Við lifum svarta tíma.
28.2.2022 | 01:01
Enn aukast líkur á heimsstyrjöld, af þeirri tegund sem áður er óþekkt. Pútín virðist gjörsamlega hafi glatað vitinu og hótar nú beitingu kjarnavopna. Hvar þeim skuli beitt er ekki vitað, en líkur eru á að það muni ekki vera nærri Rússlandi, ekki í Úkraínu. Hundar skíta sjaldan nærri bæli sínu.
Nú hafa vestrænir stjórnmálamenn loks áttað sig á hvað virkilega er í gangi, að verið er að hernema fullvalda ríki með hervaldi og mannfórnum. Aðgerðir þeirra eru ágætar, svo langt sem þær ná. Aðstoð með hervopn mun vissulega hjálpa Úkraínu, en alls ekki nóg til að hrekja Pútín til baka. Viðskiptaþvinganir bitna fyrst og fremst á óbreyttu fólki, innan og utan Rússlands. Þær munu ekki vinna þetta stríð.
Beiti Pútín kjarnorkuvopnum er spurning hvar það verður. Hann segir það svar við "fjandsamlegum" aðgerðum vesturvelda, svo líklega mun hann hugsa þau sem skotmörk. Hvað ætla vesturveldin að gera þá? Skjóta kjarnorkuflaugum til baka? Það stríð vinnur enginn!
Á vesturlöndum hefur fyrst og fremst verið horft til að byggja upp varnir gegn tölvuhernaði, að þaðan stafaði mesta ógnin. Nú sést að það var skáldskapur. Hvorki gat Pútín nýtt sér þá aðferð gegn Úkraínu, né hafa vesturveldin getað stoppað hann af í sinn árárás, eftir tölvuleiðum. Enn er stríð framið með mannfórnum. Á meðan vesturlönd einblína á tölvur, hafa bæði Rússar og Kínverjar byggt upp heri sína. Nú er svo komið að sjóher Kína er orðinn stærri en sjóher Bandaríkjanna, bæði er varðar fjöld hermanna og skipa. Því lítið mál fyrir Xi að fylgja fordæmi Pútíns og yfirtaka Taívan. Reyndar miklar líkur á að hann muni gera það.
Það eru svartir tímar framundan. Af aumingjaskap var einum kexrugluðum harðstjóra leift að ráðast með her inn í fullvalda ríki og slátra þar íbúum. Það var ekki fyrr en þeir áttuðu sig á að þessi ruglaði maður horfði einnig í átt til þeirra sem einhverjir vöknuðu. En það var of seint. Mannslífum hefur verið fórnað af óþörfu.
Ekki verður séð hvernig allsherjarstríði verður afstýrt. Eina leiðin er að fella Pútín af stóli. Það tekur tíma. Hins vegar tekur það hann ekki nema eitt símtal að senda kjarnorkuflaugar af stað. Hvar Ísland lendir í því stríði er algerlega óljóst.
Við lifum svarta tíma.
![]() |
Kjarnorkusveitir Rússa í viðbragðsstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Landnám
26.2.2022 | 08:43
Ég bý ekki í Reykjavík og því kemur mér væntanlega lítið við hvernig stjórnun borgarinnar er, eða í hverra höndum. En bíðum aðeins. Reykjavík er höfuðborg Íslands, í Reykjavík er öll stjórnsýslan, megnið af heilbrigðisþjónustunni og þaðan er stórum hluta af fjármagni landsins spilað út og svo framvegis. Því þarf ég, nauðugur eða viljugur, að eiga samskipti við Reykjavík. Því hlýtur mér að koma við hvernig stjórn borgarinnar er háttað, í það minnsta hlýt ég mega hafa skoðun á því.
Núverandi stjórnvöld borgarinnar hafa sýnt einhver mestu afglöp í stjórn sem þekkist, ekki í einu máli heldur flestum. Of langt yrði að telja öll þessi afglöp upp, en nefni sem dæmi samgöngur bragga, sorp og strætó. Og svo auðvitað það allra nýjasta, landnám borgarbúa.
Um nokkuð skeið hefur staðið yfir deila milli borgarinnar og nokkurra íbúa í Vesturbænum, um lóðamörk. Á skipulagi eru þó mörkin skýr, en eigendur hafa valið að eigna sér nokkuð umfram það sem þeim ber. Hafa tekið til sín hluta af grænu túni við Vesturbæjarlaugina og girt af. Að öllu venjulegu ætti ekki að vera mikill vandi að leysa þessa deilu, einfaldlega gefa þessum aðilum einhvern frest til að fjarlægja girðinguna, en að þeim fresti liðnum fjarlægja hana á þeirra kostnað. Engin deila er um hvar raunveruleg lóðamörk liggja.
Á fundi skipulagsnefndar þann 2. febrúar síðastliðinn, var lögð fram tillaga um lausn þessarar "deilu", þar sem lagt er til að þeir landnemar sem þarna eru á ferð skuli fá hluta þess lands sem þeir hafa tekið, en skila hinu. Röksemdarfærsla meirihlutans er að þannig stækki túnið við laugina! Þetta eru einhver undarlegustu rök sem fram hafa verið færð, en þó kannski ekki. Það má búast við öllu af hálfu þessa meirihluta.
Þetta hlýtur að gleðja alla borgarbúa og reyndar alla landsmenn. Nú er bara að skreppa í Lífland og sækja sér nokkra girðingarstaura og net, finna einhvern fallegan stað innan borgarinnar, girða hann af og eigna sér. Hver veit nema maður gæti eignast einhvern hluta þess, loks þegar búið væri að þreyta þetta fólk við Tjörnina nógu lengi!
Það verður að segjast eins og er að það er hreint með ólíkindum að stærsti stjórnmálaflokkur landsins skuli ekki hafa mannaval til að steypa af stóli svo gjörsamlega óhæfu fólki sem nú stjórnar borginni. Ekki nóg með það, flokkurinn hefur aldrei mælst svo lítill sem nú, nokkrum vikum fyrir kosningar! Reyndar má segja að þjóðkjörnir fulltrúar eru svo sem ekki að bæta stöðu flokksins, eða hjálpa til við þetta þarfaverk. Yfirlýsing eins þingmanns flokksins um sölu á gulleggi þjóðarinnar, Landsvirkjun, er eitt dæmi þess.
Fer sem horfir er ljóst að núverandi meirihluti muni halda, jafnvel auka fylgi sitt. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að girða sig í brók og tefla fram fólki sem hefur getu og vilja til að snú borginni á betri braut. Það ætti svo sem ekki að vera erfitt verk, næg eru rökin.
Ég er hins vegar farinn að velta fyrir mér hvar best sé að nema land innan borgarmarkanna.
![]() |
Beint: Reykjavíkurþing Varðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Boð vesturvelda til Pútíns
25.2.2022 | 07:42
Ástandið í Úkraínu er skelfilegt! Fyrir okkur Frónbúa, sem höfum aldrei lifað við þá ógn að vera í raunverulegu stríði, er útilokað að gera sér í hugarlund hvernig fólkinu í Úkraínu líður. Í landi þar sem engu er líkara en heimsbyggðin hafi snúið baki við.
Aldrei hélt ég að ég myndi vitna í orð Eiríks Bergmanns, eða vera honum sammála. Hann komst þó nokkuð vel að orði í fréttum á Stöð 2 í gærkvöldi, fangaði í raun sannleikann í einni setningu:
Einhverjar efnahagsþvinganir hafa lítið að segja og alls ekkert nú. Slíkar aðgerðir skila sér ekki fyrr en eftir nokkurn tíma og bitna þá mest á þeim er síst skildi, almenningi þess lands er þær eru höfðaðar gegn. Það verður búið að fórna mögum mannslífum áður en fyrsta rúblan tapast úr vasa Pútín, vegna þeirra aðgerða, þ.e. ef vesturlönd geta þá yfir höfuð komið sér saman um einhverjar aðgerðir. Varðandi viðskipti Rússa við vesturlönd má segja að eina sem verulega skiptir þá máli sé sala á olíu og gasi til Evrópu, en auðvitað á ekki að loka fyrir þau viðskipti, þar eru hagsmunir vestanmegin of stórir, sér í lagi í hjarta ESB, Þýskalandi.
Fyrir okkur Íslendinga skipta viðskiptaþvinganir við Rússa akkúrat engu máli. Þau viðskipti voru lögð af eftir töku Rússa á Krím og hafa lítið aukist eftir það. Það eina sem við getum gert, herlaus þjóðin, er að vísa sendiherra Rússa úr landi. En nei, hér er honum bara hampað og látinn bulla áróður Pútíns í sjónvarpi!
Viðbrögð vesturvelda eru vægast sagt vonbrigði og ef þau telja að með þessu séu þau að minnka skaðann, er slíkt mikill misskilningur. Pútín er rétt að byrja. Reyndar má segja að ESB sé orðið svo háð Rússum að þeir geti lítið gert og vissulega mun þetta afskiptaleysi vernda þá hagsmuni eitthvað, eða þar til Pútin lætur næst reiða til höggs. Hann sér vanmátt ESB og aumingjaskap Bidens.
Það á að gera sömu mistök og gerð voru undir lok fjórða áratugar síðustu aldar. Sleppa brjálæðingnum lausum smá stund í von um að hann fari aftur í bæli sitt. Það hafa brjálæðingar aldrei gert!
![]() |
Segir íbúðabyggðir nú skotspón Rússa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Settur út á guð og gaddinn
23.2.2022 | 23:54
Ekki skal undra þó yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans hafi áhyggjur. Þann dag þegar tilkynnt er um að met hafi verið slegið í staðfestum smitum, deginum áður (2.689), tilkynnir ríkisstjórnin algera afléttingu aðgerða gegn framgangi veirunnar. Þetta met verður auðvitað aldrei slegið, bókhaldslega séð, enda skal skimunum hætt.
Sóttvarnarlæknir segir að hjarðónæmi mun væntanlega verða náð undir lok næsta mánaðar. Segir jafnframt að til að svo megi verða þurfi 80% þjóðarinnar að smitast. Samkvæmt tölulegum gögnum á covid síðunni, eru nú staðfest smit orðin um 115.000. Til að ná smiti meðal 80% þjóðarinnar þurfa því á næstu 40 dögum að smitast 180.000 manns. Það gerir um 4.500 manns á dag að meðaltali. Ekki er því að undra að Landspítali óttist framtíðina. Jafnvel þó innlagnir á spítalann séu mun færri nú á hverja 1.000 smitaðra, eru innlagnir samt nokkrar. Ef að meðaltali smitast um 4.500 manns á dag næstu 40 daga, er ljóst að álag á spítalann mun verða talsvert, mun meira en hann er ætlaður til að sinna. Á meðan verða aðrar nauðsynlegar læknisaðgerðir að bíða.
Samkvæmt skipun stjórnvalda skal skimun hætt. Þar með fer eini mælikvarðinn á fjölda smita forgörðum. Hvernig sóttvarnarlæknir ætlar að staðfesta að hjarðónæmi sé náð meðal þjóðarinnar er vandséð. Það er lítið vitað um fjölda smita ef hann er ekki mældur og því ekki vitað hvenær 80% þjóðarinnar hefur smitast.
Ég hef gegnum síðustu tvö ár hlýtt sóttvörnum í hvívetna, farið í allar sprautur sem boðist hafa gegn veirunni og lagt mig fram um að tala máli sóttvarnaryfirvalda hvar sem tækifæri hefur gefist. Það er því frekar blaut tuska sem nú slær andlit manns. Að nú skuli setja okkur sem erum viðkvæmust fyrir smiti og hefur tekist að halda því frá okkur, út á guð og gaddinn!
![]() |
Við erum uggandi yfir framtíðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðja heimstyrjöldin?
23.2.2022 | 00:47
Ástandið í heiminum er farið að minna illilega á það sem gerðist í upphafi seinni heimstyrjaldar. Lönd eru hernumin í nafni þess hvert tungumál er talað innan þeirra. Landamæri eru vanvirt og farið með heri yfir. Aldrei datt þó Hitler í hug að kalla heri sína friðargæsluliða, jafnvel þó hann hefði haft áróðursmeistara sinn sér við hlið. Sennilega vegna þess að það hugtak var vart til á þeim tíma. Þar hefur Pútín vissulega forskot.
Enn skuggalegra er að nú virðist vera að myndast enn meiri vinskapur milli Pútíns og Xi Jinping, forseta Kína. Kína hefur einnig sýnt heri sína og virðist tilbúinn til alls. Hefur þegar svikið öll loforð um sjálfstæði Hong Kong og er farinn að sýna enn frekari tilburði til að yfirtaka Taívan. Þessi leikur Pútín blæs sjálfsagt enn frekar í þau segl Xi.
Hvort við erum komin á þann stað að ekki verður aftur snúið, er ekki gott að segja. Þó verður að segja eins og er að viðbrögð vesturlanda bjóða ekki beinlínis upp á bjartsýni. Þau líkjast einna helst sneypuför Chamberlain, sem hann kallaði "friðarviðræður", eftir að Hitler hafði lagt undir sig Rínarlöndin, Austurríki og Sudethéruð Tékkóslóvakíu. Pútín er búinn að taka Krím og austurhéruð Úkraínu, en mun hann stoppa þar? Hann er þegar farinn að tala um löndin fyrir botni Eystrasalts. Þau eru reyndar komin í NATO, þannig að erfiðara er fyrir hann að sækja þangað, en ekki ætti að útiloka þann möguleika. Og vesturlönd ætla að beita efnahagsþvingunum, sniðnum að ákveðnum stórríkjum Evrópu, eins og vanalega. Það er eins og að skvetta vatni á gæs, sér í lagi ef Pútín og Xi taka höndum saman.
Menn geta vissulega deilt um og velt fyrir sér hvers vegna þessi staða er komin upp nú. Talað er um að Pútín þyki vesturlönd vera farin að færa sig freklega upp á skaftið, jafnvel svo að hann telji Rússlandi ógnað. Það má til sanns vegar færa, en það eru jú íbúar þessara landa sem eiga að eiga síðasta orðið, ekki nágrannar þeirra, hvort heldur er til austurs eða vesturs. Og víst er að íbúar Úkraínu vilja fæstir fara aftur undir ægivald rússneska björnsins, fengu nóg af því á Sovét tímanum. Þetta er ekki ósvipuð rök og Hitler hafði, en hann taldi Versalasamninginn vera ógn og beinlínis móðgun við Þýskaland. Þessar vangaveltur skipta þó litlu úr því sem komið er.
Hvort við erum að horfa upp á upphaf þriðju heimstyrjaldar skal ósagt látið, en þeir atburðir sem nú hafa orðið og viðbrögð hins frjálsa heims við þeim, bjóða vart upp á bjartsýni.
![]() |
Pútín varar við hærra matvælaverði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Að skvetta bensíni á eld
9.2.2022 | 15:33
Það er þekkt aðferð erlendis að hækka stýrivexti þegar verðbólga lætur á sér kræla. Þetta er sögð vísindi og sjálfsagt má það rétt vera. Hér á landi virkar þetta hins vegar á þver öfugan hátt og má þar kenna tvennum sér íslenskum þáttum um, annars vegar að húsnæðisliður er hér mældur til verðbólgu og hitt að stór hluti húsnæðislána er verðtryggður. Þá eru óverðtryggð lán til húsnæðiskaupa í flestum tilfellum með fljótandi vöxtum.
Þetta leiðir til þess að þegar stýrivextir hækka þá hækka húsnæðislán, sem aftur hækkar húsnæðislið í vísitöluútreikningi, sem enn aftur hækkar verðbólgu. Hringekjan fer af stað. Bankarnir auka enn frekar hagnað sinn, án nokkurra forsendna en alfarið á kostnað fjölskyldna í landinu, sem svelta meir en áður. Jafnvel lenda á götunni.
Það dynja á okkur erlendar hækkanir, hækkanir sem við ráðum engu um en eru fyrst og fremst til komnar vegna manngerðra hörmunga, þ.e. manngerðum orkuskorti. Ekkert hér innanlands er orsök þessarar verðbólgu og því með ósköpum að seðlabankinn ætli að vera leiðandi á því sviði. Reyndar ekki bara leiðandi, heldur kemur með lausnir sem beinlínis neyða fyrirtæki til að hækka sínar innlendu vörur.
Byrjum á að mæla verðbólgu með sama hætti og lönd þau er við viljum miða okkur við, að taka húsnæðisliðinn út. Næst skulum við banna verðtryggð lán. Þá má skoða hvort hækkun stýrivaxta skuli notuð gegn verðbólguskotum. Til að nota erlendar aðferðir gegn verðbólgu, verðum við að nota erlendar aðferðir við mælingu hennar og erlendar aðferðir við fjármögnun húsnæðis. Annað er með öllu ófært!
Þessi aðgerð peningastefnunefndar Seðlabankans er eins og að skvetta bensíni á eld. Minnir á hvernig peningamálum landsins var stjórnað fyrir hrun!
![]() |
Hækka stýrivexti um 0,75 prósentur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)