Kófið og skussarnir

Þeir sem vita hvernig er að lenda í dimmu hríðarkófi, vita hversu auðvelt er að missa áttir og villast. Þá er gott að vera í hóp með einhverjum sem þekkir vel staðhætti. Það er oft eina vonin til að komast út úr kófinu. En auðvitað eru alltaf einhverjir skussar sem ekki treysta þeim staðkunnuga og æða sjálfir út í loftið. Þeir villast, stundum með skelfilegum afleiðingum.

Nú, í rúmt ár, höfum við verið í kófi af skæðri alheimssótt. Við erum svo heppin að hafa góðan leiðsögumann, sem vísar okkur veginn. Því miður eru skussarnir til, sem vilja fara aðrar leiðir. Þeir skussar eru orðnir áttavilltir og vita ekki hvert skal halda. Vonandi fer ekki illa fyrir þeim.

Sóttvarnarlæknir er án efa einn fárra manna hér á landi sem þekkir best til sóttvarna. Þess vegna var hann ráðinn í embættið, en ekki einhver lögfræðingur eða þingmaður. Sú ráðning byggðist á þekkingu læknisins. Auðvitað eru fleiri læknar sem hafa svipaða og jafnvel meiri þekkingu á þessum málum, en til þeirra heyrist ekki. Það bendir til að þeir séu sóttvarnalækni sammála.

Ráðning til embættis sóttvarnalæknis byggir á þekkingu viðkomandi til málaflokksins. Þar kemur pólitík ekkert að málum og enn síður einhver erlend öfl sem samsæriskenningarfólk telur vera að yfirtaka heiminn, að málum.

Sem betur fer hefur stjórnvöldum að mestu tekist að fara að ráðum sóttvarnarlæknis, þó ekki alveg. Í fyrra sumar, eftir að sóttin hafði verið kveðin niður hér á landi, voru landamæri opnuð að hluta. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Veiran spratt upp sem aldrei fyrr, fjöldi fólks lagðist á spítala og sumir glötuðu lífinu. Aftur tókst að kveða veiruna niður hér á landi, eftir nokkurra mánaða baráttu landsmanna. Enn á ný var farin sú leið að opna landamærin, þó nú væru takmarkanir öllu meiri en áður. Og enn á ný fór veiran af stað. Er ráðafólki þjóðarinnar algerlega ómögulegt að læra af fyrri mistökum?!

Nú er staðan þó öllu verri en áður og ljóst að leiðsögn sóttvarnarlæknis á erfiðara með að komast gegnum ríkisstjórnina. Það er nefnilega komið í ljós að innan hennar eru áttavilltir skussar!

Við búum á eyju, höfum engin landamæri á landi. Því eru möguleikar okkar til að verjast veirunni betri en flestra annarra þjóða. En það þarf kjark stjórnvalda til.

Þann kjark skortir!


mbl.is Stærri skref í afléttingum til umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er nauðungarvistun?

Er ekki rétt að byrja á byrjuninni og fá skilgreiningu á því hvað nauðungarvistun er, áður en hlaupið er með mál fyrir dómstóla? Einhvern veginn hefði maður haldið að slíkt ætti ekki að vefjast fyrir lögfræðingum, en greinilega virðist það þó vera.

Fram hefur komið, oftar en einu sinni, að starfsfólk sóttvarnarhótels meini engum að yfirgefa hótelið. Hins vegar er fólki þá bent á að slíkt sé brot á sóttvarnarlögum og málið tilkynnt til lögreglu. Hvernig í ósköpunum er þá hægt að tala um vist á hótelinu sem nauðungarvistun? Fólk hefur val, því er ekki haldið nauðugu.

Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að um nokkuð langt skeið hafa gilt reglur um að fólk sem kemur erlendis frá þurfi að fara í tvöfalda skimun og vera í einangrun á milli þeirra. Þar hefur ekkert breyst. Það eina sem hefur breyst er að sökum þess að sífellt hefur færst í aukanna að fólk brjóti þessa sóttkví, hefur verið ákveðið að vista fólk á sérstöku hóteli, við komuna til landsins. Þetta er þó ekki nein nauðungarvistun, þar sem fólki er ekki meinað að yfirgefa hótelið. Þeir sem það velja munu hins vegar eiga á hættu sektir vegna brota á sóttvarnarlögum. Þar hefur ekkert breyst, einungis auðveldara að fylgjast með hverjir fremja slík brot.

Ekki verður því annað séð en að fólk fari fyrir dómstóla til að freista þess að fá afnumin lög sem gera því erfiðara að brjóta lögin.

Hvert erum við eiginlega komin, þegar lögfræðingar og stjórnmálamenn taka þátt í slíkri ósvinnu?


mbl.is „Ekki eðlilegur málshraði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna?

Fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um nýjar sótvarnarreglur, þar sem hverjum þeim er kemur til landsins frá svokölluðum eldrauðum löndum er skylt að dvelja á hóteli fyrstu fimm dagana eftir komu til landsins. Mest hefur farið fyrir umræðu þeirra er telja þetta lögbrot, minna sagt frá sjónarmiðum hinna, sem vilja fá að lifa sem næst eðlilegu lífi hér innanlands.

Í þessari umræðu er gjarnan talað um frelsissviptingu. Hver er sú svipting? Í meðfylgjandi frétt kemur fram að starfsfólk sóttvarnarhótelsins geti ekki og megi ekki stöðva för þeirra sem út vilja ganga. Hins vegar mun slíkt verða tilkynnt til lögreglu. Því er vart um frelsissviptingu að ræða.

Um nokkurt skeið hafa verið reglur um sóttkví við komuna til landsins, en fólki treyst til að halda hana. Því miður hefur fólk ekki staðið undir því trausti og því er komið sem komið er. Þá vaknar óneitanlega upp sú spurning hvort það fólk sem telur sig vera haldið nauðugu, tilheyri þá ekki einmitt þeim hóp sem brást trausti sóttvarnaryfirvalda, að það hafi bara alls ekki ætlað að halda þá sóttkví sem þó var til staðar þegar það yfirgaf landið.

Réttur fólks til að tjá sig er auðvitað óumdeildur. Fjölmiðlar ættu hins vegar að gæta þess að flytja mál beggja aðila, líka þeirra sem telja ekki nægjanlega langt gengið. Sumir þingmenn hafa farið mikinn og einstaka lögfræðingar bakka þá upp, í frasanum um að um lögbrot sé að ræða, jafnvel brot á stjórnarskrá. Þegar heimsfaraldur geisar ber sóttvarnalækni að leiðbeina stjórnvöldum um varnir landsins, til að lágmarka smit hér innanlands. Stjórnvöldum ber eftir bestu getu að verja landsmenn. Til þess eru sóttvarnarlög. Nú þekki ég ekki þann lagabálk til hlítar, en til að hann virki hlýtur hann að vera ansi sterkur og jafnvel fara á svig við önnur lög landsins. Þá hljóta sóttvarnarlög að vera sterkari. Annars væri lítið gagn af þeim.

Réttur landsmanna til að veirunni sé haldið utan landsteinanna eftir bestu getu er að engu gerður hjá þeim sem taka hanskann upp fyrir þeim sem telja sóttvarnir óþarfar, eða of miklar. Sá réttur, bæði lagalegur og stjórnarskrárlegur, hlýtur að vega meira en þeirra sem velja að ferðast um heiminn á tímum heimsfaraldrar. Þeir sem velja slík ferðalög eiga að gjalda fyrir, ekki hinir sem heima sitja og halda allar þær takmarkanir sem settar eru.

Veiran kemur erlendis frá. Átti upptök sín í Kína og hefur þaðan ferðast um allan heim. Hér á landi tókst fljótlega að ná tökum á ástandinu. Síðan var ákveðið að gefa eftir á landamærunum, að heimila för hingað til lands, en nota einskonar litakóða til að ákvarða hvort fólk væri heimilt að koma beint inn í landið, eða hvort það skyldi sæta sóttkví. Allir vita hvernig fór, veiran náði nýju flugi, með andláti fjölda einstaklinga. Landið lamaðist aftur og fólk og fyrirtæki áttu um sárt að binda. Nú er aftur búið að opna landið, sami litakóði notaður, þó einn ráðherrann sé reyndar búinn að skilgreina rauð svæði í tvo flokka, rauð og eldrauð. Eini munurinn er að þeir sem koma frá mest sýktu svæðunum þurfa að gista á ákveðnu hóteli fyrstu fimm dagana á landinu. Ástæðan er augljós og kemur fram hér fyrr ofan. Eftir stendur að fólk frá gulum svæðum, þar sem farsóttin er enn á fullu og eftir orðanna hljóðan ráðherra einnig þeir sem koma frá rauðum svæðum, geta gengið óhindrað inn í landið. En ráðherra talaði um að einungis fólk frá eldrauðum svæðum þyrfti að sæta sóttkví. Það er því verið að opna enn frekar á komu veirunnar til landsins, jafn skjótt og faraldur minnkar í einhverjum löndum. Í fyrrasumar vor sum lönd þar sem veiran geisaði af krafti, skilgreind sem gul svæði. Hættan nú er söm og þá. Mun þetta leiða til enn fleiri dauðsfalla af völdum veirunnar hér á landi?

Sumir spekingar halda því fram að covid sé eins og hver önnur flensa og benda á tölur um dauðsföll því til staðfestingar. Sem betur fer eru dauðsföll hér á landi ekki í líkingu við hvernig ástandið er víðast erlendis. En það ber fyrst og fremst að þakka sóttvörnum hér á landi og góðri þátttöku fjöldans. Hins vegar er ljóst að í þau skipti sem veiran hefur náð flugi hér, hefur það haft alvarlegar afleiðingar, sjúkrahús yfirfyllst og fólk dáði. Margt af því fólki sem smitaðist á enn í stríði við afleiðingarnar, mörgum mánuðum síðar. Hvernig ástandið væri hér á landi ef ekki hefði tekist að lágmarka veiruna, veit enginn. Líklegt er þó að þá værum við í svipuðum sporum og víða erlendis, þar sem tugir og hundruðir þúsunda fólks hefur þurft að láta í minnipokann, með lífi sínu.

Lög og stjórnarskrá eiga við alla landsmenn, ekki bara örfáa. Lagalegur réttur heildarinnar hlýtur að vera meiri en lagalegur réttur fárra.

Eftir stendur: Hvers vegna velja fjölmiðlar að fjalla einhliða um þá nauðsynlegu ákvörðun að halda fólki á hóteli í fimm daga? Hvers vegna er ekki fjallað um rétt okkar hinna, um að allt sé gert sem mögulegt er til að halda veirunni utan landsteinanna?


mbl.is Telja sóttvarnalög og stjórnarskrá brotna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað getum við gert?

Hvað getum við gert? er nafn á þætti sem sýndur var á ruv fyrir skemmstu. Sjálfur horfði ég ekki á þáttinn er hann var sýndur, en vegna líflegrar umræðu um hann á samfélagsmiðlum lét ég mig hafa það að horfa á hann.

Þar kemur ýmislegt á óvart og framsetning þáttastjórnanda með þeim hætti að vart verður annað séð en að um áróðursþátt sé að ræða. Þar fær hann til viðtals mann sem stjórnandinn kallar "helsta jarðvegsfræðing á Norðurlöndum" Ólaf Arndals. Væntanlega eru frá honum komin öll fræði sem stjórnandinn taldi sér. Þó má telja þáttastjórnanda til tekna er hann opnaði þáttinn, að eftir að hann var búinn að nefna manninn og sauðkindina, sem helsta sökudólg Íslands, taldi hann einnig upp eldgos og veðurfar. Það var reyndar í eina skiptið í öllum þættinum sem þau atriði komu fram. Og fljótlega var maðurinn einnig dreginn út úr dæminu, þannig að blessuð sauðkindin stóð ein eftir sem sökudólgur.

Fljótlega kom fram að á 45% lands er lítill sem enginn gróður, á 30% lands er gróður illa farinn og mikil rofabörð og að einungis 25% lands er vel gróið. Skilgreiningin á hálendi er 200 metrar yfir sjó og um 76% landsins liggur ofan þeirrar línu. 10% lands liggur undir jöklum og svo mætti lengi telja. Þó er ljóst að sú tafla sem sýnd var í þættinum um gróðurfar getur vart staðist, þar sem vitað er að heiðarlönd eru víða grasi gróin með þéttri jarðvegsþekju. 

Hins vegar er ljóst að á hluta landsins er lítill gróður og einnig sýna rofabörð að jarðvegsþekja hefur á sumum svæðum fokið á brott. Þetta má ekki vanmeta og víða sem bændum í samstarfi við landgræðsluna, hefur tekist að snúa þeirri þróun við. En með vilja er enn hægt að finna rofabörð og með yfirlegu má ná þar myndum að einstaka kind skýla sér undir þeim.

En hvað veldur? Þáttur mannsins er sjálfsagt einhver og jafnvel má segja að sauðkindin hafi svo sem ekki hjálpað til. En kenna þeim alla sökina er fráleitt. Þar eru þau öfl sem þáttastjórnandi impraði á í opnun þáttarins, veður og eldgos helsti orsakavaldur.

Fyrir það fyrsta var mannfjöldi og fjöldi sauðfjár í landinu svo lítill að útilokað er að þeir þættir hafi verið örlagavaldur. Það er ekki fyrr en á tuttugustu öld sem fólki fer að fjölga í landinu og sauðfé samhliða. Fram til þess tíma var fjöldi fólks og fjár hverfandi. Enn er fólki að fjölga en hámarki fjölda sauðfjár náðist um 1980, um 800.000. Síðan þá hefur því fækkað niður í um 400.000 fjár.

Nú er farið að rækta eikarskóga á Íslandi. Við landnám er talið að landið hafi verið vaxið trjám milli fjalls og fjöru. Hvort það er rétt skal ósagt látið, en vitað er að eikarskógar uxu hér á landi á þeim tíma, enda tíðarfar mun betra en nú og þó stutt kuldatímabil hafi orðið á jörðinni á fyrstu öldum okkar tímatals, hafði verið enn hlýrra í margar aldir þar á undan og því alls ekki ótrúlegt að eikur hafi lifað af það stutta kuldatímabil. Sá síðasti þessara skóga lét undan síga í lok átjándu aldar, i kjölfar Skaftárelda. Til eru ritaðar heimildir sem lýsa því hvernig síðasti eikarskógurinn hvarf, nánast á einni nóttu, eftir að gös frá gosinu lögðust yfir hann.

Eldgos eru sennilega stærsti orsakavaldur landeyðingar á Íslandi, enda bæði mörg og sum mikil frá landnámi. Þessum gosum fylgir bæði aska og gös, sem eru skeinuhætt gróðri. Samhliða mikið kólnandi veðri var nánast útilokað fyrir gróður að ná sér upp aftur. Þetta sést auðvitað best á því að það land sem enn á erfitt uppdráttar, þrátt fyrir hlýnun, er það land sem er á gosbeltinu þvert yfir landið. Utan þess er gróður mjög góður og jarðþekja með ágætum. Þó hafa stærri tré ekki náð sér á strik nema með hjálp mannsins og líklegt að nú þegar sé maðurinn búinn að gróðursetja fleiri tré en landnemar hjuggu í eldivið.

Varðandi losun kolefnis í andrúmsloftið þá fór jarðvegfræðingurinn heimskunni nokkuð frjálslega með sitt mál. Staðreyndin er að tiltölulega litlar rannsóknir eru til hér á landi um slíka losun og þær fáu sem gerðar hafa verið þarf að lesa með sérstökum gleraugum til að fullyrðing fræðingsins standist. Því er notast við erlendar rannsóknir og þær heimfærðar á fósturjörðina okkar. Slíkt er óhæfa, enda jarðvegur hér ekki í neinum skilningi líkur þeim jarðvegi er þekkist erlendis. Jarðvegur á Íslandi er mun steinefnaríkari, vegna þrálátra eldgosa og öskufalls, en steinefnaríkur jarðvegur losar mun minna co2 en mó og mýra jarðvegur. Þá er vitað að berir melar losa lítið eða ekkert af co2 í andrúmsloftið, en eins og áður sagði telur fræðingurinn að allt að 75% landsins sé nánast melur einn.

Hins vegar er rétt að sauðkindin losar co2, rétt eins og allar skepnur og það er einnig rétt sem stjórnandinn sagði, þegar hann hélt á tveim fallegum lambalærum, að misjafnt getur verið hvað mikil slík losun er, eftir því hvar þeim er beitt. Því er rétt að það eru svæði á landinu sem eru viðkvæm, eins og ég nefndi áður. Nú þegar er hafin stýring á beit á viðkvæmum svæðum, samhliða endurbótum á landi. Þetta er gert í samstarfi nokkurra aðila og eru bændur kannski fremstir í þeirri samvinnu. Hversu mikil losun co2 er frá bústofni er svo spurning, enda engar rannsóknir til um það heldur hér á landi. Þarna er því um áætlaðar tölur að ræða og ekki séð að erlendar rannsóknir séu sóttar til þeirrar áætlunar. Niðurstaðan er því að íslenskur bústofn, hvaða nafni sem hann nefnist, er sagður losa mun meira af co2 út í andrúmsloftið en sambærilegur bústofna annarsstaðar. Hvað veldur er erfitt að segja til um.

Við erum aðilar að samstarfi þjóðanna um losun á co2 út í andrúmsloftið. Því er gríðarlega mikilvægt að allar tölur séu réttar og byggðar á rannsóknum, miklum rannsóknum. Þetta á bæði við um losun sem og endurheimt. Það kemur að skuldadögum hjá okkur, skuldadögum í orðsins fyllstu merkingu. Þá þurfum við að greiða fyrir syndir okkar, með grjóthörðum peningum. Áætlanir um losun verða látnar standa, sér í lagi þegar séð er að okkar áætlanir gera meira úr henni en efni standa til. Hins vegar verður endurheimt tortryggð og engar tölur þar teknar gildar nema með grjóthörðum niðurstöðum rannsókna.

Landbúnaður hér á landi hefur legið undir miklum árásum og nánast sama hvar drepið er niður fæti í þeim málum. Það er ekki bara að landbúnaður sé búinn að eyða landinu eða losa mest allra atvinnugreina af co2, heldur virðist landbúnaður eiga sök á flestu sem miður fer. Í þessum árásum fara fremstir ákveðnir hagsmunahópar sem hafa greiðann aðgang að fjölmiðlum, stjórnmálafólki og embættiskerfinu.

Bændur verða að taka sig á, þeir verða að verjast. Það gengur ekki að láta ákveðna hagsmunahópa stjórna umræðunni um landbúnaðarmál. Það gengur ekki að láta ákveðna hagsmunahópa ná yfirráðum yfir stjórnmálamönnum. Það gengur ekki að ákveðnir hagsmunahópar ráði embættismannakerfinu. Það er auðvelt að verja íslenskan landbúnað og næg rök til, en til þess þarf sterka málssvara. Menn sem svar strax öllu bulli og krefjast þess að umræðan sé rökræn!


mbl.is Hvað hafa bændur gert?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband