Verðtryggingin og Framsókn

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, ritar ágætan pistil á pressan.is. Allir ættu að lesa þennan pistil Vilhjálms, þar sem hann veltir fyrir sér kosningaloforðum Framsóknar og hvernig hefur tekist til með þau.

Vilhjálmur nefnir að Framsókn geti að mestu leyti þakkað þann sigur sem hann hlaut í síðustu kosningum þrem málefnum, loforð um afnám verðtryggingar, leiðréttingu forsendubrest húsnæðislána í kjölfar hrunsins og afnám fjármagnshafta á kostnað kröfuhafa.

Vilhjálmur bendir á þá staðreynd að afnám hafta hefur tekist og það í þeim anda sem Framsókn lofaði, anda sem enginn frambjóðandi annarra flokka taldi mögulegan. Leiðrétting forsendubrests lána tókst einnig þokkalega, þó auðvitað lánþegar hefðu viljað sjá meiri leiðréttingu en raunin varð. Þetta var þó mikið framfaraskref miðað við málflutning annarra flokka fyrir kosningar, þar sem enginn þeirra taldi svigrúm til þessarar leiðréttingar.

Þegar kemur að afnámi verðtryggingar á húsnæðislán og setningu vaxtaþaks á þau, er aftur minna um efndir. Strax að lokinni stofnun núverandi ríkisstjórnar var ákveðið að setja þetta mál í nefnd. Sú nefnd skilaði af sér, að vísu ekki samróma áliti, en síðan hefur akkúrat ekkert gerst. Þetta atriði átti þó óumdeilanlega stæðstan þátt í sigri Framsóknar í síðustu kosningum.

Nú um þessar mundir hafa þingmenn Framsóknar ferðast um landið með fundaherferð. Sammerkt með flestum eða öllum þessum fundum er að kjósendur krefja flokkinn um efndir afnáms verðtryggingar, enda það atriði hluti af stjórnarsáttmálanum. Þingmönnum flokksins hefur verið gert vel skiljanlegt að engin ástæða sé til framboðs fyrir næstu kosningar, ef ekki verður við þetta atriði staðið og ættu þeir að taka þær athugasemdir alvarlega. Verði ekki staðið við þetta kosningaloforð, sem gekk inn í stjórnarsáttmálann, þarf hvorki formaður flokksins né nokkur annar þingmaður hans að rita bréf í anda þess sem Árni Páll sendi sínum flokksfélögum nýlega. Slíkt bréf verður með öllu óþarft af hendi þingmanna eða formanns Framsóknar, þar sem engir viðtakendur verða. Það er því mikilvægt fyrir framsókn að þetta mál verði tekið upp sem fyrst, með eða án samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Ef samstarfsflokkur Framsóknar kýs að láta þetta verða málefni til slita samstarfinu og ganga þannig gegn stjórnarsáttmálanum, verður svo að vera.

En það er eitt mál enn sem gaf Framsókn atkvæði í síðustu kosningum. Afturköllun aðildarumsóknar er mörgum kjósanda Framsónar sem heilagt mál. Utanríkisráðherra hefur nú klúðrað því máli hressilega og það sem verra er, hann vill ekki viðurkenna þau mistök. En þar er þó ekki alfarið við ráðherrann að sakast. Ríkisstjórnin hefur sterkan meirihluta á þingi. Samt var þingsályktunartillaga ráðherrans gerð afturræk af þinginu, skömmu eftir að hún var lögð þar fram. Menn vilja kenna málþófi stjórnarandstöðu um, en það er kolröng kenning. Ríkisstjórn sem hefur slíka yfirburði á Alþingi, sem raun er nú, þarf ekki að gefa eftir vegna málþófs, einungis tafir verða af slíku. Það reyndi þó ekki alvarlega á þetta málþóf stjórnarandstöðunnar, þar sem ráðherrann dró tillöguna til baka með jafn skörpum hætti og hún var lögð fram, eftir einungis stutta umfjöllun.

Hver var ástæða þess? Hvers vegna dregur ráðherra í ríkisstjórn, sem hefur góðan meirihluta á Alþingi til baka tillögu, nánast strax í upphafi umræðu um hana? Þarna er einungis ein skýring, að ekki hafi verið meirihluti stjórnarþingmanna fyrir tillögunni, þrátt fyrir afgreiðslu í báðum stjórnarflokkum. Allir þekkja að núverandi þingmenn Framsóknar stóðu sem einn maður baki tillögunni, það sama verður ekki sagt um þingmenn samstarfsflokksins. Því er rangt að kenna alfarið utanríkisráðherra um hvernig komið er í þessu máli, nema auðvitað að hann skyldi ekki láta á það reyna fyrir Alþingi. Sökin er miklu fremur hjá samstarfsflokknum og enn og aftur velur sá flokkur að ganga gegn stjórnarsáttmálanum.

Það er klárt mál að ef Framsókn ætlar að ná einhverjum þingmönnum inn á Alþingi í næstu kosningum þurfa þingmenn hans að girða sig í brók. Í fyrsta lagi verða þeir að koma þingmönnum samstarfsflokksins í skilning um að það var gerður stjórnarsáttmáli um þessa ríkisstjórn og hann ber að halda. Í öðru lagi verða þingmenn Framsóknar að standa fastir á sínum málum um önnur málefni, sem ekki eru innan stjórnarsáttmálans, s.s. uppstokkun bankakerfisins. Engum datt til hugar að slíkt tækifæri byðist aftur, eftir að vinstri flokkarnir höfðu klúðrað því svo hressilega sem raun varð á.

En þetta vandamál snýr ekki bara að Framsóknarflokki. Fjölmargir kjósenda Sjálfstæðisflokks munu einnig snú baki við sinn flokk, standi þingmenn hans gegn afnámi verðtryggingar og gegn afturköllun aðildarumsóknar. Hins vegar gæti formaður Sjálfstæðisflokks hugsanlega getað samið bréf a la Árni Páll, að hugsanlega verði einhverjir til að taka móti slíku afsalsbréfi, jafnvel þó sá flokkur muni ekki eiga marga þingmenn.

Arfa slakt gengi beggja stjórnarflokka í skoðanakönnunum verður ekki skrifað á vinstri flokkanna, enda treysta kjósendur þeim ekki, eftir fjögurra ára sýnishorn af þeirra skelfingar stjórnháttum og þeir því að þurrkast út af vígvelli íslenskra stjórnmála. Og ekki verður þetta slæma gengi stjórnarflokkanna skrifað á Pírata.

Slæmt fylgi stjórnarflokkanna er alfarið þeirra eigin sök og því halla kjósendur sér að Pírötum, enda þeir óskrifað blað. Fylgisaukning Pírata er því ekki vegna þess hversu vel þeir eru að sér, heldur hinu, hversu slakir stjórnarflokkarnir eru og þeirri staðreynd að vinstriflokkarnir eru að hverfa.

Aðgerðarleysi, stefnuleysi og gunguskapur í þeim málefnum sem mest brenna á þjóðinni er einfaldlega ekki í boði. Kjósendur láta ekki bjóða sér slíkt og leita annað. Þetta annað formgerist í Pírötum.

Engin ríkisstjórn hefur þó verið í betri aðstöðu til að framkvæma vilja þjóðarinnar og einmitt núverandi ríkisstjórn. Hún þarf einfaldlega að efna loforðin og til þess eru allar forsendur einmitt nú um þessar mundir.

Ef einhvertímann er lag til afnáms verðtryggingar er það þegar verðbólga er lág. Núverandi ríkisstjórn hefur tekist að halda lágri verðbólgu um langan tíma, þrátt fyrir að Seðlabankinn geri allt sem er í hans valdi til að magna hana upp og þrátt fyrir að launahækkanir hafi verið mun hærri en hagfræðingar töldu gerlegt. Því mun sennilega seint gefast jafn gott tækifæri og nú til að afnema verðtrygginguna.

Aðstæður í ESB og sá vandi sem þar er óleystur og magnast dag frá degi, hefur gert enn fleiri afhuga aðild að því sambandi. Jafnvel höfuðvígi ESB á Íslandi, Samfylking, er að þrotum komið. Því er formleg afturköllun umsóknarinnar einungis afgreiðslumál fyrir stjórnarflokkanna.

Og þar sem svo vel virðist vera að takast að losa um fjármagnshöftin, miklu betur en nokkur þorði að vona fyrir síðustu kosningar, nema Framsókn, ætti ekki að vera mikill vandi að laga aðstæður aldraðra og öryrkja. Uppbygging heilbrigðiskerfisins er á góðri leið, þó betur mætti kannski gera. Helsti vandinn þar er að það gegndarlausa svelti sem það varð fyrir á síðasta kjörtímabili er að koma í hausinn á okkur með hruni þeirra húsa sem hýsa stæðsta spítala landsins, vegna skorts á viðhaldi. Þá er stór vandi í heilbrigðiskerfinu algert stjórnleysi innan Landspítalans, þar sem smákóngarnir berjast á banaspjótum meðan sjálfur forstjórinn spilar á hörpu.

Það væri synd ef núverandi stjórnarflokkar, sérstaklega Framsókn, þar sem þar virðast einu þingmenn Alþingis sem búa yfir einhverjum kjark vera, utan auðvitað Guðlaug Þór sem er eini þingmaður Sjálfstæðisflokks sem hefur kjark, færu frá í næstu kosningum. Væri synd ef afturhaldið sem réði ríkjum síðasta kjörtímabil kæmist aftur til valda, með sinni skattpíningu og reglugerðafargani, sem allt lamar.

Það eina sem núverandi stjórnarflokkar þurfa að gera er að standa við loforð sín, afnema vertryggingu og setja hámark á vexti húsnæðislána, afturkalla aðildarumsóknina með formlegum hætti, auka fjármagn til aldraðra og öryrkja enda flestir kjósendur sem eiga rætur til einhverra úr þeirra hópi og efla heilbrigðiskerfið enn hraðar. Með auknum fjárframlögum til þess þarf einnig að fylgja uppskurður á stjórnun Landspítalans.

Ef stjórnarflokkarnir hafa kjark og þor til að framkvæma þetta, erum við Íslendingar í góðum málum og stjórnarflokkarnir geta gengið til kosninga knarrreystir. Ef ekki er vilji innan Sjálfstæðisflokka að ganga þessa leið og standa þannig við stjórnarsáttmálann, á Framsókn ekki að hika við taka sóló og láta reyna á stjórnarsamstarfið. Sá flokkur hefur engu að tapa en allt að vinna og reyndar á það við um báða stjórnarflokka.

Að lokum bendi ég fólki aftur á að lesa pistil Villa Bigg.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gunnar jafnan - sem og aðrir gestir, þínir !

Að mörgu leyti: ágæt grein, af hálfu Vilhjálms.

En - hann: jafnt þér / sem mörgum annarra yfirsézt sú staðreynd, að þessi flokks ómynd, sem þú vísar hér til:: líkt Vilhjálmi Birgis syni KAPPKOSTAR það eitt, að seilazt meir og meir, ofan í vasa okkar landsmanna, áþekkt hinum flokkunum.

Þessum: tæplega 100 ára flokki, dugði ekki, að merja niður Samvinnuhreyfinguna á sínum tíma:: með hjálp kratanna o.fl., til þess að koma eignum hennar, mestan part,, í kámugar lúkur flokks gæðinganna - heldur og: skal haldið áfram, að STELA öllu steini léttara, meðan hindrunarlaust býðst þeim.

Sjáum Bifreiðagjöldin Gunnar t.d. - pakki, sem átti að hverfa úr innheimtu, í síðasta lagi, í árslok 1990, skv. LOFORÐUM þeirra Þorsteins Pálssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem þeir marg yfirlýstu, í Kastljóss þætti Ríkissjónvarpsins, Haustið 1988, nokkrum mánuðum áður taka skyldu gildi, eða í ársbyrjun 1989.

Sjáðu fyrir þér frændi: ALLAR þær fúlgur fjár, sem landsmenn og fyrirtæki þeirra eiga inni, hjá skussum Ríkissjóðs / ALLAR GÖTUR síðan  / og ýmisskonar: þaráður !!!

Svo - aðeins séu rifjuð upp, sem dæmi um fásinnu sjálfstæðs arðræningjabælisins Íslands - sem ALDREI skyldi orðið hafa (1918 - 1944) !!!

Með beztu kveðjum samt: sem áður - af Suðurlandi, vestur á Skipaskaga, sem víðar um grundir /  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.2.2016 kl. 13:24

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll frændi.

Það er mikið til í þinni athugasemd, sem jafnan. Eins og fram kemur bæði hjá mér og Villa, þá er ljóst að ef Framsókn ætlar að halda uppteknum hætti og fylgja öðrum stjórnmálaflokkum eftir í sinni fylgispekt við ráðandi fjármálaöfl í landinu, munu dagar þess flokks verða taldir.

Það er af sem áður var, þegar framsókn hékk á fylgi vegna tengsla við samvinnuhreyfinguna, sem þeir svo stútuðu, eins og þú nefnir. Fylgið sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum var vegna þess að hann einn flokka kom fram með ákveðnar og metnaðarfullar tillögur, s.s. að láta kröfuhafa gömlu bankanna borga niðurfellingu fjármagnshafta, afnám verðtryggingar og afturköllun aðildarumsóknar að ESB skrímslinu.

Allir aðrir flokkar töldu þetta ógerlegt, sérstaklega að krefja kröfuhafa um greiðslu kostnaðar vegna afnáms hafta. Allir þekkja þó að þetta tókst, þó auðvitað þeir sem töldu þetta útilokað fyrir kosningar telji nú að ekki hafi verið nægjanlega gengið á kröfuhafana.

Það var vegna þessa áræðis sem frambjóðendur Framsóknar sýndu fyrir kosningar sem flokkurinn naut góðs af og ef kjósendur sjá að þetta var bara grobb, munu þeir láta flokkinn gjalda þess hressilega.

Vissulega voru margir skeptískir og man ég margan pistil þinn þar sem þú varaðir við þessum flokki, sem og flestum eða öllum öðrum sem voru í framboði. Og vissulega getur verið, eru reyndar meiri líkur en minni á, að þú hafir haft rétt fyrir þér.

Eftir sem áður fékk Framsókn mikið fylgi í síðustu kosningum og hefur nú sannað að hægt var að krefja kröfuhafa um kostnað við afnám hafta. Nú á flokkurinn eftir að sýna að hann hefur kjark til að afnema verðtryggingu og afturköllunar aðildarumsóknar. Verði það ekki gert mun þessi flokkur ekki þurfa að bjóða fram í næstu kosningum né nokkurn tímann aftur. Þá hefur hann sannað að jafnvel þó skipt sé um fólk í flokknum og jafnvel þó kjarkað fólk velst þangað inn, þá er flokkurinn sterkari. Nú er engin samvinnuhreyfing og flokkurinn því alfarið háður kjósendum.

Ekki kaus ég vorið 2009, sá engan flokk sem ég treysti mér til að afhenda mitt umboð. Þó hugsaði ég vel til VG fyrir þær kosningar og skammast mín sennilega alla daga sem ég á eftir lifað vegna þess. Ég vona sannarlega að ég eigi ekki eftir að skammast mín líka fyrir að hafa mætt á kjörstað vorið 2013 og nýtt minn kosningarétt. Allt stefnir þó í það, eins og mál standa.

En ég vil trúa því að enn sé til fólk sem stendur við sín loforð, jafnvel meðal stjórnmálamanna. Án þeirrar trúar verður lífið tilgangslítið.

Vel getur verið að þessi trú mín sé tálsýn.

Með bestu kveðjum af Skipaskaga.

Gunnar Heiðarsson, 13.2.2016 kl. 14:28

3 identicon

Sæll á ný - frændi !

Þér er óhætt: AÐ MISSA TRÚNA á ÓHÆFT og þjófótt stjórnmálaliðið í landinu, Gunnar minn.

Áratuganna - sem árhundraða reynslan, ætti að sanna það.

Við Hernaðarsinnar (Rússlands megin: sem annarra útvarða Siðmenningarinnar), getum vottfest það: margfaldlega.

Ekki lakari kveðjur - hinum fyrri / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.2.2016 kl. 14:38

4 identicon

Íhaldið ætlaði ekki og sagðist ekki ætla að afnema verðtrygginguna. Það er dálítið hæpið að ætlast til þess að annar stjórnarflokkurinn (sá sem fékk færri atkvæði) komi öllum sínum málum í gegn. Eins og þú bendir á komu þeir tveim verulega stórum málum í gegn. Íhaldið kom líka sinni stefnu í gegn að létta skuldabyrði gegnum skattkerfið (skattaniðurfelling á séreignasparnaðarinngreiðslur á fasteignalán).

ls (IP-tala skráð) 15.2.2016 kl. 13:28

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Mikið rétt Is, Sjálfstæðisflokkur talaði ekki fyrir afnámi verðtryggingar í undanfara síðustu kosninga, það gerði Framsókn einn flokka.

Hitt er staðreynd að þetta atriði rataði inn í stjórnarsáttmálann, enda ljóst að Framsókn hefði ekki stofnað til ríkisstjórnar nema það yrði hluti þess samstarfs að afnema verðtryggingu.

Og eftir að ríkisstjórn hefur verið mynduð, gerð um hana stjórnarsáttmáli sem samþykktur er af þingmönnum beggja stjórnarflokka án athugasemda eða fyrirvara, er ljóst að það er stjórnarsáttmálinn sem ræður gerðum hennar.

Síðan getur hver þingmaður gert það upp við sýna samvisku hvort hann vill standa við að hafa samþykkt þennan stjórnarsáttmála.

Gunnar Heiðarsson, 16.2.2016 kl. 07:54

6 identicon

Þessir menn eru nú klókari en svo að setja beint í stjórnarsáttmála að verðtrygging yrði afnumin, enda myndi Sjálfstæðisflokkurinn aldrei samþykkja það. Ég nenni ekki að fletta því upp, en mig minnir að það hafi átt að 'minnka vægi verðtryggingar' eða eitthvað svoleiðis.

ls (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 13:31

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er alltaf gott að lesa um það sem maður skrifar, Is.

Það segir í stjórnarsáttmálanum að skipa skuli nefnd um þetta atriði og henni gefinn sjö mánuðir til að skila af sér. Engin afstaða tekin um hvernig afnámið skyldi framkvæmt, heldur nefndinni falið það hlutverka að ákveða með hvaða hætti það skyldi gert.

Ekki virtust allir nefndarmenn hins vegar skilja sitt hlutverk og því komst hún ekki að eindóma niðurstöðu. Allt frá því að afnema verðtryggingu á löngum tíma og minnka vægi hennar á meðan og yfir í að afnema verðtrygginguna að fullu strax.

Það var ekki hlutverk nefndarinnar að skoða hvort ætti að afnema verðtrygginguna, heldur hvernig.

Það er nú liðin nokkur tími frá því nefndin skilaði af sér, eða um tvö ár. Frá þeim tíma hefur ekki heyrst hósti né stuna frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar um málið, þó þingmenn Sjálfstæðisflokks hafi verið duglegir að tala það niður við hvert tækifæri, allt frá því nefndin skilaði af sér.

Það er því ekki að undra þó þingmenn Framsóknar séu farnir að ókyrrast og tjá sig um málið. Þetta var jú hluti stjórnarsáttmálans og þingmenn Sjálfstæðisflokks samþykktu þann sáttmála, án athugasemda eða fyrirvara um þetta mál.

Að vísu kom einn þingmaður Sjálfstæðisflokks út af þeim fundi beint í viðtal við fjölmiðla og mótmælti þar þessu ákvæði stjórnarsáttmálans, þó hann hafi ekki gert formlega athugasemd við þetta er sáttmálinn var samþykktur.

Gunnar Heiðarsson, 16.2.2016 kl. 16:14

8 identicon

 "Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót."

Það er s.s. ekkert sagt um hvað ætti að gera eftir að nefndin skilaði af sér.

Enda væru þetta slappir pólitíkusar ef þeim tækist ekki að orða þetta almennilega loðið.

ls (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 17:09

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

"Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og ...."

Getur orðalagið verið skýrara?

Gunnar Heiðarsson, 16.2.2016 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband