Lægra matvöruverð

Auðvitað má lækka matvöruverð og það nokkuð. Í tengslum við undanfarna kjarasamninga hefur ríkisstjórnin komið fram með nokkur málefni til að liðka þar fyrir. Má þar nefna lækkun skatta, lækkun ýmissa gjalda s.s. innflutningsgjalda og sykurgjalds, auk annarra ráðstafana. Þá hefur ríkisstjórnin lofað að staðið yrði að eins miklu jafnvægi í hagkerfinu og hægt væri. Þetta hefur flest eða allt gengið eftir, sem aftur skilar sér í sterkari krónu. Allt ætti þetta að koma fram í lægra matarverði, bæði innlendri framleiðslu en ekki síður innfluttum matvælum.

Staðreyndin er hins vegar sú að matarverð hækkar jafnt og þétt og ekki að sjá að þessar ráðstafanir stjórnvalda hafi haft þar nokkur áhrif. Það veldur aftur því að launafólk telur sig hafa verið svikið, sem það vissulega hefur verið. Þó ekki af stjórnvöldum, heldur einum þeirra milliliða sem allir verða þó að skipta við, versluninni.

Það þarf því engan að undra þó hagnaður verslunarinnar sé ævintýralegur, jafnvel svo að bankakerfið, sem er tryggt í húð og hár með verðtryggingum, gæti dottið af stalli mestu gróðafyrirtækja landsins.

Það lá við að smá vorkunn vaknaði með formanni samtaka verslunar og þjónustu, þegar formaður bændasamtakanna mætti honum í sjónvarpssal. Sú vorkunn vék þó snarlega, þegar einu rök formanns SVÞ, voru þau að "fyrirtæki megi græða". Annað gat blessaður maðurinn ekki sagt.

Það er vissulega rétt að fyrirtæki megi græða, en hvaða fyrirtæki? Er það lögmál að fyrirtæki í sásöluverslun eigi að græða mest og það langt umfram öll önnur? Er það lögmál að þegar stjórnvöld hverjum tíma koma fram með aðgerðir til hjálpar við gerð kjarasamninga, að verslunarfyrirtæki taki þann gróða allan í sinn vasa? Er ekki réttara að sá gróði skili sér til þeirra sem honum var ætlað að ganga til, þ.e. launþega?

Varðandi verðmyndun á matvælum þá eru margir liðir frá því skepnan verður til uns búið er að gera hana klára á eldavélina. Gagnavart íslenskum matvælum eru þetta í grófum dráttum þrír liðir, bóndinn, vinnslan og verslunin. Á erlenda matvæli bætast nokkrir liðir við, s.s heildsala erlendis, flutningur og fleira.

En aftur að innlendum landbúnaðarvörum. Eins og áður segir skiptist ferli hans í grófum dráttum í þrjá liði, bóndann, úrvinnsluna og verslunina. Hver hlutföll þarna á milli eru eðlileg skal ég ekki segja, en það sér hvert mannsbarn að varla getur talist eðlilegt að af verði hverrar vöru sem neytandinn kaupir skuli verslunin fá sama, eða öllu meira en bóndinn. Það tekur bóndann um 10 mánuði að framleiða hvert kíló af lambakjöti og er þá ekki tekið tillit til þess að ala þarf upp sjálfa ánna, áður en hún fer að geta gefið af sér lömb, einungis tekinn sá tími er líður frá því að henni er haldið undir hrút þar til lambið af þeim getnaði kemst á borð landsmanna. Enn lengri tíma tekur að framleiða nautakjötið og a.m.k. 2 ár tekur að búa til mjólkurkú. Þennan tíma þurfa bændur að streða í sveita síns andlits og geta ekki vænst greiðslu á meðan. Verslunin þarf hins vegar bara að taka upp símann og panta vöruna, hjá vinnsluaðilanum. Þetta tekur örfáar sekúndur og varan komin í hús sama dag. Neytandinn kemur í búðina, sér sjálfur um að tína saman vörurnar og koma þeim að afgreiðslukassa, þar sem borgað er fyrir hana.

Ein af þeim "rökum" sem formaður SVÞ kom með í sjónvarpinu var að með þessari skýrslu væru bændur að "afvegaleiða" umræðuna, þar sem nú væri unnið að gerð á nýjum búvörusamningi. Það er lágt lagst í ömurleikanum. Undanfarna daga hefur ekki linnt auglýsingum og yfirlýsingum fulltrúa SVÞ um hversu slæmur þessi búvörusamningur sé og þar ruglað saman staðreyndum og blandað inn hlutum sem ekkert eru tengdir þeim samningi, auk þess að hafa framsetningu sína með þeim hætti að ryki er slegið í augu fólks. Ekki þarf nokkur maður að efast um að í þá vegferð fór SVÞ í þeim eina tilgangi að hafa áhrif á téðan samning. Að þar hafi verið farið af stað í þeim eina tilgangi að afvegaleiða umræðuna. Eiga bændur bara að sitja þegjandi undir slíkum árásum? Auðvitað ekki, þeir leggja fram staðreyndir.

Framlög úr sjóðum ríkisins til landbúnaðar hafa lækkað verulega undanfarna áratugi. Ekkert land sem við viljum miða okkur við hefur skert jafn mikið greiðslur til landbúnaðar og Ísland, frá því fyrir síðustu aldamót til dagsins í dag. Þetta hefur sannarlega bitnað á búskap í landinu og sum staðar sem heilu sveitirnar hafa lagst í eyði. Býlum hefur fækkað og stækkað. Gott mál segja exelfræðingarnir, en er þetta svo góð þróun? Vilja neytendur kannski sjá hér verksmiðjubúskap að hætti Þjóðverja, þar sem um exelskjalið er látið sjá um reksturinn og heill skeppnanna höfð að engu. Sem betur fer er enn nokkuð langt í að slík verksmiðjubú þekkist hér á landi, jafnvel þó samsöfnun hafi orðið.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að markvisst hafi verið unnið að því að veikja landbúnaðinn hér á landi, með sífelldum skerðingum á greiðslum úr ríkissjóð, tóku bændur sjálfir sig til í kjölfar hrunsins. Árið 2009 var að frumkvæði bænda sjálfra tekinn upp þágildandi búvörusamningur og greiðsla upp á um einn milljarð felld niður. Þetta var alfarið að frumkvæði bænda, þeirra framlag til að takast á við þann vanda sem þjóðin stóð frammi fyrir, jafnvel þó það áfall legðist ekki síst á bændur. Því miður skilaði þessi milljarður sér ekki nema að hluta til neytenda. Og ekki hefur þessi skerðing enn verið leiðrétt, jafnvel þó hagkerfið hafi náð sér á strik. Að vísu er von til að krónutalan án verðbóta muni koma inn í nýjan búvörusamning.

Það er enginn vafi á að hægt er að lækka matvöruverð til neytenda. Með því einu að reikna hverjum þeim þætti sem að landbúnaðarvörum stendur rétta og hæfilega þóknun, þ.e. bændum, vinnslu og verslun, sambærilega þóknun, þannig má lækka matarreikninga heimila um marga milljarða króna á hverju ári. Til þess þarf auðvitað að skera upp herör gegn þeirri hringamyndun og einokun í smásöluverslun, sem tíðkast hér á landi.

Hvar er samkeppniseftirlitið?

Hvar eru neytendasamtökin?

Hvar er ASÍ?

Getur verið að þessir aðilar séu þrælar SVÞ?

Getur verið að samkeppniseftirlitið sjái ekki einokunina sem ræður ríkjum í íslenskri smásöluverslun?

Getur verið að enn sé svo mikið hatur í garð bænda, innan neytendasamtakanna, að þau líta gegnum fingur sér þó verslunin stundi hér grímulausa einokun?

Getur verið að innan ASÍ þyki sjálfsagt að arður vegna aðgerða sem stjórnvöld tóku að sér að sjá um, svo klára mætti kjarasamninga, falli að öllu leyti í hendur verslunarinnar? Að launþegar, sem halda jú uppi því batteríi sem kallast ASÍ, séu sviknir um þær kjarabætur?

 


mbl.is Mögulegt að lækka matvælaverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband