Þögn fréttamiðla rofin

Loks vakna íslenskir fjölmiðlar upp af dvalanum og segja frá erfiðu vetrarveðri í Norður Ameríku (Bandaríkjunum og Kanada). Það er auðvitað illa séð að fluttar séu fréttir af köldu veðri, en fréttastofur eiga jú að segja fréttir, ekki satt?

Eins og fram kemur í viðhengdri frétt, þá var ágætis veður þar vestra um þakkargjörðahátíðina. En frá byrjun Desember hefur hins vegar verið bæði kalt og miklir snjóar, allt frá syðri hluta Bandaríkjanna og norður til Kanada. Við Mexíkóflóann og upp með austurströndinni hefur veður hins vegar verið skárra. Jafnvel í suðurhluta Kaliforníu hefur verið úlpuveður mestan hluta mánaðarins meðan miklir snjóar hafa verið um norðurhluta fylkisins, reyndar svo miklir að hætt var að mæla úrkomuna í tommum og skipt yfir í fet. Miðfylkin á sléttunum og allt norður til vatnana miklu, hafa orðið undir snjó. Í vesturhluta New York fylkis mældist snjókoma allt að 7 fetum, um miðjan mánuðinn. Svona mætti halda áfram að þylja upp dæmi mikillar ofankomu, vítt um Bandaríkin og Kanada.

Maður hefur horft með forundran á veðurfréttir hér á landi, þar sem kortin af þessu svæði hafa meira og minna verið með rauðum hitatölum. Á sama tíma fær maður fréttir frá heimafólki um mikla kulda og mikinn snjó. Í veðurfréttum gærkvöldsins var örlítið minnst á spá um kulda þar vestra. Þó var gert mun minna úr þeirri spá en efni eru til og jafnvel staðreyndir segja okkur. Í bandarískum veðurspám er spáð að jafnvel geti snjóað niður á miðjan Flórídaskagann og reyndar að snjóa muni um flest öll fylkin, sumstaðar svo mikið að til vandræða horfir. Veðurviðvaranir eru komnar yfir mest öll Bandaríkin.

Hvað veldur þessari þögn íslenskra fjölmiðla? Getur verið að íslenskir fréttamenn líti svo á að Bandaríkin séu einungis borgirnar New York og Washington? Að meðan veður er gott í þeim borgum, hljóti að vera gott veður um öll Bandaríkin?

Eða er þöggunin orðin svo mikil að ekki megi segja frá köldu veðri? Alla vega skortir okkur ekki fréttir af því ef hlýnar eitthvað. Þá eru fréttastofur með daglegar fréttir allt frá fyrstu spám um hugsanleg hlýindi og í vikur á eftir, jafnvel þó spáin hafi verið röng og engin hitabylgja mætt á staðinn.

En nú er þessi þögn fréttamiðla rofin, enda spáin þar vestra vægast sagt skuggaleg, ofan á erfiðan desembermánuð.


mbl.is Helköld jól vestra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef þú ert að segja að þarna séu fréttnæmir öfgar, sem oft hefur verið varað við sem ein afleiðing af hlýnun jarðar, þá eru Bandaríkin bara eitt af fjölmörgum löndum sem hafa undanfarið mátt þola leiðinda veður.

Það gæti verið að veður í Bandaríkjunum, Brasilíu, Kóreu Ástralíu eða Nígeríu sé ekki eitthvað sem fréttamennirnir hafi eins mikinn áhuga á og þú á meðan ekki skortir fréttaefni af veðrinu í okkar nærumhverfi. Miklar rigningar og hætta á aurskriðum á Austurlandi gæti þeim þótt betra fréttaefni en að einhverjir Kaliforníubúar klæðist úlpum. Og allt í sambandi við lokun Reykjanesbrautar í tvo daga áhugaverðara umfjöllunarefni en mikill snjór einhverstaðar í Bandaríkjunum.

Það að ekki skuli vera fjallað sérstaklega um eitthvað áhugaefni þitt er ekki samsæri og þöggun.

Vagn (IP-tala skráð) 23.12.2022 kl. 19:18

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Vagn

Þessir kuldar og þessi snjóþyngsli sem verið hafa vestanhafs, hófust löngu fyrir snjómugguna sem skók Reykjanesbrautina, eða skömmu eftir þakkargjörðahátíðina. En hún  er, eins og flestir vita, í lok Nóvember.  Þá hefur ekki skort á fréttaflutning fjölmiðla þegar um hlýindi er að ræða, þó minna fari fyrir slíkum fréttum þegar kalt er. Þar skiptir litlu máli hvað landið heitir eða hvar það er staðsett á jarðkringlunni.

Og þar sem þú minnist á Ástralíu, þá hefur sumarið þar verið með eindæmum kalt og blautt. Jafnvel snjóað þar í fjöll, sem er einstakt yfir sumartímann þar. Við munum fréttaflutninginn þegar þar gerði smá hitakast, þó engin hitamet hafi verið slegin, nema auðvitað í fjölmiðlum. Kuldinn þar nú er síst minna fréttaefni.

Gunnar Heiðarsson, 23.12.2022 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband