Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Blessað skammtímaminnið

Það hefur gjarnan verið sagt að minni kjósenda sé skammt, sérstaklega kringum kosningar. Verra er þegar þeir sem treysta á þetta skammtímaminni kjósenda eru sjálfir haldnir þeim kvilla.

Ólína Þorvarðardóttir gagnrýnir að kísilverið að Bakka hafi fengið tvöþúsund milljónir af almannafé við stofnun. Svo sem ekki fráleit gagnrýni. En man Ólína ekki hverjir voru við stjórnvölin þegar þessi höfðinglega gjöf var gefin? Sjálf sat hún þá á þingi, fyrir samfylkinguna, sem leiddi þá stjórn. 

Auðvitað man Ólína þetta, hún er fjarri því að vera heimsk. En þarna, eins og svo oft áður, velur hún að fegra söguna og treystir þar á að skammtímaminni almennings sé bilað. Og vissulega má segja að henni hafi tekist ætlunarverk sitt, að hluta. Skammtímaminni annarra er voru í þessu viðtali virðist ekki ná aftur til síðasta áratugar.

 


mbl.is „Það er ekkert búið að loka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ljótt að ljúga

Þegar op3 var samþykktur á Alþingi var því haldið fram að orkusala um sæstreng til meginlandsins væri ekki í myndinni. Ýmsir drógu þetta í efa, en ráðherrar, sérstaklega ráðherra orkumála, fyllyrtu að engar slíkar áætlanir væru á teikniborðinu. Á þeim tíma voru erlendir vindbarónar farnir að láta til sín taka hér á landi og töldu margir það skýrt merki um hvað koma skildi.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var þetta mál lítið sem ekkert rætt fyrir síðustu kosningar. Vindbarónarnir héldu sig til hlés og fáir virtust muna tvö ár aftur í tímann. Þar sem stjórnmálamönnum tókst að halda þessu máli frá umræðunni, fyrir síðustu kosningar, má segja að kjósendur hafi ekki fengið að kjósa um málið.

Strax eftir kosningar vöknuðu síðan vindbarónarnir og koma nú í hópum í fjölmiðla til að útlista ágæti þess að leggja hellst allt landið undir vindmillur og að auki hafið umhverfis Ísland. Ýmis rök hafa þessir menn fært fram, eins og framleiðslu á eldsneyti og fleira. Nú er opinberað að sæstrengur sé málið, reyndar legið fyrir frá upphafi. Ef ráðherra orkumála þykist vera að heyra þetta fyrst núna, er hún verri en ég hélt. Þetta vissi hún þegar hún laug að þjóðinni!

Stjórnmálamenn eiga að vita að orðum fylgir ábyrgð og að lygar duga skammt. Sannleikurinn kemur alltaf upp á yfirborðið, sama hversu reynt er að halda honum niðri. Þá eiga stjórnmálamenn að vita að þeirra vinna á að snúast um að verja hag landsmanna og þá um leið landsins. Þeim er ekki heimilt að ganga erinda erlendra peningamanna, sama hvað í boði er. Þegar slíkt er gert og það skaðar hag landsmanna, kallast það landráð, eitthvað skelfilegasta brot sem nokkur stjórnmálamaður getur framið.

Fyrir landráð á að dæma fólk!


mbl.is Metnaðarfullar hugmyndir um vindorkugarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síminn ekki hleraður

Sameiginlegir sjóðir landsmanna er notaðir til að byggja upp innviðakerfi landsmanna. Síðan eru ýmsir hlutar þess selt sérvöldum aðilum, án þess að eitthvað samhengi sé milli þess verðs sem þeir greiða fyrir þá og þess kostnaðar er landsmenn lögðu til þeirrar uppbyggingar. Þér sérvöldu hafa síðan á sínu valdi þessa innviði og geta gert það sem þeim sýnist við þá, án allrar ábyrgðar. Til dæmis selt þá úr landi ef þeir sjá af því góðan hagnað.

Uppbygging ljósleiðarakerfisins um allt land var þarft verkefni, fjármagnað af ríkinu. Til þeirrar fjármögnunar var málaflokkurinn settur undir þann lið á fjárlögum er fer með samgöngur, að mestu fjármagnaður af vegafé. Því er ljóst að þessi þarfa uppbygging svelti á meðan viðhald vegakerfisins. Nú nýtur franskur fjárfestingasjóður, voru eitt sinn kallaðir hrægammasjóðir, góðs af lélegu vegakerfi á landsbyggðinni. Landsmenn sitja eftir með sárt enni, meðan Síminn telur sína milljarða. 

Innviðir þjóða eru ekki oft settir á markað braskara. Þegar slíkt gerist upphefst alltaf heljarinnar brask með þá, þar sem hluturinn gengur kaupum og sölum uns blaðran springur. Eðli málsins samkvæmt eru innviðir þjóða yfirleitt engum verðmæti nema viðkomandi þjóð. Fyrir aðra eru slík verðmæti einungis froða, til þess eins að græða á meðan einhver lætur blekkjast. 

Hvernig á því stóð að Síminn eignaðist Mílu veit ég ekki. Síminn var seldur á sínum tíma vegna krafna ees samningsins um aðskilnað sölu og dreifinu símakerfisins. Að Síminn, sölukerfið, skuli komist yfir Mílu, dreifikerfið, hlýtur því að vera brot á ees samningnum. 

Hvað um það, nauðsynlegir innviðir sem byggðir eru upp af sameiginlegum sjóðum landsmanna, eiga að vera í þeirra eigu. Annað verður ekki við unað. 

Forsvarsmenn Símans telja sig hafa fengið loforð þessa erlenda fjárfestis um að þeir muni ekki hlera strengina. Það er minnsti vandinn, enda Ísland smátt á alþjóðavettvangi og lítil verðmæti í því sem við segjum. Þá er ljóst að slík loforð frá fjárfestingasjóð eru haldlítil, auk þess sem litlar líkur eru á að þessi sjóður verði lengi eigandi að Mílu. Þessi kaup sjóðsins eru á nákvæmlega sama grunni og öll kaup fjárfestingasjóða, til þess eins að græða á þeim. Um það snýst verkefni fjárfestingasjóða, að ávaxta sitt fé. Þeirra verkefni er ekki að standa vörð samfélagsins, allra síst í öðrum löndum.

 


mbl.is Hefur áhyggjur af innviðum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æran og orkan

Nú held ég að sá gamli sé búinn að tapa glórunni. Sæstrengur er það síðasta sem við Íslendingar þurfum.

Aðstaða Grænlands og Íslands ansi misjöfn þegar að orkumálum kemur. Fyrir það fyrsta er Grænland utan EES og ESB, meðan við Íslendingar erum bundnir ESB gegnum EES. Þar sem ESB hefur skilgreint orku sem vöru og Alþingi okkar samþykkt þá skilgreiningu, eru orkumál okkar að stórum hluta komin undir þá deild innan ESB er kallast ACER, deild sem sér um að stýra orkumálum ESB ríkja. Meðan við erum ótengd rafkerfi ESB getum við haft einhverja stjórn sjálf á okkar málum, s.s. verði orkunnar, hvar og hversu mikið skuli virkja og þar fram eftir götum. Ef við tengjumst þessu raforkukerfi ESB með sæstreng missum við endanlega alla stjórn á þessu. Þá er ljóst að orkuverð hér á landi mun verða á sama grunni og innan þessa kerfis og sveiflast í takt við það. Þetta mun leiða til margföldunar orkuverðs hér á landi, um það þarf ekki að deila. Hins vegar geta menn deilt um hversu margföld sú hækkun verður. Fyrst finna landsmenn þetta á pyngju sinni og fljótlega einnig á atvinnuöryggi sínu.

Í öðru lagi er ljóst að rafstrengur í sjó er mun erfiðari og dýrari framkvæmd en slíkir strengir á landi, jafnvel þó þeir séu grafnir í jörðu. Þá er munur á viðhaldi þeirra geigvænlegur, eftir því hvort þeir eru djúpt í úthafinu eða uppi á þurru landi. Það þarf ekki einu sinni að líta á landakort til að átta sig á hvert hugur Grænlendinga mun liggja, þegar að slíkum útflutningi kemur. Þeir munu auðvitað velja þá leið sem styðst er yfir haf, þannig að strengurinn verði sem mest á þurru landi. Ísland er í órafjarlægð frá þeirri leið.

Blessunarlega eigum við mikla orku hér á Íslandi og jafnvel þó við séum að stórum hluta búin að hafa orkuskipti varðandi heimilin og jafnvel þó okkur takist að skipta um orku á öllum okkar fartækjum, á láði, legi og í lofti, munum við sjálfsagt verða aflögufær um einhverja orku til hjálpar öðrum þjóðum.

Þá hjálp gætum við lagt til með því að taka að okkur orkusækin fyrirtæki hér á landi og sparað þannig þeim þjóðum sem illa eru sett varðandi orkuöflun. Þannig getum við lagt okkar að mörkum til að afnema einhver kolaorkuver meginlandsins. Þessi fyrirtæki munu þá framleiða sína vöru með sannarlega hreinni orku, á lágu verði. Atvinnuöryggi landsmanna mun þá tryggt og væntanlega mun verð á raforku til neytenda haldast á viðráðanlegu verði áfram.

Að selja orkuna úr landi gegnum sæstreng, sér í lagi undir stjórn erlendra hagsmunaaðila, mun gera Ísland að þriðjaheims ríki innan fárra ára. Æra þeirra sem fyrir slíku standa mun verða lítt metin.

 

 


mbl.is Sæstrengur góð leið til að nýta hreina orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosið um aðild að ESB

Það stefnir í skelfingu fyrir land og þjóð gangi þessi spá eftir. Það þarf ekki annað enn að horfa til stjórnunar Reykjavíkurborgar, með öllum þeim hneykslum sem reglulega koma upp í stjórn hennar og hvernig fjárhagur borgarstjórnar er, til að átta sig á hvernig fer fyrir landinu, taki sömu flokkar við landsstjórninni.

En það er þó ekki það sem skelfilegast verður fyrir þjóðina. Peningasukk má leiðrétta eftirá, að vísu með sárum aðgerðum og stjórnleysi má búa við um stuttan tíma án teljandi skaða til framtíðar. Verra er að þessir flokkar munu leggja ofuráherslu á framsal sjálfstæðis okkar til erlendra aðila, eða eins og það heitir á máli ESB,  "sjálfstæðinu er deilt". Það verður ekki svo auðveldlega leiðrétt til baka.

Þar með yrðum við áhrifalaus með öllu um okkar málefni, yrðum jaðarsvæði samtaka sem stjórnast frá miðju. Þar sem allar ákvarðanir eru teknar til að efla miðjuna á kostnað jaðarsvæðanna. Þetta er vitað, núverandi jaðarsvæði ESB hafa orðið illa úti og þegar eitthvað á bjátar, bankahrun eða heims faraldur, jaðarsvæðin eru látin blæða, til að halda miðjunni gangandi. Og við, hér mitt á milli Evrópu og Ameríku, erum margfalt fjær miðju ESB en nokkurt núverandi jaðarsvæði þess. Því er ljóst að við munum alltaf verða verst úti þegar eittvað bjátar á.

ESB eru deyjandi samtök, sem haldið er á lífi með gífurlegum fjárframlögum aðildarríkja. Fyrir nokkru líkti einn helsti ESB sinni Íslands, til margra ára, inngöngu okkar í ESB við að flytja inn í brennandi hús. Þetta hús brennur enn.

Kjósendur, um þetta verður kosið um næstu helgi, aðild Íslands að ESB. Áttið ykkur á því.


mbl.is Vinstri sveifla þegar vika er eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslag

Engum blöðum er um það að fletta að það hefur hlýnað hér á skerinu okkar síðustu áratugi. Þeir sem muna veðurfarið á áttunda áratug síðustu alda og reyndar nokkuð fram á þann níunda, kætast yfir þessari breytingu í veðri. Minni snjór, hlýrri vetur og jafnvel sumstaðar hlýrri sumur er eitthvað sem flestir ættu að gleðjast yfir. Hvað veldur er erfitt að segja til um, en varla er þar að kenna co2 einu um. Sjálfsagt á mannskepnan einhvern þátt í þessari hlýnun.

Nú telja sumir að ég hafi glatað þeirri litlu glóru sem til var, enda slík "hamfarahlýnun" bara af hinu slæma. IPCC segir það. Segir reyndar líka að þetta sé allt manninum að kenna og samkvæmt fréttastofu ruv má ætla að þar séu Íslendingar helsti sökudólgurinn. Beri höfuð og herðar yfir allar aðrar þjóðir í því að hita upp andrúmsloft jarðar! Hvorki meira né minna!

Nýjasta skýrsla IPCC var opinberuð um daginn, upp á rétt um 4000 blaðsíður. Ekkert nýtt kom þar fram, nánast samhljóða skýrslunni í fyrra, árið þar á undan og árið þar á undan og...  Á heimasíðu IPCC sést að þegar er hafist handa við skýrsluna fyrir árið 2022 og gera má ráð fyrir að hún verði samhljóða þeirri sem nú var opinberuð. Skemmst er frá því að segja að erfiðlega gengur fyrir IPCC að láta spádómana rætast. Enda er enn notast við sama spáforrit, enn notaðar sömu forsendur og því verður niðurstaðan jafn vitlaus og áður.

Það þarf svo sem ekki neinn snilling til að átta sig á að losun co2 af mannavöldum getur ekki verið sá þáttur sem mestu ræður. Magn co2 í andrúmslofti hefur aukist úr um 300 ppg í um 400 ppg. Þetta gerir aukningu um rúm 30%. Losun co2 af mannavöldum er talin vera nálægt 3% af heildarlosun í andrúmsloftið. Það sér því hver maður að þarna spilar eitthvað annað inn í, sennilega það nærtækasta, hlýnun jarðar. Þegar hlýnar minnkar sífreri í jörðu og við það sleppur gífurlegt magn af gösum út í andrúmsloftið. Því er líklegra að að losun co2 sé afleiðing hlýnunar en ekki orsök.

En aftur að fréttastofu ruv. Hún hefur sannarlega svarað kalli viðhlæjendur sinna í pólitík og berst nú á hæl og hnakka við gera skýrslu IPCC að kosningamáli hér. Síðasta "fréttin" þeirra fjallar um hversu miklir umhverfissóðar Íslendingar eru og vísar þar til skýrslu frá ESB, því heilaga fyrirbæri!

Það er þó margt að athuga við þá frétt. Sem von er þá notast ESB við þá aðferð að reikna mengun á haus í viðkomandi landi. Ef mengun er ástæða hnattrænnar hlýnunar á auðvitað að reikna mengun hvers lands á það landsvæði sem það ræður yfir, ekki fjölda íbúa. Við sem búum í stóru landi, sem að stórum hluta er óbyggilegt, getum aldrei komist nærri öðrum þjóðum í samanburði ESB. Það er einfaldlega útilokað. Þetta er því ekki frétt heldur áróður. Í öðru lagi er talið til gróðurleysi sem okkar sök. Gróðurleysi stafar af því að síðustu aldir voru þær köldustu frá síðustu ísöld, en nú stendur það væntanlega til bóta, með hlýnun. Losun vegna landnotkunar er þarna líka talin okkar sök, þó hún sé til þess eins að framleiða matvæli. Magn vegna þessa er stórlega ofmetið, enda stuðst við spálíkön að mestu, ekki mælingar. Þá er ljóst að aðrar þjóðir telja þetta ekki með, a.m.k. ekki Svíþjóð, miðað við það magn af heildarlosun sem þeir gefa upp.

Hvers kyns mengun er auðvitað af hinu slæma og koma á böndum á hana. Það kemur þó ekkert hlýnun jarðar við. Þar eru aðrir hlutir sem við ráðum lítið við, sem ráða för. Og jafnvel þó maður legði trúnað á að losun mannsins á co2 sé sökudólgurinn, er útilokað að hægt sé að minnka það um það magn sem þá þarf. Jafnvel þó við færum aftur um tvær aldir í þróuninni, fórnuðum öllum tölvum, símum og öllu því sem gerir líf okkar að því sem það er, myndi það ekki duga. En það má samt alveg koma böndum á almenna mengun jarðar.

Eitt er það sem enginn hefur nefnt, en er þó örugglega mun viðsjárverðara fyrir jörðina en öll önnur mengun mannsins, en það er svokallað Starlink. Þetta fyrirbæri er ætlað að tengja saman alnetið gegnum gervitungl og er hugarsmiðja Elon Musk. Hann ætlar að senda 45.000 gervitungl á sporbraut um jörðu, mun nær en önnur gervitungl eru, eða einungis í um 550 km hæð og munu ferðast þar á 28.000 km/klst. Þessi gervitungl hafa líftíma upp á 3 til 5 ár, en þá þarf að senda annað til skiptanna. Það tekur um 10 ár fyrir þau að falla til jarðar og vonast menn þá til að þau brenni upp. Gerist það ekki erum við vægast sagt í slæmum málum! Þetta segir að senda þarf 10 - 11.000 gervitungl upp á hverju ári og eftir tíu ár má búast við að jafn mikill fjöldi falli til jarðar. Það verður sannarlega sjónarspil! Á þeim tíma munu um eða yfir 100.000 gervitungl sveima um himingeiminn, í einungis 550 km hæð. Þetta er þá einungis á vegum Elon Musk. Heyrst hefur að Kínverjar séu að skoða þessa leið, einnig ýmsar aðrar þjóðir. Þá gæti fjöldinn orðið ævintýralegur.

Hvaða áhrif þetta hefur á jörðina veit enginn. Enn er einungis verið að tala um hversu slæm áhrif þetta hefur á stjörnuskoðun frá jörðu, einstaka menn velta fyrir sér hvort geimferðir leggist af vegna þessa, þar sem ekki verði komist gegnum þetta net. En hvað með áhrif á jörðina? Mun þetta net gervitungla virka sem gardína fyrir sólina til jarðar? Eða mun þetta net gervitungla virka sem spegill til endurvörpunnar sólarljóss af jörðu? Mun kólna? Mun hlýna?

Ef eitthvað mannlegt ógnar jörðinni er það Starlink og sambærileg fyrirbæri frá fleiri þjóðum.

Saga mannsins á jörðinni er stutt. Talið að Homo sapines hafi komið fram fyrir um 200.000 árum. Risaeðlurnar ríktu á jörðinni í 160 milljónir ára. Víst er að við munum hverfa af yfirborði jarðar fyrr en flestar aðrar skepnur. Því verður ekki forðað. Þau svokölluð hlýindi sem nú eru sögð ógna jörðinni eru ekki meiri en svo að enn er með því kaldasta á jörðu. Það viðmið sem notast er við, undir lok litlu ísaldar, segir flest sem segja þarf. Engu að síður þurfum við að ganga vel um jörðina.

Stjórnmálamenn telja sitt hlutverk að breyta veðurfari á jörðinni. Til þess notast þeir við skattlagningu. Ef eitthvað er fáránlegt er það að ætla að kaupa sér annað veður en náttúran vill. Hlutverk stjórnmálamanna er að vinna að þeim bótum sem þarf til að takast á við þann vanda sem veðurfarsbreytingar valda. Slíkar breytingar hafa ætið verið og munu áfram verða. Það er ekkert eitt loftslag rétt á jörðinni, það segir sagan okkur. Jörðin hefur frosið póla á milli, hlýnað svo að regnskógar hafa náð til póla hennar og allt þar á milli. Slíkar sveiflur hafa verið nokkrar, þó reyndar einungis tvisvar hafi jörðin frosið alveg póla á milli. Í jarðsögulegu tilliti lifum við eitt kaldasta skeið frá síðustu ísöld, á kaldasta hlýskeiði jarðar.

Við skulum því ekki óttast hlýnun, færi að kólna væri tilefni til ótta!

 


Kófið og skussarnir

Þeir sem vita hvernig er að lenda í dimmu hríðarkófi, vita hversu auðvelt er að missa áttir og villast. Þá er gott að vera í hóp með einhverjum sem þekkir vel staðhætti. Það er oft eina vonin til að komast út úr kófinu. En auðvitað eru alltaf einhverjir skussar sem ekki treysta þeim staðkunnuga og æða sjálfir út í loftið. Þeir villast, stundum með skelfilegum afleiðingum.

Nú, í rúmt ár, höfum við verið í kófi af skæðri alheimssótt. Við erum svo heppin að hafa góðan leiðsögumann, sem vísar okkur veginn. Því miður eru skussarnir til, sem vilja fara aðrar leiðir. Þeir skussar eru orðnir áttavilltir og vita ekki hvert skal halda. Vonandi fer ekki illa fyrir þeim.

Sóttvarnarlæknir er án efa einn fárra manna hér á landi sem þekkir best til sóttvarna. Þess vegna var hann ráðinn í embættið, en ekki einhver lögfræðingur eða þingmaður. Sú ráðning byggðist á þekkingu læknisins. Auðvitað eru fleiri læknar sem hafa svipaða og jafnvel meiri þekkingu á þessum málum, en til þeirra heyrist ekki. Það bendir til að þeir séu sóttvarnalækni sammála.

Ráðning til embættis sóttvarnalæknis byggir á þekkingu viðkomandi til málaflokksins. Þar kemur pólitík ekkert að málum og enn síður einhver erlend öfl sem samsæriskenningarfólk telur vera að yfirtaka heiminn, að málum.

Sem betur fer hefur stjórnvöldum að mestu tekist að fara að ráðum sóttvarnarlæknis, þó ekki alveg. Í fyrra sumar, eftir að sóttin hafði verið kveðin niður hér á landi, voru landamæri opnuð að hluta. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Veiran spratt upp sem aldrei fyrr, fjöldi fólks lagðist á spítala og sumir glötuðu lífinu. Aftur tókst að kveða veiruna niður hér á landi, eftir nokkurra mánaða baráttu landsmanna. Enn á ný var farin sú leið að opna landamærin, þó nú væru takmarkanir öllu meiri en áður. Og enn á ný fór veiran af stað. Er ráðafólki þjóðarinnar algerlega ómögulegt að læra af fyrri mistökum?!

Nú er staðan þó öllu verri en áður og ljóst að leiðsögn sóttvarnarlæknis á erfiðara með að komast gegnum ríkisstjórnina. Það er nefnilega komið í ljós að innan hennar eru áttavilltir skussar!

Við búum á eyju, höfum engin landamæri á landi. Því eru möguleikar okkar til að verjast veirunni betri en flestra annarra þjóða. En það þarf kjark stjórnvalda til.

Þann kjark skortir!


mbl.is Stærri skref í afléttingum til umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna?

Fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um nýjar sótvarnarreglur, þar sem hverjum þeim er kemur til landsins frá svokölluðum eldrauðum löndum er skylt að dvelja á hóteli fyrstu fimm dagana eftir komu til landsins. Mest hefur farið fyrir umræðu þeirra er telja þetta lögbrot, minna sagt frá sjónarmiðum hinna, sem vilja fá að lifa sem næst eðlilegu lífi hér innanlands.

Í þessari umræðu er gjarnan talað um frelsissviptingu. Hver er sú svipting? Í meðfylgjandi frétt kemur fram að starfsfólk sóttvarnarhótelsins geti ekki og megi ekki stöðva för þeirra sem út vilja ganga. Hins vegar mun slíkt verða tilkynnt til lögreglu. Því er vart um frelsissviptingu að ræða.

Um nokkurt skeið hafa verið reglur um sóttkví við komuna til landsins, en fólki treyst til að halda hana. Því miður hefur fólk ekki staðið undir því trausti og því er komið sem komið er. Þá vaknar óneitanlega upp sú spurning hvort það fólk sem telur sig vera haldið nauðugu, tilheyri þá ekki einmitt þeim hóp sem brást trausti sóttvarnaryfirvalda, að það hafi bara alls ekki ætlað að halda þá sóttkví sem þó var til staðar þegar það yfirgaf landið.

Réttur fólks til að tjá sig er auðvitað óumdeildur. Fjölmiðlar ættu hins vegar að gæta þess að flytja mál beggja aðila, líka þeirra sem telja ekki nægjanlega langt gengið. Sumir þingmenn hafa farið mikinn og einstaka lögfræðingar bakka þá upp, í frasanum um að um lögbrot sé að ræða, jafnvel brot á stjórnarskrá. Þegar heimsfaraldur geisar ber sóttvarnalækni að leiðbeina stjórnvöldum um varnir landsins, til að lágmarka smit hér innanlands. Stjórnvöldum ber eftir bestu getu að verja landsmenn. Til þess eru sóttvarnarlög. Nú þekki ég ekki þann lagabálk til hlítar, en til að hann virki hlýtur hann að vera ansi sterkur og jafnvel fara á svig við önnur lög landsins. Þá hljóta sóttvarnarlög að vera sterkari. Annars væri lítið gagn af þeim.

Réttur landsmanna til að veirunni sé haldið utan landsteinanna eftir bestu getu er að engu gerður hjá þeim sem taka hanskann upp fyrir þeim sem telja sóttvarnir óþarfar, eða of miklar. Sá réttur, bæði lagalegur og stjórnarskrárlegur, hlýtur að vega meira en þeirra sem velja að ferðast um heiminn á tímum heimsfaraldrar. Þeir sem velja slík ferðalög eiga að gjalda fyrir, ekki hinir sem heima sitja og halda allar þær takmarkanir sem settar eru.

Veiran kemur erlendis frá. Átti upptök sín í Kína og hefur þaðan ferðast um allan heim. Hér á landi tókst fljótlega að ná tökum á ástandinu. Síðan var ákveðið að gefa eftir á landamærunum, að heimila för hingað til lands, en nota einskonar litakóða til að ákvarða hvort fólk væri heimilt að koma beint inn í landið, eða hvort það skyldi sæta sóttkví. Allir vita hvernig fór, veiran náði nýju flugi, með andláti fjölda einstaklinga. Landið lamaðist aftur og fólk og fyrirtæki áttu um sárt að binda. Nú er aftur búið að opna landið, sami litakóði notaður, þó einn ráðherrann sé reyndar búinn að skilgreina rauð svæði í tvo flokka, rauð og eldrauð. Eini munurinn er að þeir sem koma frá mest sýktu svæðunum þurfa að gista á ákveðnu hóteli fyrstu fimm dagana á landinu. Ástæðan er augljós og kemur fram hér fyrr ofan. Eftir stendur að fólk frá gulum svæðum, þar sem farsóttin er enn á fullu og eftir orðanna hljóðan ráðherra einnig þeir sem koma frá rauðum svæðum, geta gengið óhindrað inn í landið. En ráðherra talaði um að einungis fólk frá eldrauðum svæðum þyrfti að sæta sóttkví. Það er því verið að opna enn frekar á komu veirunnar til landsins, jafn skjótt og faraldur minnkar í einhverjum löndum. Í fyrrasumar vor sum lönd þar sem veiran geisaði af krafti, skilgreind sem gul svæði. Hættan nú er söm og þá. Mun þetta leiða til enn fleiri dauðsfalla af völdum veirunnar hér á landi?

Sumir spekingar halda því fram að covid sé eins og hver önnur flensa og benda á tölur um dauðsföll því til staðfestingar. Sem betur fer eru dauðsföll hér á landi ekki í líkingu við hvernig ástandið er víðast erlendis. En það ber fyrst og fremst að þakka sóttvörnum hér á landi og góðri þátttöku fjöldans. Hins vegar er ljóst að í þau skipti sem veiran hefur náð flugi hér, hefur það haft alvarlegar afleiðingar, sjúkrahús yfirfyllst og fólk dáði. Margt af því fólki sem smitaðist á enn í stríði við afleiðingarnar, mörgum mánuðum síðar. Hvernig ástandið væri hér á landi ef ekki hefði tekist að lágmarka veiruna, veit enginn. Líklegt er þó að þá værum við í svipuðum sporum og víða erlendis, þar sem tugir og hundruðir þúsunda fólks hefur þurft að láta í minnipokann, með lífi sínu.

Lög og stjórnarskrá eiga við alla landsmenn, ekki bara örfáa. Lagalegur réttur heildarinnar hlýtur að vera meiri en lagalegur réttur fárra.

Eftir stendur: Hvers vegna velja fjölmiðlar að fjalla einhliða um þá nauðsynlegu ákvörðun að halda fólki á hóteli í fimm daga? Hvers vegna er ekki fjallað um rétt okkar hinna, um að allt sé gert sem mögulegt er til að halda veirunni utan landsteinanna?


mbl.is Telja sóttvarnalög og stjórnarskrá brotna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klærnar viðraðar

Framkvæmdastjórn ESB viðraði klærnar aðeins í morgun, þegar sett var bann á útflutningi bóluefnis gegn covid til Íslands og reyndar fleiri landa. Eftir bréfaskriftir forsætisráðherra til forseta framkvæmdastjórnarinnar, varð að niðurstöðu að ESB ætli að standa við gerðan samning um bóluefnasendingar til Íslands, a.m.k. samkvæmt þeirri dreifingaráætlun sem í gildi er. Hvað svo veit enginn.

Framkvæmdastjórn ESB og þá einkum forseti hennar, hefur farið mikinn síðustu daga. Hótanir flæða í allar áttir og krafa um að staðið sé við gerða samninga gagnvart ESB. Undarleg er þó þessi barátta framkvæmdarstjórnarinnar, þegar hún telur réttlætanlegt á sama tíma að brjóta samninga við aðrar þjóðir.

Harka framkvæmdastjórnarinnar er komin á nýtt stig, hættulegt stig. Auðvita vita allir að ESB er ekki klúbbur góðgerðasamtaka. Þessi klúbbur var fyrst stofnaður um viðskipti, hörð viðskipti. Seinna þróaðist hann yfir í einskonar ríkjasamband og leynt og ljóst er verið að skerða völd aðildarríkja í þeim eina tilgangi að klára það verk sem Hitler mistókst, að setja alla Evrópu undir eina stjórn. Síðastliðin ár hefur þessi árátta smitast út fyrir sjálft sambandið og höfum við hér upp á Íslandi ekki farið varhluta af því, vegna aðildar okkar að EES samningnum. Samningi sem Alþingi samþykkti fyrir um þrem áratugum síðan, með minnsta mögulega meirihluta þingmanna og algerlega án aðkomu þjóðarinnar.

Í krafti þess samnings var gert samkomulag við ESB um dreifingu á bóluefni hingað til lands. En sem fyrr, horfir framkvæmdastjórnin öðrum augum til EES samningsins en til var stofnað í upphafi, enda var ESB ekki til þá, heldur var þessi klúbbur nokkurra Evrópuríkja einungis bandalag um viðskipti. Kallaðist Evrópubandalagið.

En sem fyrr segir, þá viðraði framkvæmdastjórn ESB klærnar, þó þær hefðu verið dregnar inn til hálfs gagnvart Íslandi, eftir alvarlegar athugasemdir forsætisráðherra. Gagnvart ýmsum öðrum löndum eru klærnar þó enn úti og tilbúnar í slaginn. Ef eitthvað stefnir heimsfriðinum í voða, er það framkvæmdastjórn ESB og þar fremst í flokki Ursula von der Leyen.  Heimurinn hefur ekki efni á stjórnmálamönnum eins og þeim sem fylla framkvæmdastjórn ESB, stjórnmálamönnum sem ekkert lýðræðislegt umboð hafa að baki sér.

Við lifum á viðsjárverðum tímum, þar sem allt getur farið á versta veg!

 


mbl.is Gengur í berhögg við EES-samninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk á bágt ....

Fólk á bágt sem tekur veraldleg gæði fram yfir andleg gæði.

Fólk á bágt þegar aurar eru því meira virði en líf og limir.

Fólk á bágt þegar það gerir ekki greinarmun á orsök vanda.

Þessar línur duttu í koll mér eftir lestur viðtengdrar fréttar og vegna þeirrar umræðu sem sífellt virðist vera að ná hærra í opinberri umræðu, jafnvel á Alþingi.

Það var enginn sem bað um covid19. Þessi veira stökkbreyttist og hljóp í mannskepnuna, heimsbyggðinni til stórfellds skaða. Enginn vissi í fyrstu hvernig ætti að meðhöndla þennan vágest og fáir sem í raun vissu afl hans í fyrstu. Nú, eftir að 1.234.000 manns hafa látið lífið af veirunni um heiminn, virðist þekkingin enn vera nokkuð  af skornum skammti, þó vissuleg hún sé meiri en áður en veiran varð til. Mörg fyrirtæki, flest í samvinnu, vinna nótt sem nýtan dag að því að finna upp lyf gegn henni og vonandi að það verk skili árangri. Þar til er covid 19 lífshættulegur sjúkdómur.

Umræðan hér á landi er jafn forpokuð og áður, snýst um einhver smámál meðan stóri vandinn fær að blómstra. Ekki er horft út fyrir landsteinana, einungis á eigin tær. Hvað heldur það fólk að muni ávinnast ef veirunni verði sleppt lausri? Áttar fólk sig virkilega ekki á þeirri staðreynd að í öllum löndum sem við höfum að jafnaði samneyti við, eru ýmist ferðabönn eða miklar takmarkanir á ferðalögum? Ávinningur þessa yrði því lítill sem enginn.

Hitt liggur ljóst fyrir að skaðinn yrði mikill. Jafnvel þó aldraðir og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma yrðu settir í hörðustu einangrun, er ljóst sjúkrahús landsins yrðu fljót að fyllast. Samhliða því mun starfsgeta þeirra skerðast verulega og í beinu framhaldi mun fjöldi látinna aukast. Þarna erum við að tala um fullfrískt og jafnvel ungt fólk, sem heldur hjólum atvinnulífsins gangandi. Því mun atvinnustarfsemi fljótleg lamast. 

Sóttvarnaraðgerðir  geta vissulega dregið úr atvinnustarfsemi, um það verður ekki deilt. Þó munu slíkar aðgerðir aldrei geta valdið sama skaða og sjálf veiran, fái hún að blómstra. Með sóttvarnaraðgerðum er hins vegar hægt að lágmarka smit og halda sjúkrahúsum starfandi. Þannig má verja fleiri mannslíf og um það snýst málið. Með sóttvarnaraðgerðum má einnig halda uppi starfsemi grunnfyrirtækja landsins, þeirra sem færa okkur gjaldeyri, fyrir utan auðvitað ferðaþjónustuna, en henni verður ekki komið af stað með minni sóttvarnaaðgerðum hér á landi. 

Fólk á bágt sem ekki skilur þessar einföldu staðreyndir.

Fólk á bágt sem ekki getur staðið í lappirnar þegar mest á reynir, heldur hleypur eftir því sem það telur vera sjálfu sér til mestra vinsælda.

Fólk á bágt þegar það ekki getur sýnt samstöðu þegar vá stendur fyrir dyrum.

 


mbl.is Tekist á um sóttvarnaaðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband