Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Stórmennskan söm við sig
10.10.2023 | 00:28
Það hefur aldrei skort stórmennskuna í okkur landsmenn. Eitt sinn áttum við mestu og bestu fjármálasnillinga heims. Landinn dýrkaði þessa menn sem nýja guði, stjórnmálamenn, listafólk, menntafólk og bara hver sem vildi láta að sér kveða, kepptust við að komast í mjúkinn hjá þessum snillingum. Erlendis var hlegið að okkur, enda vissu menn þar að þetta gæti aldrei gengið upp. Það fór líka svo, þessir snillingar voru bara alls engir snillingar. Voru bara skúrkar sem komust yfir bankakerfið og öll stærstu fyrirtæki landsins, sem landsmenn höfðu byggt upp í sveita síns andlits. Þessu offruðu hinir svokölluðu snillingar og settu landið nánast á hausinn. Ætla mætti að þetta hefði kennt okkur eitthvað. Svo er þó ekki að sjá.
Stórmennskan er enn söm. Að vísu fer minna fyrir fjármálasnillingunum, sem fórnuðu auð landsins. Þeir vinna nú á bak við tjöldin, eru hægt og sígandi að leggja undir sig því sem bjargað var og byggt upp, af því sem þeir sóuðu. Þá eru þessir menn duglegir við landsölu til erlendra auðmanna, og ráðast þar gegn sjálfri náttúrunni.
En stórmennskan er víðar á ferð. ekki hvað síst innan stjórnmálastéttarinnar. Þar er okkur landsmönnum talin trú um að við getum verið svo ofboðslega mikið leiðandi og góð fyrirmynd á erlendri grundu, í því verkefni að bjarga heimsbyggðinni! Ráðherrar keppast við að lofa því sem útilokað er að standa við, væntanlega til að koma sér í mjúkinn hjá einhverjum erlendum stórmennum. Sendar eru fjölmennir hópar fólks til útlanda að taka þátt í hinum ýmsu ráðstefnum. Þar telur þetta fólk sig hafa einhver áhrif. Enn á ný verðum við aðhlátursefni á erlendri grundu.
Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að við erum örþjóð sem býr á afskekktri eyju við ystu mörk þess byggilega? Hvenær ætla ráðamenn að skilja það að við eigum nóg með okkur sjálf, getum ekki fórnað neinu til erlendra afla nema því aðeins að herða sjálf verulega sultarólina? Þar er ekki mikið borð fyrir báru hjá almenningi!
Við eigum nóg með okkur. Gætum lifaða ágætu lífi hér á landi ef stórmennskunni er hafnað. Þekking er almennt ágæt, en fjarri því að við getum verið að segja að við höfum einhverja afburða þekkingu, umfram aðrar þjóðir. Þjóð sem skilar stórum hluta barna út úr skyldunámi, ólæsu, getur ekki státað sig af afburðaþekkingu á einhverjum sviðum. Og ekki er menntakerfið neitt sérlega hátt metið á alþjóðavísu, þegar að framhaldsmenntun kemur. Háskólar hér komast vart á blað í þeim samanburði. Allt sem við þekkjum og vitum er vitað erlendis. Það er fyrir löngu búið að finna upp hjólið.
Við erum og getum verið öflug fyrirmynd annarra þjóða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við brúsapallinn
8.10.2023 | 09:23
Síðasta fimmtudag kom Bændablaðið til okkar lesenda þess. Magnað hvað blaðinu tekst ætíð að ná fram því jákvæða í fréttum af bændum, kannski um of. Glensið er ekki langt undan á síðum blaðsins, eins og fyrirsögn fréttar um að 500 manns hafi verið á hesti. Ekki slæmt að eiga slíkan gæðing.
Þegar sest er við brúsapallinn er ekki annað hægt en að hugsa til þeirrar graf alvarlegu stöðu sem bændur landsins standa frammi fyrir, þrátt fyrir að Bændablaðinu takist að láta líta svo út að þar sé allt í besta lagi. Sjaldan eða aldrei, frá því land byggðist, hefur staða landbúnaðar verið jafn slæm og nú. Bændum fækkar sem aldrei fyrr og þeir sem eftir standa draga við sig í búskap. Byggðir eru að fara í eyði, endurnýjun bændastéttarinnar er nánast útilokuð og þeir sem hafa dug og djörfung til að reyna slíkt, enda oftar en ekki sem gamalmenni fyrir aldur fram og jafnvel eignalausir eftir nokkurra ára strit. Ungir bændur hafa þann eina möguleika til að eignast bújörð og áhöfn, að sækja vinnu frá búinu. Nú er staðan orðin sú að slíkt dugir ekki lengur. Jafnvel þó menn leggi á sig langan vinnudag og sinni búi eftir vinnu seint að kvöldi og fyrir vinnu snemma að morgni, dugir það engan veginn. Eina sem slíkt skilar er að líkaminn gefur sig. Að vinna 18 til 20 tíma á sólahring, til langs tíma, er ekki beinlínis hollt.
En hvað veldur? Þegar stórt er spurt er oft erfitt um svör.
Augljósast, þessi misserin, er sú okurvaxtastefna sem stjórnvöld standa að. Seðlabankanum eru sett lög og í eymd sinni og getuleysi til að standast þau lög, hefur bankinn hækkað stýrivexti fram úr hófi. Gerir það sama aftur og aftur þó fullreynt sé að árangur verður verri en enginn. Ekki nokkrum bónda dytti til hugar að etja klár sínum lengra og lengra út í fenið, þegar séð er að botninn er löngu farinn. Hann myndi snúa til lands og leita annarra leiða til að komast yfir. Vandi bænda er þó dýpri en vaxtaokur stjórnvalda. Það er bara súkkulaðimylsnan á rjómatertunni.
Hinn eiginlegi vandi bændastéttarinnar er hugarfar landsmanna. Fyrir um fjórum áratugum hófst grímulaus aðför að bændum og hefur tekist að breyta svo hugarfari landsmanna að jafnvel eru til bændur sem trúa því að þeir séu þurfalingar. Allt hófst þetta með þeirri fásinnu að halda því fram að hvergi á byggðu bóli væru greiðslur til bænda úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, hærri en hér á landi. Jafnvel því haldið fram á hvergi í veröldinni væru slíkt kerfi nema hér á landi. Það tók tiltölulegan stuttan tíma til að þessi skoðun næði eyrum margra kjósenda og sumir stjórnmálamenn voru betur læsir á þær breytingar en aðrir. Stukku á vagninn. Við skulum átta okkur á þeirri staðreynd að á þessum tíma var upplýsingaöldin nokkuð fjarri því sem nú er. Stjórnmálaflokkar gáfu út sín flokksblöð, sem auðvitað voru lesin af flokksbundnum kjósendum. Ein útvarpsstöð var í landinu og þeir sem náðu eyrum hennar voru nokkuð á grænni grein. Þar bar nokkuð mikið á boðberum "sannleikans". Síðar var farið að gefa út blað sem presinteraði sig sem frjálsan fjölmiðil. Þar áttu bændur lítinn stuðning en boðberar hugarfarsbreytinga því meiri.
Því reyndist nokkuð auðvelt að telja þjóðinni trú um að landbúnaður hér á landi væri baggi á þjóðinni. Baggi sem nauðsynlegt væri að losna við. Byggðastefna og aðrar slíkar kreddur voru ekki til í hugum boðbera "hins eina sanna sannleiks".
En nú er öldin önnur. Nú er hægt að seilast í vasa sinn og taka þar upp smá tæki sem getur gefið manni allar þær upplýsingar sem hægt er að finna, um víða veröld. Þar má sjá að flestar þjóðir hins vestræna heims greiða úr sínum sameiginlegu sjóðum til landbúnaðar. Þar má einnig sjá að þar erum við Íslendingar langt á eftir öðrum þjóðum. Þar má einnig sjá að þegar áföll verða í sambandi landbúnað, þurfa bændur ekki að fara betlandi hendi til stjórnvalda til að fá aðstoð. Slík aðstoð kemur yfirleitt að fyrra bragði frá stjórnvöldum. Skiptir þar einu hvort um er að ræða áföll vegna uppskerubrest, vegna verðfalls landbúnaðarvara, vegna okurvaxta stjórnvalda eða bara af hvaða stofni áföll skella á.
Erlendis er hugarfar gagnvart bændum nokkuð annað en hér á landi. Þar skilur fólk nauðsyn þess að halda uppi landbúnaði, skilur nauðsyn þess að halda uppi byggð á viðkvæmum svæðum, skilur að án bænda er engan mat að fá, engin föt að fá og jafnvel ekki heldur neitt áfengi! Þar skilur fólk að til að landbúnaður geti þrifist er nauðsynlegt að greiða til hans úr sameiginlegum sjóðum, ella þurfi að hækka laun almennings verulega. Þar skilur fólk að það kostar að framleiða matvæli. Hér á landi hefur, gegnum látlausan áróður undanfarinna fjögurra áratugar, tekist að telja fólki trú um að landbúnaður gæti rekið sig á loftinu einu saman. Að bændur væru ofaldir.
Hvergi á byggðu bóli er skipting á milli frumframleiðslu matvæla, vinnslu þeirra og sölu, jafn óréttlát og hér á landi. Bóndinn þarf að ala skepnur í langan tíma þar til afurðir fara að berast. Í flestum tilfelum tekur um tvö ár áður en mjólk fæst úr grip, eða hann verður sláturhæfur til kjötvinnslu. Afurðastöðin tekur við gripum, slátrar þeim og vinnur kjötið og geymir í frystigeymslum í allt að einu ári. Verslunin tekur kjötið að láni frá vinnslunni og skilar aftur náist ekki að selja fyrir síðasta söludag.
Bóndinn skilar því langmestu vinnuframlagi á mjólkurlítrinn eða kjötkílóið, vinnslan kemur þar skammt á eftir og ber ábyrgð á að kjötinu sé fargað, náist ekki að selja það. Reyndar færir vinnslan kostnaðinn við þá ábyrgð yfirleitt niður til bóndans, en það er önnur og sorglegri saga. Verslunin gerir að eitt að hringja eftir vörunum, taka við peningum frá neytendum og skila síðan aftur því sem ekki selst. Skipting auranna er þó nokkuð fjarri því að fylgja vinnuframlaginu eða ábyrgðinni!
Ég hef áður skrifað um svokallaðar niðurgreiðslur til bænda. Bent á að þær greiðslur væru ekki í þökk eða þágu bænda, heldur til þess gerðar að halda niðri launum. Þetta á við hvar sem slíkar greiðslur tíðkast. Það skiptir þó mestu máli er að fólk átti sig á raunveruleikanum. Að það kostar að framleiða mat. Að það kostar að halda landinu í byggð. Byggðastefna er ekki eitthvað montyrði, notað fyrir kosningar. Byggðastefna byggir á því að halda landi í byggð og einfaldast og ódýrasta aðferðin til þess er að efla landbúnaðinn, gera hann þannig að bændur geti lifað sómasamlegu lífi af landbúnaði og verið stoltir verka sinna. Byggðastefna byggir ekki á því að bændur vinni sig í þrot, verði gamalmenni fyrir aldur fram og þurfi að sjá á eftir búum sínum. Stolt yfir glæsilegu verki dugir þar skammt, eitt og sér.
Ekki verður rætt um vanda landbúnaðar án þess að ræða örlítið um innflutning matvæla. Auðvitað er það svo að sum matvæli verða ekki framleidd hér á landi, en þau sem hægt er að framleiða á að framleiða hér. Forsvarsmenn verslunarinnar eru þessu ekki sammála. Segja að landbúnaðarvörur eigi að flytja inn ef hægt er að fá þær ódýrari erlendis. Að þarna eigi peningar að ráða. Aldrei hef ég séð að þessar "ódýru innfluttu matvörur" á mikið lægra verði í kjötborði hér, enda kostar sitt að flytja þær heimsálfa á milli. Þá kemur aldrei fram í málflutningi þessara manna að þessar vörur eru þegar niðurgreiddar erlendis, ekki úr íslenska ríkisjóðnum heldur ríkissjóðum þeirra landa sem matvælin eru sótt til. Ef verslunin hér á landi þyrfti að greiða þessi innfluttu matvæli á kostnaðarverði, dytti engum til hugar að reyna innflutning þeirra.
Eins og áður segir er auðvelt að finna hvaða upplýsingar sem er gegnum snjallsíma. Þar má einnig finna að hvergi í veröldinni er minna notað af lyfjum í landbúnaði og hér á landi, hvergi.
Hví ættum við þá að flytja inn mengaðan mat sem hægt er að framleiða hreinan hér?
Dagur með buxurnar á hælunum
4.10.2023 | 09:20
Þegar stjórnmálamenn taka fram frasa máli sínu til framgangs, eru þeir rökstola. Hvað kemur fótbolti erlendis skipulagi heilla íbúðahverfa hér á landi við? Hver eru tengslin?
Annars verður að segjast að það má kalla stór undarlegt að þessi vinningstillaga um uppbyggingu Keldnalands, skuli hafa fengið hljómgrunn. Þarna ægir saman öllu því versta úr byggingalist, en umfram allt er svo þjappað að byggðinni að vart mun sjást til sólar á þeim litlu blettum sem ætlaðir eru til útivistar.
Borgarstjóri væri maður af meiru ef hann girti upp um sig brækurnar og svaraði gagnrýni með rökum.
Þýðir lítið að leggja til að Liverpool hafi unnið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er betra að sólin sýni sig
2.10.2023 | 17:37
Borgarfulltrúi heldur því fram að Norðmenn geti framleitt allt að 3,3 Terawöttum rafmagns með sólarorku, einungis með því að setja slíkar sellur á þök sín. Ef við gefum okkur að þetta sé rétt, þá ættum við landsmenn að geta framleitt tæplega kvart terawatt á okkar þökum. Norðmenn eru jú nærri 5,5 milljónir talsins, meðan við Íslendingar teljum tæp 400 þúsund hræður.
Líklegra er þó að borgarfulltrúinn hafi eitthvað ruglast á tölum eða táknum. Sólarselluframleiðendur gefa flestir upp framleiðslugetu á hvern fermeter sólarsellu, um 300 Wött. Sumir halda því fram að þetta muni aukast í framtíðinni, að ný og betri tækni sé handan við hornið! Þessar tölur miðast við lönd þar sem sól skín skærar en hér á Íslandi. Fara þarf nokkuð norður fyrir Þrándheim til að komast á sömu breiddargráðu og Reykjavík er á.
Ok., gefum okkur nú að Norðmenn geti framleitt 3,3 TW af rafmagni með sólarsellum á húsum sínum. Það segir að hver einstaklingur í Noregi hefur yfir höfði sér um 2000 fermetra af þaki, fjögurra manna fjölskylda um 8000 fermetra. En það segir þó ekki alla söguna. Ef gott ris er á þakinu, sem svo gjarnan er á norskum húsum, nýtist ekki nema helmingur þess til orkuöflunar. Þá þarf fjögurra manna fjölskyldan að hafa um 16000 fermetra yfir höfði sér!
Ekki veit ég hvort reiknað hafi verið hver meðal fjöldi fermetra af þaki tilheyri hverri persónu eða fjölskyldu hér á landi. Það er ekki mikið og fer lækkandi vegna þéttingarstefnu Reykjavíkurborgar, þar sem hús eru nú byggð upp í loftið, hvert ofaní öðru, til að fá sem flestar íbúðir á hvern fermeter lands. Kannski má ætla að í Reykjavík sé þetta kannski að meðaltali 50 fermetrar á hverja fjögurra manna fjölskyldu, sennilega nokkuð vel áætlað. Það segir að hægt væri að framleiða með þessum hætti 0,0000105 TW, þegar sólin skín. Kannski eitthvað meira en meiri líkur á að það yrði minna.
Varla mun það breyta miklu, hvort heldur er til orkuskiptanna eða í vasa húseigenda. Auðvitað munu þeir sem svo vel búa að eiga stór einbýlishús geta framleitt mest, meðan leigutakar í austantjaldsbyggingum sem nú eru byggðar eru af miklum móð, njóta einskis.
Ég verð að segja að ég tel þá ríku alveg geta greitt sjálfir fyrir að elta sólina, ríki eða borg þarf ekkert að styrkja þá.
Þegar eitthvað hljómar of ótrúlegt til að geta verið satt, er það yfirleitt ekki satt.
Gæti annað allri orkuþörf heimila | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlalæsi, hatursorðræða og popúlismi
1.10.2023 | 00:34
Enn er áréttað innan veggja ruv að frétt sé frétt en ekki skoðun. Ekki er víst vanþörf á.
Fjölmiðlalæsi, hatursorðræða og popúlismi eru orð dagsins. Umræðan snýst um hvernig hægt sá að koma höndum og böndum á þessi hugtök. En hvað er þar um að ræða?
Fjölmiðlalæsi er notað æ oftar og þar gjarnan átt við að fólk eigi ekki lengur að treysta á sig sjálft til að greina á milli þess sem er rétt og rangt. Það á að treysta á að fjölmiðlar segi satt og rétt frá. Og ef svo óheppilega vill til að fjölmiðill hafi farið með rangt mál á hann einungis að endursegja fréttina, hellst án þess að fram komi að um leiðréttingu sé að ræða. Því miður er engum fjölmiðli á Íslandi treystandi á þessu sviði. Þar er sorglegust framganga fréttastofu ruv, sem lætur pólitík ráða fréttaflutningi, segir frá skoðunum en ekki fréttum.
Hatursorðræða er aftur annað mikið notað orð. Allt hatur og sér í lagi líkamsmeiðingar eru með öllu óréttlætanleg. Skiptir þar einu hver verður fyrir slíkri meðferð. Hér á landi er það þó svo að þetta orð er einkum notað þegar ákveðnir hópar verða fyrir óréttlæti, en þykir ekki henta er aðrir hópar verða fyrir samskonar árásum. Erlendis er þetta svolítið annað. Þar er orðið hatursorðræða meira notað þegar fólk er ekki sammála ráðandi öflum. Kemur í sjálfu sér ekki hatri við, heldur pólitískum skoðunum.
Orðið popúlismi eða lýðhyggja heyrist ekki mikið hér á landi. En skilgreining þess orðs er "einföld og óraunhæf lausn á flóknu máli". Hellst að þeir sem stunda popúlisma sem mest noti þetta á skoðanafjendur sína. Þar er gjarnan gengið í sömu hjólför og víða erlendis, þar sem allir stjórnmálaflokkar er ekki fylgja meginstraumnum fá á sig þetta orð. Skiptir þá engu þó viðkomandi stjórnmálaflokkar hafi nokkuð fylgi að baki sér, einungis að þeir eru með aðrar hugmyndir en ráðandi öfl.
Hér bar nokkuð á notkun þessa orðs í icesave málinu, þar sem þeir sem börðust þar fyrir þjóðina fengu þetta viðurnefni, auðvitað frá þeim er vildi þóknast erlendu ofurvaldi. Þjóðin stóð hins vegar með þem er börðust lífróðri landsins og seinna skáru dómstólar úr um að þar hafði ekki neinn popúlismi verið til staðar.
Hægt er hins vegar að nota þetta orð yfir þá sem segja krónuna ónýta og reyna að telja þjóðinni trú um að upptaka á erlendum gjaldeyri muni laga hér allt. Boða einfalda lausn á flóknu vandamáli. Þar eru evru sinnar hvað harðastir, ljúga því vísvitandi að þjóðinni að hægt sé að taka upp evru án inngöngu í esb, þó Lissabonsáttmálinn taki eindregið fyrir þann möguleika.
Forsætisráðherra hefur áhyggjur af hatursorðræðu og jafnvel einnig lélegu fjölmiðlalæsi þjóðarinnar. Hún hefur svo sem ekki mikið talað um popúlisma, en sjálfsagt truflar hann einnig hug hennar. Í þessu skyni hefur hún boðað frumvarp til að taka á þessum málum. Sjálfsagt vill hún vel og víst að í hennar huga er hatursorðræða einfalt hugtak. En hún ætti að átta sig á því að hún verður ekki forsætisráðherra til eilífðarnóns. Það koma aðrir á eftir henni. Það er ekki víst að þeirra hugur til þessara hugtaka sé eins einfaldur og hennar, sé meira í ætt við hvernig erlendar stórþjóðir og þjóðasambönd skilgreina þessi orð. Að í stað varnar þeirra sem minna mega sín, verði þessi löggjöf nýtt í pólitískum tilgangi. Að þeir sem ekki vilji þóknast ráðandi öflum verði dæmdir samkvæmt henni.
Til að setja löggjöf um eitthvað verður skilgreiningin um efnið að vera á kristaltæru. Skilgreiningin á hatursorðræðu er langt frá því að vera tær. Eins og hún er notuð hér á landi í dag á hún við hatur gegn ákveðnum hópum en ekki hatri gegn öðrum. Erlendis er skilgreiningin pólitísk. Meðan skilgreiningin er ekki á hreinu, er ekki hægt að setja löggjöf um hana. Ekki frekar en að ekki er hægt að setja löggjöf um fjölmiðlalæsi eða popúlisma.
Eldra fólk viðkvæmara fyrir röngum upplýsingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stefnubreyting?
28.9.2023 | 09:00
Eru stjórnvöld að taka nýja stefnu í loftlagsmálum? Umhverfisráðherra kynnti fyrir stuttu nýja skýrslu, "Loftlagsþolið Ísland", þar sem virðist sem stefnan sé tekin á að aðlagast loftlagsbreytingum í stað þess að reyna að berjast gegn þeim. Eða er ráðherra kannski bara farinn að undirbúa sig fyrir næstu kosningar?
Reyndar er þessi skýrsla skrifuð eftir vinnu 300 einstaklinga í 13 "vinnustofum", svona eitthvað sovéskt fyrirbrigði, þannig að sennilega er hvorki hugur né hönd ráðherrans nærri þeim markmiðum sem þarna voru kynnt. Þá verður að segjast eins og er að hugmyndir skrifstofustjóra Veðurstofunnar, um endurreikning og aðlögun upplýsinga eitthvað sem erfitt er að átta sig á, að þar sé verið að spila hættuspil.
Ráðherra er hins vegar ekki í neinum efa um að þjóðaröryggi landsins sé undir í þessum málaflokk. Þó sé enn nægur tími til stefnu, ekki nein krísa. Að verkefnið sé einungis sem löng brekka sem komast þurfi upp.
Í annarri örlítið nýrri frétt er ráðherrann hins vegar kominn í gamla farið aftur, farinn að tala um baráttu gegn veðurbreytingum, í stað þess að ræða aðlögun að þeim. Þar kynnir hann eflingu loftlagsráðs.
Það væri gott ef ráðherrann gæti ákveðið sig. Það skiptir jú verulegu máli hvort við ætlum að reyna að breyta veðrinu eða aðlaga okkur að því. Litlar líkur eru á að fyrri kosturinn sé geranlegur en þann síðari er augljóslega framkvæmanlegur, hvort heldur er til þess að veður hlýni eða kólni. Báðir þessir möguleikar munu kosta landsmenn aukin fjárútlát, aukna skatta. Kosturinn við þann síðari er þó að þeir aurar munu kannski nýtast meira hér innanlands, meðan fyrri kosturinn mun koma andlitslausum erlendum aðilum best, mun flytja fé í miklu mæli úr landi.
Vonandi er þetta hringl ráðherrans ekki bara kosningabaul. Vonandi er hann farinn að átta sig á að við breytum ekki veðrinu, þó vissulega við getum aðlagað okkur að breyttum veðuraðstæðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Draugar fortíðar, Glámur og esb.
25.9.2023 | 09:33
Enn hefur draugur esb aðildar verið vakinn upp. Það sem mest kemur þar á óvart er hver stendur að þeirri uppvakningu. Ekki þeir hefðbundnu talsmenn þess að við "deilum" sjálfstæði þjóðarinnar, nei, þar að verki er einn öflugast starfsmaður verkalýðshreyfingarinnar, Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Veralýðsfélags Akraness. Þó segist Villi vera á móti aðild að esb.
Þennan draug vakti Villi upp með samráði við atvinnurekendur, að eigin sögn, um að fá "óháða" erlenda aðila til gera úttekt á upptöku annars gjaldmiðils og ástæðan er léleg hagstjórn hér innanlands. Hann svarar allri gagnrýni að þetta eigi að vera óháð athugun sem mun leiða "sannleikann" í ljós.
Fyrir það fyrst er nokkuð undarlegt að Villi skuli hafa farið með þetta viðkvæma, pólitíska stórmál fyrst til atvinnurekenda, áður en það var rætt og afgreitt á vettvangi launafólks.
Hvað varðar "óháða aðila" ætti Villi að vita best að þeir finnast hvergi í veröldinni, Enda gefur hann lítið fyrir nokkur hundruð blaðsíðna úttekt um þetta málefni. Ástæðan er að Seðlabankinn stóð að þeirri skýrslugerð. Að henni kom fjöldi álitsgjafa, bæði innlendra og erlendra, en það dugir Villa ekki. Það væri hægt að fá hóp hagfræðinga til að gefa út í löngu máli að jólasveinninn væri til, bara ef einhver er tilbúinn að borga.
Varðandi hagstjórnina þá breytist hún ekkert við upptöku á erlendum gjaldeyri, Auðvitað kostar það okkur að halda eigin gjaldeyri, en sá kostnaður er smámynt í heildarsamhenginu. Jafnvel ekki þó við gengjum í esb mun það engu breyta í hagstjórninni hér. Það sannað Hrunið okkur. Jafnvel þó við afsöluðum algjörlega sjálfstæði okkar til erlends ríkis og legðum niður Alþingi, mun hagsæld okkar áfram miðast að þeirri staðreynd að við erum fámennt samfélag í stóru landi á eyju langt frá umheiminum. Hitt er ljóst að ef við ekki ráðum eigin gjaldmiðli og stjórn hans tekur mið af allt öðru hagkerfi en hér er, mun veða erfiðara að stýra hagkerfinu og því líklegt að vextir hækki enn frekar og það sem kannski verst er fyrir launafólk, atvinnuleysi eykst. Sjálfur vil ég frekar halda vinnu, jafnvel þó hagurinn skerðist tímabundið vegna misvitrar stjórnunar landsins.
Þetta vanhugsaða brölt Villa er óskiljanlegt. Ber því við að fleiri og fleiri hagfræðingar telji krónuna ónýta. Inn á þetta er ég búinn að koma.
Hins vegar hefur þetta brölt hans vakið upp draug esb aðildar. Fjölmiðlar farnir að vitna í hagfræðinga um ágæti evru, sennileg sömu hagfræðinga og tókst að dáleiða Villa. Enginn ræðir norska krónu, Kanadadollar eða usadollar. Og auðvitað ræðir enginn dönsku krónuna, enda sá gjaldmiðill fasttengdur evru. Það væri því óþarfa millistig með tilheyrandi flækjum að taka upp þann gjaldeyri.
Villi ætti að lesa Grettissögu og baráttu Grettis við drauginn Glám. Þann draug þorði enginn að eiga við, flestir forðuðust hann, þeim fjáðu tókst að semja við óværuna. Það þurfti heljarmenni sem búið var að gera útlægann úr samfélaginu, til að berjast við drauginn og að lokum fella hann. Gretti bauðst að gera samning við Glám, en valdi frekar að útrýma honum. Barátta Grettis við Glám er að öllu leyti dæmisaga, þar sem útlægt heljarmenni tekur sér stöðu gegn vá almennings, það var enginn efi í huga Grettis, enda engir hagfræðingar til að hvísla í eyru hans.
Þeir sem hafa lesið pistla mína vita að ég hef verið ötull varðmaður fyrir Villa, á þessum vettvangi hér. Mér er ómögulegt að verja hann í þessari nýju vegferð sem hann hefur haldið í. Þetta hef ég tilkynnt honum en vona innilega að hann sjái að sér.
Þeir sem fara að leita hins eina sanna sannleiks hafa tekið að sér óendanlegt verkefni. Hann mun hvergi finnast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Spilling Pírata
13.5.2023 | 23:32
Samkvæmt heimasíðu Pírata var þessi stjórnmálaflokkur stofnaður 2012. Fyrst sem stjórnmálaafl án einkenna stjórnmálaflokks en er orðinn að hörðum og spilltum stjórnmálaflokki.
Þeir sem muna stofnun flokksins, muna væntanlega fyrir hvað hann var stofnaður og hvert grunngildið skyldi vera. Þeim sem brestur minnið er hægt að benda á að flokkurinn var stofnaður sem afl gegn svokölluðum fjórflokki og þeirri spillingu sem talin var gerjast innan þeirra flokka. Meint spilling í stjórnmálum var því kveikjan að stofnun Pírata. Þetta er gott að hafa í huga.
Þó er það svo að eini alþingismaðurinn sem siðanefnd Alþingis hefur dæmt fyrir brot á siðareglum þingsins er þó úr röðum þingmanna Pírata. Nú er annar þingmaður flokksins gerður ber að því að gæta einkahagsmuna í nefnd Alþingis. Starfaði áður sem lögmaður og tók að sér málefni einstaklinga. Sum þeirra mála gengu ekki fram, eftir þeirri lögfræðilegu leið sem lögfræðingurinn þurfti að starfa eftir. Eftir að hafa hlotið brautargengi inn á Alþingi nýtti þessi þingmaður Pírata hins vegar stöðu sína til afgreiðslu þessara mála þar.
Varla verður spillingin tærari og hlýtur þessi framganga þingmannsins að koma fyrir siðanefnd Alþingis. Í öllu falli er deginum ljósara að þingmenn Pírata eru engir eftirbátar annarra þingmanna í spillingu, mun freka hægt að segja þá leiðandi á því sviði.
Hitt er svo nokkuð umhugsunarvert, að þrátt fyrir að siðanefnd Alþingis hafi dæmt þingmann brotlegan á siðareglum, starfar hann enn sem þingmaður. Fáir hafa verið ötulli við kröfur um afsagnir þingmanna við hin minnstu tilfelli en einmitt Píratar og þar hefur hinn dæmdi þingmaður flokksins ekki látið sitt eftir liggja.
Þessi stjórnmálaflokkur hefur algerlega fyrirgert trausti kjósenda. Þeir sem kjósa svona fólk á þing, fólk sem ekki sér sóma sinn í að hverfa á braut eftir að hafa fengið á sig dóm siðanefndar og fólk sem leynt og ljóst nýtir aðstöðu sína á þingi sér sjálfu til framdráttar, ættu að skoða hug sinn vandlega. Grunngildi flokksins eru fallin og það sem verr er, þingmenn flokksins eru orðnir spilltari en þingmenn annarra flokka.
Vandræði í veitingu þings á ríkisfangi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Kringlótta Kjalarnesið
12.5.2023 | 07:52
Ætla að hafa jákvæðnina í fyrirrúmi og ræða fyrsta kosti þessarar veglagningar. Í upphafi var kynnt að þarna skyldi lagður svokallaður 2+1 vegur, það er tvær akreinar í aðra áttina og ein í hina. Niðurstaðan varð hins vegar 1+1+2+2+1+1, þ.e. þjóðvegurinn sjálfur verður með tvær akreinar í hvora átt og beggja vegna hans hliðarvegir með einni akrein í hvora átt. Nokkuð vel í lagt en alveg hreint með ágætum, enda fráleitt að endurbyggja þennan veg, þar sem umferð eykst með hverju ári, sem 2+1 veg.
Þá kemur neikvæðnin, eða göllum þessarar framkvæmdar. Þar er fyrst að nefna öll hringtorgin. Fátt er eins mengandi og hringtorg, sér í lagi af umferð stórra bifreiða. Að hægja bíl frá 90 km hraða niður í nánast ekki neitt og vinna síðan bílinn aftur upp í hámarkshraða, til þess eins að hægja hann niður aftur, mun valda slíkri mengun að fátt í nútímanum mun toppa það. Á þessum vegkafla sem verið er að klára núna er eitt hringtorg, en tvö á þeim kafla sem unnið verður að síðar. Samtals munu því hringtorgin á Kjalarnesinu verða þrjú og spurning hvort það fjórða bætist síðan við þegar Sundabraut tengist veginum. Hvergi í veröldinni, ekki einu sinni Frakklandi, vöggu hringtorganna, er hringtorg sett á þjóðveg. Hringtorg eru umferðamannvirki sem hægt er að nota innanbæjar, til að liðka um umferð og gjarnan einnig sett við aðkomu að þéttbýliskjörnum, til að hægja á umferð. Að setja hringtorg á þjóðveg þar sem umferð getur verið hindranalaus, er fráleitt.
Það sem gerir þó þessi hringtorg enn fráleitari er að á þeim kafla sem nú er að klárast eru tvö aksturs undirgöng og alls verða þau fjögur. Hliðarvegir verða með þjóðveginum allt frá Kollafirði að vegamótum til Hvalfjarðar.
Ekki einu sinni hefði það verið skynsamlegra, heldur einnig mun ódýrara, að nýta þessi undirgöng sem mislæg gatnamót. Einungis þurft að bæta við að og fráreinum við þau, tengja þau við sjálfan þjóðveginn. Þá hefði verið hindrunarlaus og mun minna mengandi umferð eftir sjálfum þjóðveginum.
Hvers vegna þessi leið er valin, að setja niður algerlega óþörf og mengandi hringtorg á veg sem svo auðvelt var að hanna án hringtorga, er mér hulið. Komu skipulagsyfirvöld sveitafélagsins eitthvað þar að máli? Í það minnsta er næsti kafli vegarins, frá Hvalfjarðargöngum til Borgarness hannaður án slíkra mengunarvalda. Þar er annað sveitarfélag og önnur skipulagsnefnd. Í þeirri hönnun, sem sjá má á vef Vegagerðarinnar, eru einungis tvö hringtorg og þau á hliðarvegum. Ein mislæg gatnamót eru ætluð þar en vonandi verða umferðaþyngstu gatnamótin einnig verða gerð mislæg í stað té gatnamóta. En þetta er saga framtíðar, sem þó segir okkur að það virðist skipta máli hvaða sveitarfélag þarf að fara um. Í nútíma erum við enn stödd á hálfu og fljótlega kringlóttu Kjalarnesinu.
Opna veginn um Kjalarnes í júní | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Krabbamein ríkissjóðs
11.5.2023 | 07:37
Í samgöngusáttmálanum var gert ráð fyrir mislægum gatnamótum við Sæbraut. Síðar kom krafa um að Sæbraut yrði sett í stokk. Verðmiðinn fimmfaldaðist á þessum gatnamótum einum. Hafi sú krafa verið samþykkt fór það samþykki hljótt fram.
En að sjálfri fréttinni um brúnna. Hún er áætluð kosta kvart milljarð króna, fyrir utan tengingar að henni og frá. Þar mun sennilega óþarfar kröfur um útlit skipta mestu máli auk þess sem brúin skal vera hreyfanleg. Þetta er er bráðabyrgða brú og kröfur um listrænt útlit með öllu óþarfar og þar sem ekki er vitað hvar né hvort brúin verði nýtt á öðrum stað er fráleitt að auka kostnað við hönnun og bygginguna með kröfu um að hún skuli verða hreyfanleg.
250 milljónir er nokkuð stór upphæð og víst að hægt væri að byggja þarna brú fyrir mun minni fjárhæð. Þá er ekki víst að þessar 250 milljónir dugi til að greiða fyrir hönnun og byggingu þessarar brúar, ef farið skuli að öllum kröfum. En það er með þetta eins og margt annað, þegar að þeim verkefnum sem tengjast borgarlínu kemur, skipta peningar ekki máli. Varan er seld með einni hugmynd en framkvæmd á allt annan hátt. Varan er seld á óraunhæfu verðmati og stór aukinn kostnaður síðan sóttur í tómann ríkissjóð.
Og allt fer þetta framhjá Alþingi. Betri samgöngur ohf. segja bara ráðherrum fyrir verkum og alþingismenn nenna ekki að sinna þeirri grunn skyldu sinni að stoppa þennan ósóma og þetta sukk með almannafé. Betri samgöngur ohf. getur ekki og má ekki hafa fjárveitingarvald úr sjóðum landsmanna, hvort heldur er úr mis vel stæðum sveitarfélögum eða galtómum ríkissjóð.
Ef eitthvað verkefni er til hér á landi sem stjórnvöld og sveitarfélög geta stöðvað, til baráttu gegn verðbólgunni, er það þessi borgarlína og það sem henni tengist. Sem lið í betri samgöngum um höfuðborgarsvæðið, þarf borgin að hætta þrengingu gatna. Þannig komast bæði almenningsvagnar og aðrir bílar fljótt milli staða. Þannig getur borgin sparað sér pening og þannig getur borgin að auki lagt sitt af mörkum í baráttu gegn verðbólgu. Fáir eru eins þurfandi fyrir lækkun verðbólgunnar og þeir sem skulda og þar er borgin mjög ofarlega á blaði.
Að hafa eitthvað batterí starfandi í landinu, batterí sem virðist geta gengið hindrunarlaust í sjóði almennings, er fráleitt á öllum tímum en þó sjaldan jafn fráleitt og þegar þjóðin berst gegn vágesti sem hefur það markmið að koma fólki á götuna. Betri samgöngur ohf. á að leggja niður hið snarasta. Það tók Alþingi kvöldstund að samþykkja ræktun þessa krabbameins og það ætti ekki að taka lengri tíma að skera það burt!
Göngubrú reist yfir Sæbraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)