Færsluflokkur: Fjármál

Er gróði banka þeim ofviða

Það er eitt og annað sem er athugasemdarvert við þessa fréttatilkynningu Landsbankans. 

Þar kemur fram að bankinn hafi fyrir tæpu ári upplýst bankasýslu ríkisins um áhuga á kaupum bankans á tryggingarfélagi. Einnig kemur fram að bankinn hafi upplýst BS, skömmu fyrir jól að óskuldbindandi tilboð hafi verið gert í þetta tryggingafélag. Ekki kemur hins vegar fram að bankinn hafi upplýst BS um að hann ætlaði að gera skuldbindandi tilboð upp á þrjá tugi milljarða í tryggingafélagið. Bar bankanum ekki að fá samþykki fyrir þeirri gjörð? Bar bankanum ekki að tilkynna BS um að hann ætlaði að binda þrjá tugi milljarða í skuldbindandi tilboði í tryggingafélag?

Þá er stóra spurningin, hvers vegna vill bankinn færa sig yfir í áhætturekstur tryggingafélags? Von um meiri gróða, segir bankastjórinn. Í hverju fellst sá gróði? Fylgir ekki rekstur tryggingafélags mikil áhætta? Það getur gengið ágætlega í nokkur ár, en síðan þarf ekki nema eitt stórt bótamál til að þurrka út gróðann. Og ekki er hægt að skilja bankastjóra á annan veg en svo að stórann hluta gróðans, í góðærum, eigi að greiða sem arð. Það verður þá lítið til skiptanna þegar áföllin ríða á. 

Landsbankinn skilar alveg ágætis hagnaði og væntanlega arðgreiðslum líka. Enda vaxtakjör lána hvergi hærri en hér á landi. Þetta er nokkuð tryggur hagnaður og þá einnig tryggar arðgreiðslur. Engin fyrirtæki hafa hagnast jafn mikið og bankar, allt frá hruni. Þar kemur hæfi við stjórnun bankann lítið við sögu, gæti hvað fáviti rekið banka á Íslandi. Það er því með öllu óskiljanlegt að bankinn sé svo æstur í áhættusækinn rekstur. Er góðærið honum ofviða? 

Önnur skýring bankastjóra á kaupum á tryggingafélagi er að aðrir bankar hafi verið að færa sig yfir í slíka áhættu. Hvers vegna þarf Landsbankinn að apa ósómann eftir einkareknum bönkum? Og hvers vegna er Kvika að losa sig við þetta tryggingafélag? 

Það er nokkuð víst að bankastjórn Landsbankans hefur gögn um samskiptin við BS, bæði á vordögum og fyrir jól. Færi vart að senda slíka fréttatilkynningu að öðrum kosti. Það segir okkur að BS hefur logið að þjóðinni og ber að víkja strax. Bankastjórn Landsbankans verður einnig að víkja, þar sem hún getur ekki sýnt fram á heimild til að skuldbinda þrjá tugi milljarða í tryggingafélagi. En kannski þó frekar vegna fávisku og hroka.


mbl.is Segja Bankasýsluna hafa vitað um kaup á TM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litla gula hænan

Hollt væri fyrir peningastefnunefnd og kannski sérstaklega seðlabankastjóra að rifja upp söguna um litlu gulu hænuna. Tímalaus dæmisaga um hvernig brauðið verður til og hvað um það verður.

Litla gula hænan fann fræ. Hún bað um hjálp til að planta því, en enginn vildi hjálpa. Hún bað síðan um hjálp til slá öxin og þreskja, en enn varð hún ein að sjá um verkið. Hún bað um hjálp til að baka brauðið og enn og aftur þurfti hún að vinna verkið ein. Þegar síðan brauðið hafði verið bakað voru allir tilbúnir að koma og borða það, svo litla gula hænan fékk ekki neitt.

Þannig er þjóðfélagið okkar. Fáir skapa verðmætin en allir vilja njóta þeirra. Þeir sem skapa fá minnst. Megnið fer til þeirra sem síst skyldi, fjármagnsaflanna. Seðlabankastjóri hefur tekið sér stöðu með þeim síðarnefndu.

"Þjóðin getur ekki bæði étið kökuna og átt hana" segir seðlabankastjóri. Það verður hins vegar engri köku að skipta ef áframhald verður á varðstöðu bankastjórans fyrir fjármálaöflin. Nú þegar eru heimilin farin að þjást meira en góðu hófi gegnir og sum fyrirtækin einnig. Með sama áframhaldi verða engar kökur eða brauð bökuð á Íslandi, verður ekkert til skiptanna.

Verðbólgudraugurinn dafnar sem aldrei fyrr og bankar og fjármálastofnanir fitna, þar til of seint er að snúa á rétta braut.


mbl.is „Þjóðin getur ekki bæði étið kökuna og átt hana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eiga banka - eða ekki

Okkur landsmönnum er talin trú um að við eigum Landsbankann og vissulega er ríkið skráð fyrir nánast öllum hlutum hans. Fjármálaráðherra er síðan með yfirumsjón yfir þessum hlut, sem þjóðin á.

En málið virðist nokkuð flóknara en þetta. Til að slíta tengsl milli pólitíkur og bankans, að ráðherra hafi ekki beint umboð til afskipta af rekstri hans, var stofnuð Bankasýsla ríkisins. Henni er ætlað að vera fulltrúi eigenda bankans. Reyndar ekki kosin af eigendum, heldur skipuð af ráðherra. Því kannski ekki hægt að tala um slit milli pólitíkur og reksturs bankans.

En þetta dugir þó ekki. Bankastjóri og bankaráð telur sig eiga þennan banka okkar. Að afskipti ráðherra eða bankasýslunnar skipti bara engu máli. Bakastjóri Landsbankans hefur sagt að bankinn muni halda áfram við fyrirhuguð kaup á TM, þrátt fyrir mótmæli eigandans, þ.e. ráðherra.

Þegar þetta er skoðað verður maður virkilega efins um hver á Landsbankann. Klárlega ekki almenningur, enda hefur hann enga aðkomu að bankanum aðra en að greiða til hans okurvexti og óheyrileg þjónustugjöld af minnsta tilefni. Ekki virðist ráðherra ráða miklu, eins og orð bankastjóra bera með sér. Og bankasýslan, jú henni hefur tekist að fresta aðalfundi bankans um einn mánuð, en mun sjálfsagt ekki hafa kjark til að rifta kaupunum. Enda ekki séð að BS sé með hugann við verkið. Lætur afskiptalaust að bankastjóri og bankaráð stundi vafasöm viðskipti, viðskipti sem kemur bankarekstri ekki við á nokkurn hátt.

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Það fyrirkomulag sem um þennan banka ríkir, banka sem sannarlega er í eigu landsmanna, þó erfitt sé að sjá það á framkvæmd eða stjórnin hans, er kjörið að endurskoða við þessi tímamót. Ef um einkafyrirtæki væri að ræða myndu eigendur hans reka samstundis alla þá er telja sig vera æðri en eigandinn, bankastjóra, bankaráð og Bankasýsluna og taka yfir reksturinn með nýju fólki.

Þannig gæfist gullið tækifæri til að endurskipuleggja rekstur bankans. Að hætta að reka hann sem gróðafyrirtæki, eða jafnvel okurstofnun og gera hann að samfélagsbanka. Slíkt bankaform er þekkt víða, þó sennilega þekktast í Þýskalandi. Þar er bankastarfsemi að stærstum hluta rekin sem samfélagsbankar og það voru þessir samfélagsbankar sem björguðu Þýskalandi frá hruni, haustið 2008. Banki sem rekinn er eftir lögmáli Mammons er veikari fyrir ef áföll skella á. Áhætturekstur er eitt aðalsmerki þeirra. Banki sem rekinn er eftir þörfum samfélagsins og ekki er drifinn áfram af græðgi, er fastari fyrir og þolir betur utanaðkomandi áföll.

Eftir bankahrunið hér haustið 2008, þegar landinu var steypt í fen skulda og hörmunga, ætti fólk að vita að einkavæðing bankakerfisins er ekki að ganga. Slík einkavæðing er átrúnmaður á Mammon. Ekkert að því að einhverjir einkavæddir bankar séu starfandi hér, ef einhver vill reka þá og bera ábyrgð á þeim. En samfélagsbanki verður að vera til staðar í landinu, þó ekki sé til annars en að halda niðri þeirri óheyrilegu okurstefnu sem bankakerfið stundar og er að draga lífið úr þjóðinni, hvort heldur þar er um einstaklinga eða fyrirtæki að ræða.

Framkvæmdin á stofnun slíks samfélagsbanka er einföld. Öllum hlutum hans sem ríkið hefur undir höndum, væru einfaldlega deilt á hvert mannsbarn í landinu. Ekki væri heimilt að selja þá hluti, heldur myndu þeir erfast til afkomenda. Allar meiriháttar ákvarðanir, s.s. ráðning bankaumsjónar og jafnvel bankastjóra færu fram með rafrænni kosningu þjóðarinnar. Frambjóðendur þyrftu auðvitað að standast eitthvað mat til þátttöku. Þeir sem hlytu kosningu hefðu enga heimild til að taka ákvarðanir um breytingu á rekstri bankans. Jafnvel þó þeir teldu að það væri "til haga fyrir eigendur".

Þannig færi ekkert á milli mála að við ættum öll Landsbankann og sennilega myndu flestir færa sín viðskipti yfir í hann.


mbl.is Aðalfundi Landsbankans frestað um mánuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáviska SA

Það er alvarlegt mál þegar framkvæmdastjóri SA hefur ekki meiri þekkingu á kjarasamningum en virðist vera nú. Hún hleypir kjaragerð í uppnám á þeirri stundu er nánast er lokið samningsgerð, lætur stranda á endurskoðunarákvæði. Hún virðist ekki átta sig á að verkalýðshreyfingin hefur einungis eitt vopn í sínum fórum og ef ekki næst samningur verður því vopni auðvitað beitt.

Samningur sem á sér vart sögulegar forsendur liggur á borðinu. Þar hefur forusta verkalýðshreyfingarinnar teygt sig lengra en nokkurn tíman áður, jafnvel svo að ærlegt verk verður að fá þann samning samþykktan af launafólki. Kjarabætur eru langt frá því að bæta það tap er verðbólgan hefur stolið af launafólki,  þó ekki æðstu stjórn landsins. Þeirra laun eru verðtryggð. Og auðvitað ekki heldur forstjórum og þeirra næsta fólki. Það skammtar sér laun sjálft. En almennt launafólk hefur tapað miklu á verðbólgunni og eins og áður segir, þá er fjarri því að sá samningur sem nú liggur á borði bæti það tap, þó ástæða þessarar verðbólgu sé fjarri því launþegum að kenna.

Ástæða þess að forusta launþega hefur valið þessa leið, þá leið að gefa verulega eftir í því að fá bætt verðbólgutapið, er auðvitað sú viðleitni að kveða niður verðbólgudrauginn. Að sína í verki að launþegar leggi sitt af mörkum í þeirri baráttu, enda stærsta kjarabótin að verðbólgan lækki og vextir samhliða. Um þetta hefur forustan talað frá upphafi þessarar kjaragerðar.

En það eru ekki allir sem tapa á verðbólgudraugnum. Bankar græða á tá og fingri, fyrirtæki geta auðveldlega fært kostnaðinn út í verðlagið og fóðrað drauginn. Eins og áður segir eru æðstu stjórnendur með sín laun verðtryggð og þeir sem ofar eru í launastiganum, margir hverjir í þeirri stöðu að skammta sér laun. 

Því er eðlilegt að forusta launafólks setji fram kröfu um endurskoðunarákvæði í samninginn. Það er forsenda þess að samningurinn fáist samþykktur af launafólki. Það er ekki tilbúið að semja til langs tíma um lág laun, í baráttu við drauginn, ef ekki er hægt að skoða hvort aðrir taki þátt í þeirri baráttu og ef svo er ekki, þá falli samningurinn. Krafan um slíka endurskoðun er eftir eitt ár, en þá liggur fyrir hverjir standa við sitt. Boð SA er hins vegar að slík endurskoðun verði ekki fyrr en undir lok samningsins, eitthvað sem launþegar munu aldrei samþykkja, hvað sem forusta þeirra gerir.

Ef framkvæmdastjóri SA áttar sig ekki á þessum staðreyndum er hún óhæf í starfi. Þá mun hún baka sínum umbjóðendum miklum skaða, sem og þjóðfélaginu. Verkfallsvopnið mun verða virkjað.

Ég vona innilega að vinnuveitendur framkvæmdastjórans geri henni grein fyrir alvarleik málsins, eða skipi annan í hennar stað við samningsborðið. Það má ekki verða að launþegar neyðist til að beita sínu eina vopni, vegna fávisku fulltrúa SA.

 


mbl.is Segir fullyrðingar Vilhjálms rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegir stjórnendur?

Eru íslenskir stjórnendur fyrirtækja almennt lélegir?

Við þekkjum öll söguna af því þegar nokkrir einstaklingar komust yfir bankakerfið okkar og settu það á hausinn svo fjölskyldum landsins blæddi. Sumir töldu að þar hefðu menn fyrst og fremst verið að sanna þá kenningu að besta leiðin til að ræna banka, væri að ræna hann innanfrá. Eða voru þessir menn kannski bara svona lélegir stjórnendur?

Mörg fyrirtæki voru stofnuð í kjölfar hrunsins, flest þeirra farið á hausinn. Má þar nefna flugfélög og fjárfestingafélög. Þar er greinilegt að stjórnun var léleg.

Íslenskt lyfjafyrirtæki, sem rekið er um allan heim, er rekið með gríðarlegu tapi. Lyfjanotkun hefur þó aldrei verið meiri, hvort heldur er hér á landi eða öðrum löndum hins vestræna heim. Ber það merki þess að hinn íslenski stjórnandi þess fyrirtækis sé góður stjórnandi?

Og nú þarf íslenskt flugfélag að breyta hjá sér afkomuspá, vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Ekki vegna þess að farþegum hafi fækkað svo mikið, einungis pöntunum með skömmu fyrirvar fækkað örlítið og að sögn forstjórans merki um að það sé að ganga til baka. Aldrei hafa verið fleiri ferðamenn sem heimsækja Ísland og þetta ár. Er þetta merki um góða stjórnun?

Þeir sem ekki geta rekið lyfjafyrirtæki með sóma, þegar lyf eru brudd sem sælgæti um allan heim og þeir sem ekki geta rekið flugfélag þegar farþegafjöldi er í hæstu hæðum, ættu kannski að skoða stöðu sína. Kannski hentar þeim betur eitthvað annað starf en stjórnun.


mbl.is Breyta afkomuspá vegna jarðhræringanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við brúsapallinn

Síðasta fimmtudag kom Bændablaðið til okkar lesenda þess. Magnað hvað blaðinu tekst ætíð að ná fram því jákvæða í fréttum af bændum, kannski um of. Glensið er ekki langt undan á síðum blaðsins, eins og fyrirsögn fréttar um að 500 manns hafi verið á hesti. Ekki slæmt að eiga slíkan gæðing.

Þegar sest er við brúsapallinn er ekki annað hægt en að hugsa til þeirrar graf alvarlegu stöðu sem bændur landsins standa frammi fyrir, þrátt fyrir að Bændablaðinu takist að láta líta svo út að þar sé allt í besta lagi. Sjaldan eða aldrei, frá því land byggðist, hefur staða landbúnaðar verið jafn slæm og nú. Bændum fækkar sem aldrei fyrr og þeir sem eftir standa draga við sig í búskap. Byggðir eru að fara í eyði, endurnýjun bændastéttarinnar er nánast útilokuð og þeir sem hafa dug og djörfung til að reyna slíkt, enda oftar en ekki sem gamalmenni fyrir aldur fram og jafnvel eignalausir eftir nokkurra ára strit. Ungir bændur hafa þann eina möguleika til að eignast bújörð og áhöfn, að sækja vinnu frá búinu. Nú er staðan orðin sú að slíkt dugir ekki lengur. Jafnvel þó menn leggi á sig langan vinnudag og sinni búi eftir vinnu seint að kvöldi og fyrir vinnu snemma að morgni, dugir það engan veginn. Eina sem slíkt skilar er að líkaminn gefur sig. Að vinna 18 til 20 tíma á sólahring, til langs tíma, er ekki beinlínis hollt.

En hvað veldur? Þegar stórt er spurt er oft erfitt um svör.

Augljósast, þessi misserin, er sú okurvaxtastefna sem stjórnvöld standa að. Seðlabankanum eru sett lög og í eymd sinni og getuleysi til að standast þau lög, hefur bankinn hækkað stýrivexti fram úr hófi. Gerir það sama aftur og aftur þó fullreynt sé að árangur verður verri en enginn. Ekki nokkrum bónda dytti til hugar að etja klár sínum lengra og lengra út í fenið, þegar séð er að botninn er löngu farinn. Hann myndi snúa til lands og leita annarra leiða til að komast yfir. Vandi bænda er þó dýpri en vaxtaokur stjórnvalda. Það er bara súkkulaðimylsnan á rjómatertunni.

Hinn eiginlegi vandi bændastéttarinnar er hugarfar landsmanna. Fyrir um fjórum áratugum hófst grímulaus aðför að bændum og hefur tekist að breyta svo hugarfari landsmanna að jafnvel eru til bændur sem trúa því að þeir séu þurfalingar. Allt hófst þetta með þeirri fásinnu að halda því fram að hvergi á byggðu bóli væru greiðslur til bænda úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, hærri en hér á landi. Jafnvel því haldið fram á hvergi í veröldinni væru slíkt kerfi nema hér á landi. Það tók tiltölulegan stuttan tíma til að þessi skoðun næði eyrum margra kjósenda og sumir stjórnmálamenn voru betur læsir á þær breytingar en aðrir. Stukku á vagninn. Við skulum átta okkur á þeirri staðreynd að á þessum tíma var upplýsingaöldin nokkuð fjarri því sem nú er. Stjórnmálaflokkar gáfu út sín flokksblöð, sem auðvitað voru lesin af flokksbundnum kjósendum. Ein útvarpsstöð var í landinu og þeir sem náðu eyrum hennar voru nokkuð á grænni grein. Þar bar nokkuð mikið á boðberum "sannleikans". Síðar var farið að gefa út blað sem presinteraði sig sem frjálsan fjölmiðil. Þar áttu bændur lítinn stuðning en boðberar hugarfarsbreytinga því meiri.

Því reyndist nokkuð auðvelt að telja þjóðinni trú um að landbúnaður hér á landi væri baggi á þjóðinni. Baggi sem nauðsynlegt væri að losna við. Byggðastefna og aðrar slíkar kreddur voru ekki til í hugum boðbera "hins eina sanna sannleiks".

En nú er öldin önnur. Nú er hægt að seilast í vasa sinn og taka þar upp smá tæki sem getur gefið manni allar þær upplýsingar sem hægt er að finna, um víða veröld. Þar má sjá að flestar þjóðir hins vestræna heims greiða úr sínum sameiginlegu sjóðum til landbúnaðar. Þar má einnig sjá að þar erum við Íslendingar langt á eftir öðrum þjóðum. Þar má einnig sjá að þegar áföll verða í sambandi landbúnað, þurfa bændur ekki að fara betlandi hendi til stjórnvalda til að fá aðstoð. Slík aðstoð kemur yfirleitt að fyrra bragði frá stjórnvöldum. Skiptir þar einu hvort um er að ræða áföll vegna uppskerubrest, vegna verðfalls landbúnaðarvara, vegna okurvaxta stjórnvalda eða bara af hvaða stofni áföll skella á.

Erlendis er hugarfar gagnvart bændum nokkuð annað en hér á landi. Þar skilur fólk nauðsyn þess að halda uppi landbúnaði, skilur nauðsyn þess að halda uppi byggð á viðkvæmum svæðum, skilur að án bænda er engan mat að fá, engin föt að fá og jafnvel ekki heldur neitt áfengi! Þar skilur fólk að til að landbúnaður geti þrifist er nauðsynlegt að greiða til hans úr sameiginlegum sjóðum, ella þurfi að hækka laun almennings verulega. Þar skilur fólk að það kostar að framleiða matvæli. Hér á landi hefur, gegnum látlausan áróður undanfarinna fjögurra áratugar, tekist að telja fólki trú um að landbúnaður gæti rekið sig á loftinu einu saman. Að bændur væru ofaldir.

Hvergi á byggðu bóli er skipting á milli frumframleiðslu matvæla, vinnslu þeirra og sölu, jafn óréttlát og hér á landi. Bóndinn þarf að ala skepnur í langan tíma þar til afurðir fara að berast. Í flestum tilfelum tekur um tvö ár áður en mjólk fæst úr grip, eða hann verður sláturhæfur til kjötvinnslu. Afurðastöðin tekur við gripum, slátrar þeim og vinnur kjötið og geymir í frystigeymslum í allt að einu ári. Verslunin tekur kjötið að láni frá vinnslunni og skilar aftur náist ekki að selja fyrir síðasta söludag.

Bóndinn skilar því langmestu vinnuframlagi á mjólkurlítrinn eða kjötkílóið, vinnslan kemur þar skammt á eftir og ber ábyrgð á að kjötinu sé fargað, náist ekki að selja það. Reyndar færir vinnslan kostnaðinn við þá ábyrgð yfirleitt niður til bóndans, en það er önnur og sorglegri saga. Verslunin gerir að eitt að hringja eftir vörunum, taka við peningum frá neytendum og skila síðan aftur því sem ekki selst. Skipting auranna er þó nokkuð fjarri því að fylgja vinnuframlaginu eða ábyrgðinni!

Ég hef áður skrifað um svokallaðar niðurgreiðslur til bænda. Bent á að þær greiðslur væru ekki í þökk eða þágu bænda, heldur til þess gerðar að halda niðri launum. Þetta á við hvar sem slíkar greiðslur tíðkast.  Það skiptir þó mestu máli er að fólk átti sig á raunveruleikanum. Að það kostar að framleiða mat. Að það kostar að halda landinu í byggð. Byggðastefna er ekki eitthvað montyrði, notað fyrir kosningar. Byggðastefna byggir á því að halda landi í byggð og einfaldast og ódýrasta aðferðin til þess er að efla landbúnaðinn, gera hann þannig að bændur geti lifað sómasamlegu lífi af landbúnaði og verið stoltir verka sinna. Byggðastefna byggir ekki á því að bændur vinni sig í þrot, verði gamalmenni fyrir aldur fram og þurfi að sjá á eftir búum sínum. Stolt yfir glæsilegu verki dugir þar skammt, eitt og sér.

Ekki verður rætt um vanda landbúnaðar án þess að ræða örlítið um innflutning matvæla. Auðvitað er það svo að sum matvæli verða ekki framleidd hér á landi, en þau sem hægt er að framleiða á að framleiða hér. Forsvarsmenn verslunarinnar eru þessu ekki sammála. Segja að landbúnaðarvörur eigi að flytja inn ef hægt er að fá þær ódýrari erlendis. Að þarna eigi peningar að ráða. Aldrei hef ég séð að þessar  "ódýru innfluttu matvörur" á mikið lægra verði í kjötborði hér, enda kostar sitt að flytja þær heimsálfa á milli. Þá kemur aldrei fram í málflutningi þessara manna að þessar vörur eru þegar niðurgreiddar erlendis, ekki úr íslenska ríkisjóðnum heldur ríkissjóðum þeirra landa sem matvælin eru sótt til. Ef verslunin hér á landi þyrfti að greiða þessi innfluttu matvæli á kostnaðarverði, dytti engum til hugar að reyna innflutning þeirra.

Eins og áður segir er auðvelt að finna hvaða upplýsingar sem er gegnum snjallsíma. Þar má einnig finna að hvergi í veröldinni er minna notað af lyfjum í landbúnaði og hér á landi, hvergi.

Hví ættum við þá að flytja inn mengaðan mat sem hægt er að framleiða hreinan hér?

 


Krabbamein ríkissjóðs

Í samgöngusáttmálanum var gert ráð fyrir mislægum gatnamótum við Sæbraut. Síðar kom krafa um að Sæbraut yrði sett í stokk. Verðmiðinn fimmfaldaðist á þessum gatnamótum einum. Hafi sú krafa verið samþykkt fór það samþykki hljótt fram.

En að sjálfri fréttinni um brúnna. Hún er áætluð kosta kvart milljarð króna, fyrir utan tengingar að henni og frá. Þar mun sennilega óþarfar kröfur um útlit skipta mestu máli auk þess sem brúin skal vera hreyfanleg. Þetta er er bráðabyrgða brú og kröfur um listrænt útlit með öllu óþarfar og þar sem ekki er vitað hvar né hvort brúin verði nýtt á öðrum stað er fráleitt að auka kostnað við hönnun og bygginguna með kröfu um að hún skuli verða hreyfanleg.

250 milljónir er nokkuð stór upphæð og víst að hægt væri að byggja þarna brú fyrir mun minni fjárhæð. Þá er ekki víst að þessar 250 milljónir dugi til að greiða fyrir hönnun og byggingu þessarar brúar, ef farið skuli að öllum kröfum. En það er með þetta eins og margt annað, þegar að þeim verkefnum sem tengjast borgarlínu kemur, skipta peningar ekki máli. Varan er seld með einni hugmynd en framkvæmd á allt annan hátt. Varan er seld á óraunhæfu verðmati og stór aukinn  kostnaður síðan sóttur í tómann ríkissjóð.

Og allt fer þetta framhjá Alþingi. Betri samgöngur ohf. segja bara ráðherrum fyrir verkum og alþingismenn nenna ekki að sinna þeirri grunn skyldu sinni að stoppa þennan ósóma og þetta sukk með almannafé. Betri samgöngur ohf. getur ekki og má ekki hafa fjárveitingarvald úr sjóðum landsmanna, hvort heldur er úr mis vel stæðum sveitarfélögum eða galtómum ríkissjóð.

Ef eitthvað verkefni er til hér á landi sem stjórnvöld og sveitarfélög geta stöðvað, til baráttu gegn verðbólgunni, er það þessi borgarlína og það sem henni tengist. Sem lið í betri samgöngum um höfuðborgarsvæðið, þarf borgin að hætta þrengingu gatna. Þannig komast bæði almenningsvagnar og aðrir bílar fljótt milli staða. Þannig getur borgin sparað sér pening og þannig getur borgin að auki lagt sitt af mörkum í baráttu gegn verðbólgu. Fáir eru eins þurfandi fyrir lækkun verðbólgunnar og þeir sem skulda og þar er borgin mjög ofarlega á blaði.

Að hafa eitthvað batterí starfandi í landinu, batterí sem virðist geta gengið hindrunarlaust í sjóði almennings, er fráleitt á öllum tímum en þó sjaldan jafn fráleitt og þegar þjóðin berst gegn vágesti sem hefur það markmið að koma fólki á götuna.  Betri samgöngur ohf. á að leggja niður hið snarasta. Það tók Alþingi kvöldstund að samþykkja ræktun þessa krabbameins og það ætti ekki að taka lengri tíma að skera það burt!


mbl.is Göngubrú reist yfir Sæbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anað stjórnlaust út í fenið

Það er hverju orði sannara að grípa þarf til aðgerða gegn verðbólgunni. Hvað skal gert og af hverjum, er aftur stór spurning.

Það sýnt sig að aðgerðir Seðlabankans eru ekki að virka, reyndar frekar að auka vandann og búa til snjóhengju sem mun síðan falla með skelfilegum afleiðingum. Ástæðan er einföld, hin séríslenska mæling verðbólgu. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er kostnaður vegna kaupa og leigu húsnæðis hluti þessarar séríslensku mælingu, eitthvað sem ekki þekkist hjá samanburðarlöndunum. Þetta gerir mælingu verðbólgu hér mun hærri en ytra.

Vaxtahækkanir leiða til hækkunar á húsnæði, einföld staðreynd. Því leiðir vaxtahækkun til aukinnar verðbólgu. Einnig einföld staðreynd. Seðlabankinn horfir hins vegar til þess að aukin sala húsnæðis auki verðbólgu. Vissulega er staðreynd þar einnig að baki, en einungis ef ofþensla er í byggingu íbúðahúsnæðis. Þegar skortur er á húsnæði, virka vaxtahækkanir öfugt. Þá leiðir skortur á húsnæði til þess að verð hækkar enn frekar. En vaxtahækkanir minnka sannarlega umsvif í þjóðfélagin, einkum byggingar á húsnæði. Þegar skortur er til staðar þegar vaxtahækkunum er beitt, leiðir það til enn frekari skorts.Snjóhengju sem mun falla.

Fólk þarf einhversstaðar að búa. Fyrir ekki svo löngu benti seðlabankastjóri á að fólk gæti búið lengur hjá foreldrum sínum. Staðan er hins vegar orðin sú að oftar en ekki þurfa barnabörnin einnig að lifa inn á foreldrum foreldra sinna og styttist í að barna barna börnin þurfi að auki að búa í húsum foreldra foreldra foreldra sinna. Þetta er auðvitað fráleit nálgun seðlabankastjórans. Að koma í veg fyrir að ungt fólk geti komið sér upp heimili og að fasteignaviðskipti milli fólks, er engin lausn verðbólgunnar.

Því þarf Alþingi að breyta lögum á þann veg að peninganefnd Seðlabankans noti sambærilega verðbólgumælingu og aðrar þjóðir, að kaup og leiga á húsnæði verði afnumin úr mælingunni. Seðlabankinn þarf einnig að fara hóflegar í að setja hömlur á bankana til að lána fyrir slíkum kaupum. Það er alveg sérstakt umhugsunarefni að hægt sé labba inn í næstu bílaverslun og kaupa þar bíl með stóran hluta verðsins tekinn að láni, láni sem er afgreitt á staðnum gegnum síma, meðan fólk getur ekki keypt sína fyrstu fasteign nema eiga margar milljónir inn á bók. Að hægt sé að kaupa járnarusl sem verður verðlaust á örfáum árum en er meinað að kaupa sér fasteign sem eikur verðgildi sitt. Þetta er náttúrulega galið.

Þá er vandséð hvernig vaxtahækkun á þegar útgefin lán geti unnið gegn verðbólgunni. Lán sem fólk tekur í góðri trú og er borgunarhæft fyrir, samkvæmt þeirri stöðu sem ríkir er lánið er tekið. Það getur ekki hætt við lánið, nema með því einu að selja fasteignina. Aðgerðir Seðlabankans koma hins vegar í veg fyrir það, svo þetta fólk sér ekki fram á neitt annað en gjaldþrot. Vaxtahækkanir til að halda niðri verðbólgu mega aldrei gilda á önnur lán en þau sem tekin eru eftir að vaxtahækkunina. Þarna þurfa stjórnvöld einnig að koma inn í með lagasetningu. Að treysta á samfélagsábyrgð bankana er eins og að treysta á Satan til að komast gegnum gullnahliðið.

Stjórnvöld hæla sér hins vegar að því að hafa hækkað húsaleigubætur. Það er þeirra framlag og ekkert annað. Hækkun húsaleigubóta hefur ætíð sýnt sig í hækkun húsaleigu og þar með aukinni verðbólgu. Virkar þver öfugt.

Stjórnvöld þurfa auðvitað fyrst og fremst að draga úr sínum rekstri. Leggja áherslu á að halda grunstoðunum gangandi en hætta öllu öðru.
Þar má af mörgu taka, sumu smáu eins og látlausum ferðalögum ráðamanna til annarra landa, öðru stærra eins og minnkun  eð öllum þeim nefndum, stofnunum og blýantsnögurum ríkisbáknsins sem ekkert gera nema sjúga fjármuni úr ríkissjóð. Skila engum verðmætum til baka.

Þegar í harðbakkann slær, eins og nú gerist hér á landi með því að verðbólgan er hærri en við viljum sjá, er grundvöllurinn að skoða hvað veldur og reyna að taka á því. Kaup og leiga á húsnæði er ekki vandamál þjóðarinnar, eða ætti ekki að vera það. Sá vandi er algerlega heimatilbúinn. Vandinn liggur fyrst og fremst vegna utanaðkomandi aðstæðna og svo í kjölfarið hækkanir á öllu hér á landi í framhaldi af því. Nú fer verð vöru og þjónustu lækkandi erlendis með tilheyrandi lækkun verðbólgu. Það er mikilvægt að þessar lækkanir skili sér hingað til lands. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er fá vara framleidd hér á landi sem er ekki háð erlendum aðföngum. Meðan erlend aðföng lækka ekki til samræmis við lækkun erlendis, mun ekki vera hægt að taka á verðbólgunni hér á landi. Þetta er einföld staðreynd sem jafnvel seðlabankastjóri skilur. Að treysta á einhverja samfélagslega ábyrgð innflytjenda hefur ætið sýnt sig vera draumórar.

Aðgerðir Seðlabankans hafa hins vegar skilað bankakerfinu gífurlegan gróða. Aðgerðir stjórnvalda hafa fitað leigusala meira en þeim er hollt. Og aðgerðaleysi stjórnvalda hafa fitað þau fyrirtæki sem hafa getað nýtt sér þetta ástand til að sjúga fé af fólki.

Þegar vaðið er út í fenið er einungis um tvo möguleika að ræða, að halda áfram og sökkva til dauðs, eða snúa til lands og finna betri leið. Þetta þurfa stjórnvöld og peningastefnunefnd að gera upp við sig. Ætla þau að halda áfram út í fenið, eða snúa til baka og finna betri leið?


mbl.is „Grípa þarf strax til raunverulegra aðgerða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng mælistika

Hvers vegna er ekki notuð sama mælistika hér á landi og notuð er í okkar samanburðarlöndum, við mælingu verðbólgu? Það er til samræmd mæling verðbólgu sem öll lönd Evrópu nota, nema Ísland. Þó erum við að bera okkur saman við þessi lönd á flestum sviðum. Hvernig er hægt að bera saman verðbólgu ef ekki er notuð sama mælistika?

Nú mælist verðbólga hér á landi 10,2%, ekki alveg hæsta verðbólga í Evrópu en mjög nærri því. Ef sama mælistika er notuð hér og þar ytra, mælist verðbólga hins vegar ekki nema 8,8% og við komin á það plan að vera með nánast meðaltalsverðbólgu í Evrópu. Í Svíþjóð mælist hún 9,7% og í Noregi mælist verðbólgan 8,3%. Hins vegar eru stýrivextir í Svíþjóð einungis 3% og í Noregi 2,75%. Hér á landi eru stýrivextir hins vegar 7,5% og samkvæmt ummælum seðlabankastjóra munu þeir hækka enn frekar. Stefna þá í að verða hærri en verðbólgan mælist, samkvæmt samræmdri mælistiku. Þetta er auðvitað glórulaust.

Þessi sér íslenska mæling á verðbólgu er auðvitað arfur þess tíma er öll lán til húsnæðiskaupa voru verðtryggð. Þetta leiðir til þess að enginn hagur er af því að taka vaxtalán, jafnvel hættulegt. Afborganir slíkra lána er fljót að fara yfir greiðslugetu fólks, þegar vextir stökkbreytast. Því verður að afnema þessa sér íslensku aðferð við mælingu verðbólgu og taka upp sömu mælistiku og okkar samanburðarlönd nota. Mælistiku sem er talin gild og góð um alla Evrópu, utan Íslands. Einungis þannig er hægt að tryggja að fólk sem tekur lán í góðri trú, miðað við efnahag, geti staðið skil þeirra. Einungis þannig mun verða hægt að afnema verðtryggingu lána, sem einnig er sér íslensk.

Það er einstakt að stjórnmálamenn vilji ætíð mála skrattann á vegginn, að gera meira úr hlutum en tilefni er til. Vissulega er 8,8% verðbólga slæm en 10,2% er margfalt verri. Eins og áður segir er 8,8% verðbólga nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja. Það er engin krísa að geta haldið Íslandi nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja, reyndar bara ágætis afrek, miðað við ástandið í heiminum. En, nei, íslenskir stjórnmálamenn vilja mála ástandið enn verra. Mætti halda að þeir væru illa haldnir af "Stokkhólmseinkenni".

Fyrir nokkrum dögum hvatti seðlabankastjóri fjármagnseigendur til að mótmæla á götum úti, þar sem raun innvextir væru í mínus. Reyndar man ég ekki til að hafa nokkurn tíman fengið raunvexti af innistæðu og er þó kominn á efri ár. Ástæða þess að maður geymir nokkrar krónur í banka er ekki til að ávaxta þær, keldur til að minnka skaðann af því að hafa þær undir koddanum. Að fá einhverja vexti í stað engra. Þetta var náttúrulega svo absúrd hjá seðlabankastjóra að engu tali tekur. Ef hann hugsar sé að hækka stýrivexti svo að innlánsvextir banka verði jákvæðir, þarf hann að hækka þá nokkuð ríflega, þar sem vaxtamunur bankanna er mjög mikill. Hefur ætíð verið mikill en hin síðari ár keyrt úr hófi fram. Þetta mun auðvitað leiða til þess að öll útlán bankanna falla í vanskil, þar sem enginn getur borgað af lánum sínum. Afleiðingin er að bankarnir sjálfir falla. Hvað þá um innistæðurnar, með háu vöxtunum?

Bankastjóri seðlabankans segist vera í einkabaráttu við verðbólguna. Því þurfi hann að hækka vexti og mun hækka þá þar til verðbólgu lægir. Það mun sennilega verða seint, enda hækkun stýrivaxta sem fóður fyrir verðbólgudrauginn. Hækkun vaxta leiðir af sér að flest fyrirtæki verða að hækka verð á sinni vöru eða þjónustu. Flest fyrirtæki eru háð lánsfé, skammtímalánum eða lánum til til lengri tíma.

Þá eru auðvitað flest heimili landsins skuldsett, sum mikið önnur minna. Lán til húsnæðiskaupa eru þar umfangsmest. Hækki vextir svo að fólk geti ekki staðið skil á sínum lánum, mun verðbólga auðvitað lækka, lækka svo að við förum beinustu leið í kreppu!

Ég viðurkenni að seðlabankastjóri hefur það lögbundna hlutverk að halda verðbólgu niðri. Til þess hefur hann ýmis verkfæri. Hann virðist þó hafa einstakt dálæti á einu þeirra, hækkun stýrivaxta. Annað verkfæri væri þó sennilega enn betra, að auka bindiskyldu bankanna. Það leiðir til þess að bankar draga úr útlánum. Aðgerð sem ekki kemur í bakið á fólki, heldur hefur það val.

Það er eitt atriði sem ég get ekki með nokkru móti skilið og útilokað er að geti haft áhrif á verðbólguna, en það er hækkun vaxta á þegar tekin lán. Hækkun vaxta á lán sem fólk sækist eftir er aftur skiljanlegt. Hækkun vaxta á þegar tekin lán, lán sem fólk tekur í góðri trú og samkvæmt sinni greiðslugetu, munu einungis leiða til greiðslufalls. Hækkun lána á ótekin lán gefa lántaka val og mun að öllum líkindum draga úr verðbólgu.

Seðlabankastjóri starfar samkvæmt lögum. Þau lög eru sett á Alþingi. Það er því stjórnmálamanna að grípa í taumana þegar í óefni stefnir. Svo er nú. Annað tveggja fer seðlabankastjóri offari eða hitt að hann fer eftir lögum. Líklega er síðari kosturinn réttur og þá þarf að breyta lögunum. Annað getur ekki gengið.

En fyrst og fremst þarf að breyta mælistikunni, að færa hana til samræmis við það sem aðrar þjóðir nota. Einungis þannig er hægt að tala vitrænt um verðbólgu hér á landi og haga aðgerðum samkvæmt því.

 


mbl.is „Algjört forgangsmál að ná verðbólgu niður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunnhyggnir töframenn Viðreisnar

Þeir sem halda fram töfralausnum eru yfirleitt grunnhyggnir. Hagkerfi hvers ríkis er sérstakt og bundið við það ríki. Hvernig gengur að stjórna því kemur ekkert gjaldmiðli þess við. Hann getur hins vegar verið mælikvarði á stjórnun hagkerfisins, hafi ríki sinn eigin gjaldmiðil.

Lausn Viðreisnar felst í því einu að ganga í ESB og taka upp evru. Það er galdralausn þess stjórnmálaflokks. En jafnvel innan ESB er hvert ríki með sitt eigið hagkerfi, þó þau notist við sameiginlega mynt. Það sýnir sig líka að verðbólga innan þessara ríkja ESB er mismunandi, sumstaðar mun hærri en hér á landi, sé sama viðmið notað, en hér er mæling verðbólgu með öðrum hætti en innan ESB ríkja. Jafnvel þó notuð sé hin sér íslenska mæling verðbólgu, getum við talist á nokkuð góðu róli miðað við lönd ESB. Þá eru vaxtakjör innan ESB ríkja mismunandi, eftir því hvernig hagkerfi þeirra gengur. En þar sem þau ráða ekki hvert og eitt yfir gjaldmiðlinum, verður hagstjórnin erfiðari.

Því er fjarstæða að halda því fram að einhver töfralausn liggi í því að ganga í ESB og taka upp evru. Hagkerfið hér mun lítið breytast við slíka ráðstöfun og fráleitt að ætla að vaxtakjör breytist til batnaðar. Á fundi Efnahags og viðskiptanefndar Alþingis var seðlabankastjóri yfirheyrður. Þar kom meðal annar þetta fram:

Ásgeir tók hann einnig fram að ef Ísland væri með evr­una væri verðbólg­an hér­lend­is mun hærri og nefndi 7% hag­vöxt á síðasta ári og aukna at­vinnuþátt­töku sem dæmi um góðan ár­ang­ur. „Þú finn­ur ekki annað Evr­ópu­land í þess­ari stöðu“.

Reyndar er ótrúlegt að löggjafaþingið, sem á að stjórna hagkerfinu, skuli kalla þann embættismann fyrir nefnd sem þarf að þrífa skítinn upp eftir óstjórn stjórnvalda. Það fólk ætti að líta sér nær.  Það má vissulega deila um þau verkfæri sem seðlabankinn notar við þau þrif, ég fæ t.d. ekki séð hvernig slá megi á verðbólgu eða lántökur með því að hækka vexti á þegar teknum lánum. Varla fer fólk að skila þeim aftur í bankann.

Þingmenn Viðreisnar ættu kannski að átta sig á því að við búum á eyju langt frá öllum öðrum ríkjum. Það kostar að búa við slíkar aðstæður. Þó hugsanlega megi telja til einhvern kostnað við að halda eigin mynt, er sá kostnaður lítill á við annan kostnað við að búa afskekkt. Innganga í ESB og upptaka evru breytir ekki staðsetningu Íslands á hnettinum, þvert á móti má gera ráð fyrir að vandinn yrði enn stærri.

Grunnhyggnir töframenn leysa sjaldnast neinn vanda!


mbl.is Halda fast í „pínuoggulitla örmynt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband