Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Kófið og skussarnir

Þeir sem vita hvernig er að lenda í dimmu hríðarkófi, vita hversu auðvelt er að missa áttir og villast. Þá er gott að vera í hóp með einhverjum sem þekkir vel staðhætti. Það er oft eina vonin til að komast út úr kófinu. En auðvitað eru alltaf einhverjir skussar sem ekki treysta þeim staðkunnuga og æða sjálfir út í loftið. Þeir villast, stundum með skelfilegum afleiðingum.

Nú, í rúmt ár, höfum við verið í kófi af skæðri alheimssótt. Við erum svo heppin að hafa góðan leiðsögumann, sem vísar okkur veginn. Því miður eru skussarnir til, sem vilja fara aðrar leiðir. Þeir skussar eru orðnir áttavilltir og vita ekki hvert skal halda. Vonandi fer ekki illa fyrir þeim.

Sóttvarnarlæknir er án efa einn fárra manna hér á landi sem þekkir best til sóttvarna. Þess vegna var hann ráðinn í embættið, en ekki einhver lögfræðingur eða þingmaður. Sú ráðning byggðist á þekkingu læknisins. Auðvitað eru fleiri læknar sem hafa svipaða og jafnvel meiri þekkingu á þessum málum, en til þeirra heyrist ekki. Það bendir til að þeir séu sóttvarnalækni sammála.

Ráðning til embættis sóttvarnalæknis byggir á þekkingu viðkomandi til málaflokksins. Þar kemur pólitík ekkert að málum og enn síður einhver erlend öfl sem samsæriskenningarfólk telur vera að yfirtaka heiminn, að málum.

Sem betur fer hefur stjórnvöldum að mestu tekist að fara að ráðum sóttvarnarlæknis, þó ekki alveg. Í fyrra sumar, eftir að sóttin hafði verið kveðin niður hér á landi, voru landamæri opnuð að hluta. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Veiran spratt upp sem aldrei fyrr, fjöldi fólks lagðist á spítala og sumir glötuðu lífinu. Aftur tókst að kveða veiruna niður hér á landi, eftir nokkurra mánaða baráttu landsmanna. Enn á ný var farin sú leið að opna landamærin, þó nú væru takmarkanir öllu meiri en áður. Og enn á ný fór veiran af stað. Er ráðafólki þjóðarinnar algerlega ómögulegt að læra af fyrri mistökum?!

Nú er staðan þó öllu verri en áður og ljóst að leiðsögn sóttvarnarlæknis á erfiðara með að komast gegnum ríkisstjórnina. Það er nefnilega komið í ljós að innan hennar eru áttavilltir skussar!

Við búum á eyju, höfum engin landamæri á landi. Því eru möguleikar okkar til að verjast veirunni betri en flestra annarra þjóða. En það þarf kjark stjórnvalda til.

Þann kjark skortir!


mbl.is Stærri skref í afléttingum til umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna?

Fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um nýjar sótvarnarreglur, þar sem hverjum þeim er kemur til landsins frá svokölluðum eldrauðum löndum er skylt að dvelja á hóteli fyrstu fimm dagana eftir komu til landsins. Mest hefur farið fyrir umræðu þeirra er telja þetta lögbrot, minna sagt frá sjónarmiðum hinna, sem vilja fá að lifa sem næst eðlilegu lífi hér innanlands.

Í þessari umræðu er gjarnan talað um frelsissviptingu. Hver er sú svipting? Í meðfylgjandi frétt kemur fram að starfsfólk sóttvarnarhótelsins geti ekki og megi ekki stöðva för þeirra sem út vilja ganga. Hins vegar mun slíkt verða tilkynnt til lögreglu. Því er vart um frelsissviptingu að ræða.

Um nokkurt skeið hafa verið reglur um sóttkví við komuna til landsins, en fólki treyst til að halda hana. Því miður hefur fólk ekki staðið undir því trausti og því er komið sem komið er. Þá vaknar óneitanlega upp sú spurning hvort það fólk sem telur sig vera haldið nauðugu, tilheyri þá ekki einmitt þeim hóp sem brást trausti sóttvarnaryfirvalda, að það hafi bara alls ekki ætlað að halda þá sóttkví sem þó var til staðar þegar það yfirgaf landið.

Réttur fólks til að tjá sig er auðvitað óumdeildur. Fjölmiðlar ættu hins vegar að gæta þess að flytja mál beggja aðila, líka þeirra sem telja ekki nægjanlega langt gengið. Sumir þingmenn hafa farið mikinn og einstaka lögfræðingar bakka þá upp, í frasanum um að um lögbrot sé að ræða, jafnvel brot á stjórnarskrá. Þegar heimsfaraldur geisar ber sóttvarnalækni að leiðbeina stjórnvöldum um varnir landsins, til að lágmarka smit hér innanlands. Stjórnvöldum ber eftir bestu getu að verja landsmenn. Til þess eru sóttvarnarlög. Nú þekki ég ekki þann lagabálk til hlítar, en til að hann virki hlýtur hann að vera ansi sterkur og jafnvel fara á svig við önnur lög landsins. Þá hljóta sóttvarnarlög að vera sterkari. Annars væri lítið gagn af þeim.

Réttur landsmanna til að veirunni sé haldið utan landsteinanna eftir bestu getu er að engu gerður hjá þeim sem taka hanskann upp fyrir þeim sem telja sóttvarnir óþarfar, eða of miklar. Sá réttur, bæði lagalegur og stjórnarskrárlegur, hlýtur að vega meira en þeirra sem velja að ferðast um heiminn á tímum heimsfaraldrar. Þeir sem velja slík ferðalög eiga að gjalda fyrir, ekki hinir sem heima sitja og halda allar þær takmarkanir sem settar eru.

Veiran kemur erlendis frá. Átti upptök sín í Kína og hefur þaðan ferðast um allan heim. Hér á landi tókst fljótlega að ná tökum á ástandinu. Síðan var ákveðið að gefa eftir á landamærunum, að heimila för hingað til lands, en nota einskonar litakóða til að ákvarða hvort fólk væri heimilt að koma beint inn í landið, eða hvort það skyldi sæta sóttkví. Allir vita hvernig fór, veiran náði nýju flugi, með andláti fjölda einstaklinga. Landið lamaðist aftur og fólk og fyrirtæki áttu um sárt að binda. Nú er aftur búið að opna landið, sami litakóði notaður, þó einn ráðherrann sé reyndar búinn að skilgreina rauð svæði í tvo flokka, rauð og eldrauð. Eini munurinn er að þeir sem koma frá mest sýktu svæðunum þurfa að gista á ákveðnu hóteli fyrstu fimm dagana á landinu. Ástæðan er augljós og kemur fram hér fyrr ofan. Eftir stendur að fólk frá gulum svæðum, þar sem farsóttin er enn á fullu og eftir orðanna hljóðan ráðherra einnig þeir sem koma frá rauðum svæðum, geta gengið óhindrað inn í landið. En ráðherra talaði um að einungis fólk frá eldrauðum svæðum þyrfti að sæta sóttkví. Það er því verið að opna enn frekar á komu veirunnar til landsins, jafn skjótt og faraldur minnkar í einhverjum löndum. Í fyrrasumar vor sum lönd þar sem veiran geisaði af krafti, skilgreind sem gul svæði. Hættan nú er söm og þá. Mun þetta leiða til enn fleiri dauðsfalla af völdum veirunnar hér á landi?

Sumir spekingar halda því fram að covid sé eins og hver önnur flensa og benda á tölur um dauðsföll því til staðfestingar. Sem betur fer eru dauðsföll hér á landi ekki í líkingu við hvernig ástandið er víðast erlendis. En það ber fyrst og fremst að þakka sóttvörnum hér á landi og góðri þátttöku fjöldans. Hins vegar er ljóst að í þau skipti sem veiran hefur náð flugi hér, hefur það haft alvarlegar afleiðingar, sjúkrahús yfirfyllst og fólk dáði. Margt af því fólki sem smitaðist á enn í stríði við afleiðingarnar, mörgum mánuðum síðar. Hvernig ástandið væri hér á landi ef ekki hefði tekist að lágmarka veiruna, veit enginn. Líklegt er þó að þá værum við í svipuðum sporum og víða erlendis, þar sem tugir og hundruðir þúsunda fólks hefur þurft að láta í minnipokann, með lífi sínu.

Lög og stjórnarskrá eiga við alla landsmenn, ekki bara örfáa. Lagalegur réttur heildarinnar hlýtur að vera meiri en lagalegur réttur fárra.

Eftir stendur: Hvers vegna velja fjölmiðlar að fjalla einhliða um þá nauðsynlegu ákvörðun að halda fólki á hóteli í fimm daga? Hvers vegna er ekki fjallað um rétt okkar hinna, um að allt sé gert sem mögulegt er til að halda veirunni utan landsteinanna?


mbl.is Telja sóttvarnalög og stjórnarskrá brotna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klærnar viðraðar

Framkvæmdastjórn ESB viðraði klærnar aðeins í morgun, þegar sett var bann á útflutningi bóluefnis gegn covid til Íslands og reyndar fleiri landa. Eftir bréfaskriftir forsætisráðherra til forseta framkvæmdastjórnarinnar, varð að niðurstöðu að ESB ætli að standa við gerðan samning um bóluefnasendingar til Íslands, a.m.k. samkvæmt þeirri dreifingaráætlun sem í gildi er. Hvað svo veit enginn.

Framkvæmdastjórn ESB og þá einkum forseti hennar, hefur farið mikinn síðustu daga. Hótanir flæða í allar áttir og krafa um að staðið sé við gerða samninga gagnvart ESB. Undarleg er þó þessi barátta framkvæmdarstjórnarinnar, þegar hún telur réttlætanlegt á sama tíma að brjóta samninga við aðrar þjóðir.

Harka framkvæmdastjórnarinnar er komin á nýtt stig, hættulegt stig. Auðvita vita allir að ESB er ekki klúbbur góðgerðasamtaka. Þessi klúbbur var fyrst stofnaður um viðskipti, hörð viðskipti. Seinna þróaðist hann yfir í einskonar ríkjasamband og leynt og ljóst er verið að skerða völd aðildarríkja í þeim eina tilgangi að klára það verk sem Hitler mistókst, að setja alla Evrópu undir eina stjórn. Síðastliðin ár hefur þessi árátta smitast út fyrir sjálft sambandið og höfum við hér upp á Íslandi ekki farið varhluta af því, vegna aðildar okkar að EES samningnum. Samningi sem Alþingi samþykkti fyrir um þrem áratugum síðan, með minnsta mögulega meirihluta þingmanna og algerlega án aðkomu þjóðarinnar.

Í krafti þess samnings var gert samkomulag við ESB um dreifingu á bóluefni hingað til lands. En sem fyrr, horfir framkvæmdastjórnin öðrum augum til EES samningsins en til var stofnað í upphafi, enda var ESB ekki til þá, heldur var þessi klúbbur nokkurra Evrópuríkja einungis bandalag um viðskipti. Kallaðist Evrópubandalagið.

En sem fyrr segir, þá viðraði framkvæmdastjórn ESB klærnar, þó þær hefðu verið dregnar inn til hálfs gagnvart Íslandi, eftir alvarlegar athugasemdir forsætisráðherra. Gagnvart ýmsum öðrum löndum eru klærnar þó enn úti og tilbúnar í slaginn. Ef eitthvað stefnir heimsfriðinum í voða, er það framkvæmdastjórn ESB og þar fremst í flokki Ursula von der Leyen.  Heimurinn hefur ekki efni á stjórnmálamönnum eins og þeim sem fylla framkvæmdastjórn ESB, stjórnmálamönnum sem ekkert lýðræðislegt umboð hafa að baki sér.

Við lifum á viðsjárverðum tímum, þar sem allt getur farið á versta veg!

 


mbl.is Gengur í berhögg við EES-samninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk á bágt ....

Fólk á bágt sem tekur veraldleg gæði fram yfir andleg gæði.

Fólk á bágt þegar aurar eru því meira virði en líf og limir.

Fólk á bágt þegar það gerir ekki greinarmun á orsök vanda.

Þessar línur duttu í koll mér eftir lestur viðtengdrar fréttar og vegna þeirrar umræðu sem sífellt virðist vera að ná hærra í opinberri umræðu, jafnvel á Alþingi.

Það var enginn sem bað um covid19. Þessi veira stökkbreyttist og hljóp í mannskepnuna, heimsbyggðinni til stórfellds skaða. Enginn vissi í fyrstu hvernig ætti að meðhöndla þennan vágest og fáir sem í raun vissu afl hans í fyrstu. Nú, eftir að 1.234.000 manns hafa látið lífið af veirunni um heiminn, virðist þekkingin enn vera nokkuð  af skornum skammti, þó vissuleg hún sé meiri en áður en veiran varð til. Mörg fyrirtæki, flest í samvinnu, vinna nótt sem nýtan dag að því að finna upp lyf gegn henni og vonandi að það verk skili árangri. Þar til er covid 19 lífshættulegur sjúkdómur.

Umræðan hér á landi er jafn forpokuð og áður, snýst um einhver smámál meðan stóri vandinn fær að blómstra. Ekki er horft út fyrir landsteinana, einungis á eigin tær. Hvað heldur það fólk að muni ávinnast ef veirunni verði sleppt lausri? Áttar fólk sig virkilega ekki á þeirri staðreynd að í öllum löndum sem við höfum að jafnaði samneyti við, eru ýmist ferðabönn eða miklar takmarkanir á ferðalögum? Ávinningur þessa yrði því lítill sem enginn.

Hitt liggur ljóst fyrir að skaðinn yrði mikill. Jafnvel þó aldraðir og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma yrðu settir í hörðustu einangrun, er ljóst sjúkrahús landsins yrðu fljót að fyllast. Samhliða því mun starfsgeta þeirra skerðast verulega og í beinu framhaldi mun fjöldi látinna aukast. Þarna erum við að tala um fullfrískt og jafnvel ungt fólk, sem heldur hjólum atvinnulífsins gangandi. Því mun atvinnustarfsemi fljótleg lamast. 

Sóttvarnaraðgerðir  geta vissulega dregið úr atvinnustarfsemi, um það verður ekki deilt. Þó munu slíkar aðgerðir aldrei geta valdið sama skaða og sjálf veiran, fái hún að blómstra. Með sóttvarnaraðgerðum er hins vegar hægt að lágmarka smit og halda sjúkrahúsum starfandi. Þannig má verja fleiri mannslíf og um það snýst málið. Með sóttvarnaraðgerðum má einnig halda uppi starfsemi grunnfyrirtækja landsins, þeirra sem færa okkur gjaldeyri, fyrir utan auðvitað ferðaþjónustuna, en henni verður ekki komið af stað með minni sóttvarnaaðgerðum hér á landi. 

Fólk á bágt sem ekki skilur þessar einföldu staðreyndir.

Fólk á bágt sem ekki getur staðið í lappirnar þegar mest á reynir, heldur hleypur eftir því sem það telur vera sjálfu sér til mestra vinsælda.

Fólk á bágt þegar það ekki getur sýnt samstöðu þegar vá stendur fyrir dyrum.

 


mbl.is Tekist á um sóttvarnaaðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já Ísland, eða þannig

Til er hópur fólks hér á landi sem kallar sig "já Ísland". Réttnefni þessa hóps ætti auðvitað að vera "nei Ísland", þar sem markmið þessa hóps er að koma Íslandi undir erlend yfirráð og skerða þannig sjálfsstæðið, eða "deila því" eins og talsmenn hópsins hafa stundum nefnt.

Ljóst er að þessi hópur ætlar sér stóra hluti í næstu kosningum. Beitt er öllum tiltækum ráðum, aflóga stjórnmálamenn og fyrrverandi ráðherrar eru dregnir upp á dekk og látnir skrif margar greinar í fréttamiðil hópsins, Fréttablaðið. Stjórnmálaflokkur hópsins, Viðreisn, lætur sitt ekki eftir liggja í umræðunni, en allir vita tilurð þess stjórnmálaflokks.

Efnisleg rök hópsins eru enn jafn ódýr og áður og jafn fá. Þar er einkum rætt um evruaðild. Notað er tækifærið þegar yfir heiminn gengur óværa sem lamað hefur allt athafnalíf, með tilheyrandi vandræðum fyrir flestar þjóðir. Þessu hefur fylgt að krónan okkar hefur lækkað nokkuð í verðgildi miðað við evruna, en þó ekki meira en svo að kannski megi tala um leiðréttingu.

Síðast þegar þessi hópur lét til sín taka hafði annað áfall gengið yfir heimsbyggðina. Ísland fór verr út úr því áfalli en margar aðrar þjóðir, enda hafði bönkunum verið komið í hendur glæpamanna, sem svifust einskis. Það hafði verið gert í krafti EES samningsins, sem Alþingi samþykkti með minnsta mögulega meirihluta án aðkomu þjóðarinnar.

Þessi hópur þagnaði þó fljótt þegar hagur landsins okkar fór snarlega að vænkast, mun hraðar en hjá öðrum löndum. Þar kom krónan okkur til hjálpar. Þá var ekki stemmning fyrir orðræðu hópsins og hann lét lítið á sér bera. Stjórnmálaflokkurinn hafði hins vegar verið stofnaður og lenti í hálfgerðri tilvistarkreppu, gat ekki talað um hugðarefni sitt og fór því að stunda popppúlisma af heilum hug. Vart mátti koma fram frétt um eitthvað sem betur mátti fara án þess að þingmenn flokksins stykkju fram í fjölmiðla eða tóku það upp á Alþingi. Það ástand varir enn.

Undanfarna daga hafa svokallaðir stjórnarskrársinnar látið mikið til sín taka. Heimta einhverja stjórnarskrá sem aldrei var samin, einungis sett mikið magn fallegra orða á blað og þjóðin spurð hvort notast ætti við þann orðaforða við gerð nýrrar stjórnarskrár. Ferlið um breytingu stjórnarskrár hófst að frumkvæði þáverandi formanns Samfylkingar, sem hafði náð því að gera formann annars stjórnmálaflokk að einum stærsta lygara þjóðarinnar, og sótt um aðild að ESB. Eitt stóð þó í veginum, en það var gildandi stjórnarskrá. Þann stein þurfti að taka úr götunni og upphófst þá eitthvert mesta sjónarspil sem um getur og stendur það enn. Allt til að Ísland geti orðið hjálenda ESB.

Á þeim tíma er já Ísland lét mest til sín taka í umræðunni, eftir hrun, voru stofnaðir nokkrir aðrir hópar þeim til andsvars. Því miður virðist lítið heyrast frá þeim í dag, þó þessi landráðahópur ríði nú röftum í fjölmiðlum landsins. Fari fram sem horfir mun sjálfstæði landsins verða að veði eftir næstu kosningar.

Því er full ástæða til að kalla upp á dekk alla þá sem unna sjálfstæði þjóðarinnar!


Skimun ferðamanna

Í síðustu viku var Kári Stefánsson boðaður til yfirheyrslu hjá fréttastofu ruv, nánar tiltekið í kastljósþátt. Nokkur umræða varð eftir þáttinn og þótti sumum Kári vera ókurteis en öðrum að rannsóknaraðili kastljóss hafi sýnt dónaskap. Um þetta gátu fólk og fjölmiðlar karpað í nokkra daga, með miklum hávaða og látum. Sjálfum fannst mér báðir aðilar koma nokkuð vel frá þættinum, Kári sagði sína meiningu að vanda og þó spyrillinn hefði sagt hann ruglaðan er það staðreynd sem flestir landsmenn vita. Umræðuefni þáttarins var skimun farþega við komu til landsins.

Það sem þyngst vó þó í ummælum Kára hefur farið hljótt, en það er sá kostnaður sem slík skimun kallar eftir. Fáir eða engir fjölmiðlar hafa fjallað um þetta og alþingi ekki neitt. Samkvæmt ummælum Kára ætti slík skimun að kosta eitthvað nálægt 3.500 kr/stk, miðað við að allur búnaður yrði keyptur nýr og afskrifaður á mjög stuttum tíma. Þá hafði nýlega komið fram skjal frá einhverri nefnd heilbrigðisráðherra sem taldi slíka skimun kosta um 50.000 kr/stk. Þarna er himinn og haf í milli og með ólíkindum að alþingi hafi ekki leitað upplýsinga um málið. Hvar var Björn Leví? Hann hefði getað kastað fram svon eins og einni fyrirspurn um málið!

En nú hefur kostnaður við skimun á Landspítalanum verið endurreiknuð og talin losa 20.000 kallinn. Enn hefur Kári ekki gefið út nýja tölu svo 3.500 kr/stk stendur þar sjálfsagt enn. Ráðherra hefur gefið út að ferðamenn sjálfir verði að greiða 75% af kostnaði við sýnatökuna, miðað við kostnað hennar hjá Landspítalanum og við sem ekki förum um landamærin 25%, en það er ég ekki tilbúinn til að gera. Miðað við kostnaðinn hjá Kára eiga ferðamenn hins vegar að greiða 450% umfram kostnað!

Ferðaþjónustan heldur því fram að 15.000 króna gjald fyrir slíka skimun sé allt of hátt og auðvelt er að vera því sammála. Það er ljóst að sumum ferðamönnum þykir þarna vera langt seilst. Margir munu þó ekki láta þetta skipta máli, enda 15.000 kr lítill hluti af heildarkostnaði þeirra sem sækja okkar land, sér í lagi ef það nýtir sér þá hótel og veitingaþjónustu sem hér er í boði.

Hitt er ljóst að einhverjar stýringu þurfum við að hafa, a.m..k. fyrst um sinn. Þar gæti skimun verið ágæt. Ekki er þó í boði annað en að ferðafólk sjálft greiði þann kostnað. Lausnin gæti legið í því að áður en ferðamaðurinn stígur um borð í flugvélina erlendis þá velji hann hvort hann vilji fá skimun frá Kára, upp á 3.500 kr, eða hvort hann vilji frekar borga um 20.000 kr fyrir skimun frá Landspítalanum. Ljóst er að flestir myndu auðvitað velja ódýrari kostinn. Það mun leiða til þess að stutt biðröð yrði hjá skimurum Landspítalans og því gæti þeir sem það vilja greitt meira og fengið hraðaðri afgreiðslu. Ekki kæmi króna úr ríkiskassanum og allir yrðu ánægðir.

 


mbl.is Bókanir frá Skandinavíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær ætlar fólk að vakna?

Umræðan um hlýnun loftlags og orsakir og afleiðingar þess virðist meira eiga heima í skáldsögum en raunveruleikanum. Kannski af þeirri ástæðu sem skáld eru svo hrifin af þessari umræðu.

Enginn efast um að loftlag á hnettinum hefur hlýnað frá þeim tíma er kaldast var, um nokkur þúsund ára skeið. Hvort sú hlýnun muni halda áfram eða hvort toppnum er náð, mun framtíðin skera úr um. Í það minnsta er vart mælanleg hlýnun síðasta áratug og reyndar farið kólnandi á sumum stöðum hnattarins.

Um afleiðingar þessarar hlýnunar þarf ekki að deila. Gróðurþekja hefur aukist, sérstaklega á þeim svæðum sem voru komin að mörkum undir lok litlu ísaldar, en einnig hefur gróður aukist á svæðum sem skilgreind hafa verið sem eyðimerkur. Skapast það fyrst og fremst af þeirri augljósu ástæðu að við hlýnun loftlags eykst raki í loftinu. Sá raki skilar sér síðan sem rigning, einnig á þau svæði sem þurrust eru. Því hefur gróðurþekja aukist verulega frá upphafi tuttugustu aldar. Mælingar gervihnatta, sem hófust undir lok sjötta áratugarins, staðfesta þetta svo ekki verði um villst. Hlýni enn frekar, ætti þessi þróun að aukast enn frekar, mannkyn til góðs. Ef aftur kólnar, munum við fara í sama horfið. Gróður mun aftur minnka og hungur aukast.

Mestar deilur eru um orsakir þessarar hlýnunar. Þær eru sjálfsagt fjölmargar en af einhverjum ástæðum hefur verið einblínt á einn þátt, co2 í andrúmslofti. Þessi skýring er þó langsótt og í raun með ólíkindum hvað fólk gleypir við þeirri skýringu, vitandi að loftslag er flóknara en svo að einn þáttur, sem vigtar mjög lítið, geti verið sökudólgurinn, eða blessunin, eftir því hvernig á málið er litið. Eitt liggur þó kristaltært fyrir, viðmiðunarpunktur mælinga er rangur. Að það hitastig sem var á jörðinni við lok litlu ísaldar skuli vera heilagur sannleikur er auðvitað fásinna. Nær væri að taka meðaltal hita yfir nokkur þúsund ár og reikna út hlýnun eða kólnun loftlags út frá því. Þegar við mælum hitastig líkama okkar er viðmiðunin meðaltal hita mannslíkamans, ekki sá hiti sem lægstur hefur mælst í lifandi manni.

Eins og áður sagði, þá hefur af einhverjum ástæðum verið valið að saka magn co2 í andrúmslofti um meinta hlýnun. Ástæðuna má kannski rekja til þess að fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, Al nokkur Gore, kom með þessa skýringu. Bar þar fyrir sig línurit sem sannaði þetta. Þó er ljóst að ekkert beint samhengi er þarna á milli, auk þess sem skiptar skoðanir eru um orsök og afleiðingu, hvort co2 valdi hlýnun eða hvort hlýnun valdi auknu co2, þó síðari skýringin sé þó mun skynsamlegri á allan hátt. Eitt hafa menn þó átt erfitt með að útskýra, en það er þróun hitastigs og losun co2 á síðustu öld. Alla öldina var nánast línuleg aukning co2, meðan hitastig hækkað mjög hratt fram undir 1940, lækkaði þá skart aftur fram undir 1980, hækkaði aftur mjög hratt næstu tvo til þrjá áratugi og hefur nánast staðið í stað síðan. Þetta misræmi milli hitaaukningar og aukningu á losun co2 hefur vafist nokkuð fyrir þeim sem tala fyrir þeirri skýringu að co2 sé aðal sökunautur. Nú hafa hins vegar spekingar NOOA og NASA leyst þennan vanda, með því einfaldlega að jafna línuritið út. Enginn gæti útskrifast úr háskóla með slíkum hætti.

Stjórnvöld út um allan heim, ekki síst hér á landi, hafa lagt ofurafl á minnkun co2 í loftslagi. Telja sig þar með vera að "bjarga heiminum".  Aðgerðirnar eru hins vegar handahófskenndar og í flestum tilfellum felast þær í auknum sköttum eða einhverju sem mælist með peningum. Engin sjáanleg merki eru um að þetta fólk hagi sér í samræmi við sinn boðskap, en boðar fjárútlát á alla aðra sem ekki bæta sitt ráð. Verslað er með svokallaða mengunarkvóta, þvert og endilangt, án þess þó að mengunin minnki nokkuð. Skattar eru lagðir á þá sem ekki eiga þess kost að ferðast á "vistvænan" hátt og enn frekari skattar boðaðir. Allt leiðir þetta að einu og aðeins einu, frekari skerðingu lífskjara án nokkurra áhrifa á loftslagið.

Þegar maður vill síðan skoða tölulegar staðreyndir um málið, þ.e. hversu mikið Ísland losar af þessari lofttegund, sem sumir hafa skilgreint sem baneitrað en er í raun grundvöllur alls lífs, rekur maður sig á vegg.

Samkvæmt skýrslu stjórnarráðsins er losun Íslands á co2 ígildi um 2,9 miljónum tonna. Af því eru ígildistonn vegna orku, þ.e. eldsneyti og annað í þeim dúr, 1,8 milljón.  Til samanburðar losar Katla um 6,6 miljón ígildistonn á hverju ári, samkvæmt síðustu mælingum og Landsvirkjun 8,8 milljón ígildistonn vegna sölu á losunarkvóta. Þarna fer greinilega ekki saman hljóð og mynd, svo vitlaust sem þetta er. Látum vera þó losun eldfjalla sé haldið frá þessum upplýsingum, þó vissulega sú losun ætti að skipta máli í umræðunni. Hitt er aftur undarlegra að eitt fyrirtæki hér á landi skuli geta selt losunarheimildir erlendis, án þess að það komi fram í bókhaldi stjórnarráðsins. Þetta er auðvitað galið!

Ekki er neinn vafi á að þeir sem þessar losunarheimildir kaupa skrá það í sínar bækur, sem skilað er til viðkomandi lands. Til þess er jú leikurinn gerður, eða hvað? Hvað verður þá um sjálfa mengunina? Gufar hún þá bara upp? Þetta er ein af þeim snilldarlausnum sem ESB kom fram með, enda hefur losun co2 í Evrópu aldrei verið meiri en nú, jafnvel þó íslenskt fyrirtæki selji þeim losunarkvóta sem er rúmlega þrisvar sinnum það magn losunar sem stjórnarráðið telur landsmenn losa!

Hvenær ætlar fólk að vakna? Hvers vegna er þjóð, sem telur sig vera þokkalega vitiborin, svo auðkeypt?

 


mbl.is Bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi, sjórnmál og peningar

Fyrst af öllu ætla ég að taka upp breytt orðalag. Fram til þessa hef ég talað um efasemdarfólk og fólk sem trúir, þegar loftlagsmál eru rædd. Orðið afneitunarsinnar hefur sífellt orðið algengara á efasemdarfólk, jafnvel þingmenn farnir að skrifa greinar til réttlætingar þess orðs og ríkisútvarpið notar það í sinni umfjöllun, tel ég rétt að kalla þá sem trúa á manngert loftslag, hamfarasinna. Mér er illa við þessi bæði orð, en til að tolla í tískunni verður maður jú að spila með.

En þessi pistill átti ekki að vera um orðnotkun, heldur vísindi, stjórnmá og peninga. Mjög hefur verið haldið á lofti að vísindamenn þiggi ekki greiðslur fyrir sín störf, að þeir séu engum háðir og vinni allt út frá vísindalegum forsendum. Í hinum fullkomna heimi væri svo, en svo er þó alls ekki. allir þurfa jú salt í grautinn, einnig vísindamenn. Þeir sækja því vinnu, oftast hjá einhverjum stofnunum og því merkilegri sem stofnunin er, því virtari telja vísindamenn sig vera. Auk þess sem launin hækka eftir því sem stofnunin verður virtari. Ekki ætla ég að halda því fram vísindamenn, almennt, séu að taka við aukagreiðslum ofaná sín laun, en starfið getur vissulega verið í húfi, ef ekki er gert það sem ætlast er til.

Hins vegar er vitað að þær stofnanir sem vísindamenn vinna hjá eru alfarið háðar fjárframlögum. Þau fjárframlög koma bæði frá ríkissjóðum landa sem og frá þeim sem eiga mikla peninga. Því er víst að það skiptir miklu máli fyrir stofnanir að frá þeim komi það sem hentar þeim er með fjármagnið fara, hvort heldur það eru þeir sem tímabundið fara með fjármál ríkja eða einhverjum sem beinlínis hagnast á "réttum" niðurstöðum vísindamanna. Því eru vísindamenn gjarnan bundnir við að "réttar" niðurstöður séu framreiddar, þó ekki væri nema til að halda stöðu sinni.

Sem dæmi flutti kanadískur vísindamaður, Susan Janet Crockford, prófessor í mannfræði og dýrafræðingur við Viktoríuháskóla, erindi þar sem hún benti á hið augljósa. Að Ísbirnir væru í mestri þörf fyrir mat eftir að þeir skriðu úr híði að vori, að það væri þá sem sem líf húna hennar réðust og því ætti hlýnun loftlags og minnkun heimskautaíss einmitt að auka lífslíkur ísbjarna, að þá yrði auðveldara fyrir þá að afla sér matar. Fyrir þennan fyrirlestur var hún rekin frá háskólanum!

Það er ljóst öllu hugsandi fólki að peningar hafa áhrif á vísindamenn. Hellst að þeir sem eru komnir á eftirlaun og engum háðir geti talað út frá vísindum á hlutlægan hátt. Enda er það svo að flestir þeirra sem tala gegn því að veðurfar jarðar sé manngert, að ekki sé talað um hamfarahlýnun, eru vísindamenn á efri árum, komnir á eftirlaun. Hafa engu að tapa og eru engum háðir.

Aðeins um stjórnmál. Ef eitthvað skiptir stjórnmálamenn máli, eru það peningar. Hugsjónir og stefnur eru einskis virði þegar völdum er náð. Því skipir öllu máli fyrir stjórnmálamenn að hlíða í einu og öllu því sem peningamenn sega. Þetta eru auðvitað ekki ný sannindi, hefur þekkst um nokkuð langan tíma. Hin síðari ár hafa fjármagnöflin þó sífellt verið að gera sig gildari í stjórnmálum. Því skiptir máli fyrir stjórnmálamenn hvernig þeir haga sér. Litið er fram hjá tali þeirra um stefnumál og hugsjónir fyrir kosningar, en eftir þær skulu menn spila rétt!

Að halda því fram að peningar skipti ekki máli í vísindum, eins og haldið var fram í svokölluðum borgarafundi um loftlagsmál, á ruv, er firra. Á þessu ári nema styrkir frá ríkisstjórnum og fjármálamönnum, vegna global warming um 400 milljörðum bandaríkjadala. Þá er ótalinn óbeinn kostnaður. Ríkisstjórnir sækja þetta fé í vasa þegna sinna og ef einhver heldur að fjármálamenn leggi fram peninga af hugsjón, er það mikill misskilningur. Þeir nota sína peninga til að ávaxta þá.

Vísindi byggjast á rannsóknum og tilgátum. Vísindamenn eiga að vera tilbúnir að skipta um skoðun, komi í ljós að fyrri tilgáta var röng eða að nýjar rannsóknir gefa til kynna að svo hafi verið. Á þessu verður stundum misbrestur, það er þekkt úr sögunni. Ætíð hefur þó sannleikurinn opinberast þó á stundum þeir sem héldu honum fram væri burtu flognir meðal lifandi manna.

Enginn efast um að hlýnað hefur á jörðinni frá lokum litlu ísaldar. Einnig er vitað að oftar en ekki hefur verið hlýrra á jörðinni í sögu hennar. Reyndar er það svo að sá upphafspunktur sem valin er til mælinga hlýnunar jarðar er í lok eins kaldasta skeiðs jarðar um þúsundir ára og reyndar kaldasta tímabil fyrir utan alvöru ísaldarskeiða jarðarinnar. Við lifum því í dag mun nær ísöld en hlýskeiði, enda benti fyrrum veðurstofustjóri á að hann hefði svo sem ekki miklar áhyggjur þó hitastig hækki um tvær gráður, mun alvarlegra væri ef það hefði lækkað um þær tvær gráður.

Frá aldamótum hefur hitastig jarðar staðið nokkuð í stað, þ.e. samkvæmt mælingum á jörðu niðri. Mælingar gervihnatta segja reyndar annað, en þær mælingar hefur reglulega þurft að leiðrétta, allt frá því þær hófust, seint á sjötta áratugnum.

Nokkuð er víst að þessi stöðugleiki í hitastigi jarðar, sem verið hefur frá aldamótum, mun ekki haldast. Hvort enn frekari hlýnun verði, jafnvel svo að svipuðu hitastigi verði náð og við landnám eða jafnvel svipuðum hita og var er Rómaveldi varð til, er útilokað að segja til um. Allt eins gæti kólnað aftur, aftur orðið sú staða að firðir hér á landi og ár og skipaskurðir Evrópu yrðu ísilagðaðir stóran hluta vetrar. Eitt er þó ljóst að um stóran hluta norðurhvels jarðarinnar, þ.e. í Rússlandi og Norður Ameríku, hefur árið í ár verið hið kaldasta í áratugi og sumstaðar hafa jafnvel kuldamet allt frá nítjándu öld fallið. Hvort um einstakt ár er að ræða eða hvort þetta er vísir að því að það fari kólnandi, get ég auðvitað ekki sagt til um.

Hamfarasinnar kenna auðvitað hlýnun jarðar um þennan kulda, en það er önnur saga.

 

 


Réttarríkið Ísland?

Þegar sjálfur forsetinn tjáir sig um órannsakaðar ásakanir er ekki annað hægt en rita nokkur orð. Ætlaði ekki að skrifa neitt um svokallað Samherjamál, enda hef ég ekki leyfi til að dæma einn né neinn. Það hefur þú ekki heldur lesandi góður og ekki heldur Helgi Seljan, hvað þá forsetinn.

Það er orðin stór spurning hvort við búum í réttarríki hér á landi. Hornsteinar réttarríkisins eru að hver telst saklaus uns sekt er sönnuð, að lögregla rannsaki, að saksóknari sæki og að dómstólar dæmi. Ítrekað hefur fréttastofa ruv, í samvinnu við blaðsnepil sem sérhæfir sig í gróusögum, brotið þessi gildi, stundum haft eitthvað satt fyrir sér en oftar farið með fleipur. Ætíð hafa menn verið fljótir að dæma, sér í lagi sumir stjórnmálamenn. Sjaldnast er beðist afsökunar þó í ljós komi að um gróusögu var að ræða og hafa sumar fjölskyldur þurft að eyða stór fé í að sækja sinn rétt fyrir dómstólum, eftir að fyrirtæki þeirra eða mannorð var drepið. Það ber nýrra við að forsetinn skuli skipa sér á sess með þessum dómurum götunnar.

Vissulega er það svo að víða má betur fara og á það við um ansi margt. Mútur geta verið í öðru formi en peningum og ættartengsl og vinskapur getur vart tæpast talist glæpur.

Nú veit ég auðvitað ekki hvort Samherji er sekur eða saklaus, það munu réttmætir valdhafar skera úr um. Þar til að því kemur er best að tjá sig sem minnst. Hitt er ljóst að þær upphæðir sem nefndar voru í þætti Helga Seljan eru af þeirri stærðargráðu að nánast er útilokað að þær geti staðist, að sú rannsókn sem fyrirtækið hefur verið undir til margra ára hafi ekki leitt í ljós eitthvað misdægurt. Fyrir nokkrum árum var Samherji tekinn til rannsóknar, ekki bara hér á landi heldur líka erlendis, einnig í Namibíu.

Og inn í þetta er síðan fléttað fiskveiðistjórnkerfinu. Vissulega er það ekki gallalaust. Kannski einn stærsti gallinn framsal kvóta, verk eins fyrrum sjávarútvegsráðherra sem nú hneykslast á Samherja. En það framsal hefur lagt í eyði heilu byggðalögin og þjappað kvótanum á fáar hendur. Þeir sem muna hvernig var áður, þ.e. meðan bæjarútgerðir og ríkisútgerðir voru við lýði, muna að þá var ekki mikið sem fiskveiðar gáfu í ríkissjóð. Sjóðstreymi hans varðandi fiskveiðar var yfirleitt á hinn veginn. En vissulega má laga það kerfi sem nú er notast við, þá hellst til að styrkja smærri útgerðir. Því miður hefur stjórnmálamönnum ekki tekist að koma fram með slíkar hugmyndir, þær breytingar sem nefndar hafa verið til þessa hafa ætið verið á þann veg að stóru útgerðirnar hefðu hagnast enn frekar. En þetta mál kemur ekkert við því sem nú er mest rætt og menn duglegastir við að dæma í.

Eins og áður segir þá geta mútur verið í öðru formi en peningum. Þetta dettur manni í hug þegar á markaðinn er nú send bók, rituð af þeim sem stjórnaði svokallaðri rannsókn á Samherja, um sama efni. Þessi bók kemur á markað um viku eftir þátt ruv, svo ljóst er að nokkuð er síðan hún var skrifuð. Víst er að þessi bók selst nú í tonnum talið og ljóst að höfundur mun hagnast verulega á henni. Eru það mútur? Ef ekki, hvað þá? Og hvað með að liggja á gögnum um glæp? Ber ekki öllum skilda til að færa slík gögn til tilþess bærra yfirvalda, svo skjótt sem þau koma í hendur fólks? Það hlýtur að teljast glæpur að leyna gögnum þar til vel stendur á hjá þeim sem sem með gögnin eru, jafnvel peningalegt spursmál!

Annað dæmi má nefna, en það er tilskipun ESB um stjórn orkumála (op3). Hvernig stóð á því að flestir stjórnarþingmenn, sem verið höfðu á móti samþykkt þessarar tilskipunnar, skiptu allir um skoðun á einum degi, eftir að forsætisráðherra annars lands hafði komið hingað í heimsókn. Skiptu einhverjir fjármunir eða eitthvað annað um hendur í þeirri heimsókn? Sé svo voru það vissulega mútur. Ekki var ruv neitt að skoða þetta, reyndar þvert á móti. Þó var þar um að ræða mál sem er af allt annarri og stærri gráðu. Mál sem snertir alla landsmenn hressilega um alla framtíð. Mun gera lífsskilyrði landsmanna mun verri.

Svona mætti lengi telja og vel er hugsanlegt að Samherji hafi greitt einhverjar mútur í Afríku. Svo getur allt eins verið víða og að fleiri aðilar hafi stundað svo. Til Afríku er erfitt að selja eða koma með fyrirtæki nema einhverjir peningar skipti um hendur. Og þetta á við víðar. Eru það t.d. mútur þegar fyrirtæki kaupa verslunarpláss í verslunum, fyrir sínar vörur? Þar getur oft verið um nokkra upphæð að ræða.

 

Þetta er spurning um hvort við viljum áfram lifa við réttarríki hér á landi, eða hvort við ætlum að færa rannsókn og saksókn til fjölmiðla og láta síðan dómstól götunnar sjá um að dæma. Það væri ansi langt skref afturábak.


mbl.is Óverjandi framferði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir hafa hæst sem ættu að sjá sóma sinn í að þegja

Í kjölfar hrunsins var afskrifað lán sem sagt var í eigu eiginmanns Þorgerðar Katrínar. Svo vel vildi til að eiginmaður hennar hafði starfað við einn af föllnu bönkunum og fékk því sér meðferð. ÞKG var þingmaður á þessum tíma og varaformaður Sjálfstæðisflokks. Þó hún staðfastlega neitaði því að vita nokkuð um fjármál eiginmannsins, þá hrökklaðist hún af þingi með skömm og úr sæti varaformanns skömmu síðar, enda öllum ljóst að hjón vita yfirleitt nokkuð um fjárskuldbindingar hvors annars. Upphæð þessa láns var á við eitt þúsund meðallán íbúðakaupenda, á þeim tíma. Þeir þurftu hins vegar margir hverjir að færa bankanum húseign sína og sumir þóttust hafa sloppið vel með það eitt að verða öreigar! Þessi saga mun seint gleymast!

Því ætti Þorgerður Katrín að sjá sóma sinn í því að vera ekki að tjá sig í fjölmiðlum, af virðingu við þá sem misstu sína aleigu í kjölfar hrunsins, meðan hún sjálf hélt sínum.

Sómi ÞKG nær skammt, í stað þess að halda sig til hlés þá stofnaði hún nýjan stjórnmálaflokk, enda frami hennar innan þess gamla þrotin. Hún komst á þing og hefur verið helsti talsmaður þeirra sem vilja inngöngu í ESB, hvað sem það kostar.

Í viðhengdri frétt fer ÞKG hamförum, málar Bandaríkin sem verstu skúrka sem heiminn byggja og krefst að stjórnmálasambandi við þá verði slitið, fórni USA ekki slatta af unga fólkinu sínu í stríði, hinumegin á hnettinum. Ekki fyrir löngu síðan kom svipuð gagnrýni, en þá fyrir að Bandaríkin væru í stríði um allan heim!

Það er fleira sem frá ÞKG kemur í þessari frétt, fyrir utan að Bandaríkin séu upphaf og endir alls hins vonda. Hún nær að tengja þetta loftlagsmálum. Segir umhverfisstefnu Bandaríkjanna vera ógn við heimsbyggðina. Ef Bandaríkin menga svo mikið, sem hún segir, hvers vegna kallar hún þá eftir að þau stundi frekari hernað? Varla er það til bóta fyrir umhverfið?

Reyndar ætti hún að gagnrýna vini sína í Evrópu, fyrir slælega umhverfisstefnu, eða réttara sagt framkvæmd hennar. Þar eykst enn losun loftegunda sem kennd eru við hlýnun jarðar, meðan verulega hefur dregið úr henni í Bandaríkjunum. Vissulega drógu Bandaríkin sig úr svokölluðu Parísarsamkomulagi, ekki vegna þess að þeir vildu ekki minnka hjá sér mengun, heldur vegna þess að í því samkomulagi var ákvæði um að nokkur lönd þriðja heimsins, s.s. Indland og Kína, áttu að fá lausn frá greiðslu fyrir mengun. Og til að ná því fé var ætlast til að Bandaríkin myndu greiða fyrir þessar þjóðir. Sjóðinn varð jú að stofna, enda það helsta markmið Parísarsamkomulagsins. Mengun per se skipti minna máli.

Ef Þorgerður Katrín er svo umhugað um að fara í stríð við Tyrki, því talar hún þá ekki við vini sína í ESB. Þeir hljóta að sinna kalli hennar.

 

Kúrdar hafa mína samúð, en þeim verður ekki bjargað með hervaldi. Ljóst er að ef Bandaríkin færu í stríð við Tyrki munu Rússar skerast í leikinn. Þarna yrði langdrægt stríð sem allir munu tapa á, mest þó Kúrdar. ESB getur auðvitað lítið gert, bæði vegna viðskiptahagsmuna við Rússa og kannski fremur vegna þess að Tyrkir liggja með umsókn um inngöngu í sambandið.

Því eru viðskiptaþvinganir á Tyrki mun árangursríkari, auk þess að Kúrdar munu þá ekkert skaðast.

En kannski er Þorgerði Katrínu sama um Kúrda, kannski vill hún bara stríð.

 

 


mbl.is Vill endurskoða samskipti við Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband