Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Vatnshausar og vindhanar

Það er hreint með ólíkindum að hlusta þingmenn og suma fræðimenn ræða un orkupakka 3. Það er eins og þeir skilji ekki, eða vilji ekki skilja eðli málsins. Öll rök andstæðinga op3 er afskrifuð, sama hver eru. Ýmist eru þau talin rugl, stundum að þau skipti ekki máli og einstaka menn reyna að halda því fram að sem sjálfstæð þjóð þá munum við ávallt hafa síðasta orðið. Þetta á sérstaklega við þegar rætt er um frum ástæðu þess að ESB samdi þessa tilskipun, flutning á orku milli landa. Þar hafa menn gengið svo langt að telja til hafréttarsáttmálann, sér til stuðnings.

Eðli tilskipunar ESB um 3 orkupakkann er einfalt, eins og með allar tilskipanir frá ESB. Eðlið er að framselja eða deila valdi. Um það snúast allar tilskipanir ESB. Þær eru settar fram til að samræma hluti milli aðildarlanda ESB/EES og slíka samræmingu er ekki með nokkru móti hægt að ná fram nema öll aðildarlöndin deili sjálfstæði sínu um viðkomandi málaflokk, um það sem tilskipunin segir. Þetta á einnig við um op3. Öll lönd ESB geta sótt um undanþágu frá hluta slíkra tilskipana, þó sjaldnast slíkar undanþágur séu veittar. Lönd EES hafa einnig möguleika á slíkum undanþágum gegnum sameiginlegu EES nefndina. Öll löndin þurfa þó að gera þetta eftir ákveðnu kerfi, ESB löndin við samþykkt tilskipunarinnar á Evrópuþinginu og EES löndin gegnum sameiginlegu EES nefndina. Ekkert land getur sett sér sjálft lög um einhverjar undanþágur, enda væri ESB þá fljótt að flosna upp.

Af sömu sökum eru lög og reglugerðir ESB æðri öðrum lögum einstakra aðildarlanda og sama gildir um þau lög og reglur sem sett eru í löndum EES vegna tilskipana sem þau samþykkja. Að þingmenn skuli ekki skilja þessa staðreynd, sem reyndar hefur svo oft reynt á, bæði hér á landi sem og í öðrum löndum ESB/EES, stappar furðu!

Þegar þjóð framselur, deilir eða afsalar sér einhverju valdi, hefur hún ekki lengur sjálfstæði á því sviði. Þetta er deginum ljósara og ætti að vera öllu sæmilega vitibornu fólki ljóst.

Með orkupakki 3 afsala þær þjóðir sem hann samþykkja yfirráðum yfir orkuflutningi milli landa. Það segir sig sjálft að þar er verið að færa valdið um hvort eða hvenær sæstrengur verði lagður til tengingar Íslands við Evrópu verði. Alþingi mun engu ráða og það mun ekki koma Hafréttarsáttmálanum við á nokkurn hátt. Alþingi hefur þá framselt, deilt eða afsalað sér (eftir því hvaða orð menn vilja nota) þeirri ákvörðun. Til að framfylgja þessu var stofnað sér embætti innan ESB, eins konar orkustofnun ESB eða ACER. Sú stofnun mun einungis þurfa að svara framkvæmdarstjórn sambandsins. Í hverju landi er síðan settur á stofn Landsreglari, Orkustofnun mun verða breytt í Landsreglara hér á landi, sem einungis þarf að svara ACER, reyndar gegnum ESA í löndum EES. ESA hefur hvorki þekkingu né vald til að gera athugasemdir við skipanir frá ACER, mun einungis koma þeim áfram.

Ef deilumál kemur upp um framkvæmd tilskipunarinnar, mun sú deila verða leyst á sama vettvangi og önnur lög hér á landi, sem til eru komin vegna tilskipana frá ESB, fyrir efta dómstólnum. Það er eðlilegt, þar sem við höfum jú framselt, deilt eða afsalað okkur valdinu yfir málinu, líka dómsvaldinu.

Að stjórnvöld skuli halda til streitu þessu máli er hreint með ólíkindum. Þau segjast ætla að setja fyrirvara, að taka einungis upp hluta tilskipunarinnar, en samt að samþykkja hana alla! Er ekki allt í lagi í kollinum á þessu fólki?! Ef það er virkilega vilji til að fá undanþágur, þá að sjálfsögðu á að fara þá leið sem fær er, einu réttu leiðina og senda pakkann aftur til sameiginlegu nefndarinnar. Þar er vettvangurinn til að sækja undanþágur, ekki Alþingi Íslendinga, né nokkuð annað þjóðþing þeirra ríkja sem undir tilskipunina falla.

Það er virkilegur efi í huga manns að stjórnarliðar meini virkilega það sem þeir segja, að þeir viti að heimatilbúnar undanþágur eru ekki pappírsins virði. Hvenær hafa þessir þingmenn verið spurðir um hug sinn til sæstrengs? Aldrei. Þó hafa sumir ráðherrar talað fjálglega um að slíkur strengur gæti orðið þjóðinni til heilla. Hvernig? Það hefur enginn getað sagt.

Því styrkist sá grunur að stjórnvöld séu vísvitandi að samþykkja op3 til þess eins að koma á sæstreng. Það er allt klárt til slíkrar lagningar og búið að fjármagna hana. Víst er að sumir ráðherrar og kannski einhverjir þingmenn munu hafa beinan hagnað af tengingu Íslands við hinn stóra  og "góða" raforkumarkað í Evrópu.

Þegar þeir hrökklast af þingi, í næstu kosningum, munu sumir fá viðurnefnið vatnshausar og aðrir vindhanar.


mbl.is Umræðum um þriðja orkupakkann lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ráðherrar ekki með heilli há?

Í umræðum á Alþingi var samgönguráðherra inntur svara um hvort hann hefði ekki áhyggjur af stöðu íslenskrar garðyrkju, komi til samþykktar op3.

Í stuttu máli svaraði ráðherrann því að orkuverð hefði ekki hækkað svo mikið, að mesta hækkun hefði orðið vegna flutnings orkunnar. Hann nefndi að garðyrkjubændur fengju niðurgreiðslu á orkuflutningi og bauð upp á frekari umræður um hvort auka ætti þær. Að lokum ítrekaði ráðherrann að þetta kæmi ekki orkupökkunum við, þetta væru íslensk lög.

Er ráðherrann virkilega svo fáfróður um málið?! Hefur hann ekkert kynnt sér um hvað op3 snýst, eða um hvað op1 og 2 snerust?

Með op1 var sett fram krafa um skiptingu orkufyrirtækja upp í framleiðslu, flutning og sölu. Við þessa breytingu hækkaði orkureikningur landsmanna, bæði vegna þess að kerfið varð dýrara í framkvæmd, þar sem nú sinna þrjú fyrirtæki því sem eitt gerði áður og einnig vegna þess að við stofnun Landsnets var aukinn kostnaður færður frá framleiðslu yfir til flutnings. Því þurfti að auka niðurgreiðslur til stórnotenda og dreifbýlis. Því eru þessar hækkanir og auknu niðurgreiðslur bein afleiðing af op1, þó vissulega lögin sem ákváðu niðurgreiðslurnar séu íslensk.

Við samþykkt op3 mun þetta breytast nokkuð. Landsnet mun ekki lengur hafa heimild til að ákveða sjálft með hvaða hætti eða hvort orkufyrirtæki sem stofnuð verða, t.d. vindmilluskógar, verði tengd landskerfinu, heldur ber skylda til að gera slíkt. Þá er skýrt tekið fram í op3 að þann kostnað beri Landsneti að setja inn í sínar verðskrár. Orkustofnun, verðandi undirfyrirtæki ACER, mun hafa eftirlit með framkvæmdinni og ef einhver meinbugur er á, mun málið kært. Þetta mun leiða til mikillar hækkunar á flutningskostnaði orkunnar og við neytendur þurfum að greiða, einnig garðyrkjubændur. Þá er tekið til í op3 að ekki sé heimilt að niðurgreiða orkuverð eða flutning, þannig að ekki verður annað séð að jafnvel þó enginn strengur verði lagður, muni orkuverð hækka verulega, sérstaklega hjá þeim sem hafa verið að fá einhverja lækkun í formi niðurgreiðslna á flutningi.

Mann rekur í rogastans að hlusta á ráðamenn tala með þeim hætti sem ráðherra gerði og veltir virkilega fyrir sér hvað veldur. Við vitum að nokkrir þingmenn og ráðherrar hafa beinan persónulegan hag af samþykkt op3, en það á vissulega ekki við um fjöldann, eða hvað?

 


mbl.is Alþingi samþykki ákvæði um auðlindir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekkert hlægilegt við að fórna sjálfstæði heillar þjóðar

Rafstrengur milli Íslands og meginlands Evrópu mun koma, bara spurning hvenær. Þegar sú stund rennur upp, skipir öllu fyrir okkur sem þjóða að hafa allt vald yfir öllum þáttum orkunnar okkar, framleiðslu, flutning og sölu. Það er því grátlegt, svo ekki sé meira sagt, að Alþingi Íslendinga skuli vera að koma því svo fyrir að það vald verði skert eða jafnvel afnumið með öllu. 

Samþykki Alþingi orkupakka 3 frá ESB mun lagning á slíkum streng verða fyrr en seinna. Op3 er jú saminn og ætlaður til stjórnunnar á flutningi orku milli landa. Strax við samþykkt op3 verður stofnað nýtt embætti, eins konar landsreglari. Ríkisstjórnin hefur gefið út að Orkustofnun muni taka það verk að sér. Þetta embætti mun ekki hlíta valdi Alþingis eða ráðherra, heldur ACER, yfirstofnun ESB um orkumál. Vegna veru okar í EES mun þó verða settur einn milli liður, ESA, sem mun taka við skipunum ACER og koma þeim til Orkustofnunar. Þarna er klárlega verið að færa vald úr landi og það hlýtur að teljast brot á stjórnarskrá. Að auki munu öll mál sem ágreiningur kemur um, verða dæmd fyrir EFTA dómstólnum. Því er einnig verið að færa dómsvald úr landi, sem einnig telst brot á stjórnarskrá. Ríkisstjórnin hefur ekki andmælt þessu en telur þessi atriði minniháttar.

Þegar kemur að öðrum málum tilskipunarinnar hefur ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að þeim skuli frestað, þar til strengur hefur verið lagður og að sú ákvörðun muni verða í höndum Alþingis. Ég veit ekki með þingmenn, en fyrir aumum almúganum gengur þetta einfaldlega ekki upp. Annað hvort afsalar þú þér einhverju eða ekki. Lögmenn hafa hins vegar verið á öndverðum meiði um hvort þessi ætlun ríkisstjórnarinnar gangi, en það kemur vart á óvart. Lögfræðingar eru jú menntaðir í að flækja lögin sem mest og eru sjaldnast sammála. Á því lifa þeir og launaður lögfræðingur velur jú alltaf að verja málstað þess er borgar. Því ætti kannski að leggja eyrun við þegar lögfræðingur sem ekki fær borgað fyrir sitt álit, gefur það út.

Þá er ljóst að jafnvel þó þessi ætlun ríkisstjórnarinnar stæðist, er einungis um frestun að ræða og á endanum mun öll stjórn orkumála færast úr landi. Það er jú kosið til Alþingis á minnst fjögurra ára fresti og ekki fjarlægt að ætla að yfirlýstir ESB flokkar muni á einhverjum tímapunkt komast til valda og þá verður fjandinn laus.

Velji þingmenn hins vegar að nýta þá fáu kosti sem EES samningurinn gefur okkur og vísa málinu aftur til sameiginlegu EES nefndarinnar, munum við sjálf getað ráðið hvort eða hvenær sæstrengur verði lagður. Þegar sú stund rennur upp munum við sjálf ráða verði orkunnar og því magni sem við kærum okkur um að selja úr landi. Við munum áfram ráða framleiðslu, flutningi og sölu orkunnar okkar. Orkustofnun verður þá áfram undir stjórn Alþingis og ráðherra og öll deilumál sem upp kunn að koma á þessu svið, munu verða leyst fyrir íslenskum dómstólum. Við munum áfram verða sjálfstæð þjóð.

Þessa leið, að vísa máli aftur til sameiginlegu EES nefndarinnar, telur formaður utanríkismálanefndar vera "handbremsu", en er í raun bara hluti af þeim samningi sem Alþingi nauðgaði gegnum þingið þann 12. janúar 1993, með minnsta mögulega meirihluta. Þann meirihluta var hægt að berja saman með því að telja þingmönnum trú um að aldrei kæmi sú staða að gengið yrði nærri stjórnarskránni og að í samningnum væri skýr ákvæði um að hægt væri að vísa málum aftur til sameiginlegu nefndarinnar, ef Alþingi kysi svo. Reyndar voru orkumál utan þess samnings í upphafi, ásamt landbúnaði og sjávarútvegi. Nokkuð er víst að ekki hefði náðst meirihluti á Alþingi án þessa. Ef þingmenn hefðu haft grun um hversu víðtækt brot á stjórnarskrá hann hefði för með sér, ef ekki hefði verið ákvæði í samningnum um að snúa mætti til baka einstökum tilskipunum, ef þingmenn veldu slíkt og ef minnsti grunur hefði verið um að orkumál ættu eftir að verða hluti þessa samnings, er ljóst að stór meirihluti þingmanna hefði fellt hann, í upphafi árs 1993. Þeir sem muna umræðuna vita þetta, þó unglingar nútímans, sem ekki þekkja Ísland utan EES þykist vita betur.

Þingmenn Miðflokksins hafa verið duglegir við að standa vörð sjálfstæðis okkar. Þeim tókst í tvígang að fresta afgreiðslu tilskipunar ESB um orkumál, er kallast op3. Með elju þeirra á Alþingi varð það úr að ríkisstjórnin ákvað að setja fyrirvara um op3, í raun að samþykkja tilskipunina en fresta upptöku hennar að mestu leiti og telur sig þannig vera að koma í veg fyrir brot á stjórnarskrá. Ferðamála- iðnaðar- nýsköpunar og dómsmálaráðherra kallaði þetta "að koma til móts við andmælendur orkupakkans".  Því miður kemur þetta ekki í veg fyrir brot á stjórnarskránni. Eins og áður segir mun sá hluti sem stjórnvöld ætla að taka upp strax, vera brot á stjórnarskránni og að auki eru litlar líkur á að þeir svokallaðir fyrirvarar muni halda gagnvart EFTA dómstólnum. Ástæða frestunar málsins á Alþingi, í tvígang, var af nauðsyn en ekki góðmennsku stjórnvalda.

Í vor, þegar Miðflokksmenn stóðu vaktina á þingi, sáu aðrir þingmenn ekki ástæðu til að hlusta á mál þeirra. Því var salur þingsins stundum fámennur, jafnvel heilu sólahringana. Nú er umræðan hafin að nýju og þingmenn annarra flokka neyðast til að sitja í þingsal. Það merkilega er að þeir sem mest voru fjarverandi umræðuna á þingi vor, þykjast þó vita hvað sagt var og telja umræðuna nú vera endurtekningu. Þykir þetta jafnvel hlægilegt. Það væri gaman, eftir að þeir þingmenn sem nú ætla að samþykkja op3, standa frammi fyrir því hvað þeir hafa gert, að geta sagt "sá hlær best er síðast hlær".

En því miður verður fáum þá hlátur í hug, það er ekkert hlægilegt við að missa sjálfstæði þjóðarinnar!!

 

 

 


mbl.is Hlógu að ummælum Ólafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrann og vifturnar hans

Ómar Ragnarsson benti á í bloggi í gær að framleiðsla orku með vindmillum væri utan rammaáætlunar og því væri í raun allt landið undir í þeim efnum. Þetta er rétt hjá Ómari og ekki annað að sjá en einhverskonar gullgrafaraæði ráði nú för, er kemur að vindmillum. Þetta sést nokkuð vel þegar litið er vestur í Dali og á Barðaströndina. Þar eru hugmyndir lengst komnar, þó víðar um land sé verið að skoða hugsanlega kosti fyrir vindmilluskóga.

Fyrir vestan eru þrír kostir mest ræddir, upp á fjöllunum við Garpsdal, á Hróðnýjarstöðum við Búðardal og í landi Sólheima, fremst í Laxárdal, jörð í sameign barnamálaráðherrans, eiginkonu hans og föður ráðherrans. Samtals er verið að tala þarna um vindmillur sem afkasta eiga allt að 375MW. Til samanburðar er framleiðslugeta Búrfellsvirkjunar 370MW eftir stækkun og Fljótsdalsvirkjunar 690MW. Það er ljóst að þarna er verið að tala um svo mikla framleiðslugetu að útilokað er að ætla að selja það allt hér innanlands, sæstrengur út er frum forsenda þess að þessar hugmyndir hafi einhvern tilgang, bæði til að koma orkunni á markað og einnig til að orkuverð hækki svo einhvern arð verði hægt að ná út úr dæminu.

Af þessum þrem viftuvirkjanakostum vestra er einn lengst kominn. Þar er um að ræða 27 vindmillur með framleiðslugetu upp á 115MW, eða vel rúmlega tvær Hvalárvirkjanir. Um ár er síðan lokið var við að setja upp mikið og hátt mælimastur og komið fyrir lítil rellu á svæðinu til að mæla vindstyrk og vindáttir. Í sumar var svo lagður ljósleiðari á framkvæmdasvæðið og endar hann þar sem stjórnhúsi er ætlað að vera. Vegagerðin vinnur hörðum höndum að mælingu á styrk á þeim hluta vegakerfisins að svæðinu sem að henni snýr og leitar nýrra náma, til styrktar þess. Í raun er ekki annað að sjá en að framkvæmdir séu nú í biðstöðu, en væntanlega fer allt á fullan snúning jafn skjótt og Alþingi hefur samþykkt op3.

Sólheimarellurnar eru ekkert smá flykki, hæðin með spaða í efstu stöðu verður um 175 metrar, eða um 100 metrum hærri en rellurnar sem Landsvirkjun reisti fyrir ofan Búrfell. Undir svona flykki þarf góða undirstöðu og gert ráð fyrir að þvermál undirstöðu hverrar viftu verði 30 metrar. Því má gera ráð fyrir að steypumagnið sem flytja þarf upp á Laxárdalsheiðina muni getað slagað hátt í 200.000 tonn. Það eru nokkuð margar ferðir steypubíla!  Áætlað er að vegakerfið sem framkvæmdaraðilinn þarf að leggja um svæðið sé um 26 km, af 6 metra breiðum vegi með fullu burðarþoli. Þar að auki þarf öflugt plan við hverja viftu, svo krani geti örugglega athafnað sig þar.

Það munu verða miklir flutningar samhliða þessari framkvæmd. Eins og áður sagði mun þurfa að flytja óhemju magn af steypu á svæðið. Hvaðan hún mun koma er ekki vitað en næsta alvöru steypustöð er í Borgarnesi, í 100 km fjarlægð. Þá þarf að koma viftunum og því sem þeim tilheyrir upp á heiðina. Líklega má ætla að ekki færri en 1000 full lestaða dráttarbíla þurfi til þess verks, jafnvel mun fleiri. Hvar skipa skuli upp herlegheitunum er enn óráðið, en í matsskýrslunni eru þrír staðir nefndir, Grundarfjörður, Grundartangi og Hvammstangi. Sá síðastnefndi hefur sannarlega þann kost umfram aðra að vegalengd er stutt, en þar er hvorki viðunandi höfn, athafnarsvæði við höfnina né nokkur aðstaða til að koma svona vörum á land og meðhöndla þær. Grundarfjörð má afskrifa strax, endurnýja þarf þá að fullu vegakerfið um Skógarströndina og vart er til fjármagn til þess í ríkissjóð. Eftir stendur Grundartangi, með alla aðstöðu og tækjabúnað sem þarf til að landa og meðhöndla þennan búnað. Vegalengdin er hins vegar nokkur, eða um 130 kílómetrar, aðra leiðina.

Mestur verður vandinn við að flytja spaðana á staðinn. Hver þeirra er nærri 68 m á lengd og koma þeir í heilu lagi, alls 81 stk. Vissulega er þetta gert erlendis, með erfiðismunum þó. Veðurfar hér og vegakerfi er þó á margan hátt ólíkt og gæti gert enn erfiðar um vik að flytja svo langan flutning. Við skulum átta okkur á að 68 metrar er langur farmur, eða sem svarar rúmlega ellefu 20" gámum. Samkvæmt umferðarlögum má heildarlengd ökutækis einungis vera 20 metrar, eða einungis tæplega einn þriðji af lengd spaðans. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta mun ganga.

Það er ljóst að um gífurlega framkvæmd er að ræða í landi barnamálaráðherrans og ljóst að umfjöllun um hana hefur verið í mýflugumynd. Reynt er að gera sem minnst úr verkinu og áhrifum þess, í tölvugerðum myndum er vifturnar gjarnan sýndar mun minni en þær í raun eru og annað eftir því. Á byggingartímanum mun verða verulegt rask á heiðinni, auk mjög mikillar þungaumferðar um landið. Eftir að byggingartíma líkur mun landið hafa breytta ásjónu. Risa vindmillur, alls 27, munu dreifast um heiðina, með vegakerfi á milli og ýmsum þjónustuhúsum. Væntanlega mun Landsnet þurfa að leggja nýja lína af svæðinu niður í spennuvirki í Hrútafirði, á okkar kostnað auðvitað. Sem dæmi þá eru vifturnar um 175 metrar á hæð, eins og fyrr segir. Landið sem þeim er ætlað að standa er einungis í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli, svo ljóst er að sjónmengunin mun sjást víða.

Hvers vegna umhverfissamtök hafi ekkert látið til sýn heyra er með öllu óskynjanlegt, þó vissulega megi þakka einum mesta og fremst manni hér á landi á því sviði reyfa málið, þ.e. Ómar Ragnarsson. Umhverfisáhrif svona risa vindmilluskógar eru gífurleg, ekki minni en af sambærilegri vatnsaflsvirkjun. Útilokað er að endurheimta það land aftur, þó sumir tali fjálglega um slíkt. Það magn steypu, sem í dag er víst talin einstaklega umhverfishættuleg, er með ólíkindum.

Það er deginum ljósara að engum dytti til hugar að fara út í slíka framkvæmd nema því aðeins að markaðurinn verði stækkaður og orkuverð hækkað. Því bíður barnamálaráðherrann nú rólegur eftir atkvæðagreiðslunni, einungis um vika þar til hjólin geti farið að snúast hjá honum og viðskiptafélögum hans.

Strengurinn til meginlandsins mun sannarlega koma, það vita allir þeir sem munu greiða atkvæði mánudaginn 2. september. Skömmin mun öll þeirra sem samþykkja orkupakka 3.!!

 


mbl.is Hefðbundið fyrirkomulag á þingstubb
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílíkur hroki og yfirgangur

Það verður að segjast eins og er að nokkurn tíma tók að jafna sig eftir lestur þeirrar fréttar sem hengd er við þessi skrif, svo frámunalegt sem innihald hennar er. Hvað halda þingmenn eiginlega að þeir séu? Alguðir? Er það virkilega orðið svo hér á Íslandi að gagnrýni á störf og gerðir þingmanna sé bönnuð? Held að þetta fólk ætti örlítið að líta í eigin barm og reyna að átta sig á fyrir hverja það vinnur, hverjir það eru sem veita þeim brautargengi til setu á Alþingi!!

Utanríkismálanefnd kallar fyrir sig dómara, til að fjalla um og segja sitt álit á innleiðingu tilskipunnar ESB. Þegar hann hefur lokið máli sínu og jafnvel meðan hann flytur það, er ljóst að nefndarmenn hafa þegar tekið ákvörðun og ætluðu ekki að hlusta á rök dómarans. Framkoma sumra fulltrúa nefndarinnar gagnvart þessum gesti hennar, er svo yfirmáta freklegur að erfitt er að finna sambærilegt dæmi. Það er ljóst að þeir kjósendur sem kusu Rósu Björk og Silju Dögg voru ekki að kjósa þær til setu á Alþingi til að fara fram með slíkum dónaskap! Þær hafa báðar skrifað sín lok sem alþingismenn!

Orkupakkamálið er komið á þann stað að ekki skiptir máli lengur hverjir geta fært fram sterkari rök fyrir skaðleysi eða skaðsemi þess máls. Andstaða þjóðarinnar gegn málinu magnast dag frá degi og gengur sú andstaða þvert á pólitíska sviðið. Þingmönnum hefur ekki tekist að sannfæra þjóðina og meðan svo er, er þeim ekki stætt að samþykkja þennan pakka. Slíkir einræðistilburðir eru bein ávísun á eitthvað sem ekki hefur áður sést hér á landi.

Jafnvel þó sú rökleysa sem pakkasinnar halda fram, að tilskipunin muni ekki hafa áhrif fyrr en sæstrengur verði lagður, haldi, eru þau rök gagnslítil. Einfaldlega af þeirri ástæðu að strengur mun koma, einhvern tímann í framtíðinni. Framtíðin nær lengra en til morguns. Þá er leik lokið!!

Á árunum fyrir hrun tóku nokkrir einstaklingar sig til og rændu þjóðina. Það gerðu þeir á þann hátt sem auðveldastur er, með því að kaupa bankakerfið, sem einungis var hægt að gera vegna veru okkar í EES. Þeir landsmenn sem lifðu þann gjörning af eru margir hverjir enn í sárum og sjá ekki fyrir endann á þeim þjáningum. Þó efnahagskerfi okkar sé komið á réttan veg, er það ekki Alþingi að þakka, þvert á móti tókst að rétta úr kútnum vegna samstöðu þjóðarinnar gegn Alþingi. Þarna var um að ræða fjárhagslegt tjón fyrir þjóðina, þó vissulega einstaklingar hefðu misst þar æru sína og sumir lífið. Fjárhagslegt tjón má bæta.

Nú á að ræna þjóðina aftur, ekki af siðlausum einstaklingum, heldur sjálfu Alþingi. Nú skal ein þýðingarmesta auðlind hennar sett að veði. Þetta skal gert af sömu rót og stóra bankaránið, vegna veru okkar í EES. Þar er verið að fremja rán sem mun skaða þjóðina um alla framtíð. Engin leið verður að vinna þjóðina upp úr þeirri skelfingu og ljóst að við, börn okkar og barnabörn munum líða fyrir!

Slíkt rán, um hábjartan dag, verður ekki liðið!!

 

 


mbl.is „Þetta er bara mjög móðgandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hoggið í sama knérunn

Þeir tveir ráðherrar sem bera mesta ábyrgð á innleiðingu þriðja orkupakka ESB eru Guðlaugur Þórðarson, utanríkisráðherra og Þórdís K Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- nýsköpunar- og dómsmálaráðherra. Hefur þeim báðum mistekist fullkomlega að útskýra fyrir þjóðinni hvers vegna svo mikilvægt sé að innleiða þessa tilskipun hér á landi.

Nú, þegar styttist í atkvæðagreiðslu um málið á Alþingi er ljóst að enn er stór meirihluti landsmanna á móti þessari tilskipun og skiptir þar engu hvaða flokka fólk hefur kosið. Óánægjan er þverpólitísk, þó kannski kjósendur Sjálfstæðisflokks hafi verið fremstir í flokki þeirra sem tjá sig opinberlega gegn málinu.

Því hefði mátt ætla að þessir tveir ráðherrar legðu sig fram um að fræða kjósendur sína um málið, a.m.k. reyna að koma fram með rök sem væru trúanleg. Síðustu daga hafa þau bæði tjáð sig opinberlega um málið, Guðlaugur í útvarpsviðtali og Þórdís með bréfi til kjósenda á facebook síðu sinn. Bæði voru við sama heygarðshornið, héldu uppteknum hætti og komu fram með rök sem ekki halda vatni. Guðlaugur lagði út frá því að andstæðingar op3 væru í samstarfi við norðmenn um að koma EES samningnum fyrir kattarnef og Þórdís talaði um neytendavernd sem einungis fælist í frelsi.

Varðandi fullyrðingu Guðlaugs, þá er hún vart svara verð, svo fádæma vitlaus sem hún er. En samt, skoðum þetta örlítið. Hingað til lands koma ráðherrar frá Noregi síðasta vetur og í viðtali við þá segjast þeir hafa gert íslenskum ráðherrum grein fyrir mikilvægi þess að Ísland samþykki op3. Hvað þar var sagt eða hverju hótað fáum við kjósendur ekki að vita, en ótrúlegt var að sjá hvernig þeir stjórnarþingmenn sem mælt höfðu gegn op3, fram til þess tíma, snerust.

Nú er það svo að í EES samningnum er skýrt tekið fram hvernig farið skuli með mál sem aðildarríkin hafna að taka upp. Þá skal viðkomandi tilskipun fara aftur fyrir sameiginlegu EES nefndina og leitað leiða til að fá niðurstöðu þar. Því er ljóst að ekki gátu norsku ráðherrarnir hótað neinu varðandi þá efnismeðferð, hins vegar gátu þeir hótað því að Noregur myndi ganga úr EES og gerast aðildarríki að ESB. Hugsanlega myndi það gera EES samninginn nánast ómerkan, en þó, hann yrði jú í fullu gildi áfram gagnvart þeim löndum sem eftir sitja. Sé það svo að norskir ráðherrar hafi hótað þessu, eða einhverju öðru sem skaðað gæti Ísland, eiga íslenskir ráðherrar að vera menn til að segja þjóðinni það. Og meira en það, þeir eiga að hafa kjark til að gera erlendum ráðherrum, sama frá hvaða landi þeir koma, grein fyrir að ekki sé hlustað á slíkar hótanir!

Fullyrðingu utanríkisráðherra um að andstæðingar op3 vinni ljóst og leynt að því að EES samningnum skuli sagt upp og njóti leiðsagnar norskra aðila við slíkt, þá er ráðherrann þar í einhverjum draumaheimi. Vissulega eru til andstæðingar við EES samninginn meðal þeirra sem eru á móti op3, þverhausar eins og ég og fleiri, sem frá upphafi verið andstæðingar þess samnings. Einkum vegna þess hvernig staðið var að samþykkt hans hér á landi, þegar Alþingi samþykkt samninginn með minnsta mögulega meirihluta og kjósendum haldið frá þeirri ákvarðanatöku. Stærsti fjöldi andstæðinga op3 eru þó ekki á sama máli, vilja halda EES samningnum. Sjá hins vegar það sem öllum ætti að vera ljóst, að verði op3 samþykkt af Alþingi mun andstaðan við EES aukast verulega og að unnið verði þá að fullum krafti við að honum verði sagt upp. Þetta kemur ekkert Noregi við, heldur er þar fyrst og fremst um að ræða að eina leið okkar til að ná aftur yfirráðum yfir orku okkar, uppsögn EES.

Þórdís K Gylfadóttir sendi frá sér bréf á facebook. Þar talar hún einkum um hversu góðir op1 og 2 voru þjóðinni og að op3 sé beint framhald af þeim gæðum. Einkum vegna þess að allir þessir orkupakkar miða að sem mestri einkavæðingu raforkukerfisins og að einkavæðing sé svo ofboðslega góð fyrir neytendur. Aumingja manneskjan!

Þarna ruglar hún eitthvað saman neytendum og seljendum, en vissulega er einkavæðing raforkukerfisins þeim sem komast yfir það, hagstæð. Neytendur munu hins vegar tapa, eins og þegar hefur sýnt sig. Sem dæmi nefnir hún að vegna op 1 og 2 geti neytendur nú valið sér seljendur, þurfi bara að opna tölvuna og eftir nokkur klikk sé hægt að fá orku á spott prís! Hún lætur vera að nefna að mesti sparnaður sem hægt er að ná fram með þeim hætti, fyrir eitt heimili, liggur einhversstaðar innan við fimm hundruð kallinn( þennan rauðleita) á mánuði!! Upphæð sem fæstum munar um.

Auðvitað getur enginn fullyrt hvort orkan hafi hækkað eða lækkað vegna op1 og 2. Við höfum einfaldlega ekki samanburðinn. Hitt liggur ljóst fyrir að vegna þeirra orkupakka hefur margt skeð. Fyrir það fyrsta þá var orkustefna fyrir Ísland lögð niður, orkustefna sem sett var af Alþingi við stofnun Landsvirkjunar og upphaf stórsóknar í orkuvinnslu í landinu. Í þeirri stefnu var neytendavernd mjög skýr, þegar búið væri að greiða upp kostnað við byggingu virkjanna, skildi ágóða þeirra skilað til eigenda, þ.e. landsmanna, í formi lægra orkuverðs. Þetta eitt og sér segir að orkuverð hér væri lægra ef op1 og 2 hefðu ekki verið samþykktir. Þá er ljóst að samkvæmt þeim pökkum bar að skilja milli orkuframleiðslu, flutnings, heildsölu og smásölu. Það sem eitt fyrirtæki sá um áður er nú fjöldi fyrirtækja að gera. Hverju fyrirtæki fylgir stjórn, forstjóri og framkvæmdastjórn, með tilheyrandi aukakostnaði. Þann kostnað borga neytendur. Því má ætla að orkuverð nú sé mun hærra hér á landi, vegna op1 og 2.

Ekki má svo gleyma þeirri staðreynd að með fyrri orkupökkum var skilgreiningu á orku breytt í vöru, svo frámuna vitlaust sem það er. Skilgreining vöru er einhver hlutur eða eitthvað sem hönd er á festandi, eitthvað sem hægt er að skila ef menn telja hana gallaða. Ef skilgreina á orku sem vöru er fátt eftir sem ekki er hægt að skilgreina á þann hátt.

Þórdísi er gjarnt að ræða op1 og 2 þegar hún talar fyrir op3. Slíkur samanburður er þó fjarstæður. Op1 og 2 sneru að orkumálum hér innanlands meðan op3 snýr fyrst og fremst að flutningi orku og stjórnun hans milli landa. Því er ráðherra hér að blanda saman málum sem eru í raun alls óskyld, þó tengingin sé vissulega ljós núna. Víst er að aldrei hefði náðst samkomulag um EES samninginn á Alþingi ef menn hefðu grunað að orkumál ættu eftir að verða hluti þess samnings og víst er að aldrei hefði náðst samþykki á Alþingi um op1 og 2, ef einhverjum hefði grunað hvert stefndi, hefði haft hinn minnsta grun um að með því væri verið að leggja grunn að yfirráðum ESB yfir íslenskri orku. Megin málið er þó að ekki var um neitt valdaafsal að ræða með op1 og 2, ólíkt því sem op3 felur í sér og þó einkum op4, sem hlýtur að vera rökrétt framhald af op3. 

Meðan þessir tveir ráðherrar, sem mesta ábyrgð bera á op3, höggva í sama knérunn, meðan þeir færa þjóðinni ekki einhver ný rök fyrir því að nauðsyn sé að samþykkja þessa tilskipun, mun ekki nást sátt. Það fólk sem samþykkir op3 á Alþingi mun þurfa að svara fyrir þá gerð!!

Þau svik við þjóðina, þannig einræðistilburði, munu þjóðin ekki láta átölulaus!!


mbl.is „Bendir til örvæntingar ráðherrans“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einbeitttur brotavilji stjórnvalda

Mikil einurð ríkir meðal þingmanna Sjálfsatæðisflokks um að samþykkja orkupakka 3 (op3), frá esb. Reyndar á það við um flesta þingmenn hinna tveggja stjórnarflokkanna einnig. Svo mikil einurð ríkir um þetta mál að undrun sætir og við kjósendur eigum erfitt með að átta okkur á hvers vegna svo er. Umræðan hefur ýmist snúist um hvort op3 sé okkur til mikils skaða eða bara lítils. Enn hefur ekki tekist að finna neitt í honum sem er okkur hagfellt, þó stjórnarþingmenn hafi í raun lofað kjósendum að sumarið yrði nýtt til þess að upplýsa kjósendur um það. Því voru miklar væntingar til ræðu formanns flokksins, á fundi sem haldinn var í Valhöll, nú hlyti að koma í ljós hvers vegna svo nauðsynlegt er að samþykkja þennan pakka.

Vonbrigðin urðu því mikil, þegar í ljós kom að formaðurinn, sem hélt nokkuð langa ræðu, gat ekki fært fram neitt nýtt í málinu, reyndar talaði hann svo sem ekki mikið um það, þó þetta sé án vafa eitthvað mikilvægasta mál sem lagt hefur verið fyrir Alþingi og brennur hvað mest á landsmönnum. Nei, formaðurinn valdi að fara í skítkast og að sjálfsögðu kastaði hann fyrst og fremst til þeirra sem með dugnaði komu í veg fyrir að málið væri afgreitt með skömm frá Alþingi, síðasta vor. Taldi þar með ólíkindum að þingmenn Miðflokksins, einkum formaður og varaformaður, skuli hafa snúist hugur frá árinu 2015. Formaður Sjálfstæðisflokks ætti kannski að líta sér nær, var sjálfur ráðherra á þeim tíma. Síðan þá hefur formaðurinn ekki bara einu sinni snúist hugur, heldur tvisvar, fyrst fyrir nokkrum mánuðum síðan, þegar hann sá enga ástæðu til að samþykkja op3 og svo aftur nú, þegar hann er tilbúinn að fórna flokk sínum fyrir þann pakka. Eitt er að skipta um skoðun, þegar staðreyndir kenna manni að slíkt sé nauðsyn, annað að vera eins og skopparakringla og vita ekkert í sinn haus!

Það er vissulega rétt, að Miðflokkurinn, einn flokka, stóð gegn afgreiðslu op3 á Alþingi í vor og ber að þakka þeim það. Það segir þó ekki að einungis Miðflokksfólk sé á móti op3, enda væri fylgi þess flokks þá dægilegt. Andstaðan er ekki síst innan kjósenda Sjálfstæðisflokks, kjósendur Framsóknar eru flestir á móti pakkanum og ef kjósendur VG eru trúir sinni sannfæringu hljóta þeir að vera það einnig.

Svo sterk er andstaðan innan Sjálfstæðisflokks að þeir hafa virkjað 6. grein skipulagsreglna flokks síns, en hún heimilar landsfundi, flokksráði, miðstjórn, kjördæmaráðum eða flokksráðum að efna til atkvæðasöfnunar um ósk til stjórnar flokksins að láta fara fram bindandi kosningu um ákveðin málefni. Stjórninni ber að verða við þeirri ósk. Auðvitað er það svo að hver þingmaður kýs samkvæmt eigin sannfæringu um mál á Alþingi, þ.e. formlega séð. Bindandi kosning um ákveðið mál snýr því í raun um hvernig þingflokkurinn fjallar um málefni og vinnur því fylgi. Hvað hver þingmaður gerir síðan verður hann að eiga við sjálfan sig og sína kjósendur.

Það var því eins og blaut tuska þegar formaðurinn lét í veðri vaka að slík kosning væri einungis ráðgefandi, að ekki væri þörf á að hlýta henni. Ja mikill asskoti!! Fylgi flokksins í sögulegu lágmarki og formaðurinn ætlar bara að hundsa kjósendur hans!! Margt hefur maður séð í pólitík, en sjaldan svo hressilega andúð á eigin kjósendum!

Á sama tíma og í sömu ræðu kvartar hann yfir því hversu margir flokkar eru komnir á þing, að erfitt eða útilokað sé lengur að mynda ríkisstjórn tveggja flokka. Staðreyndin er að aldrei hefur verið hægt að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka á Íslandi, nema því einu að Sjálfstæðisflokkur hafi komið þar að, utan auðvita ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, svo böguleg sem hún nú var. Formaður þessa eina flokks sem raunverulega hefur getað náð meirihluta á Alþingi með tveggja flokka stjórn, jafnvel eins flokka stjórn, ætti því að hlusta á sína kjósendur, ekki hundsa þá. Sér í lagi þegar fylgið er komið svo neðarlega að flestir aðrir flokkar gætu hæglega orðið stærri.

Hvað það er sem gerir svo nauðsynlegt að samþykkja op3 er með öllu óskiljanlegt. Eitthvað liggur að baki. Hvað sem það er þá verða stjórnvöld að upplýsa þjóðina, að öðrum kosti stefnum við í eitthvað sem ekki hefur áður sést á Íslandi. Þjóðin mun ekki samþykkja afsal yfir auðlindinni nema því aðeins að haldbær rök liggi fyrir. Þau rök sem hingað til hafa verið notuð eru hvorki haldbær né trúanleg. Orkupakki 3 snýst fyrst og fremst um flutning orku milli landa og stofnun yfirþjóðlegrar stofnunar til að stjórna þeirri gerð. Hvað okkur snert er bætt einu valdalausu embætti á milli, þannig að þessi yfirþjóðlega stofnun verður að fara þar í gegn með sinn vilja. Það breytir engu um getu þeirrar stofnunar, enda einungis um að ræða boðbera.

Svokallaðir fyrirvarar finnast ekki, enda einungis þar um að ræða gula minnismiða sem límdir eru aftaná pakkann. Ekki er ætlunin að þeir fyrirvarar verði að lögum hér, ekki einu sinni þingsályktun, einungis einskisverðir minnismiðar. Ríkisstjórnin veit þetta, veit að hún getur ekki sett fyrirvara í lög, veit að ekki er hægt að setja þá í þingsályktun, veit að dómstóll EFTA mun ekki hlusta á slíkt bull og því eru þeir límdir utaná pakkann. Ríkisstjórnin veit einnig að þegar pakkinn verður samþykktur munu fyrirvararnir strax tínast. Ríkisstjórnin veit að samþykkt orkupakka 3 er samþykkt orkupakka 3, með öllum göllum sem honum fylgja. Hún veit einnig að út í Bretlandi bíður fjárfestir þess að op3 verði samþykktur hér á landi, fjárfestir sem tilbúinn er að hefja byggingu verksmiðju til að framleiða strenginn milli Íslands og meginlandsins og tilbúinn að hefja lagningu hans strax í framhaldinu. Þessi fjárfestir er búinn að fjármagna þá ætlun sína að fullu. Ríkisstjórnin veit að hún mun ekki geta rönd við reyst, þegar ósk frá honum berst.

Allt þetta veit ríkisstjórnin, eða ætti a.m.k. að vita. Það er því ekki hægt annað en að segja að um einbeittan brotavilja sé að ræða, samþykki Alþingi op3.


mbl.is Orkupakkinn takmarkað framsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EES og orkupakki 3

Björn Bjarnason hafnar því í grein sinni að þeir sem aðhyllast op3 þurfi að leggja fram einhverja sönnun fyrir því að hingað verði ekki lagður strengur. Nú er það svo að op3 fjallar fyrst og fremst um orkuflutning milli þeirra landa sem hann samþykkja. Reglugerð 714/2009, frá ESB og er hluti op3 segir;

Reglugerðin kveður á um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri. Markmið reglugerðarinnar er að setja sanngjarnar reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri og auka með því samkeppni á innri markaðnum. Þá leysir hún af hólmi eldri reglugerð um sama efni.

Skýrara etur þetta varla orðið og því hljóta þeir sem aðhyllast þennan orkupakka að þurfa að færa fyrir því sönnur að ekki verði lagður hér strengur, verði pakkinn samþykktur af Alþingi. Fyrir liggur að lög samkvæmt tilskipunum ESB eru rétthærri en lög viðkomandi þjóðar, þannig að einhliða fyrirvarar Alþingis eru ansi léttvægar ef til dómsmála kemur.

Fyrir stuttu hélt formaður Flokks fólksins því fram að umræðuhópurinn Orkan okkar, á FB, væri gerður fyrir Miðflokkinn, væntanlega þá að meina að andstaðan við op3 sé bundinn við þann flokk. Orkan okkar er umræðuhópur þeirra sem eru á móti op3, algerlega óháð flokkadrætti. Stór hluti þeirra sem þar skrifa eru, eða voru, félagar í Sjálfstæðisflokk. Þá er vitað að fyrrverandi þingmenn og ráðherrar í öllum flokkum, utan Viðreisnar, eru á móti orkupakkanum. Að Miðflokkurinn skuli vera að njóta einhverra ávaxta af op3, stafar eingöngu af því að sá flokkur hefur einn mótmælt pakkanum á Alþingi, að þingmenn þess flokks kunna að lesa í vilja kjósenda. Betur færi ef fleiri þingmen væru gæddir þeirri náðargáfu og hefðu kjark til að standa í lappirnar!!

Nú er það svo að ekki eru allir sáttir við EES og sá sem þetta ritar hefur verið á móti þeim samningi frá upphafi. Í fyrstu vegna þess hvernig málið var afgreitt, þegar Alþingi samþykkti þann samning með minnsta mögulega meirihluta, án þess að þjóðin fengi þar nokkra aðkomu. Síðar meir af þeirri ástæðu að þrátt fyrir að finna megi góða kosti við þann samning eru ókostirnir hróplegir. Það eru þó ekki allir sem eru í andstöðu við op3 sem vilja EES samninginn burtu. Gæti til dæmis ætlað að Jón Baldvin Hannibalsson vilji ekki fórna EES, þó hann sé yfirlýstur andstæðingur orkupakkans. Hitt er ljóst að með tilkomu þessa pakka hafa margir sem ekki voru í andstöðu við EES áður, nú farið að líta þann samning öðrum augum. Og alveg er á tæru að verði op3 samþykktur af Alþingi mun andstaðan við EES aukast verulega, enda ljóst að eina von okkar til að ná yfirráðum yfir orkuauðlindinn aftur, úrganga úr EES. Því ættu menn eins og Björn Bjarnason að vinna hörðum höndum að því að op3 verði sendur til heimahúsanna og þar fengin endanleg undanþága frá honum. Einungis þannig er hægt að bjarga EES.

Ekki ætla ég að telja allt það upp sem óhagkvæmt er okkur, verði op3 samþykktur. Fjöldi manna, bæði lærðir sem leikir hafa séð um það. Unnendum pakkans hefur hins vegar ekki tekist að benda á neitt okkur hagfellt, þeirra málflutningur hefur fyrst og fremst snúist um útúrsnúninga og máttlausar tilraunir til að gera lítið úr staðreyndum.

 

 


Lögbrot eiga ekki að líðast

Framkvæmdastjóri verslunar og þjónustu segir okkur fréttir af því að tugir tonna af erlendum lambahryggjum séu á leið til landsins. Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem ráðherra hefur ekki heimilað slíkan innflutning. Reyndar þvert á móti, þá hefur ráðherrann vísað tilmælum ráðgjafanefndar um inn og útflutning landbúnaðarvara til heimahúsanna og óskað eftir að nefndin endurskoði tillögu sína. Enda nægt kjöt til í landinu.

Kannski telja SVÞ sig utan laga og reglna í landinu, að það nægi að fífla einhverja embættismenn til fylgilags við sig.

Allt er þetta mál hið undarlegasta og engu líkara en að félagsmenn SVÞ hafi verið búnir að versla kjötið erlendis áður en nefndin gaf út úrskurð sinn. Hafi dottið niður á einhverja útsölu. Þá er magnið sem Andrés nefnir ótrúlegt, jafnvel þó svo einhver skortur hefði verið þessar tvær vikur sem eru til fyrstu slátrunar hér heima. Tugir tonna af hryggjum er nokkuð vel í lagt og ljóst að verslunin ætlar þarna að búa sér í haginn.

Það er vonandi að ráðherrann svari þessu á viðeigandi hátt og láti endursenda kjötið úr landi jafn skjótt og það birtist. Lögbrot eiga ekki að líðast!

Ef Andrés  er í einhverjum vandræðum með að fá hrygg á grillið hjá sér þá á ég a.m.k. tvo í kistunni hjá mér og gæti alveg selt honum þá, ef hann er tilbúinn að borga viðunnandi verð.

 


mbl.is Hryggir á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótleiki stjórnmálanna

Orkupakki 3 er farinn að bíta í hæla stjórnarflokkanna og ljóst að í þeim flokkum er fólk farið að ókyrrast, bæði þingmenn þeirra sem og hinir almennu kjósendur. Þingmennirnir, sumir hverjir, eru að átta sig á að kannski geti þeir ekki gengið að kjósendum sínum vísum í næstu kosningum og kjósendur þessara flokka eru farnir að horfa á önnur mið, sumir þegar yfirgefið sinn flokk. Nú er því leitað logandi ljósi að einhverju sem friðað gæti kjósendur.

Það fer ekkert á milli mála að með 0p3 flyst hluti stjórnunar orkumála úr landi. Þetta vita stjórnvöld og viðurkenndu þegar svokallaðir fyrirvarar voru settir. Og nú á að efla þessa fyrirvara enn frekar og viðurkenna þar endanlega hvert valdið fer, samkvæmt op3. Vandinn er bara sá að fyrirvarar við tilskipunum frá esb fást einungis í gegnum sameiginlegu ees/esb nefndina. Einhliða fyrirvarar einstakra þjóða er ekki gildir og hafa aldrei verið, enda gengur það einfaldlega ekki upp. Það myndi leiða til upplausnar esb/ees. Þetta vita stjórnvöld mæta vel, eða ættu a.m.k. að vita. Því mun Alþingi standa frammi fyrir því að samþykkja tilskipun esb um op3 með öllum kostum og göllum, líka þeim að ákvörðun um lagningu sæstrengs mun flytjast úr landi. Heimagerðir fyrirvarar munu þar engu breyta. Eina vörnin felst í að vísa tilskipuninni aftur til sameiginlegu nefndarinnar.

Það liggur í augum uppi og þarf enga snillinga til að sjá, að fari svo að Alþingi samþykki tilskipun esb um orkupakka3 og setji síðan einhverja fyrirvara, jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu, um einhverja tiltekna gildistöku eða framkvæmd, samkvæmt þeirri tilskipun, mun landið ekki einungis lenda í dómsmáli fyrir samningsbrot heldur gæti skapast skaðabótakrafa á ríkissjóð, þar sem upphæðir væru af þeirri stærðargráðu að útilokað væri fyrir okkur sem þjóð að standa skil á. Það er alvarlegt þegar stjórnarherrar leggja til slíka lausn, enn alvarlegra af þeim sökum að þeir eiga að vita afleiðingarnar.

Allt er þetta mál hið undarlegasta. Fyrst þurfti nauðsynlega að leggja streng til útlanda og samþykkja op3 vegna þess að svo mikil umframframleiðsla er í landinu og nauðsynlegt að koma henni í verð. Nú er það bráð nauðsyn vegna þess að það stefnir í skort á orku, innan stutts tíma. Þegar umræðan um op3 fór á skrið í þjóðfélaginu þurfti í raun ekkert að óttast. Stór hluti Sjálfstæðismanna og nánast allur þingflokkur Framsóknar voru á móti og þingmenn þessara flokka ekkert ósínkir á þá skoðun sína. Um VG var minna vitað, en samkvæmt þeirra stefnumálum áttu þeir góða samleið með hinum tveim stjórnarflokkunum. Til að festa þetta enn frekar í sessi samþykktu æðstu stofnanir Framsóknar og Sjálfstæðisflokks afgerandi ályktanir um málið.

Það var svo nánast á einni nóttu sem þetta breyttist. Þingmenn Sjálfstæðisflokks kepptust nú um að réttlæta fyrir þjóðinni þá skoðun sína að samþykkja bæri op3 og þingmenn Framsóknar fylgdu á eftir. Frá VG heyrist lítið nema frá formanninum.
Jafn skjótt og þessi sinnaskipti stjórnarþingmanna urðu ljós, hófst alvöru barátta gegn op3. Við sem tjáð okkur höfum um málið höfum þurft að þola svívirðingar og uppnefningar vegna þess og kölluð öllum illum nöfnum. Fyrir suma hefur þetta reynst erfitt, aðrir hafa sterkari skráp. Jafnvel þingmenn og ráðherrar hafa tekið þátt í slíkum uppnefningum. Verst hefur mér þótt þegar andstæðingar op3 eru afgreidd sem "rugluð gamalmenni sem ekkert er mark á takandi". Slíkar uppnefningar lýsa kannski frekar þeim sem sendir þær, hver hugsun þess fólks er til eldri borgara landsins. Önnur uppnefni hefur verið auðveldara að sætta sig við, jafnvel að vera kallaður "fasisti", "einangrunarsinni", "afturhaldssinni" eða "öfgasinni". Allt eru þetta orð sem þingmenn og ráðherrar hafa látið frá sér fara á undanförnum mánuðum og mörg fleiri í sama stíl. Ætti það fólk að skammast sín!!

Ljótleiki stjórnmálanna opinberast þarna í sinni verstu mynd.

Enn hafa stjórnvöld möguleika á að snúa af rangri leið. Það gæti reynst einhverjum stjórnarþingmanninum eða ráðherranum erfitt, en öðrum yrði það frelsun.

Ég skora því á þingmenn stjórnarflokkanna að hafna orkupakka 3 og vísa málinu aftur til sameiginlegu ees/esb nefndarinnar. Dugi það ekki, er eina leiðin að vísa málinu til þjóðarinnar.

 


mbl.is Útilokar ekki þjóðaratkvæði um sæstreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband