Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Landráð?

Það er undarleg sýn sem ráðherra hefur á fullveldi landa, eða stjórnarskrá. Að fela sig bakvið það að um "leiðréttingu á innleiðingu" sé að ræða er vægast sagt fráleitt.

EES samningurinn var gerður við Efnahagsbandalag Evrópu, var fyrst og fremst viðskiptasamningur. Síðan þá hefur orðið mikil eðlisbreyting á samstarfi Evrópuþjóða. Í stað Efnahagsbandalags er komið Evrópusamband. Eðlið orðið breytt og samstarf þessara þjóða orðið mun pólitískara en það var er EES samningurinn var samþykktur á Alþingi, með minnsta mögulega meirihluta.

Mesta eðlisbreytingin var í byrjun desember 2010, er Lissabonsáttmálinn var samþykktur. Sá sáttmáli lagði grunnin að enn frekara sjálfstæði ESB frá aðildarlöndum þess. Sambandið fékk þá ráðherra á ýmsum sviðum, s.s. utanríkismálum og aðild að stofnunum Sameinuðu þjóðanna, sem hvert annað þjóðríki.

Segja má að þegar þessi eðlisbreyting varð á Efnahagsbandalagi Evrópu og það varð að Evrópusambandi, hafi EES samningurinn fallið úr gildi. Í það minnsta hefði átt að endurskoða hann í samræmi við breytingu á EB yfir í ESB.

Allt frá upphafi samþykktar okkar í EES hefur hallað á okkar hlut í því samstarfi. Það var þó ekki fyrr en eðlisbreytingin úr EB yfir í ESB, sem fyrst fór að verða mikill halli þar á. Áður var það svo að hluti síðasta dags Alþingis, hverju sinni, fór í að samþykkja tilskipanir frá EB, en nú tekur daga að samþykkja þessar tilskipanir, í lok hvers þings. Þær eru bornar fram á færibandi og sjaldnast nokkur umræða um þær. Fæstir þingmenn hafa hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja.

Nú er það svo að allir samningar færa hvorum samningsaðila eitthvað gott, þó láta þurfi undan í öðrum málum. Svo er einnig varðandi EES samninginn. Hann er ekki alvondur þó áhöld hafi verið um gildi hans gagnvart stjórnarskrá þegar hann var samþykktur. Í dag þarf hins vegar enginn að efast um að ýmsar tilskipanir sem Alþingi hefur samþykkt, höggva svo nærri stjórnarskránni að ekki verður við unað. Þegar hoggið er að stjórnarskrá ríkis er verið að veikja sjálfstæði þess.

Við eigum auðvitað að eiga góð samskipti við aðrar þjóðir Evrópu, bæði þeirra er eru innan sem utan ESB. Við eigum hins vegar aldrei að láta slíkt samstarf vega að okkar eigin sjálfstæði. Þegar svo er komið að tilskipanir eru samþykktar án umræðu. á Alþingi, er ekki lengur hægt að tala um sjálfstæði þjóðarinnar.

Því þarf að óska eftir upptöku EES samningsins, koma honum í það horf er hann var hugsaður, viðskiptasamning. Að slíta sundur viðskiptatengsls frá stjórnmálatengslum. Þeir stjórnmálamenn sem ekki átta sig á þeirri staðreynd hvert komið er, eiga ekkert erindi á Alþingi. Þeir munu aldrei standa vörð lands og þjóða, eins og þeim ber. Það er landráðafólk.


mbl.is Hvorki vegið að stjórnarskrá né fullveldi framselt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt stykki fjall: 150 milljónir. Takk

Enn er landið okkar selt úr landi. Hvenær kemur að því að erlendir auðmenn eiga allt landið okkar?

Bærinn Horn í Skorradal hefur verið seldur erlendum auðjöfri á eitthundrað og fimmtíu milljónir króna. Hæsti tindur Skarðsheiðar og eitt fegursta fjallið í þeim fjallgarði, Skessuhorn, tilheyrir jörðinni Horni og því komið í eigu erlends auðjöfurs. Verðmiðinn er ekki hár, a.m.k. ekki miðað við þær framkvæmdir sem þessi erlendi aðili hyggst gera á hinni íslensku jörð sinni. Hyggst byggja þar smá sumarhús, 1000 fermetra. Það er auðvitað svo lítið að vart er hægt að hýsa þar gesti, svo hann hyggst einnig byggja 700 fermetra gestakofa. Minna má það auðvitað ekki vera.

Fyrir nokkru var sett bann á sölu á landi til erlends auðjöfurs. Ástæðan var að hann var kínverskur og því ekki innan EES/ESB samningsins, en eins og allir vita þá afsöluðum við sjálfstæði okkar yfir landinu til þjóða EES/ESB við undirritun þess samnings. Aðrir íbúar heimsbyggðarinnar eru ekki gjaldgengir hér á landi, nema auðvitað þeir séu alveg ofboðslega ríkir! Svo virðist vera með þennan nýríka Ameríkana.

Breskur lávarður náði að eignast nokkuð stórann hlut af Íslandi, meðan Bretland var enn undir ESB. Nú þykja Bretar ekki gjaldgengir til landakaupa hér, nema auðvitað þeir séu ofboðslega ríkir. Þar kemur BREXIT þeim í koll.

Fleiri dæmi um landakaup erlendra aðila hér á landi má nefna, bæði manna innan og utan EES/ESB. Sumir kaupa hér land í þeim tilgangi að flytja það beinlínis yfir hafið, bæði sanda og fjöll. Einungis þeim kínverska var hafnað. Auðvitað var það hrein mismunun og skal setja þá út af sakramentinu sem að þeirri aðför að austurlenskri menningu stóðu.

Og svo eru það allir hinir, frakkarnir, norðmennirnir og aðrir þeir sem vilja bæði kaupa hér lönd en einnig leigja, undir vindtúrbínur af stærstu gerð. Þeir eru flestir innan EES/ESB þannig að þeir þurfa ekki að óttast neinar kvaðir og þurfa ekki einu sinni að eiga neina peninga. Þar nægir fagurgalinn og snákaolían. Það eina sem enn stendur í vegi þeirra er íslenskt regluverk eða skortur á því. En fjármálaráðherra er búinn að gefa út að því verði kippt í liðinn, hið snarasta. Að allar reglur og öll lög sem standa í vegi þeirra verði löguð til og ef einhver lög eða reglur vantar verður það einnig lagað. Ekkert má standa í vegi fyrir því að erlendir aðilar nái að græða hér á landi. Það gætu nefnilega fallið einhverjir molar af borði þeirra, í "réttar" hendur.

Fulltrúar okkar á Alþingi, þessir sem við kjósum til að stýra hér landi og þjóð og þiggja laun sín úr okkar vösum, virðast allir sammála um að einhver bönd þurfi að setja á kaup erlendra auðjöfra á landinu okkar. En jafnvel þó samstaðan sé um nauðsyn þessa, virðist sama samstaðan ríkja um að gera ekki neitt í málinu. Horfa bara á landið okkar hverfa undir yfirráð erlendra auðjöfra eða jafnvel horfa á það flutt í skip og yfir hafið!

Aumingjaskapur þingmanna er algjör. Meðan þetta stendur yfir er rifist á Alþingi um dægurmál facebook og tvitter. Þar eru allir á kafi í smámálunum en þora ekki að taka á því sem skiptir máli. Þora ekki að standa vörð um land og þjóð. Það er spurning hvenær landið missir að endanlega sjálfstæði sitt, hvenær Alþingi verði sett af og landinu stjórnað alfarið af erlendum auðjöfrum.

Að Ísland  verði nýlenda erlendra auðjöfra!

 

 

 


Að útvíkka samstarf

Það má túlka á ýmsa vegu að "útvíkka samtarf". Fyrir ESB er túlkun þess þó einföld; enn frekari völd.

Útvíkkun samstarfs við ESB táknar það eitt að við höldum áfram þeirri óheilla vegferð að verða hluti af sambandinu, án þess þó að Alþingi eða þjóðin komi að þeirri ákvörðun. Þetta hentar einstaklega vel núverandi ríkisstjórn, en eins og ráðherra bendir á er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar að ganga opinberlega í ESB, þó margur stjórnarliðinn horfi þangað hýru auga. Hin leiðin þykir henta betur, að sneiða sjálfstæðið í litlum sneiðum yfir til ESB, hægt en örugglega þar til ekki verði aftur snúið.

Samstarf okkar við Evrópulönd, hvort sem þau eru innan ESB eða ekki, er með ágætum. Þetta samstarf er vissulega mikilvægt okkur, jafnt sem þeim og ber að hlúa að. Hins vegar er ekki það sama að segja um samstarf okkar við ESB, gegnum EES samninginn. Þar þarf að bæta úr. Túlkun þess samnings af hálfu ESB er skýr og því miður hafa stjórnvöld hér á landi ekki staðið í lappirnar í að verja þau gildi sem sá samningur var gerður um. Því hefur oftar en ekki hallað á okkar hlut í því samstarfi.

Þegar svo forsætisráðherra okkar gefur því undir fótinn að það samstarf þurfi að "útvíkka" er voðinn vís.


mbl.is Katrín og Scholz vilja útvíkka samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gefa út gúmmítjékka

Meðal íslenskra stjórnmálamanna, sér í lagi þeirra sem veljast til ráðherrastóla, þykir enginn maður með mönnum nema hann gefi út óútfylltan tékka (gúmmítjékka), á erlendri grundu. Stundum er ríkissjóð ætlað að greiða slíka tékka, en einnig þekkist að ráðamenn þjóðarinnar lofi peningum sem þeir hafa engin yfirráð yfir, eins og þeim peningum er landsmenn geyma í lífeyrissjóðum sínum. Sjaldnast liggur fyrir heimild fyrir slíkri tékkaútskrift, hvort heldur Alþingi á þar í hlut eða aðrir sjóðir ótengdir þeirri stofnun. Og nú hefur einn ráðherra gefið út slíkan tékka, án þess að hafa hugmynd um hver upphæð hans muni vera, hvað þá að einhver heimild liggi fyrir þeirri útgáfu.

Þessi sjóður, sem enginn veit hversu stór verður, enginn þjóð veit hvað hún þarf að leggja mikið til hans og að flestu leiti fátt um vitað, hefur Ísland verið skuldbundið til að þjóna, án aðkomu Alþingis.

Það eina sem liggur nokkuð ljóst fyrir er hvaða þjóðir muni geta sótt styrki í þennan sjóð. Það eru svokölluð "verr" sett ríki og hin betur sett eiga að greiða. Flest þessara "verr" settu ríkja hafa þó efni á að halda úti stórum herjum, eiga kjarnorkuvopn og senda rakettur út fyrir gufuhvolfið, sum stefna jafnvel á ferðir til tunglsins.

Þjóð sem heldur stóran her, á kjarnorkuvopn og jafnvel stundar það að skjóta rakettum út fyrir gufuhvolfd jarðar, þarf vart aðstoð frá öðrum, þegar eitthvað bjátar á. Hún virðist eiga næga peninga.

Og er þjóð sem ekki sóar peningum í herafla, kjarnorkuvopn eða rakettuleik, en hefur þó ekki efni á að hjálpa heimilislausum, fötluðum og öldruðum, svo vel sé, aflögufær til að hjálpa erlendum herveldum?

 

COP27 markar þó vissulega breytingu á áherslum, vegna hlýnunar jarðar. Jafnvel þó lítil sé hefur þessi hlýnun áhrif. Áherslan á að reyna að stýra hlýnuninni fer minnkandi, enda útilokað að breyta þar neinu. Áherslan á að takast á við þær breytingar virðist vera að ná meira vægi, þó enn sé horft til slökkvistarfa í stað forvarna. Þær þjóðir sem eru berskjaldaðastar fyrir þessum breytingum eiga flestar til nægjanlegt fjármagn sjálfar, þó vissulega séu örfáar þjóðir sem eru hjálpar þurfi. Meginreglan er þó að nægt fjármagn er til hjá þessum þjóðum.

Það er vonandi að ráðamenn heimsins haldi áfram á þessari braut, hætti að berja hausnum við stein og fari að gera eittvað sem máli skiptir. Við vitum ekki hversu mikið mun enn hlýna, né hversu lengi sú hlýnun stendur. Síðustu ár bera þó ekki merki þess að þetta ástand muni standa lengi. Hvort hröð og skelfileg kólnun komi í kjölfarið er ekki heldur vitað. Fari svo er fátt til hjálpar. Það eina sem vitað er, er að örlítið hefur hlýnar frá kaldasta tímabili þessa hlýskeiðs. Enn er þó langt í að hámarkshita þessa hlýskeiðs sé náð.

Vandi jarðar er ekki sveiflur í hitastig. Sveiflur í hitastigi er hins vegar vandi mannkynsins, enda sú skeppna jarðar sem erfiðast á með að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Þá gerir sú gífurlega fjölgun mannkyns það að verkum að það er enn berskjaldaðra.


mbl.is Gerir ráð fyrir þátttöku í lofts­lags­ham­fara­sjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er betra að vakna og pissa en...

Það er betra að vakna og pissa en pissa og vakna. Stjórnmálamenn í Noregi eru nú vaknaðir við þá ónotatilfinningu að hafa migið undir, meðan þeir íslensku liggja enn í hlandi sínu.

Orkupakki 3 frá ESB, sem EES löndum var ætlað að samþykkja, fékk mikla gagnrýni. Lærðir menn með þekkingu á málinu, vöruðu eindregið þjóðþingin við að samþykkja þennan orkupakka, bentu á að sjálfræði þjóðanna yrði skert verulega varðandi orkumál. Nú hefur þetta sannast í Noregi, en enn erum við ótengd meginlandinu, þó sumir sjái þar einhverjar ofsýnir. Íslenskir stjórnmálamenn láta sig enn dreyma, liggjandi í hlandi sínu!

Vissulega er það svo að ríkin eiga enn sínar orkulindir og dreifikerfi. Noregur á m.a.s. strengina er tengja landið við meginland Evrópu. Það dugir þó ekki til, því Noregur ræður ekki lengur hvert né hversu mikla orku skuli selja. Þar er undirstofnun ESB, ACER með öll völd. Í þeirri orkukrísu sem skollin er á meginlandinu og menn vilja kenna við stríðið í Úkraínu, þó auðvitað hún stafi fyrt og fremst af rangri orkustefnu ESB, hefur sambandið nýtt þessa undirstofnun sína til að totta eins mikla orku frá Noregi og hugsast getur. Ástandið í Noregi er því orðið vægast sagt skelfilegt. Verð á orkunni hefur tífaldast og það sem skelfir þó meira er að Noregur er að fara inn í veturinn með hálf tóm miðlunarlónin. Það stefnir því í mikinn orkuskort er líður á veturinn og eina leiðin fyrir þá verður að kaupa orku af sveltandi orkumarkaði meginlandsins. Eitthvað mun sú orka kosta! Ekki víst að norski olíusjóðurinn dugi þá lengi til niðurgreiðslna á raforkunni.

Enn sleppum við hér á landi. Það eru þó vissulega blikur á lofti. Einkum er tvennt sem gæti breytt þessari stöðu okkar og orkuverð hér farið í hæstu hæðir. Fyrst er auðvitað að nefna sæstreng til meginlandsins, en enn eru menn að halda þeirri hugmynd uppi hér á landi. Afstaða ESB í því máli er skýr, enda slíkur sæstrengur inn í þeirra plönum og verið lengi.

Hitt atriðið er aðild Íslands að ESB. Síðast í dag voru nokkrir stjórnmálaflokkar að boða inngöngu í sambandið. Þeir fara auðvitað öðrum orðum að þeirri tillögu sinni, vilja "skoða samning" og velja svo. Það er eins og þetta fólk sé ekki með öllum mjalla. Það er ekki um neinn samning að ræða, einungis hversu hratt og vel okkur tekst að aðlaga okkur að lögum og reglum ESB. Þáverandi utanríkisráðherra var minntur rækilega á þetta á fréttamannafundi með Stefáni Fule, eins og sést í þessu myndbandi. Það eru engar undanþágur frá lögum og reglum ESB. Fyrir samþykkt Lissabonsamningsins var hægt að fá frest á aðlögun minniháttar mála, en þó einungis til skamms tíma. Eftir að hann tók gildi, í byrjun desember árið 2010, var slíkum frestum úthýst.

Viðræður um aðild eru því einungis um hversu vel gengur að aðlagast hverjum kafla þeirra og að lokinni aðlögun er viðkomandi kafla lokað með samþykki viðræðunefndar ESB. Eftir að aðlögun allra kafla er lokið og þeir samþykktir af sambandinu, fara þeir til samþykktar allra aðildarþjóðanna. Eftir samþykkt þeirra er umsóknarland hæft til aðildar í ESB, enda búið að aðlaga stjórnkerfið, lögin og reglurnar, að fullu að lögum og reglum ESB. Þessa aðferðarfæði er svo oft búið að segja að allir landsmenn ættu að þekkja hana. Það er ekki verið að semja um eitt né neitt, einungis að uppfylla kröfur sambandsins til aðildar.

Hitt liggur ljóst fyrir að ef landráðamönnum tekst það ætlunarverk að koma landinu undir stjórn ESB, þurfum við ekki lengur að spá neitt í orkumál hér á landi, né neitt annað. Þá mun hver einasta lækjarspræna verða virkjuð, allir hverir landsins beislaðir og vindmilluófreskjur reistar á hverjum hól! Og öll orkan flutt með sæstrengjum til meginlandsins.


Hausar fjúka

Það verður ekki annað sagt en að Pútín er duglegur að losa sig við andstæðinga sína, jafnt innan sem utan landamæranna. Minnir nokkuð á ástandið í Rússlandi á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina, þegar Stalín lét sem mest að sér kveða innan eigin landamæra. Geðveikin hjá honum var slík að þegar Þjóðverjar réðust inn í Rússland var Stalín búinn að farga flestum reyndum herforingjum sínum og stóð uppi með höfuðlausan her.

Pútín hefur einnig verið duglegur að farga sínum herforingjum, en virðist þó leggja meiri áherslu á að losa sig við þá sem gætu ógnað honum á viðskiptasviðinu. Í dag eru það jú peningar sem stjórna.

Annars þyrfti sá fréttamaður er skrifar viðhengda frétt aðeins að rifja upp stærðfræðikunnáttu sína. Hann segir Nosov hafa fallið í febrúar síðastliðinn, 41 árs að aldri, fæddan 1978?!


mbl.is Fannst látinn á eyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður skammast sín

Það er hreint með ólíkindum að enn skuli finnast fólk á Íslandi sem mærir voðaverk Pútíns í Úkraínu. Þar er gripið til ýmissa hrútskýringa, til að réttlæta þessi voðaverk.

Áhugi Úkraínu á að ganga í ESB er ein röksemdarfærslan. Hvað þarf Rússland að óttast þó Úkraína gangi í ESB? ESB er ekki hernaðarbandalag, einungis efnahagsbandalag. Þetta sést best á því að Finnar og Svíar, sem eru innan ESB, gera ekki ráð fyrir mikilli hjálp þaðan, þegar Pútín snýr sér að þeim. Því hafa þeir nú talað um að sækja um aðild að NATO.

NATO er varnarbandalag. Það hefur aldrei sýnt neina tilburði til innrásar í Rússland. Hins vegar hefur bandalagið horft til þess að setja upp sterkari varnir gegn því að Rússar geti ráðist inn í vestari hluta Evrópu. Þetta hafa menn gagnrýnt gegnum tíðina þannig að minna hefur orðið úr slíkum vörnum. Saga dagsins segir okkur þó að þessi vilji til aukinna varna er síst ofmetinn.

Flest Evrópuríki Varsjárbandalagsins sóttu um aðild að ESB við fall Sovéts og sum þeirra einnig um aðild að NATO. Úkraína varð eftir á þeim tíma, enda leppstjórn Rússa þar við völd framanaf. Þegar íbúum Úkraínu tókst að kasta þeirri leppstjórn af sér var farið að tala um aðild að ESB. Hugmyndir um aðild að NATO komu síðar. Þetta var kringum 2014 og svöruðu Rússar með því að innlima Krímskaga og senda málaliða sína inn í austurhéruð Úkraínu. Her Úkraínu tók til varna í austurhéruðunum en hefur látið Krímskagann vera. Áttu auðvitað að sækja þangað líka.

Því hafa Rússar og Úkraína nú átt í stríði í átta ár og árangur Rússa þar vægast sagt lítill. Í febrúar síðastliðinn gerði síðan Pútín alsherjarárás inn í Úkraínu.

Það eru fátækleg rök að Rússum hafi staðið hætta af því að Úkraína sækti um aðild að ESB og reynda einnig þó sótt væri um aðild að NATO. Ekki frekar en að Eystrasaltsríkin eru bæði í ESB og NATO. Rússum stóð engin ógn af því, en aftur gerði það möguleika Pútíns til að endurheimta gamla Sovétið nokkuð erfiðara fyrir, en það hefur verið markmið hans frá því honum voru færð völd yfir Rússlandi.

Enn aumari eru skýringar Pútíns, sem jafnvel sumir hér á landi taka undir, um að nauðsynlegt sé að afnasistavæða Úkraínu. Um það þarf ekki að hafa mörg orð, svo fádæma vitlaust sem það er.

Það sem kemur manni þó kannski mest á óvart í umræðunni hér á landi er að margir málsvarar Pútíns í stríðinu eru einmitt þeir sem hingað til hafa komið fram sem málsvarar frelsis. Þetta fólk, sumt hvert, er tilbúið til að trúa áróðursvél Pútíns, tilbúið til að trú manni sem setur ritskoðun í land sitt og skirrist ekki við að fangelsa þá sem fara á svig við þá ritskoðun. Þetta fólk hér á landi, sem þykist málsvarar frelsis, réttlætir með öllum hugsanlegum ráðum innrás Pútíns inn í Úkraínu, reynir að réttlæta ofbeldið sem þar viðhefst og viðbjóðinn. Það er með öllu útilokað að réttlæta innrás eins ríkis á annað.

Úkraína hefur ekki stundað hernað gegn Rússlandi, hefur einungis tekið til varna gegn málaliðum og hermönnum þeirra 2014 og varist allsherjarinnrás Rússa nú í vetur. Það er því aumt að til sé fólk hér á landi sem réttlætir ofbeldi Rússa.

Að mæla gagn þjóð sem ver sig gegn innrásarher er eitthvað það aumasta sem finnst í fari hvers manns! Maður skammast sín fyrir að til sé fólk hér á landi sem er þannig þenkjandi!


mbl.is Ógnarverk Rússa í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkleysi vestrænna stjórnmálamanna

Mikið óskaplega hlýtur þetta nú hlýjað íbúum Úkraínu um hjartarætur, sérstaklega þeim er berjast fyrir lífi sínu í Mariopol. Og auðvitað hlýtur Pútín vera brjálaður yfir þessari ákvörðun, að banna Zetuna.   Þvílík hræsni sem þetta er! Kjarkur vestrænna stjórnmálamanna skorar ekki hátt!

Ég hef sagt það áður og segi það enn að mannfallið í Úkraínu má að öllu leyti skrifa á kjarkleysi vestrænna stjórnmálamanna. Þeir óttast Pútín! Það vantar hins vegar ekki samstarfsmáttinn þegar verið er að ráðast inn í lönd einhversstaðar "langtíburtistan". Þá eru NATO og UN samstíga og safna liði. Hins vegar fellur samstaðan fyrir kjarkleysinu þegar um er að ræða að verja bakgarðinn.

Strax við upphaf innrásar Pútíns í Úkraínu var ljóst að eitthvað stórkostlegt var að í hernaðarmætti þessa stórveldis. Strax fór að bera á vandamálum innan rússneska hersins, sér í lagi landhersins. Loftherinn virtist eitthvað betri en fyrst og fremst hefur eyðileggingarmáttur og morðin á þegnum sjálfstæðrar þjóðar, stafað af eldflaugaárásum, oftast af rússneskri grund. Til að verjast þeim árásum hefur her Úkraínu fá tól. Landher Úkraínu er hins vegar vel sambærilegur landher Rússa, jafnvel betri. Þetta hefði átt að auka kjark vestrænna stjórnmálamanna, hefði jafnvel átt að gefa þeim kjark til að senda eitthvað öflugri vopn en haglabyssur og hergögn sem voru orðin ónýt vegna lélegrar geymslu. Hugsanlega hefði þetta átt að gefa vestrænum stjórnmálamönnum kjark til að stöðva Pútín í eitt skipti fyrir öll, með beinni hernaðaríhlutun, svona a la  langtíburtistan.

En því er ekki að heilsa. Kjarkurinn leyfir ekki slíka "dirfsku", kjarkurinn leyfir einungis einhverjar efnahagsþvinganir, þó ekki meiri en svo að valdar vestrænar þjóðir beri ekki skaða af. Svo þegar eitthvert gamalmennið óvart hugsar upphátt, eru þau orð samstundis leiðrétt, til að skaprauna nú ekki Pútín. Þetta er nú allur kjarkurinn og á meðan blæðir heilli þjóð!

Þúsundir manna, kvenna og barna hafa goldið þetta kjarkleysi vestrænna stjórnmálamanna, með lífi sínu og enn fleiri munu falla, verði ekki gripið til róttækra aðgerða strax! Það er einfaldlega ekki í boði að láta einhvern brjálaðan einræðisherra drepa fólk, hvort heldur eigin þegna eða þegna annarrar sjálfstæðrar þjóðar.

 

 

 


mbl.is Zetan bönnuð í hluta Þýskalands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úkraína er að falla og heimsfriðurinn með

Það er orðið ljóst að Pútin mun ná yfirráðum yfir Úkraínu, með samþykki hinna svokölluðu "frjálsu" ríkja. Lítið er gert til hjálpar, einhverjum skotfærum komið áleiðis og viðskiptaþvinganir settar á en þess þó gætt að öflugustu ríki ESB tapi sem minnstu vegna þeirra. Það hjálpar íbúum Úkraínu lítið og Pútín mun yfirtaka landið á næstu dögum.

En hvað svo? Halda ráðamenn þessara svokölluðu "frjálsra" ríkja að hann mun láta það duga, að hann muni stoppa þar?

Hundur sem hefur fundið blóðbragð leitar sífellt að meira blóði. Hann er einungis stoppaður á einn hátt!


mbl.is Forsetafrúin: „Svona lítur Úkraína út núna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við lifum svarta tíma.

Enn aukast líkur á heimsstyrjöld, af þeirri tegund sem áður er óþekkt. Pútín virðist gjörsamlega hafi glatað vitinu og hótar nú beitingu kjarnavopna. Hvar þeim skuli beitt er ekki vitað, en líkur eru á að það muni ekki vera nærri Rússlandi, ekki í Úkraínu. Hundar skíta sjaldan nærri bæli sínu.

Nú hafa vestrænir stjórnmálamenn loks áttað sig á hvað virkilega er í gangi, að verið er að hernema fullvalda ríki með hervaldi og mannfórnum. Aðgerðir þeirra eru ágætar, svo langt sem þær ná. Aðstoð með hervopn mun vissulega hjálpa Úkraínu, en alls ekki nóg til að hrekja Pútín til baka. Viðskiptaþvinganir bitna fyrst og fremst á óbreyttu fólki, innan og utan Rússlands. Þær munu ekki vinna þetta stríð.

Beiti Pútín kjarnorkuvopnum er spurning hvar það verður. Hann segir það svar við "fjandsamlegum" aðgerðum vesturvelda, svo líklega mun hann hugsa þau sem skotmörk. Hvað ætla vesturveldin að gera þá? Skjóta kjarnorkuflaugum til baka? Það stríð vinnur enginn!

Á vesturlöndum hefur fyrst og fremst verið horft til að byggja upp varnir gegn tölvuhernaði, að þaðan stafaði mesta ógnin. Nú sést að það var skáldskapur. Hvorki gat Pútín nýtt sér þá aðferð gegn Úkraínu, né hafa vesturveldin getað stoppað hann af í sinn árárás, eftir tölvuleiðum. Enn er stríð framið með mannfórnum. Á meðan vesturlönd einblína á tölvur, hafa bæði Rússar og Kínverjar byggt upp heri sína. Nú er svo komið að sjóher Kína er orðinn stærri en sjóher Bandaríkjanna, bæði er varðar fjöld hermanna og skipa. Því lítið mál fyrir Xi að fylgja fordæmi Pútíns og yfirtaka Taívan. Reyndar miklar líkur á að hann muni gera það.

Það eru svartir tímar framundan. Af aumingjaskap var einum kexrugluðum harðstjóra leift að ráðast með her inn í fullvalda ríki og slátra þar íbúum. Það var ekki fyrr en þeir áttuðu sig á að þessi ruglaði maður horfði einnig í átt til þeirra sem einhverjir vöknuðu. En það var of seint. Mannslífum hefur verið fórnað af óþörfu.

Ekki verður séð hvernig allsherjarstríði verður afstýrt. Eina leiðin er að fella Pútín af stóli. Það tekur tíma. Hins vegar tekur það hann ekki nema eitt símtal að senda kjarnorkuflaugar af stað. Hvar Ísland lendir í því stríði er algerlega óljóst.

Við lifum svarta tíma.


mbl.is Kjarnorkusveitir Rússa í viðbragðsstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband