Árni grét

Á fimmtudegi sendir Árni Páll opinbert bréf til þjóðarinnar þar sem hann tíundar getuleysi og aumingjaskap eigin flokks, í tveim síðustu ríkisstjórnum. Þetta bar merki þess að eitthvað örli á smá skynsemi í kolli Árna.

Á sunnudegi dregur hann allt til baka, eða að minnsta kosti finnur einhverja aðra sökudólga. Þingmenn hafa snúist í heilar 360 gráður í ræðustól Alþingis, að vísu undir áhrifum áfengis. Ekki var að sjá að Árni Páll hefði slíka afsökun fyrir sínum snúning.

Árni Páll telur það ekki Samfylkingu að kenna að verðtrygging var ekki afnumin meðan stæðsti skellur hrunsins skall á þjóðinni. Þó var félagsmálaráðherra samflokksmaður Árna og meirihluti þeirrar nefndar um málið, sem ráðherrann skipaði, voru einnig flokksfélagar Árna Páls. Það er ekki þessu fólki að kenna hvernig fór, að mati Árna Páls. Jafnvel þó Gylfi Arnbjörnsson og Sigríður Ingibjörg hafi ekki tekið sér nema örfá daga til að komast að þeirri niðurstöðu að verðtrygging skyldi standa. Nei það var ekki þessu fólki að kenna, eða flokknum hans. Þetta bara gerðist, alveg óvart!

Árni Páll segir að "skjaldborgin" hafi aldrei verið ætluð til að verja heimilin, heldur einungis verja þau. Nokkuð snúið. Hann telur að vel hafi tekist til í því efni, fólk bara áttaði sig ekki á því! Árni Páll ætti að setjast við tölvu og skoða greinar dagblaða frá þessum tíma. Þær má finna á timarit.is. Hann ætti líka kannski að tala við þær þúsundir manna sem misstu aleigu sína í kjölfar hrunsins. Skjaldborgin var lofuð heimilum, en færð fjármálaöflum!!

Þá segist Árni Páll hafa farið að gráta þegar Hæstiréttur dæmdi ábyrgðamenn ábyrga. Auðvitað dæmdi Hæstiréttur svo, enda varð hann að fara að lögum. Það "gleymdist" nefnilega að breyta þessu í lögum þegar embætti umboðsmanns skuldara var stofnað.

Reyndar man ég ekki eftir að Árna Pál hafi brugðið svo mikið þegar þessi dómur féll, hins vegar gat hann ekki leynt geðshræringu sinni þegar annar dómur Hæstaréttar féll, dómurinn um ólögmæti gengistryggðra lána. Þá var ekkert fum á honum og á örskömmum tíma tókst honum að semja frumvarp sem gerði þann dóm nánast gagnslausan. Í það minnsta hafa þau lög tafið verulega að eftir þessum dómi væri farið og enn fólk sem er að berjast við sína lánveitendur vegna þeirra. Þessi lög, sem hafa verið eftir honum nefnd, eru einn stæðsti minnisvarði sem reistur mun verða um Árna Pál, minnisvarði sem hann þó sjálfsagt vildi síst sjá.

Árni Páll er sem sagt búinn að finna sökudólg vandræða Samfylkingar. Það er ekki forusta flokksins sem eru sek, nei, sökudólgurinn er sjálfur Hæstiréttur. Sú ósvinna réttarins að fara að lögum er ástæða þess að Samfylkingin er að syngja sitt síðasta. Hann vill meina að þar sem löggjafavaldið klikkar eigi dómsvaldið að taka sér löggjafavald!

Enn vantar þó á svör við því ágæta bréfi sem hann sendi þjóðinni á fimmtudag. Enn á hann eftir að upplýsa hvaða baktjaldamakk eða hrossakaup áttu sér stað vegna aðildarumsóknar. Þetta er STÓRA spurningin, enda sá þáttur sem sundraði þjóðinni mest á þeim tíma er sameining hennar og samstaða var hvað mikilvægust.

Hann á líka eftir að upplýsa þjóðina hvers vegna svo mikil áhersla var lögð á Icesave málið og hvers vegna ríkisstjórnin sagði ekki af sér í kjölfar hrottalegrar útreiðar í því máli, þegar þjóðin stóð sem einn maður gegn ríkisstjórninni.

Þessi tvö mál, ESB umsóknin og Icesave lögin voru millusteinn Samfylkingar.

Samfylkingarfólk getur nú andað léttar. Það þarf ekki að óttast neitt uppgjör við fortíðina. Nú hefst vinna að fullum krafti við að koma sem mestu af ósóma síðustu ríkisstjórnar á Hæstarétt og þau sem ekki er hægt að setja undir hann eru einfaldlega skrifuð á skilningsleysi þjóðarinnar!

Svo bara drepst Samfylkingin hægum en öruggum dauðdaga. Bóndi væri búinn að slá svona skjátu af, en kaffihúsaliðið í Reykjavík mun láta hana þjást til loka.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband