Færsluflokkur: Bloggar

MAST

Ekki ætla ég að skrifa um viðhengda frétt, þekki ekki til þess máls, þó svo fréttin sjálf komi manni svolítið spánskt fyrir sjónir.

Það er hins vegar önnur frétt af MAST, á forsíðu nýjasta tölublaðs Bændablaðsins. Sú frétt fjallar um hvar MAST lætur urða kjöt sem er algjörlega hæft til manneldis og rekjanleiki þess á hreinu allt frá fæðingu til slátrunar viðkomandi gripa. Kjötið sjálft var í lagi og ekkert deilt um heilbrigði þess. Ástæðan virðist vera að eftirlitsmaður MAST taldi eyrnamerki gripanna ekki uppfylla skilyrði ESB reglna. Talið er að yfir einu tonni af nautgripakjöti hafi verið fargað af þeirri ástæðu, á sama tíma og aðrir gripir með samskonar merkingum fengu náð fyrir stofnuninni. Þarna er eitthvað stórkostlegt að í stjórnun MAST. Reyndar er ástæða fréttarinnar sú að matvælaráðuneytið gerði stofnunina afturreka með þessa ákvörðun, en skaðinn var skeður.

Það sem málið snýst um er að hverjum grip er gefin einskonar kennitala við fæðingu. Þar kemur fram númer bæjarins og númer sem viðkomandi gripur fær og þessar upplýsingar skráðar í miðlægan gagnagrunn. Þetta númer fylgir síðan gripnum frá fæðingu til slátrunar. Samkvæmt reglugerð frá ESB má ekki slátra gripum nema þeir séu með slík merki í eyrum sér. Um þetta er ekki deilt. Hitt er vitað að oftar en ekki tapa gripir þessum merkjum og þarf þá að setja ný merki í þá. Til einföldunar og að gripurinn haldi sínu númeri, hefur verið farin sú leið að framleiðendur slíkra merkja búa til merki með númeri bæjarins en hafa autt það svæði er númer griparins er ætlað að vera. Með þessum merkjum fylgja sérstakir pennar til að handskrifa númer gripsins. Þessi aðferð er þekkt og hefur verið viðurkennd, bæði erlendis en einnig hér á landi, þar til nýr starfsmaður tók til starfa hjá MAST. Hann túlkar reglurnar eftir sínu höfði og að því er virðist, eftir því hver bóndinn er. Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að nýr starfsmaður túlki reglur á annan hátt en áður. Þá er hann leiðréttur, þannig að réttri túlkun er haldið.

Þarna kom aftur babb í bátinn. Þegar eigendur gripsins gerðu athugasemd við þessa afgreiðslu ákvað MAST að standa fast að baki sínum nýja starfsmanni og hafnaði með öllu að úr yrði bætt. Þar skipti einu hvað sagt var eða gert, jafnvel boðist til að geyma kjötið í frysti þar til niðurstaða fengist. Öllu slíku var hafnað af hálfu MAST og kjötið urðað strax sama dag. Þvergirðingshátturinn var algjör af hálfu stofnunarinnar. Eina sem bændurnir gátu gert var að kæra framkvæmdina til matvælaráðuneytisins. Niðurstaðan er komin og stofnunin gerð afturreka.

Það þarf vart að nefna það tjón sem ákvörðun MAST leiddi af sér. Eitt tonn af nautakjöti er ekki gefið. Fyrir bóndann, sem búinn er að fóðra gripinn í um tvö ár er tjónið gífurlegt. Reyndar fær hann einhverjar bætur vegna niðurstöðu matvælastofnunar, en þær koma seint. Bændur eru yfirleitt ekki svo fjáðir að þeir geti beðið árum saman eftir greiðslum. Oftast treyst á að innkoman komi svo fljótt sem verða má. Nægur er drátturinn samt. Þá þarf ekki að nefna þá sóun sem af hlýst, þegar heilu tonni af kjöti er hent, af þeirri einu ástæðu að plastmerkið í eyra gripsins er ekki talið vera rétt, jafnvel þó ekki sé neinn ágreiningur á um uppruna gripsins eða heilbrigði kjötsins.

Þetta lýsir vel þessari stofnun. Þar er eltast við smámuni meðan stóru málin danka. Svo þegar einstakir starfsmenn eru gagnrýndir, oftar en ekki réttilega, hleypur stofnunin í vörn og slær skjaldborg um viðkomandi starfsmann, án þess að skoða málið. Þarna fer stofnun, sem hefur vald til að túlka reglugerðir, fer með vald til að framfylgja þeirri túlkun sinni, vald til að dæma eftir þeirri túlkun og vald til að framfylgja eigin dómi. Einungis ráðuneytið getur gert athugasemdir við þetta. Þegar svo við bætist að starfsmenn stofnunarinnar virðast geta túlkað þessar reglur eftir eigin höfði og að því er virðist, eftir því hvaða bóndi á í hlut, er málið virkilega alvarlegt. Hvergi nema í einræðisríkjum þekkist slíkt stjórnkerfi.

Það er nauðsynlegt að endurskoða þessa stofnun og skipta henni upp. Skilja á milli lagatúlkunar og framfylgni þeirra, skilja á milli framfylgd laga og ákvörðunar um refsingu og skilja á milli refsinga og framfylgd þeirra. Að virkja þrískiptingu valdsins.  Að hafa undir einni og sömu stofnun allt þetta vald leiðir einungis til spillingar.

Svo því sé haldið til haga þá hafa þessar merkingar á gripum, frá fæðingu til slátrunar, þann tilgang að hægt sé að rekja kjötið til bæjarins sem gripurinn er alinn upp á  og jafnvel til þeirrar kúar er fæddi hann. Þetta er hið besta mál, þó við neytendur verðum lítið varir við þann rekjanleika. Eigum oft erfitt með að vita hvort kjötið í kjötborði verslana er íslenskt eða erlent. En kannski á það eftir að breytast, kannski eigum við eftir að sjá á merkingu kjöts frá hvaða bæ það kemur. Tæknin og grunnurinn er til staðar.

 


mbl.is MAST neitar að tjá sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðernissinninn Ég

Það er alveg sama hvernig á þetta mál er litið, það er útilokað fyrir Verslunarskólann að afsaka það. Þá skiptir engu máli hvort glæran er gömul eða ný, henni var varpað upp á vegg fyrir nemendur Verslunarskólans. Það kallast innræting og ekkert annað. Hvað halda kennarar skólans annars að þeirra verkefni sé, annað en að koma kennsluefni sínu inn í hugarheim nemenda?

En skoðum aðeins þessa mynd. Þarna eru Adolf Hitler, Benító Mussólíní og svo Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hvað eiga þessir menn sameiginlegt? Akkúrat ekki neitt. Tveir þeirra einræðisherra og glæpamenn og sá þriðji þingmaður og um stuttan tíma forsætisráðherra Ísland.

Myndin sett saman og varpað á vegg fyrir nemendur í stjórnmálafræði, til að skapa umræðu um þjóðernisstefnu, segir skólastjórinn. Hvernig er eiginlega þjóðernisstefna skilgreind í þessum skóla? Hvað eiga Hitler og Mussolini skylt við þjóðernisstefnu? Einræðisherra getur aldrei orðið þjóðernissinni, hann hugsar það eitt að halda völdum, með öllum ráðum. Fórnar jafnvel þjóð sinni í þeim tilgangi. Hvernig er hægt að skilgreina slíka menn sem þjóðernissinna? Jafnvel Sigmundur Davíð kallast vart þjóðernissinni, þó hann sé kannski næstur þeirri stefnu af þeim íslensku þingmönnum sem nú sitja Alþingi. Flestir aðrir kikna í hnjánum og roðna þegar þeir eru ávarpaðir á erlenda tungu og eru tilbúnir að fórna bæði landi og þjóð fyrir það eitt að fá að snerta hönd þeirra er þannig tala. Þar skiptir einu hvort um stórklikkaða einræðisherra er að ræða eða ekki.

Það væri fróðlegt að vita hvernig þjóðernisstefna er kennd í skólum landsins í dag, sér í lagi Verslunarskólanum. Mér var kennt að þjóðerniskennd væri eitthvað sem tengdist því að þykja vænt um land sitt og þjóð, vilja standa vörð um þá eign. Er það glæpamennska? Eru það einræðistilburðir? Eða er kannski allt tal sem ekki þóknast ESB þjóðernistal?

Það er einn þjóðernissinni sem af ber í íslenskri sögu og sá maður var til langs tíma dáður af þjóðinni og skólar landsins, einkum á hærra menntastigi, héldu nafni hans á lofti. Mikil hátíð haldin á þeirra vegum á þeim degi er við kennum við hann. Þessi maður hét Jón Sigurðsson, sá er manna ötulast vann að sjálfstæði lands okkar og því að við gætum talist þjóð en ekki hjáleiga. Nú má helst ekki nefna hans nafn, án þess að vera kallaður þjóðernissinni og ekki má heldur hampa þjófánanum, án þess að fá sama stimpil.

Kallist þetta þjóðernisstefna þá er ég stoltur þjóðernissinni.

Þjóðernisstefna er ekki og á ekki að vera neikvætt hugtak, hún er jákvætt hugtak sem gerir þjóð að þjóð.


mbl.is „Enginn pólitískur áróður í skólanum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er dimmt yfir Reykjavík

Það þarf ekki hámenntaða menn til að átta sig á því að ekki skapast rykmengun af umferð þegar götur eru ýmist undirlagðar saltpækli eða klakabrynjaðar, eins og gatnakerfi borgarinnar er nú um stundir. Því kom borgarstjóri eins og skrattinn úr sauðaleggnum, þegar hann tjáði alþjóð að nagladekk væri sökudólgur þeirrar mengunar er leggst yfir borgina þegar vindurinn tekur sér smá frí. Þessi mengun er hrein útblástursmengun bíla með sprengimótor.

Það vekur hins vegar upp nokkuð stóra spurningu. Hvers vegna er þessi ógurlega mengun í borginni, þegar rafbílum fjölgar sem aldrei fyrr og mengun frá eldsneytisbílum minnkar  með hverju árinu sökum tækninýjunga? Getur verið að sú ákvörðun borgarstjórnar að hægja á umferð, hafi þar eitthvað að segja? 

Það er augljóst að bíll sem ekur á 30 km hraða er lengur milli staða en sá er ekur á 50 km hraða. Hvort bíll er á 30 eða 50 breytir litlu um mengun per tíma. Vélin gengur á svipuðum hraða, einungis gírkassinn breytist. Er í lægri gír þegar hægt er ekið. Því er ljóst að með því að hægja á umferð, eykst mengun.

Þó má einnig velta fyrir sér hversu mikil aukning á mengun svokölluð þétting byggðar hefur. Niðurbrot eldra húsnæðis, flutningur þess burt af svæðinu, mokstur fyrir nýjum grunni og akstur burt með það efni, flutningur á möl til að fylla aftur upp þá holu og jöfnun og þjöppun þess, kallar á óhemju mikla umferð stórra flutningabíla og fjölda vinnuvéla. Þá tekur við uppsteyping hins nýja stórhýsis með akstri fjölda steypubíla. Allt er þetta gert í grónum og byggðum hverfum, með tilheyrandi töfum á öllum stigum. Allt þetta veldur gífurlegri mengun, margfalt meiri en ef byggt er í nýjum hverfum. 

Hvort þessa miklu mengun megi rekja til ákvarðana borgarstjórnar, skal ósagt látið. Hitt er ljóst að rafbílum hefur fjölgað og nýrri eldsneytisbílar eru jafnt og þétt að útrýma eldri og mengunarmeiri bílum. 

Svo getum við, þegar vora fer og götur þorna, rifist um hvor er meiri sökudólgur varðandi rykmengun, nagladekkin eða einstakur og heimsfrægur sóðaskapur borgarstjórnar.


mbl.is Ekki vegryk heldur útblástur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

500 MW orkuver

Á laugardaginn næsta rennur út frestur til að gera athugasemd við vindorkuver í Klausturseli á Fljótsdalsheiði.

Sendi eftirfarandi athugasemd til Skipulagsstofnunar:

Til
Skipulagsstofnunar vegna matsáætlunar um vindorkuver í Klausturseli, Múlaþingi
.

 

Almennt

Varðandi matsáætlunin sjálfa er það að segja að hún er illa unnin, upplýsingar litlar eða lélegar og vægast sagt loðnar. Það er því vart annað hægt að segja en hún sé í heild sinni óhæf eins og hún stendur.

Þó má finna einstakar upplýsingar í áætluninni. Þar er talað um 500MW framleiðslugetu og að vindtúrbínur hennar geti orðið allt að 90. Hæð að hámarki 200 metrar með spaða í toppi.

 

Vindtúrbínur. 

Miðað við 500MW framleiðslugetu og 90 vindtúrbínur þarf framleiðslugeta hverrar túrbínu að vera a.m.k 5,6MW. Ef einhverjar eru minni þurfa aðrar að vera stærri. Í áætluninni er gert ráð fyrir að stærðir hverrar túrbínu verði 5 til 7MW.  Þegar farið er inn á heimasíður vindtúrbínuframleiðenda kemur hins vegar í ljós að 5MW vindtúrbína getur lægst orðið um 200 metrar á hæð, miðað við spaða í hæstu stöðu, en allt að 241 metri. 7MW vindtúrbínur eru heldur hærri, eða kringum 260 metrar, miðað við spaða í hæstu stöðu.

Þarna er mikill munur á og ljóst að verið er að draga eins mikið úr stærðum og hægt er.  A.m.k. stemmir þessi  útreikningur engan veginn.  Reyndar er opnað á það í áætluninni að túrbínurnar geti orðið enn hærri, án þess þó að nefna hversu háar.

Ef mat á sýnileika þessa orkuvers er reiknað út frá 200 metra háum vindtúrbínum, eða lægri, er ljóst að sá útreikningur er rangur, þó geigvænlegur sé, sér í lagi þegar haldið er opnu að þær geti orðið nánast óendanlega háar.

 

Landnotkun.

Gert er ráð fyrir í matsáætluninni að svæðið undir þetta orkuver verði 4.110 ha. Þarna er líklega um töluverðan vanreikning að ræða, þar sem áhrif á vind og  tilurð vindstrengja sem þær valda, kallar á töluverða fjarlægð hver við aðra. Gera má ráð fyrir að landnotkun geti orðið allt að 18.000 ha. Innan þess getur auðvitað önnur landnotkun verið, svo sem vegna safnhúsa og spennuvirkja. Einungis vegstæði að svæðinu bætist þar við. Þarna er um verulega skekkju að ræða sem gerir þessa matsáætlun ónothæfa.

 

Dýralíf

Í þessari matsáætlun er lítið gert úr áhrifum á  dýralíf á svæðinu. Ekki þarf annað en að skoða kort af því til að sjá að þetta svæði er bæði nokkuð gróðursælt en einnig mikið um smátjarnir á því. Það segir manni að mikið fuglalíf hlýtur að vera á svæðinu, auk þess sem jórturdýr sækja á það. Þar má til dæmis nefna hreindýr. Á síðasta ári féll í Noregi lokunardómur á vindorkuveri, vegna truflunar á beitarskilyrðum hreindýra.

 

Efnisþörf

Matsáætlunin gerir ráð fyrir að allt efnismagn á svæðinu verði á bilinu 230.000 m3 til 540.000 m3, geti þó orðið meiri. Ónákvæmnin þarna er hrópandi.  Steypumagn í akkeri túrbínanna er áætlað um 54.000 m3. Samkvæmt heimasíðu vindtúrbínuframleiðenda þarf steypt akkeri undir vindtúrbínu með framleiðslugetu upp á 6MW að ná að lágmarki 30 metra út fyrir túrbínuna og aldrei minni en 4 metrar á þykkt. Þó verður alltaf að fara niður á fast, þannig að þetta er lágmarkið, að mati framleiðenda. Þetta gerir að akkeri hverrar túrbínu þarf að vera að lágmarki 11.000 m3. Ef það er síðan margfaldað með 90 kemur út 990.000 m3. Töluvert stærri tala en sögð er í áætluninni og nærri helmingi hærri en öll  efnisnotkun á svæðinu, sé tekið mið að hærri tölunni. Auðvitað geta menn svindlað á þessum kröfum framleiðenda og sparað sér aur, en hætt er við að þá kæmi upp svipuð staða og sumstaðar í Noregi, þar sem vindtúrbínurnar standa ekki af sér vetrarveðrin og falla í valinn. Veit reyndar ekki hvort þær virkjanir séu í eigu Zephyr.

 

Annað

Þarna er um að ræða orkuver af stærstu gerð, helmingi stærra en nokkur önnur hugmynd um beislun vinds hér á landi hljóðar upp á, ennþá.  Einungis Fljótsdalsvirkjun verður stærri að uppsettu afli.

Í matsáætluninni er gjarnan talað um vindorkugarða og vindmillur. Rétt eins og annað í þessari áætlun er þetta bæði villandi og rangt. Þarna er hvorki um garð né millu að ræða, heldur orkuver af stærstu gerð knúið áfram af risastórum vindtúrbínum.

Garður hefur ýmsa meiningu í íslensku máli, getur verið afgirt svæði til ræktunar eða yndisauka, getur einnig verið hlaðinn garður úr torfi og grjóti, til að halda búsmala, en þaðan kemur orðið girðing. Garður getur aldrei orðið samheiti yfir einhver risa orkuver, ekki frekar en að miðlunarlón vatnsorkuvera kallist tjörn.

Milla er eitthvað sem malar, t.d. korn, eins og orðanna hljóðan segir. Fyrr á öldum var vindur beislaður til að knýja slíkar millur en einnig vatnsorka. Aldrei er þó talað um vatnsmillur þegar rætt er um túrbínur vatnsorkuvera.

Það er því beinlínis rangt að tala um vindorkugarð, vindmillugarð eða vindmillur og ekki má heldur gleyma rangyrðinu í þessu sambandi þegar talað er um vindmillulund.

Þessar nafngiftir á þessi orkuver eru þó ekki nein tilviljun. Þetta er með ráðnum hug  gert, til að fegra óskapnaðinn.

Tölum um hlutina með réttum nöfnum, vindtúrbínur og vindorkuver.

 

Að lokum.

Þessi matsáætlun fyrir Vindorkuver í Klausturseli er loðin, villandi og að stórum hluta til beinlínis röng. Hana ber því að senda til föðurhúsanna og krefjast þess að betur sé að verki staðið, að allar staðreyndir verði leiðréttar og niðurstöður færðar til samræmis við þær.

Þarna er verið að ráðast freklega gegn náttúru landsins okkar og því lágmark að vel sé að málinu staðið. Að láta frá sér slíka skýrslu sem hér er kynnt er ekki bara móðgun við þjóðina, heldur ekki síður móðgun við landið okkar. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að einskis er svifist til að koma fram vilja erlenda fjármagnsafla.

Náttúran á alltaf að njóta vafans.

 

 

 


"Mokið, mokið, mokið, mokið, mokið meiri snjó"

Mikið er rifist um snjóruðning í höfuðborginni okkar. Ekki laust við að ætla að þar sé stjórnað af fólki sem er svo mikið alheimsfólk að það gleymir þeirri staðreynd að stundum snjóar á Íslandi.

Sjálfur bý ég á Skaganum og þar var ágætlega staðið að snjóruðningi. Reyndar ekki komið í götuna hjá mér, en við sem við hana búum erum svo sem ekki óvön því. Hugsanlega má líka telja að snjómokstur hjá okkur hafi verið svona góður vegna þess hversu lítið snjóaði.

Og það var einmitt málið, snjókoman var ekkert svo mikil. Hvorki hér á Skaganum né í höfuðborginni. Heldur meira snjóaði í nágrannabæjum borgarinnar, Mosfellssveit og uppbyggðum Kópavogs, en þar gekk einnig ágætlega að halda opnu. Öfugt við borgina. Nokkurn byl og blindu gerði hins vegar um tíma.

Það væri fróðlegt ef gerði alvöru snjókomu í borginni, svona svipað og austan Hellisheiðar. Þar hefur sannarlega snjóað. Hvað ef svona snjókoma færi yfir höfuðborgina okkar? Hverjum væri þá um að kenna?

Enn og aftur reynir borgarstjórnarmeirihlutinn að koma af sér sök. Ástæða þess að borgin var kolófær, þegar tiltölulega lítinn snjó gerði, er öllum öðrum um að kenna. Formaður einhverrar nefndar er látinn standa í stafni borgarstjórnar og halda uppi ruglinu. Fyrst var ástæðan að aðkeyptir viðbragðsaðilar hefðu ekki mætt þegar kallið kom, svo var haldið að fólki þeirri rökleysu að ekki væru til næg tæki og tól til að sinna verkinu. Því var einnig haldið fram að tafist hafi að endurskipuleggja snjómokstur borgarinnar. Og í dag fræddi þessi formaður okkur um að ástæða þeirrar tafa væri sleifarlag minnihlutans í borginni, að hann hefði ekki getað skipað fulltrúa í nefndina. Þetta er orðinn slíkur farsi að engu tali tekur. Trúir einhver þessu andsk... bulli?

Það er annars ágætt að meirihlutinn vilji nú starfa með minnihlutanum, það hefur ekki borið á slíkum vilja fyrr. Eða er aðild minnihlutans kannski bara æskileg þegar á bjátar í stjórnun? Ef svo er, ætti meirihlutinn fyrir löngu að vera búinn að færa minnihlutanum lykilinn að borginni, svo mikið er víst. Þá yrði borginni kannski stjórnað almennilega, án þess að eilíft væri verið að endurskipueggja einföldustu hluti.

Annars er sennilega fyndnasta tillagan komin frá fulltrúa VG, er hún lagði til að borgin keypti skóflur fyrir borgarbúa. Þegar svo skömmu síðar byggingavöruverslanir auglýstu að snjóskóflur væru að verða uppseldar, hélt ég í alvöru að hún hefði fengið meirihlutann til samstarfs.

Hvað sem öllu líður, þá var snjókoman fyrir jól ekkert svo ofboðsleg, miðað við hvað getur orðið. Íbúar á norðanverðu landinu gerðu góðlátlegt grín af borgarbúum, enda þekkja þeir snjóinn nokkuð vel. Það er ekki stórmál eða vísindi að ryðja snjó af götum og sú uppákoma sem varð í borginni því engan vegin afsakanleg. Þar gildir sú megin regla að fá sem flest tæki strax. Fleiri tæki afkast meiru en færri, það þarf hvorki nefnd né vísindamenn til að átta sig á því. Og fleiri tæki í styttri tíma, kosta varla mikið meira en færri tæki svo dögum skiptir.

Að halda götum borgarinnar opnum er ekki bara réttlætismál íbúa, það er ekki síður öryggismál, að viðbragðsaðilar komist um borgina.

Að hægt sé að halda uppi öryggi borgarbúa.


mbl.is Ábyrgðarhlutur að borgin geri ekki ráðstafanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg fyndni

Um áramót er gjarnan rætt um skaupið, þetta sem ruv sýnir landsmönnum. Ég ætla hins vegar að ræða um hitt skaupið, þetta sem við erum uppfrædd af fjölmiðlum alla daga. Það skaup er mun skemmtilegra en hitt, en einnig nokkuð sorglegra fyrir suma hópa.

 

Í viðhengdri frétt fjargviðrast formaður rafbílasambandsins um að stjórnvöld séu að úthýsa rafbílnum á Íslandi. Að skattlagning á þessa bíla muni valda því að þeir verði ekki keyptir.

Fyrir það fyrsta þá eru rafbílar leiktæki auðvaldsins. Enginn venjulegur launþegi kaupir slíka bíla, enda verð þeirra nokkuð ofan kaupgetu þeirra. Sumir láta þó blekkjast af gylliboðum bankanna og taka lán fyrir slíkum bíl, en vart er hægt að hugsa sér að innleiðing rafbíla verði fjármögnuð á þann hátt. Það myndi stefna þjóðarskútunni beinustu leið í strand, sér í lagi ef ríkissjóður má ekki leggja á þessa bíla neinn skatt.

Því er það svo að láglaunafólkið, sem flest ekur á eldsneytisbílum, þarf um þessi áramót að greiða enn meira í ríkisjóð af sínum akstri, svo auðvaldið geti keypt sér dýra rafbíla án afskipta ríkissjóðs. Þetta er sorgleg fyndni.

 

Önnur frétt á mbl í dag fjallar um ófærð og ferðaþjónustu. Þar kveinka ferðaþjónustuaðilar yfir að ekki skyldi koma óveður á gamlársdag, með tilheyrandi ófærð. Vilja kenna veðurfræðingum um skandalinn.

Það er ekki veðurfræðingum að kenna, eða þakka, þó veðrið verði betra en spáð er. Þar ráða náttúruöflin. Veðurfræðingar spá samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, hverju sinni. Í þeirri spá sinni reyna þeir að vera eins nákvæmir og hugsast getur, en ef vafi er til staðar verða þeir ð gera ráð fyrir verri kostinum. Annað væri fráleitt og beinlínis hættulegt.

Varðandi vegalokanir þá er ljóst að mun fyrr er lokað vegum í dag en áður fyrr. Þar er þó ekki um að kenna verra veðri og enn síður veðurfræðingum eða almannavörnum. Ástæðan er einfaldlega sú að búið er að markaðssetja Ísland sem heilsárs ferðaland. Þetta veldur því að erlendir ferðamenn, sem koma hingað til lands, er talin trú um að geta ferðast um landið þvert og endilangt, alla daga ársins. Þegar svo náttúran okkar ræskir sig örlítið, þá verða þessir ferðamenn strand á þjóðvegunum, jafnvel þó okkur landanum, a.m.k. okkur landsbyggðafólki, þyki ekki mikið til koma með veður eða færð. Því verður að loka vegum mun fyrr, svo þetta ferðafólk fari ekki sjálfu sér að voða eða stofni öðrum í hættu.

Það er ekki veðrið eða færðin sem ræður lokunum, heldur það erlenda ferðafólk, stundum á illa búnum bílaleigubílum, hefur litla eða enga reynslu í akstri í snjó og hálku og sumt hvert aldrei séð snjó á sinni ævi. Þar ráða ferðaskrifstofurnar öllu. Þær skaffa fólki bílana og þær markaðssetja Ísland á erlendri grundu. Þetta er sorgleg fyndni.

 

Þá má ekki gleyma blessaðri stjórnmálastéttinni okkar. Síðustu daga þingsins, fyrir jólafrí, voru umræður um kjör þeirra sem allra minnst hafa í okkar þjóðfélagi. Þar stóðu ráðherrar sem einn í því að standa gegn smá bótum til þessa hóps, meðan þeir á sama tíma útbýttu tugum og hundruðum milljóna í ýmis önnur málefni. Vart var þetta fólk gengið út úr steinhúsinu við Austurvöll, þegar það fór að ræða kjör hinna verst settu og að standa þyrfti vörð um þann hóp.

Svo kom nýtt ár og með því sjálf Kryddsíldin. Þar lét þetta fólk sína visku njóta sín, eða þannig. Sumir komu betur fyrir en aðrir og sumir urðu, að venju, sér sjálfum til skammar.  Auðvitað allir sammála um að verja þurfi kjör þeirra sem verst standa, þrátt fyrir að allir fréttamiðlar væru stút fullir af fréttum um hinar ýmsu hækkanir skatta, sem tækju gildi þann sama dag.

Það var engu líkara en að þessir pólitísku leiðtogar okkar væru í einverjum öðrum heimi en við hin. Þetta fólk er sorglegt.

 

Læt staðar numið að sinni þó margt fleira mætti telja fram. Eitt er þó víst að spaugstofa ruv mun aldrei toppa íslenskan raunveruleik, hvorki í spaugi né sorg.

Óska öllum farsældar á nýju ári.


mbl.is „Á góðri leið með að úthýsa rafbílum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á jólanótt

Þar sem Nöldrarinn situr við vinnu sína og horfir á nýfallna mjöllina út um gluggann, á jólanótt, óskar hann öllum þeim er nenna að lesa nöldrið hans, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.


mbl.is „Jólunum er aflýst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hávaði

Þó smá hávaði (100db) heyrist eina kvöldstund á ári, þarf ekki að ganga af göflunum. Og jafnvel þó eitthvað meiri hávaði heyrist á rokktónleikum, standa þeir stutt yfir. Hins vegar getur orðið óbyggjandi þegar slíkur hávaði er stöðugur, allan sólahringinn alla daga ársins.

Á heimasíðu Veritas kemur fram að minnst vindtúrbínurnar sem þeir framleiða, 6 MW, geti hávaði orðið um 104 db. Þarna er um stöðugan hávaða að ræða og þegar slíkum túrbínum er safnað saman á einn stað, allt að 100 stk. eins og stærstu vindorkuverin gera ráð fyrir hér á landi, er ljóst að sá hann verður ærandi.

Farið nú öll út á götu á gamlárskvöld og hlustið vel hvernig 100 db hávaði sker í eyrun. Þá fáið þið smá innsýn í hvernig verður að búa nærri vindorkuverum. Af hafa slíkan hávaða, jafnvel margfalt meiri, yfir sér alla daga og allar nætur, 365 daga ársins!

Í þeim samanburði verður gamlárskvöld að hreinni skemmtun.

 


mbl.is Hávaði gæti farið í 100 desíbel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögn fréttamiðla rofin

Loks vakna íslenskir fjölmiðlar upp af dvalanum og segja frá erfiðu vetrarveðri í Norður Ameríku (Bandaríkjunum og Kanada). Það er auðvitað illa séð að fluttar séu fréttir af köldu veðri, en fréttastofur eiga jú að segja fréttir, ekki satt?

Eins og fram kemur í viðhengdri frétt, þá var ágætis veður þar vestra um þakkargjörðahátíðina. En frá byrjun Desember hefur hins vegar verið bæði kalt og miklir snjóar, allt frá syðri hluta Bandaríkjanna og norður til Kanada. Við Mexíkóflóann og upp með austurströndinni hefur veður hins vegar verið skárra. Jafnvel í suðurhluta Kaliforníu hefur verið úlpuveður mestan hluta mánaðarins meðan miklir snjóar hafa verið um norðurhluta fylkisins, reyndar svo miklir að hætt var að mæla úrkomuna í tommum og skipt yfir í fet. Miðfylkin á sléttunum og allt norður til vatnana miklu, hafa orðið undir snjó. Í vesturhluta New York fylkis mældist snjókoma allt að 7 fetum, um miðjan mánuðinn. Svona mætti halda áfram að þylja upp dæmi mikillar ofankomu, vítt um Bandaríkin og Kanada.

Maður hefur horft með forundran á veðurfréttir hér á landi, þar sem kortin af þessu svæði hafa meira og minna verið með rauðum hitatölum. Á sama tíma fær maður fréttir frá heimafólki um mikla kulda og mikinn snjó. Í veðurfréttum gærkvöldsins var örlítið minnst á spá um kulda þar vestra. Þó var gert mun minna úr þeirri spá en efni eru til og jafnvel staðreyndir segja okkur. Í bandarískum veðurspám er spáð að jafnvel geti snjóað niður á miðjan Flórídaskagann og reyndar að snjóa muni um flest öll fylkin, sumstaðar svo mikið að til vandræða horfir. Veðurviðvaranir eru komnar yfir mest öll Bandaríkin.

Hvað veldur þessari þögn íslenskra fjölmiðla? Getur verið að íslenskir fréttamenn líti svo á að Bandaríkin séu einungis borgirnar New York og Washington? Að meðan veður er gott í þeim borgum, hljóti að vera gott veður um öll Bandaríkin?

Eða er þöggunin orðin svo mikil að ekki megi segja frá köldu veðri? Alla vega skortir okkur ekki fréttir af því ef hlýnar eitthvað. Þá eru fréttastofur með daglegar fréttir allt frá fyrstu spám um hugsanleg hlýindi og í vikur á eftir, jafnvel þó spáin hafi verið röng og engin hitabylgja mætt á staðinn.

En nú er þessi þögn fréttamiðla rofin, enda spáin þar vestra vægast sagt skuggaleg, ofan á erfiðan desembermánuð.


mbl.is Helköld jól vestra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snilldar viðskiptamódel Landsvirkjunnar

Margir hafa undrast þá ráðstöfun að hægt sé að selja upprunavottorð (aflátsbréf) fyrir raforku til annarra landa, jafnvel þó engin tenging sé þar á milli. Að orka sem framleidd er í einu landi sé sögð nýtt í öðru, án tenginga þar á milli. Þetta er náttúrulega svo út úr kú að engu tali tekur. Af þessum sökum er framleidd orka, samkvæmt pappírum, með bæði kolum og kjarnorku, hér á landi. Þó eru slík orkuver ekki til og ekki stendur til að reisa þau. Hvernig þessi ósköp koma fram í loftlagsbókhaldi Íslands hefur ekki komið fram, en vart er hægt að nota þessa hreinu orku okkar mörgum sinnum.

Til þessa hafa þessi aflátsbréf orkuframleiðenda verið valkvæð. En nú skal breyta því. Landsvirkjun, fyrirtæki okkar landsmanna, hefur ákveðið að allir notendur raforku frá þeim skuli kaupa aflátsbréf, hvort sem þeir vilja eða ekki. Þetta mun hækka orkuverð til notenda um allt að 20% á einu bretti. Fyrir hinn almenna borgara gerir þessi ráðstöfun ekkert annað en að hækka orkureikninginn, enda markmiðið það eitt, af hálfu orkuframleiðenda.

En skoðum aðeins málið., Nú þegar selur Landsvirkjun aflátsbréf fyrir 61% af sinni orkuframleiðslu, að megninu til til erlendra fyrirtækja. Eftir stendur að fyrirtækið er að framleiða 39% af sinni orku sem hreina orku. Hitt er framleitt með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku hér á landi, eða þannig. 

Sem sagt, Landsvirkjun hefur til umráða 39% af sinni orku sem hrein orka. Samt ætla þeir að rukka alla notendur sína um aflátsbréfin góðu. Það segir að fyrir stóran hluta af sinni framleiðslu ætlar fyrirtækið okkar að selja aflátsbréfin tvisvar, fyrst til erlendra kaupenda og síðan til eigenda sinna.

Er hægt að finna meiri snilld í viðskiptum?

Hvar er Alþingi nú? Hvers vegna er þetta mál ekki rætt þar? Eru þingmenn svo uppteknir við að leita sér málefna á facebook, til að ræða í sal Alþingi? Er þeim algerlega fyrirmunað að greina hismið frá kjarnanum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband