Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Anað stjórnlaust út í fenið
9.5.2023 | 09:28
Það er hverju orði sannara að grípa þarf til aðgerða gegn verðbólgunni. Hvað skal gert og af hverjum, er aftur stór spurning.
Það sýnt sig að aðgerðir Seðlabankans eru ekki að virka, reyndar frekar að auka vandann og búa til snjóhengju sem mun síðan falla með skelfilegum afleiðingum. Ástæðan er einföld, hin séríslenska mæling verðbólgu. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er kostnaður vegna kaupa og leigu húsnæðis hluti þessarar séríslensku mælingu, eitthvað sem ekki þekkist hjá samanburðarlöndunum. Þetta gerir mælingu verðbólgu hér mun hærri en ytra.
Vaxtahækkanir leiða til hækkunar á húsnæði, einföld staðreynd. Því leiðir vaxtahækkun til aukinnar verðbólgu. Einnig einföld staðreynd. Seðlabankinn horfir hins vegar til þess að aukin sala húsnæðis auki verðbólgu. Vissulega er staðreynd þar einnig að baki, en einungis ef ofþensla er í byggingu íbúðahúsnæðis. Þegar skortur er á húsnæði, virka vaxtahækkanir öfugt. Þá leiðir skortur á húsnæði til þess að verð hækkar enn frekar. En vaxtahækkanir minnka sannarlega umsvif í þjóðfélagin, einkum byggingar á húsnæði. Þegar skortur er til staðar þegar vaxtahækkunum er beitt, leiðir það til enn frekari skorts.Snjóhengju sem mun falla.
Fólk þarf einhversstaðar að búa. Fyrir ekki svo löngu benti seðlabankastjóri á að fólk gæti búið lengur hjá foreldrum sínum. Staðan er hins vegar orðin sú að oftar en ekki þurfa barnabörnin einnig að lifa inn á foreldrum foreldra sinna og styttist í að barna barna börnin þurfi að auki að búa í húsum foreldra foreldra foreldra sinna. Þetta er auðvitað fráleit nálgun seðlabankastjórans. Að koma í veg fyrir að ungt fólk geti komið sér upp heimili og að fasteignaviðskipti milli fólks, er engin lausn verðbólgunnar.
Því þarf Alþingi að breyta lögum á þann veg að peninganefnd Seðlabankans noti sambærilega verðbólgumælingu og aðrar þjóðir, að kaup og leiga á húsnæði verði afnumin úr mælingunni. Seðlabankinn þarf einnig að fara hóflegar í að setja hömlur á bankana til að lána fyrir slíkum kaupum. Það er alveg sérstakt umhugsunarefni að hægt sé labba inn í næstu bílaverslun og kaupa þar bíl með stóran hluta verðsins tekinn að láni, láni sem er afgreitt á staðnum gegnum síma, meðan fólk getur ekki keypt sína fyrstu fasteign nema eiga margar milljónir inn á bók. Að hægt sé að kaupa járnarusl sem verður verðlaust á örfáum árum en er meinað að kaupa sér fasteign sem eikur verðgildi sitt. Þetta er náttúrulega galið.
Þá er vandséð hvernig vaxtahækkun á þegar útgefin lán geti unnið gegn verðbólgunni. Lán sem fólk tekur í góðri trú og er borgunarhæft fyrir, samkvæmt þeirri stöðu sem ríkir er lánið er tekið. Það getur ekki hætt við lánið, nema með því einu að selja fasteignina. Aðgerðir Seðlabankans koma hins vegar í veg fyrir það, svo þetta fólk sér ekki fram á neitt annað en gjaldþrot. Vaxtahækkanir til að halda niðri verðbólgu mega aldrei gilda á önnur lán en þau sem tekin eru eftir að vaxtahækkunina. Þarna þurfa stjórnvöld einnig að koma inn í með lagasetningu. Að treysta á samfélagsábyrgð bankana er eins og að treysta á Satan til að komast gegnum gullnahliðið.
Stjórnvöld hæla sér hins vegar að því að hafa hækkað húsaleigubætur. Það er þeirra framlag og ekkert annað. Hækkun húsaleigubóta hefur ætíð sýnt sig í hækkun húsaleigu og þar með aukinni verðbólgu. Virkar þver öfugt.
Stjórnvöld þurfa auðvitað fyrst og fremst að draga úr sínum rekstri. Leggja áherslu á að halda grunstoðunum gangandi en hætta öllu öðru.
Þar má af mörgu taka, sumu smáu eins og látlausum ferðalögum ráðamanna til annarra landa, öðru stærra eins og minnkun eð öllum þeim nefndum, stofnunum og blýantsnögurum ríkisbáknsins sem ekkert gera nema sjúga fjármuni úr ríkissjóð. Skila engum verðmætum til baka.
Þegar í harðbakkann slær, eins og nú gerist hér á landi með því að verðbólgan er hærri en við viljum sjá, er grundvöllurinn að skoða hvað veldur og reyna að taka á því. Kaup og leiga á húsnæði er ekki vandamál þjóðarinnar, eða ætti ekki að vera það. Sá vandi er algerlega heimatilbúinn. Vandinn liggur fyrst og fremst vegna utanaðkomandi aðstæðna og svo í kjölfarið hækkanir á öllu hér á landi í framhaldi af því. Nú fer verð vöru og þjónustu lækkandi erlendis með tilheyrandi lækkun verðbólgu. Það er mikilvægt að þessar lækkanir skili sér hingað til lands. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er fá vara framleidd hér á landi sem er ekki háð erlendum aðföngum. Meðan erlend aðföng lækka ekki til samræmis við lækkun erlendis, mun ekki vera hægt að taka á verðbólgunni hér á landi. Þetta er einföld staðreynd sem jafnvel seðlabankastjóri skilur. Að treysta á einhverja samfélagslega ábyrgð innflytjenda hefur ætið sýnt sig vera draumórar.
Aðgerðir Seðlabankans hafa hins vegar skilað bankakerfinu gífurlegan gróða. Aðgerðir stjórnvalda hafa fitað leigusala meira en þeim er hollt. Og aðgerðaleysi stjórnvalda hafa fitað þau fyrirtæki sem hafa getað nýtt sér þetta ástand til að sjúga fé af fólki.
Þegar vaðið er út í fenið er einungis um tvo möguleika að ræða, að halda áfram og sökkva til dauðs, eða snúa til lands og finna betri leið. Þetta þurfa stjórnvöld og peningastefnunefnd að gera upp við sig. Ætla þau að halda áfram út í fenið, eða snúa til baka og finna betri leið?
Grípa þarf strax til raunverulegra aðgerða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Lágkúra
4.5.2023 | 16:38
Það er útaf fyrir sig sérstakt rannsóknarefni hvers vegna Dagur leggur þvílíka áherslu á að koma flugvellinum burt úr Reykjavík, hverra hagsmuna hann er að gæta þar. Enn undarlegra er þó að honum skuli hafa tekist að véla formann Framsóknar til að heimila byggingu nærri vellinum, þvert á fyrir samþykktir.
Það kemur skýrt fram að byggð við Skerjafjörð mun hafa truflandi áhrif á flug um völlinn. Síðan er bætt við að minnka megi þá truflun með mótvægisaðgerðum. Ekkert kemur fram í skýrslunni sem segir að hægt verði að halda sama öryggi fyrir flug um völlinn, einungis að truflunina megi minnka með mótvægisaðgerðum. Hverjar þær mótvægisaðgerðir eru er minna sagt. Þannig að samkomulagið frá 2019, sem segir að öryggi flugvallarins skuli tryggt jafn gott eða betra, þar til annar flugvöllur hefur verið byggður, er því í öllu falli brostið.
Hver á svo að fjármagna þessar mótvægisaðgerðir. Varla ríkissjóður. Og vart er hægt að treysta borginni til þess, enda getur hún nú auðveldlega bent á að samkomulagið frá 2019 sé brostið og því engin þörf á þær mótvægisaðgerðir.
Framsóknarmenn eru komnir út í horn með þetta mál, mál sem þingmenn og flokksfélagar hafa barist hart fyrir gengum árin. Sjá að þeir léku þarna stórann afleik. Komið er fram með skýringar sem ekki standast skoðun og vísa í samkomulag sem þeir sjálfir hafa gert að engu. Þetta er lágkúra af verstu gerð og vart hægt að komast neðar.
Oddviti Framsóknar stútaði flokknum í Reykjavík, með því að halda áhæfri borgarstjórn á lífi. Nú vinnur formaður flokksins hörðum höndum að því að klára flokkinn á landsbyggðinni, með því að brjóta eigið samkomulag við borgina um öryggi flugvallarins í Reykjavík. Flugvallarins sem er lífæð landsbyggðarinnar. Víst er að framsókn mun ekki ríða feitum hesti í Reykjavík, eftir næstu sveitarstjórnarkosningar og flokkurinn má þakka fyrir að ná inn þingmanni að loknum næstu alþingiskosningum. Niðurrif flokksforustunnar á eigin flokki er fáheyrð.
Treysti niðurstöðum sérfræðinganna í þessu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Green eða grín
4.5.2023 | 01:37
Það er orðið lítill munur á enska orðinu green, sem gjarnan er notað í nafni náttúruverndar og íslenska orðinu grín, sem allir þekkja.
Sala á kolefniskvóta af raforkuframleiðslu, héðan frá Íslandi til Evrópu er eitt dæmi um slíkt grín, undir nafninu green. Reyndar hefur verið sett stöðvun á þessa sölu, þar sem upp hefur komið að fyrirtæki sem eru starfrækt hér á landi auglýsa að þau noti hreina íslenska orku. Vandinn er að orkufyrirtækin höfðu selt einskonar aflátsbréf til meginlandsins, þar sem fyrirtæki þar ytra gátu auglýst að þau nýttu þá íslensku orku. Allir vita að sama orkan verður jú ekki notuð tvisvar og því hefur öll sala þessara aflátsbréfa verið stöðvuð.
Auðvitað er það svo að orka verður ekki notuð nema hægt sé að koma henni frá framleiðanda til notanda. Þetta er augljóst. Því er sala á hreinleika orkunnar út fyrir dreifikerfi Íslands hrein og klár fölsun, skjalafölsun. Þó fyrirtæki hér á landi kaupi ekki kolefniskvóta getur hver maður séð að þau nota eftir sem áður hreina íslenska orku. Hreinleiki hennar verður ekki til með einhverjum stimplum á pappír, hreinleikinn verður til við framleiðsluna.
Annað grín dæmi eru vindorkuver. Þar er fátt sem kalla má "green". Mengun frá vindorkuverum er fjölbreytt og mikil en þó er ekki um mikla co2 mengun að ræða frá þeim, ef undan er skilinn bygging þeirra. Þ.e. steypan í undirstöðurnar, framleiðslan á járninu í turninn, framleiðslan á plastinu í spaðana sem að grunni til er unnið úr olíu, framleiðslan á búnaðinum sem kallar á mikið magn af fágætum jarðefnum, flutningur þessa alls frá framleiðslustað að byggingastað og uppsetning. Að þessu slepptu er ekki um mikla co2 mengun að ræða frá vindorkuverum. En þá tekur hin mengunin við. Sjónræn mengun er auðvitað afstæð. Þó flestum þyki þessi ferlíki ljót getur vel verið að einhverjir heillist af þeim. Hitt verður ekli deilt um að örplastmengun á fyrstu rekstrarárum vindorkuvera er mikil og síðan fer fljótlega að bera á stærri plastmengun frá þeim. Þetta berst út í náttúruna.
SF6 eða Sulfur Hexafluoride, er gastegund sem er talið 23.900 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en co2 og hefur líftíma allt að 3.200 árum. Magn SF6 í andrúmslofti hefur aukist verulega hin allra síðustu ár og er sú aukning rakin til vindorkuvera. Gas þetta er notað til einangrunar og kælingar á rofum orkuvera. Við stöðugan rekstur eins og öll hefðbundin orkuver hafa, er vandinn ekki mikill. Hins vegar er vandinn mikill í óstöðugum orkuverum, þar sem rofar eru sífellt að opna og loka. Þessi mengun er alveg sérstakt áhyggjuefni og umræðan um að flokka vindorkuver sem óhrein komin á fullt erlendis. Jafnvel talið að gas og olíuorkuver séu "hreinni" en vindorka.
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að vindorkuver nota mikla olíu í rekstri, bæði á gírkassa og spenna. Auk þess sem skipta þarf reglulega um þessa olíu, með tilheyrandi hætti á slysum, eru vindtúrbínur gjarnar á að leka af sér þessari olíu og dreifist hún þá út í náttúruna. Þessir lekar sjást gjarnan illa, þar sem spaðarnir kasta henni burtu.
Landsvæði það er þarf undir vindorkuver er mjög víðfeðmt. Fyrir hverja MW einingu sem framleidd er þarf margfalt meira land en vatnsorkuver ásamt uppistöðulóni. Þetta skapast fyrst og fremst af því hversu hver vindtúrbína er afkastalítil en þó fremur vegna þess að rekstrartími þeirra er stopull. Fyrir hvert framleitt MW þarf uppsett afl vindorkuversins að vera a.m.k. 60% stærra.
Lengi má telja upp ókosti vindorkuvera enda fáir kostir við þau.
En það er með þetta eins og svo margt annað, stjórnmálamenn horfa með blinda auganu gegnum rörið. Ef einhver segist hafa hugmynd þar sem hægt er að koma orðinu "green" fyrir, opnast allar gáttir. Sama hversu heimskulegar þær eru eða hvort mengun eða sóðaskapur frá þeim er mikill. Þessi hugsun mun aldrei bjarga jörðinni né loftslagi hennar. Horfa þarf heildstætt á hvern vanda og finna lausnir samkvæmt því. Hér á landi er enn næg vatnsorka og ekki fyrr en hún þrýtur sem við ættum að horfa til vindorkunnar, þ.e. ef ekki verður búið að banna slík orkuver þá.
Ef málið væri ekki svona alvarlegt, ef stjórnmálamenn væru ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, fórna náttúru landsins og lífsskilyrðum landsmanna, væri þetta auðvitað bara GRÍN.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skaðleg fyrir land og þjóð
2.5.2023 | 09:52
Það hefur ætíð þótt hyggilegra að bíða með ríkisstjórnarmyndun þar til eftir kosningar. Og enn er nokkuð langt í næstu kosningar.
Flug hins nýja formanns Samfylkingar hefur verið nokkuð skarpt. fallið niður gæti allt eins orðið jafn skarpt. Í raun eru engar forsendur fyrir þessu flugi formannsins, áherslur svipaðar en þó kannski það sem mest virkar að ekkert er talað um inngöngu í ESB, eitt helsta mál flokksins. Margan þingmann Samfylkingar svíður að mega ekki nefna það áhugamál á nafn, en hinn nýi formaður virðist vilja vinna að því bak við tjöldin.
En skoðum aðeins sögu Samfylkingar. Flokkurinn var stofnaður um síðust aldamót og því einungis rétt skriðinn á þriðja áratug í aldri. Á þessum stutta tíma er afrekasaga flokksins vægast sagt skelfileg. Hann var í hrunsstjórninni, síðan í minnihlutastjórn í skjóli Framsóknar og loks í eftirhrunsstjórninni. Þetta teljast víst þrjár ríkisstjórnir þó þær tvær síðarnefndi séu í raun ein og hin sama.
Um hrunstjórnina þarf fátt að segja. Minnisstæðast er þó fylgilag flokksins við suma hrunverjana, rétt eins og fræg ræða þáverandi formanns, svokölluð Borgarnesræða, gaf skýrt í ljós. En hvað um það, Samfylking sat í ríkisstjórn þegar landið fór nánast á hausinn.
Ekki tók betra við þegar flokkurinn hafði skipt um formann og myndað eftirhrunsstjórnina, sem sumir vilja kalla Jóhönnustjórn. Þá fyrst sást hið rétta eðli Samfylkingar. Lofað var að standa vörð um heimilin. Það loforð fólst hins vegar í því að taka heimilin af fólki. Lagst var fyrir fótum erlendra fjármagnsafla á kostnað heimila landsins. Ef ekki hefði komið til afskipti forseta af störfum þessarar ríkisstjórnar, væri Ísland sennilega orðin hjálenda Breta og Hollendinga. Aðildarumsókn að ESB var eitt fyrirferðamesta mál þeirrar stjórnar, sem var að lokum gerð afturreka á þeirri vegferð af sambandinu. Allt það sorgartímabil í sögu Samfylkingar þarf svo sem ekki að rifja upp fyrir fólki, svo stutt sem liðið er frá henni. En endalokin voru skýr, flokkurinn mátti þakka fyrir að lifa af kosningarnar vorið 2013.
Ekki er huggulegra að hugsa um aðkomu Samfylkingar að borgarstjórn. Þar hefur flokkurinn verið við völd í 13 löng ár, síðustu 9 árin með forsetu. Nú er ástand borgarinnar komið á þann veg að skuldahlutfallið er komið langt umfram þau viðmið sem sett voru, svo borgin gæti talist stjórnhæf. Reyndar var viðmiðið hækkað fyrir skömmu, svo ekki þyrfti að grípa til aðgerða strax, af hálfu landsstjórnarinnar, en það var einungis örstuttur frestur. Greiðslufalli borgarinnar verður ekki afstýrt.
Það er því undrun hversu hátt Samfylking mælist í skoðanakönnunum. Ætla rétt að vona að þar sé eitthvað gruggugt í gangi, neita að samþykkja að landsmenn séu svona víðáttu vitlausir. Það er alveg sama hversu fólki finnst um aðra flokka, hvort heldur er til hægri eða vinstri, engum stjórnmálaflokk hefur tekist á jafn stuttum tíma að skaða þjóðina jafn mikið og Samfylkingu.
Það er vægt til orða tekið að segja að Samfylking sé skaðleg fyrir land og þjóð.
Þegar farin að undirbúa ríkisstjórnarstarfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sannur framsóknarmaður
1.5.2023 | 08:05
Fyrir utan hagsmunaaðila hafa sennilega engir verið eins ötulir í því að halda Reykjavíkurflugvelli á lofti en framsóknarmenn. Þingmenn flokksins og aðrir flokksfélagar hafa verið duglegir í ræðu og riti í vörn flugvallarins. Þar hefur núverandi formaður ekki látið sitt eftir liggja. Þar til fyrir skömmu.
Framsókn fékk góðan byr í síðustu borgarstjórnarkosningum, undir merkjum þess að nú væri kominn tími breytinga í borginni. Ekki tók þó langan tíma fyrir oddvita flokksins að brjóta það kosningaloforð og gekk til liðs við þann flokk sem borgarbúar höfðu þá hafnað í tvígang. Breytingar í borginni voru ekki lengur forgangsmál. Og formaðurinn spilaði með, rétt eins og sannur Framsóknarmaður.
Nú eru það túlkanir Dags sem blífa. Segi hann að byggja verði við flugvöllinn, samþykkir formaður framsóknar byggingu við flugvöllinn, enda flokkur hans orðinn samherji Dags. Samkomulag sem formaður framsóknar gerði við Dag er ekki lengur heilagt, eða kannski ekki lengur túlkað samkvæmt því sem þar er ritað, heldur er það nú túlkað eins og Dagur vill túlka það.
Í því samkomulagi var sagt að völlurinn skildi rekinn á sama stað þar til annar sambærilegur kostur fyndist, að öryggi vallarins yrði jafn gott eða betra en áður, þar til nýr völlur hefði verið byggður. Þetta er einföld setning sem segir í raun allt sem segja þarf. Þó hefur Dagur viljað hoppa yfir þessa setningu í samkomulaginu, eins og honum er tamt þegar eitthvað er ekki eins og hann vill. Er með einstaklega sérstakan lesskilning. Og nú hefur mótaðilinn, undir stjórn framsóknar, tekið undir þann skilning Dags.
Sagt er að Framsóknarflokkur sé opinn í báða enda og vissulega er formaðurinn sannur framsóknarmaður.
Neikvæð áhrif bygginga á flugvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sirkusinn við Austurvöll
27.4.2023 | 09:13
Þegar eitthvað klikkar eða slys verða í sirkusum eru trúðarnir kallaðir á sviði. Til að draga athygli fólks frá því sem misfórst.
Nú er athygli þingmanna og almennings dreginn að einhverjum minniháttar dægurmálum, meðan verið er að fórna stjórnarskrá okkar og lýðveldi yfir til ESB og fórna afkomu okkar um alla framtíð.
Landráðamenn kallast þeir sem þessa bókun samþykkja.
Bókun 35 hraðað á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blekkingar á blekkingar ofan
24.4.2023 | 16:55
Þá er yfirferð umhverfisráðherra um landið hafin. Ferð til að sá sem mestum blekkingum í huga fólks, svo liðka megi fyrir stórmengandi og algjörlega óafturkræfum vindorkuverum. Þar skiptir ekki sannleikurinn máli, einungis blekkingar.
Fyrst þegar ráðherra kynnti skýrslu starfshóps síns, fann hann það út að Ísland væri 30 til 50 árum á eftir öðrum þjóðum í nýtingu vindorkunnar. Þó er ekki orð um þá fullyrðingu ráðherrans í sjálfri skýrslunni. Nú nefnir hann að staðsetning vindorkuvera skipti mestu máli og vissulega má segja að staðsetning hafi komið fram í skýrslunni. Engin afstaða var þó tekin til þess máls í henni, frekar en öðrum atriðum. Og fráleitt að segja að staðsetning eigi einhvern stórann hlut í afurð stýrihópsins.
En þetta skiptir þó minnstu máli. Að við séum á eftir öðrum þjóðum í nýtingu vindorkunnar gefur okkur þann kost að læra af mistökum annarra. Um staðsetninguna þarf vart að ræða, enda vart til sá blettur á Íslandi þar sem vindorkuver mun ekki sjást, hvort heldur er frá byggð eða einstökum náttúruperlum okkar. Mun í öllu falli rýra okkar fallega land og rýra þá stoð hagkerfis okkar sem við köllum ferðaþjónustu.
Það sem mestu skiptir í umræðunni um vindorkuver er hvort vindorka sé hrein og afturkræf. Hvorugt stenst skoðun. Vindorkuver er mjög mengandi orkukostur. Augljóslega er sjónmengun þeirra mikil, örplastmengun frá þeim er gífurleg, skaðlegar gastegundir eru mjög miklar, olíumengun er viðvarandi, auk þess sem rekstrakostnaður þeirra er mun meiri en vatnsorkuvera. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að vindorkan er mjög óstöðug, jafnvel svo að uppsett afl þeirra þarf að vera 60 - 70% hærra en nýtanleg orka, Og landsvæðið sem vindorkuver þarf til rekstrar er allt að 90% meira en landsvæði fyrir vatnsorkuver, með uppistöðulóni. Það er ekki með neinum hætti hægt að réttlæta vindorkuver, meðan vatnsorka er í boði.
Ég er enn að velta fyrir mér fullyrðingu ráðherrans um 30-50 árin. Hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir að ekkert hafi verið um það rætt í sjálfri skýrslunni.
Ef við skoðum söguna, þ.e. beislun vinds til raforkuframleiðslu, kemur í ljós að fyrsta vindtúrbínan var reist fyrir 136 árum síðan, af Charles F Brush. Þetta var nokkuð stórt fyrirbæri en orkuframleiðslan lítil. Þetta þróaðist þó upp í að farið var að framleiða litlar vindtúrbínur við sveitabæi og náðu nokkrar slíkar að komast hingað til lands. Þær voru vægast sagt óstöðugar og varla hægt að treysta á þær á neinn hátt.
Það var svo Palmer Cosslett Puttman sem fyrstur kom fram með vindtúrbínu sem hafði yfir 1 MW uppsett afl. Má segja að það hafi verið upphafið af þeirri þróun sem nú á sér stað. Þetta var fyrir 82 árum síðan. Þessi vindtúrbína Puttmans gekk þó ekki nema um 1000 tíma, þar til spaðarnir rifnuðu af henni og þar með lauk þeirri tilraun.
Næstu fjörutíu ár þar á eftir skeði ekkert í nýtingu vindorkunnar, utan auðvitað til þurrkunar á þvotti. Það er því ekki nema um 42 ár síðan byrjað var fyrir alvöru að virkja vind til raforkuframleiðslu. Því skítur nokkuð skökku við að ráðherra telji okkur vera allt að 50 árum á eftir öðrum þjóðum í nýtingu vindorkunnar.
En blekkingaleikur á ekkert skylt við staðreyndir. Þar gilda allt önnur lögmál. Sem dæmi um blekkingaleikinn, utan þess sem að ofan er talið, má nefna hvernig orðræðan er. Það er talað um vindmillur og vísað þar í litlar og sætar kornmillur á örkum Hollands og fleiri ríkja. Allar aðrar þjóðir gera greinarmun á vindmillum og vindtúrbínum, enda eðli þeirra gjör ólíkt og stærð, umfang og sjónmengun fjarri því sambærileg. Þá er gjarnan talað um vindlundi, eða vindgarða, þegar blekkingum er haldið fram. Þetta á ekkert skylt við lundi eða garða, heldur er um að ræða risastór vindorkuver sem taka yfir stór og mikil landflæmi. Afturkræfni er gjarnan nefnd í þessum blekkingum, en fráleitt er að skila aftur viðkvæmu hálendinu til sama vegar, þegar vindorkuverið hefur lifað sína daga. Jafnvel þó lagt yrði í þann gífurlega kostnað að brjóta upp og eyða undirstöðum vindtúrbínanna og fjarlægja allt það sem fylgir hverju slíku mannvirki, mun taka landið sjálft hundruð ára að verða samt aftur. Að ekki sé talað um þá gífurlegu losun co2 við slíka hreinsun.
En, eins og áður hefur komið fram, blekkingarleikur á ekkert skylt við staðreyndir. Hitt er alvarlegra, þegar ráðherrar ganga fram fyrir skjöldu og stunda slíkan blekkingaleik fyrir mis gæfulega ævintýramenn, gjarnan erlenda. Síðast þegar stjórnmálamenn og stjórnvöld stunduðu slíkan blekkingaleik fór landi nánast á hausinn og fjöldi fjölskyldna lenti á vergangi. Og enn á að fórna landi og þjóð!
Staðsetningin helsta álitamálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30 til 50 árum á eftir ...
23.4.2023 | 01:09
Skýrsla starfshóps umhverfis og iðnaðarráðherra um nýtingu vindorku var opinberuð við mikla athöfn síðasta miðvikudag. Ráðherrann var ekki lengi að sjá kjarna skýrslunnar, "Ísland 30 til 50 árum á eftir öðrum þjóðum". Svo mörg voru hans orð. Reyndar kemur þetta hvergi fram í sjálfri skýrslunni, en hvað með það. Frasinn er góður að mati ráðherra. Og forsætisráðherra hamrar síðan járnið í fréttum á ruv, þar sem hún hræðir okkur landsmenn með miklum komandi sköttum, takist ekki að minnka hér losun co2 út í andrúmsloftið, en mat þeirra allra heilögustu í Brussel er að okkur gangi það frekar illa.
Aðeins um skýrsluna, eða kannski öllu heldur bókina. Þar kemur fátt fram. Í skipunarbréfi starfshópsins kemur fram hvaða atriði skuli skoðuð. Þessi atriði eru talin upp aftur og aftur, án neinnar niðurstöðu. Greinilegt að hópurinn þorði hvorki að segja af eða á eð nokkurn skapaðan hlut. Þó má segja að ef skýrslan er grannt skoðuð, að nýting vindorku hér á landi sé vart gerleg. Í lokaorðum kristallast kjarkleysi hópsins til að taka afstöðu til málsins, en þar segir m.a.:
"Starfshópurinn telur brýnt að stjórnvöld setji skýra stefnu um hagnýtingu vindorku, óháð
því hvort hún falli undir lög 48/2011 um rammaáætlun eða ekki. Vel útfærð og formlega
samþykkt heildarstefna myndi án vafa geta myndað skýran ramma fyrir alla þá aðila,
opinbera sem einkaaðila, sem vinna að málefninu og getur stuðlað að sátt".
Frekar þunnur endir á langri bók, svo ekki sé meira sagt.
Ráðherra umhverfis og auðlindamála telur hins vegar skýrsluna mikið afrek. Eins og áður segir gat hann lesið úr henni að við værum langt á eftir öðrum þjóðum í nýtingu vindorkunnar, auk þess sem hann taldi skýrsluna vera kjörna til að vinna frekar að framgangi vindorkuvera hér á landi. Allir vita hvar hugur ráðherrans liggur í því efni. Kannski einhverjir hagsmunir fyrir hann, svona eins og suma kollega hans.
Það er stundum sagt að við Íslendingar viljum alltaf finna upp hjólið, aftur og aftur. Þetta hefur á stundum leitt þjóðina í mikla eymd. Skemmst að minnast bankahrunsins, á þessari öld en hugsa má lengra aftur í tímann, jafnvel aftur til þrettándu aldar, til að sjá hversu vitlausir við erum. Að vera 30 til 50 ár á eftir einhverjum öðrum gefur þann kost að læra af mistökum þeirra. Svo er með nýtingu vindorkunnar. Við getum lært af mistökum þeirra sem eru komnir svo langt fram úr okkur á því sviði. En nei, íslensk stjórnvöld vilja ekki læra, þau vilja finna upp hjólið!
Orðum fylgir ábyrgð. Það er háalvarlegt mál þegar ráðamenn þjóðarinnar lofa einhverju sem ekki er hægt að standa við, sér í lagi í samskiptum við aðrar þjóðir. Ísland gerðist aðili að Kyoto bókuninni og hefur fylgt þeim þjóðum eftir sem að henni komu í markmiðum að minnkandi losun co2 út í andrúmsloftið. Markmiðum sem allir vita að ekki verður náð. En okkar forsætisráðherra bætti um betur á einum þeirra funda sem þjóðhöfðingja flugu til og lofaði að Ísland yrði kolefnislaust árið 2040 og að árið 2030 yrði samdrátturinn kominn í 40%. Hins vegar er talað um 30% minni losun meðal annarra þjóða og það markmið er víst í húfi, hjá okkur. Náist það ekki munum við þurfa að greiða háar upphæðir fyrir kolefniskvóta, af einhverjum sjóðum sem eru á höndum ESB. Strax í upphafi var séð að þessu markmiði yrðu vart náð og alls ekki hér á landi, þar sem orkuskipti til húshitunnar hafði þegar farið fram og ekkert tillit tekið til þess. Þetta er sú orkunotkun sem vegur hæst í almennri orkunotkun og algjörlega galið að ekki skuli tekið tillit til þess. Þá er spurning hvaða áhrif á þessa útreikninga háu herranna í Brussel, sala slíkra kvóta úr landi hafa. Þurfum við að kaupa kolefniskvóta erlendis frá, vegna þess að orkan okkar er sögð vera framleidd með kjarnorku og kolum?
Það er ekki tilviljun að forsætisráðherra bryddar upp á þessu malefni í fréttum. Helstu rök vindbaróna fyrir að leggja land okkar undir slíkan óþrifnað sem vindorkuver eru, er einmitt skuldbinding okkar til kolefnisjöfnunar. Þeir hafa þó vit á að nefna ekki kolefnisleysi, eins og ráðherra, enda slíkt með öllu ófært.
Vindorkan hefur verið nýtt erlendis um nokkurn tíma, 30 til 50 ár að mati orkumálaráðherra, en staðreyndin er að nýtingin á sér mun lengri tíma. Þó við förum nú ekki aftur til miðalda, þegar vindur var látinn knýja kornmillur, hefur vindur til raforkuvinnslu verið þekktur um langa tíð. Smárellur á sveitabæjum var víða þekkt, jafnvel hér á landi. Seinna fóru stærri mannvirki að sjást erlendis, þó hér væri þróun hæg. Það sem kannski veldur er að við þurfum ekki vindorkuver, ólíkt ýmsum öðrum þjóðum. Við höfum nægt vatn og vatnsorkuver hefur alla yfirurði yfir vindorkuna. Stöðugleiki vindorku er mjög lítill, jafnvel svo að setja þarf upp meira en helmingi meira uppsett afl en það sem nýtist. Það eitt og sér gerir vindorkuna óhagstæðari en vatnsorkuna. Landsvæði sem þarf fyrir vindorkuver er margfalt meira en fyrir vatnsorkuver, að miðlunarlónum meðtöldum.
Að bera Ísland saman við þjóðir eins og Danmörk, þar sem engin virkjanleg á rennur, er fráleitt. Vindorkuver geta undir einstökum tilfellum verið réttlætanlegar, svo sem á eyjum og svæðum þar sem enginn annar hreinorkugjafi er til staðar. Reyndar er langt seilst að kalla vindorku hreinorku. Liggur nærri olíuorkuverum að hreinleika og mun óhreinni en gasorkuver. En það er efni í annan pistil. Seinna.
Ísland 30 til 50 árum á eftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Draumórar, fallegur texti og fráleit kostnaðaráætlun
13.4.2023 | 00:09
Þá er hvítbók Reykjavíkurborgar varðandi snjóhreinsun komin út. Fallegur texti og margar hugmyndir, svo sem að snjómagn skuli ráða snjómokstri og upphitun gatna með hitaveitu, ásamt fleirum undarlegum hugmyndum.
Það er þó ekki fyrr en búið er að pæla í gegnum allan fallega textann, fyrstu 28 blaðsíðurnar af 32 og kostnaðaráætlunin á síðustu fjórum blaðsíðunum er skoðuð, sem sést hvað þessi vinna er lítils virði og byggð fyrst og fremst á draumórum.
Ef tekin eru dæmi úr kostnaðaráætluninni, sem samtals hljóðar upp á 190 milljónir má nefna einn þátt sem hugsanlega getur staðist raunveruleikann, en þó varla. Það er kostnaður við ráðningu manna til eftirlits snjóruðnings, upp á heilar 50 milljónir á ári. Aðrir liðir eru svo fjarri raunveruleikanum að furðu sætir. Sem dæmi um einskiptisaðgerð um fjölgun tækja til snjóhreinsunar, upp á 5 milljónir. Það er ekki hægt að fá neina vinnuvél keypta fyrir þann pening. Minnsti liðléttingurinn eru dýrari og þá á eftir að kaupa snjótönn eða snjóblásara á hann. Þessi upphæð dugir vart fyrir virðisaukaskatti af skilvirku snjóruðningstæki.
Öll þessi áætlun ber þess merki að þeir sem hana sömdu vita fátt um snjóhreinsun. Þeir liðir sem hugsanlega geta staðist eru þeir sem snúa að skrifstofuvinnu borgarinnar, en allir liðir er snúa beint að sjálfri snjóhreinsuninni er eru vanreiknaðir, sumir jafnvel svo að undrun sætir.
Auðvitað á að miða snjóhreinsun að snjómagni. Það þarf ekki einhvern stýrihóp til að komast að þeirri einföldu staðreynd. Og auðvitað væri gott ef hægt væri að hita upp gatnakerfið, en meðan tæplega er til heitt vatn til að hita hús borgarinnar og sundlaugum er lokað, er varla til vatn í slíka draumóra.
190 milljónir hljóðar þessi áætlun uppá. Stór hluti þeirrar upphæðar á að notast við skrifborð borgarstarfsmanna. Væri ekki betra bara að nota allan peninginn til snjóhreinsunar? Það er ekki eins og það séu einhver vísindi sem liggja að baki þeirrar vinnu. Og gaman væri einnig að vita hver kostnaður við þessa hvítbók var. Þann pening hefði einnig mátt nota til snjóhreinsunar.
Draumórar, fallegur texti og fráleit kostnaðaráætlun er besta lýsingin á afurð þessa stýrihóps.
Svona vill borgin bæta snjómokstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
First we take Manhattan - then we take Berlin
12.4.2023 | 08:29
Þegar Hvalfjarðargöng voru opnuð með athöfn hafði Reykjavíkurborg nýlega sameinast Kjalarnesi. Því kom í hlut þáverandi borgarstjóra, ISG, að vera fulltrúi við þá athöfn. Er hún kom upp úr göngunum að vestanverðu vitnaði hún í Cohen og sagði þessi orð: First we take Manhattan - then we take Berlin. Enginn efaðist um hvað hún var að meina og fór kuldahrollur um margann skagamanninn.
En nú er öldin önnur. Reykjavíkurborg stefnir í gjaldþrot, meðan rekstur Akraness gengur þokkalega. Samkvæmt reikningum bæarins fyrir síðasta ár þá var skuldahlutfallið einungis 20%, sem er næstum því íslandsmet. Því er spurning, er kannski ekki rétta að snúa þessum orðum ISG við, að Akranes yfirtaki bara Reykjavík? Að bærinn fari í örlítið stærri landvinninga en hingað til.
Að vísu er eitt sveitarfélag í milli, Hvalfjarðarsveit, enn betur sett fjárhagslega en Akranes. Það ætti þó ekki að vera mikið vandamál. Tilvonandi bæjarstjóri og formaður bæjarstjórnar Akranes eiga báðir rætur til Hvalfjarðarsveitar. Reyndar býr tilvonandi bæjarstjóri í því sveitarfélagi. Því má eiginlega segja að einungis formsatriði sé að sameina þau tvö sveitarfélög og síðan halda í austur, undir Hvalfjörðinn.
Nafnið á hinu nýja sveitarfélagi gæti orðið:
Akra víkur sveit, eða Hval nes vík.
Og auðvitað yrði bóndinn á Reyn borgarstjóri og strákurinn frá Miðfelli forseti borgarstjórnar.
Dagur og Einar þurfa þá ekki að óttast neina frekari niðurlægingu.
Segja borgina vilja forðast niðurlægingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |