitra reynslu. Sumir vilja kenna um "rangri" aðferð við einkavæðinguna, meðan aðrir kenna sjálfri einkavæðingunni um. Hvort heldur er skiptir í sjálfu sér engu máli, meðan ekki hefur verið komist að niðurstöðu um hvað fór úrskeiðis í fyrstu einkavæðingu bankanna. Hrossakaup eða flokkshliðhollusta eða einhver spilling á þeim sviðum, standast þó ekki rök, þar sem sá banki sem fyrst féll var aldrei í eigu ríkisins og því á hendi einkaaðila alla tíð.
Allir vita að yfir bankana komust siðlausir menn, sumir strax þegar þeir voru einkavæddir og aðrir síðar. Ekki hefur verið sýnt fram á að hægt sé að tryggja að svo verði ekki aftur. Þegar þessir menn keyptu bankana, bæði þá tvo sem voru í ríkiseigu sem og þann þriðja sem var í einkaeigu, hvarflaði ekki að nokkrum manni að til væru slíkir siðleysingjar hér á landi, hvað þá að þeir hefðu tök á að komast yfir allt bankakerfi landsins. Nú vitum við betur og því miður virtum við að nægt framboð af siðleysingjum er til á Íslandi. Hvernig ætlar Bjarni að koma í veg fyrir að slíkir menn nái aftur yfirtökum á bönkum landsins? Meðan það er ekki ljóst er engin ástæða til einkavæðingar.
Það er kannski súrrealískt að stjórnarandstaðan skuli nú mæla mót einkavæðingu bankanna, þar sem sú ákvörðun var tekin í tíð síðustu ríkisstjórnar og bak við hana skýlir Bjarni sér. Hitt er gleðilegt, þegar þingmenn sjá að sér og viðurkenna fyrri mistök. Fyrir það má þakka.
En hvað liggur á? Hvers vegna verður að selja hlut ríkisins í bönkunum, hellst á þessu ári? Má ekki skoða málið aðeins og velta fyrir sér öðrum kostum. Ef við horfum framhjá þeirri staðreynd að sala bankanna nú er bein ávísun á minna fé í ríkissjóð, en ella og horfum einungis á hvort selja eigi bankanna og þá hvernig. Hvernig tryggja megi að sú sala verði þjóðinni til hagbóta og að óprúttnir menn komist ekki yfir þá aftur.
Enn hafa ekki fengist nein rök, önnur en "prinsipp" fyrir því að betra sé að bankakerfið sé á höndum einkaaðila. Ekki hefur verið lagðar fram neinar tillögur um hvernig standa skuli að slíkri einkavæðingu. Ekki hefur verið lögð fram rök fyrir því að það sé þjóðinni til hagsbóta að bankakerfið sé á höndum einkaaðila. Ekkert hefur verið rætt né tillögur komið fram um hvernig tryggja megi að óprúttnir siðleysingjar ná ekki að koma sínum krumlum yfir bankana.
Það er því með öllu ótímabært að einkavæða bankana, hvað sem öll "prinsipp" sjónarmið eins ákveðins stjórnmálaflokks segja. Prinsipp hafa aldrei verið góð til stjórnsýslu, hvorki til vinstri né hægri. Meðalvegurinn, byggður á upplýstri ákvörðun, hefur alltaf verið vænlegri og full ástæða til að skoða málflutning Frosta Sigurjónssonar vel, varðandi bankakerfið og næstu skref varðandi það. Það er ekki oft sem þjóð auðnast að fá tvö tækifæri til að laga sitt fjármálakerfi, en það fáum við Íslendingar. Fyrst eftir að bankarnir voru reistir upp úr öskustó sinni. Því tækifæri glutruðum við. Núna, þegar stór hluti bankakerfisins er komið í hendur ríkissjóðs. Vonandi ber okkur gæfa til að vinna vel úr því tækifæri.
Vatnið umhverfis bankanna er enn of gruggugt og hætt við að siglt verði á sker, ef óvarlega er farið.
![]() |
Fiskað í gruggugu vatni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)