Færsluflokkur: Fjármál

Pólitískt nef Styrmis

Það eru sennilega fáir landsmenn sem hafa jafn næmt pólitískt nef og Styrmir Gunnarsson, enda sá maður ekki alveg nýbúinn að slíta barnskónum og hefur lengst af sinni starfsævi sinnt störfum sem kalla á skýra sýn á pólitík, bæði innanlands sem og erlendis. Auk þess er Styrmir skemmtilegur penni og gaman að lesa hans pistla.

En jafnvel bestu nef geta stíflast og svo virðist hafa skeð með Styrmi á laugardaginn, þegar hann ritaði pistils sinn; "Úthugsuð og útfærð gagnsókn Framsóknarmanna". Í þessum pistli fer Styrmir yfir þann pirring sem kominn er upp meðal margra þingmanna Framsóknarflokks um að illa gangi að efna stjórnarsáttmálann. Reyndar nefnir Styrmir aldrei þann sáttmála í sinni grein og það því tilefni þessarar, þar sem stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar afsannar að mestu eða öllu leiti hugsanir hans.

Það eru einkum þrjú atriði sem Styrmir nefnir og telur merki þess að Framsóknarmenn ætli jafnvel að nýta sér til að sprengja stjórnarsamstarfið. Þessi atriði eru bankasölumál, húsnæðismál og verðtrygging.

Fyrir síðustu kosningar var Framsóknarflokkur með ákveðnar hugmyndir um hvernig afnema skildi fjármagnshöft, hvernig leiðrétta bæri lán heimila, um afnám verðtryggingu neyslulána (húsnæðislána), um uppbyggingu fjármálakerfisins að því marki er hægt væri vegna aðgerða vinstristjórnar og síðast en ekki síst um afturköllun aðildarumsóknar að ESB, auk fleiri mála.

Þar sem málflutningur Sjálfstæðisflokk, fyrir sömu kosningar var að mörgu leyti svipaður, þó ekki eins afgerandi, tók stuttan tíma fyrir þessa tvo flokka að mynda ríkisstjórn og flest þessara mála komust í stjórnarsáttmálann.

Afnám fjármagnshafta eru fyrir horn, á farsælan hátt, hátt sem talinn var af flestum óhugsandi fyrir síðustu kosningar og jafnvel fulltrúar Sjálfstæðisflokks sem höfðu efasemdir um að þetta væri gerlegt, á þeim tíma.

Leiðrétting lána heimila er einnig yfirstaðin, þó lítilsháttar þynning hafi orðið á tillögum Framsóknar, þegar það atriði var sett í stjórnarsáttmálann. Flestir sem til þekkja telja þó að nokkuð vel hafi þar tekist til, þó auðvitað allir lántakendur hafi viljað sjá meiri leiðréttingu.

Um afnám verðtryggingar er ljóst að sá þáttur vó hátt í sigri Framsóknarflokks í síðustu kosningum. Því þótti mörgum sárt að sjá þá þynningu sem það atriði fékk í stjórnarsáttmálanum. Þó var alls ekki tekið fyrir slíkt afnám í þeim sáttmála, heldur málinu vísað í nefnd, sem skila átti af sér fyrir fyrstu áramót þessarar ríkisstjórnar. Það tók hins vegar nefndina lengri tíma að skila af sér og ekki náðist samstaða innan hennar. Þó var nefndin sammála um að vægi verðtryggingar skyldi minnkað, einkum varðandi lán til íbúðakaupa. Hversu hratt og hversu mikið náðist ekki samstaða um og auk þess var skilað séráliti um að afnema bæri verðtryggingu húsnæðislána að fullu og sem fyrst. Síðan þessi nefnd skilaði af sér eru liðin á annað ár og ekkert, alls ekkert komið fram frá ríkisstjórn um að hún ætli að gera nokkurn skapaðan hlut í málinu. Það verður þó ekki skrifað á reikning Framsóknarflokks, nema að því leyti að fulltrúar hans hafi verið of linir gagnvart samstarfsflokknum. Það skal því engan undra að þingmenn Framsóknar, sem fengu sitt umboð ekki síst vegna loforðs um afnám verðtryggingar, skuli vera farnir að ókyrrast. Það skapast ekki af löngun til að sprengja stjórnarsamstarfið, eins og Styrmir telur, heldur af þeirri einföldu ástæðu að þeir vilja standa við sín orð til kjósenda, auk þess sem þetta mál komst í stjórnarsáttmálann og ríkisstjórn því skylt að afgreiða það til Alþingis.

Ekkert var beinlínis sett í stjórnarsáttmálann um sölu á bankakerfinu eða hvernig fjármálakerfið yrði byggt upp til framtíðar, enda sennilega engum dottið í hug vorið 2013 að annað tækifæri gæfist til að taka á því máli, eftir að vinstriflokkarnir höfðu klúðrað því svo hressilega sem raun varð á. Því eru þingmenn ekki bundnir af þeim sáttmála í umræðu um þau mál og geta tjáð sig að vild. Núverandi ríkisstjórn fékk í arf frá vinstristjórninni þingsályktun um að Landsbankinn skildi seldur í einkaeigu. Bak við þessa ályktun skýlir fjármálaráðherra sér. En nú er uppi ný staða, staða sem gefur þjóð og þingi möguleika til að skoða þessi mál að nýju, staða sem gerir hina gömlu samþykkt um sölu Landsbankans úrelta. Einkavæðing bankakerfisins hefur ekki reynst okkur vel og því fyllsta ástæða til að fara varlega í slíkum leiðangri. Vel getur þó verið að sú leið sé farsælust til lengri tíma, einhvertímann seinna. Í dag er þjóðin þó ekki tilbúin að endurtaka þann leik, enda engin ástæða til að ætla að betur færi. A.m.k. hafa engar tilögur komið fram ennþá um hvernig það skuli gert, hvernig tryggja megi að óprúttnir menn nái ekki tökum á bankakerfinu að nýju. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að bankkerfið sýnir ótrúlegan hagnað og hefur gert frá hruni. Þessi hagnaður kemur auðvitað frá viðskiptavinum bankans þar sem eina starfsemi banka er að höndla með fé landsmanna. Því ætti allir landsmenn að vera sáttir við að sá hagnaður skili sér í ríkissjóð í stað þess að fylla vasa einhverra einstaklinga sem hafa jafnvel lítt þekkingu eða vilja á sjálfsögðu siðferði. Sú staðreynd að þingmenn Framsóknar vilja fara hægt í sölu bankakerfisins í hendur einkaaðila er því ekki sprottin af löngun til að sprengja stjórnarsamstarfið, heldur vegna sögunnar, sögu einkavæðingar bankakerfisins og hvert hún leiddi okkur. Sjálfstæðisflokkur er hins vegar áfram um einkavæðingu þessa kerfis, enda þeirra trú að einkavæðing á sem flestum sviðum sé til hins betra. Eins og áður segir, getur vel verið að bankakerfið sé betur sett í höndum einkaaðila en ríkis, einhvertímann í framtíðinni. Það er hins vegar enn langt í þá framtíð.

Að hluta til er hægt að taka undir með fjölmörgum skrifum Styrmis um aumingjaskap utanríkisráðherra í afturköllun ESB umsóknar og sá klafi því á Framsóknarflokki. Málið er þó ekki svo einfalt. Núverandi ríkisstjórn hefur góðan meirihluta á Alþingi og því hæglega með burði til að afgreiða það mál á þeim vettvangi. Þetta var reynt og utanríkisráðherra gerður burtrækur með það frá Alþingi. Menn geta spáð í hvers vegna það gerðist. Ríkisstjórn með góðan meirihluta nær ekki fram einu af sínum helstu stefnumálum. Sumir vilja kenna stjórnarandstöðunni um, að með málþófi hafi henni tekist að koma þessu máli frá. Það er kol röng greining, enda ríkisstjórn sem hefur svo góðan meirihluta sem raun ber vitni, í sjálfs vald sett að afgreiða málið, þrátt fyrir harða andstöðu stjórnarandstöðu. Það hlýtur því að vera önnur ástæða þess að málið náðist ekki gegn. Að ekki hafi verið sátt meðal stjórnarliða, að ríkisstjórnin hafi talið vafasamt að nægur fjöldi stjórnarliða myndu fylgja málini, við afgreiðslu þess. Þingmenn hvors stjórnarflokksins höfðu sig mest í frammi gegn tillögunni um afturköllun umsóknarinnar? Er það þá ekki sá stjórnarflokkurinn sem ber ábyrgð á því hvernig komið er í samskiptum okkar við ESB og að aðildarumsóknin er enn í gildi? Aumingjaskapur utanríkisráðherra og þá umleið Framsóknar, liggur fyrst og fremst í því að hafa ekki látið á málið reyna fyrir Alþingi, látið á það reyna hvort þingmenn Sjálfstæðisflokks ætluðu að standa við þann stjórnarsáttmála sem formaður þeirra undirritaði vorið 2013.

Þó pólitískt nef Styrmis sé vissulega með þeim næmari hér á landi er það síður en svo óbrigðult. Þetta á kannski helst við þegar málin snúa að hans eigin flokki. Kannski er hann bara pirraður yfir slælegu gengi Sjálfstæðisflokks, kannski er hann á sömu línu og ritari flokksins og telur Pírata vera eftirgefanlegri en Framsókn. Kannski vill Styrmir bara kosningafjör og óskar því þess að stjórnarsamstarfið springi.


Þrífur skítinn úr buxunum

Bankastjóri Landsbankans reynir í örvæntingu að þríf skítinn úr buxunum. Hefði ekki verið skynsamara fyrir hann að gera frekar í klósettið.

Það hefur aldrei þótt mikil fjármennska eða heppileg aðferð í samningum að krefjast upplýsinga eftir viðskiptin. Það á að leita allra upplýsinga áður en samningur er gerður. Þetta klikkaði með öllu hjá Landsbankanum í viðskiptum við Borgun, eða ekki.

Ekki getur bankastjórinn skýlt sér bak við kunnugleysi, þar sem þessar upplýsingar lágu fyrir löngu áður en til viðskipta milli bankans og Borgunar kom. Með því að vísa í þekkingarleysi er bankastjórinn að lýsa yfir eigin getuleysi til að stýra bankastofnun.

Þá er bara eitt eftir, að bankastjórinn hafi þekkt staðreyndir málsins en ákveðið að líta framhjá þeim. Það gerir hann einnig óhæfan til stjórnar bankastofnunnar.

Það er því einungis eitt í stöðunni fyrir bankastjórann, það er uppsögn. Skaðinn er skeður og ekkert hægt að gera við því og bankastjórinn bera á þeim skaða fulla ábyrgð, hvort heldur er af fávisku eða spillingu!!

 


mbl.is Vilja skýr svör frá Borgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðisvandinn

Það eru allir sammála um að húsnæðisvandi er mikill hér á landi, einkum þó á Reykjavíkursvæðinu. Um orsökina er fólk ekki sammála og enn síður lausnir.

Það er merkileg og góð skrif eftir Guðlaug Þór Þórðarson á pressan.is og full ástæða fyrir fólk að lesa þau skrif. Þar kemur ýmislegt á óvart.

Guðlaugur nefnir að 237 milljarðar hafi farið í þennan málaflokk frá hruni, beint og óbeint. Þetta eru gífurlegir peningar. Þá nefnir hann lóðaverð hafi hækkað um 508% síðustu 12 ár og að um þriðjungur íbúðaverð séu gjöld til hins opinbera. Nýja byggingareglugerðin ein sér hafi hækkað byggingakostnað um 8,5%!

Getur það verið að því meira fé sem ausið er í þennan málaflokk þá aukist vandi húsbyggjenda, að allir þeir peningar fari í millilið af ýmsu tagi. Að sveitarfélög hækki hjá sér lóðagjöld og alls kyns gjöld sem húsbyggjendur þurfa að greiða séu hækkuð og við þau bætt. Getur verið að þegar húsaleigubætur eru hækkaðar þá hækki bara húsaleigan að sama skapi. Allir vita að vaxtabæturnar eru í raun einungis niðurgreiðsla til bankanna, skuldarinn nýtur þeirra sjaldnast.

Það þarf vissulega að taka á þessum málum. Auðvitað verður ríkissjóður alltaf að koma að þeirri lausn, en tryggja þarf að þeir styrkir skili sér til fólksins, ekki í einhverja hít sveitarfélaga eða banka.

Það getur varla verið eðlilegt að sveitarfélögum sé í sjálfs vald sett hvaða gjöld þeir setja á húsbyggjendur eða hversu há. Að gjöld til hins opinbera, sem í flestum tilfellum eru sveitarfélögin, skuli vera orðin nærri þriðjungur af kostnaði við að byggja hús eða íbúð, getur varla talist eðlilegt. Það er sjálfsagt að húsbyggjendur borgi þann kostnað til sveitarfélaga, sem þau sannarlega verða fyrir vegna slíkra bygginga, en að þau geti nýtt sér þetta til tekjuöflunar er fráleitt.

Það er vægast sagt undarlegt að sveitarfélög skuli geta hækkað lóðaverð á nokkrum árum um hundruð prósenta, með því einu að skammta lóðir á markað. Verð lóða á að sjálfsögðu að miðast við þann kostnað sem sveitarfélög verða fyrir vegna lóðasölu, s.s. gatnagerð og tenginga lóða. 

Það er eitthvað heiftarlega rotið við framkomu sveitarfélaga við húsbyggjendur. Það er eins og þau átti sig ekki á þeim verðmætum sem fylgja hverjum nýjum íbúa, hverri nýrri íbúð sem byggð er. Þar liggja tekjurnar hjá sveitarfélögunum, til frambúðar, ekki í því hversu mikið er hægt að kreista út úr fólki meðan það stendur í að koma sér þaki yfir höfuðið.

Byggingareglugerðin er sér kapítuli. Þegar núverandi reglugerð var gerð að lögum þrengdist verulega að húsbyggjendum og kostnaður jókst. Það gerðist einnig þegar reglugerðin þar á undan var samþykkt. Þó er ekki að finna nokkurn skapaðan hlut í þessum reglugerðum sem gerir hús sterkari eða betri, einungis settar fram ýmsar kvaðir sem fáum eða engum gagnast.

Þarna þarf vissulega að taka til hendi. Það er t.d. nánast útilokað fyrir nokkurn að nýta eigin hendur við byggingu eigin íbúðar, krafa um að allir hlutir séu unnir af fólki með til þess gerð réttindi. Vissulega má ekki leyfa neitt kúsk við húsbyggingar, en því er ekki útrýmt með reglugerð. Sá sem vinnur að eigin byggingu er sjálfsagt sá sem síst vill sjá kúsk. Með því að opna aftur á að fólk geti unnið meira að eigin byggingum, má lækka útlagðan kostnað húsbyggjenda verulega og þá um leið lántökukostnað.

Húsnæðisbætur og vaxtabætur eru nauðsynlegar, en eingöngu til þeirra sem verst standa og tryggja þarf að þessar bætur skili sér til þessa fólks, að leigusalar og bankar hirði ekki þær bætur beint í eigin vasa. Hvernig það er gert veit ég ekki, en það hlýtur að vera hægt með einhverjum ráðum.

Þá er eitt atriði sem hefur bein áhrif á þennan vanda, bæði skort á húsnæði sem og verðmyndun þess og þá um leið leiguverð, en það er eign bankastofnana á íbúðahúsnæði. Þar má auðveldlega setja lög um að bankastofnanir geti ekki átt íbúðahúsnæði sem þær komast yfir, nema skamma stund. Að innan mjög skamms tíma beri þessu stofnunum að koma þeim í sölu og ef ekki tekst að selja þær innan ákveðins tíma, beri þeim að setja þessar íbúðir á leigumarkað.

Hugarfar fólks í dag þarf einnig að breytast. Mörgum þykir hið besta mál að mega sem minnst koma að byggingunni, vilja ekki þreyta bak sitt né skíta út hendurnar. Það er ekkert nauðsynlegt að íbúð eða hús séu full kláruð þegar flutt er inn. Það þótti ekkert tiltölumál fyrr á árum þó fólk flytti inn í nánast fokheld hús og bættu svo við eftir efnum. Það er heldur ekkert nauðsynlegt að kaupa einn eða tvo nýja bíla, þegar flutt í nýja íbúð. Það er ekkert athugavert við þó gömul drusla standi í innkeyrslunni, svona fyrstu árin. Og engum er vorkunn að sleppa utanlandsferðum fyrstu ár eftir að flutt er í nýtt húsnæði.

Það verður vissulega að taka á húsnæðisvanda landsmanna. En það er ekki bara hægt að kalla eftir auknum útlátum ríkissjóðs. Reglugerðir þarf að bæta, sveitarfélög verða að sýna smá skynsemi, koma þarf böndum á bankakerfið og síðast en ekki síst, hugarfar fólks verður að breytast.

Um verðtrygginguna þarf ekki að rita, hún er auðvitað stæðsti óvinur húsbyggjenda hér á landi.


Og landsmenn fá timburmenn

Það liggur fyrir að síðustu misseri fyrir hrun streymdi fé úr landi, til hinna ýmsu skattaskjóla út um heiminn. Enn hafa menn á því misjafnar skoðanir hvort þarna hafi alltaf verið farið að lögum í þessu fjárflutningum, en enginn efast um hver áhrif þessa voru á íslenska fjármálakerfið og þjóðina.

Ekki hefur gengið vel að ná þessu fé til baka eftir dómstólaleiðinni, þó einstaka gerandi þessara fjárflutninga hafi hlotið dóma. Síðustu ríkisstjórn datt það snjallræði í hug að verðlauna þá sem kæmu færandi hendi með þessa fjármuni, til landsins aftur og gaf veglegan afslátt á gjaldeyrisfærslunni, þannig að hver innflutt króna var 20% verðmeiri en sú sem fyrir var í landinu og landsmenn þurftu að lifa af. Var þetta rökstutt með því að þessar innfluttu krónur, sem áður höfðu verið fluttar út með vafasömum hætti, væru nýttar til uppbyggingar atvinnu í landinu.

Víst er að margur nýtti sér þessa leið til að auka verðmæti þess fjár sem þeir höfðu áður komið úr landi. Í einstaka tilfellum var það nýtt til atvinnuuppbyggingar, stæðsti hlutinn fór þó til að komast aftur yfir þau fyrirtæki sem af þeim höfðu verið tekin og stendur sú vinna enn yfir á fullu. Svo voru sumir sem nýttu sér gjafmildi stjórnvalda til einkanota, eins og fanginn Sigurður Einarsson, sem nýtti þessa leið til að eignast aftur jörð og sumarhús í Borgarfirði, sem hann hafði komist yfir fyrir hrun en glataði í hamaganginum eftir það.

Þetta á svo sem ekki beinlínis við um fyllerí Seðlabankans þessi misserin, annað en með því er hann að skapa sömu skilyrði og fyrir hrun, með kolrangri vaxtastefnu. Þeirri sömu vaxtastefnu og átti þátt í að bankakerfið féll.

Hvorki Seðlabankinn né bankastjóri hans mun þó þurfa að díla við timburmennina, þeir munu að vanda lenda á hinum almenna landsmanni, með tilheyrandi skelfingu!


mbl.is Seðlabankinn „dottinn herfilega í það“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komið að uppgjöri?

Það er gott að 365 miðlar skuli skila góðum hagnaði. Þá geta eigendur þessa fyrirtækis kannski skilað aftur einhverjum þeirra fjármuna sem þeir hafa haft af landsmönnum, bæði beint og óbeint.

Eitt sinn var til fyrirtæki sem hét Bónus Group og var það í eigu núverandi eigenda 365 miðla. Við hrun ákváðu eigendur þessa fyrirtækis að selja öðru fyrirtæki í sinni eigu, Högum, eignir Bónus Group, en skilja skuldirnar eftir. Við þetta losuðu þessir eigendur sig við 319 milljarða skuld, sem lenti á landsmönnum. Síðar var svo "eignarréttur" núverandi eigenda 365 miðla afnuminn í Högum. Reyndar ber núverandi forstjóri Haga sama nafn og lítur eins út og sá forstjóri sem þar sat þegar eignir voru færðar frá Bónus Group yfir í Haga, en kannski er það bara einskær tilviljun.

Það var líka eitt sinn til fyrirtæki sem hét 365hf. og var það einnig í eigu sama fólks. Við hrun var ákveðið að selja verðmæti þessa félags til annars fyrirtækis sem hét Rauðasól ehf., einnig í eigu sama fólks. Að sjálfsögðu voru skuldir skildar eftir og losnaði þetta fólk þá við 5 milljarða skuld, sem einnig lenti á landsmönnum. Strax að loknum þessum "kaupum" var stofnað enn eitt félagið og það kallað 365 miðlar.

Eignir Rauðsólar voru fljótlega færðar yfir í  365 miðla og skuldir skildar eftir. Síðan þá hefur orðið smá eignarbreyting á 365 miðlum, þar sem stæðsti eignarhlutinn færðist frá eiginmanninum yfir til eiginkonunnar.

En þetta gat aldrei gengið nema með hjálp góðra manna og komu þar að sjálfsögðu til sögunnar stjórnendur hinna nýju bankar sem stofnaðir höfðu verið, á rústum föllnu bankanna. Einkum var þar Landsbankinn í aðalhlutverki en þó með dyggum stuðningi frá Aríonbanka.

Með hjálp þessara banka tókst að afmá nokkur hundruð milljarða skuld, sem núverandi eigendur 365 miðla höfðu stofnað til og koma þeim klafa á þjóðina.

Er ekki kominn tími til, nú þegar fyrirtæki þessa fólks skilar hagnaði, að það skili þjóðinni aftur einhverjum smáaurum upp í þá skuld, s.s. eins og einum milljarði þetta árið?

 


mbl.is Segir rekstrarhagnað 365 nálægt milljarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gruggugt prinsipp ?

Það er vissulega gruggugt vatn sem bankakerfið liggur í og því má til sanns vegar færa að öll umræða um það sé eins og að fiska í gruggugu vatni. Kannski væri rétt að láta setjast aðeins til í því, svo menn sjái til botns og sigli ekki á sker.

Bjarni segir að um "prinsipp" spurningu sé að ræða hvort bankarnir verði einkavæddir. Eiga slík "prinsipp" að ráða för, eða skynsemi? Er það rétt stjórnun að pólitísk "prinsipp" séu látin ráða? Síðast þegar maður heyrði þetta orð nefnt af ráðherra, var þegar Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, tók sér það vald sem ráðherra að láta "prinsipp" ráða för í lagagerð. Þegar hún tók frumvarp sem samið hafði verið í sátt og breytti því til samræmis við sínar "prinsipp" hugsjónir. Ekki man ég hvort Bjarni andmælti því á þeim tíma, en það gerði sannarlega margir aðrir þáverandi stjórnarandstöðu þingmenn. Meðan það eru einungis pólitísk "prinsipp" sem ráða för við einkavæðingu bankanna, er engin ástæða til að fara þá vegferð.

Ekki ætla ég að taka afstöðu til þess hvort betra sé að bankar séu í ríkiseigu en einkaeigu. Þó má sannarlega segja að þau rök sem eru fyrir einkavæðingu þeirra haldi skammt. Af því höfum við bitra reynslu. Sumir vilja kenna um "rangri" aðferð við einkavæðinguna, meðan aðrir kenna sjálfri einkavæðingunni um. Hvort heldur er skiptir í sjálfu sér engu máli, meðan ekki hefur verið komist að niðurstöðu um hvað fór úrskeiðis í fyrstu einkavæðingu bankanna. Hrossakaup eða flokkshliðhollusta eða einhver spilling á þeim sviðum, standast þó ekki rök, þar sem sá banki sem fyrst féll var aldrei í eigu ríkisins og því á hendi einkaaðila alla tíð.

Allir vita að yfir bankana komust siðlausir menn, sumir strax þegar þeir voru einkavæddir og aðrir síðar. Ekki hefur verið sýnt fram á að hægt sé að tryggja að svo verði ekki aftur. Þegar þessir menn keyptu bankana, bæði þá tvo sem voru í ríkiseigu sem og þann þriðja sem var í einkaeigu, hvarflaði ekki að nokkrum manni að til væru slíkir siðleysingjar hér á landi, hvað þá að þeir hefðu tök á að komast yfir allt bankakerfi landsins. Nú vitum við betur og því miður virtum við að nægt framboð af siðleysingjum er til á Íslandi. Hvernig ætlar Bjarni að koma í veg fyrir að slíkir menn nái aftur yfirtökum á bönkum landsins? Meðan það er ekki ljóst er engin ástæða til einkavæðingar.

Það er kannski súrrealískt að stjórnarandstaðan skuli nú mæla mót einkavæðingu bankanna, þar sem sú ákvörðun var tekin í tíð síðustu ríkisstjórnar og bak við hana skýlir Bjarni sér. Hitt er gleðilegt, þegar þingmenn sjá að sér og viðurkenna fyrri mistök. Fyrir það má þakka.

En hvað liggur á? Hvers vegna verður að selja hlut ríkisins í bönkunum, hellst á þessu ári? Má ekki skoða málið aðeins og velta fyrir sér öðrum kostum. Ef við horfum framhjá þeirri staðreynd að sala bankanna nú er bein ávísun á minna fé í ríkissjóð, en ella og horfum einungis á hvort selja eigi bankanna og þá hvernig. Hvernig tryggja megi að sú sala verði þjóðinni til hagbóta og að óprúttnir menn komist ekki yfir þá aftur.

Enn hafa ekki fengist nein rök, önnur en "prinsipp" fyrir því að betra sé að bankakerfið sé á höndum einkaaðila. Ekki hefur verið lagðar fram neinar tillögur um hvernig standa skuli að slíkri einkavæðingu. Ekki hefur verið lögð fram rök fyrir því að það sé þjóðinni til hagsbóta að bankakerfið sé á höndum einkaaðila. Ekkert hefur verið rætt né tillögur komið fram um hvernig tryggja megi að óprúttnir siðleysingjar ná ekki að koma sínum krumlum yfir bankana.

Það er því með öllu ótímabært að einkavæða bankana, hvað sem öll "prinsipp" sjónarmið eins ákveðins stjórnmálaflokks segja. Prinsipp hafa aldrei verið góð til stjórnsýslu, hvorki til vinstri né hægri. Meðalvegurinn, byggður á upplýstri ákvörðun, hefur alltaf verið vænlegri og full ástæða til að skoða málflutning Frosta Sigurjónssonar vel, varðandi bankakerfið og næstu skref varðandi það. Það er ekki oft sem þjóð auðnast að fá tvö tækifæri til að laga sitt fjármálakerfi, en það fáum við Íslendingar. Fyrst eftir að bankarnir voru reistir upp úr öskustó sinni. Því tækifæri glutruðum við. Núna, þegar stór hluti bankakerfisins er komið í hendur ríkissjóðs. Vonandi ber okkur gæfa til að vinna vel úr því tækifæri.

Vatnið umhverfis bankanna er enn of gruggugt og hætt við að siglt verði á sker, ef óvarlega er farið.


mbl.is Fiskað í gruggugu vatni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband