Lausnin liggur ekki endilega í því að yngja upp fólk á Alþingi

Það er engum sögum um það að fletta að vandi flestra flokka á Alþingi er mikill. Þetta á ekki einungis við um "gömlu" flokkanna. Björt framtíð getur varla talist gamall flokkur, en samt er hann að þurrkast af þingi, ef mið er tekið af skoðanakönnunum.

Þessi vandi verður ekki leystur með því að fylla sal Alþingis af ungu fólki. Reyndar má segja að unggæðingsháttur Alþingis hafi skaðað stofnunina verulega, hin síðari ár. Meðalaldur þingmanna hefur sennilega aldrei verið lægri en einmitt nú um stundir. Sumt af þessu unga fólki er alveg ágætt, en annað miður. Það sem kannski sker í augu eru fundir Alþingis, sem alþjóð getur fylgst með heima í stofu. Þar fer margt af þessu unga fólki hamförum, rétt eins og það sé enn í fjölbrautarskóla, að stunda þar málfundi. Virðing Alþingis hefur sett niður vegna þeirra vinnubragða, sem hinir eldri hafa engin svör við.

Það má hins vega vel tala um að endurnýja fólk á Alþingi. Þar á aldur ekki endilega að skipta máli, heldur hitt að fólk sé ekki of lengi sem fulltrúar þjóðarinnar. Það á enginn að þurfa að gjalda fyrir aldur sinn, frekar ætti að fagna öllum þeim sem eldri og reyndari eru. Aldur gefur af sér reynslu, hún verður hvorki keypt né sköffuð, heldur verður fólk að ávinna sér hana.

En þetta eru einungis vangaveltur um vanda stjórnmálaflokka, svona almennt. Vandi Samfylkingar er enn dýpri og af öðrum ástæðum. Þessi flokkur var stofnaður af krötum, sem jafnaðarmannaflokkur. Fljótt kom í ljós að jafnaðarstefnan var einungis í orði, ekki á borði.

Fáum árum eftir stofnun flokksins, þegar útrásaræðið var að grípa þjóðina, tók svo þessi flokkur saman höndum við einn þessara útrásargutta. Þáði af honum stórar fjárhæðir og vann í staðinn þau verk sem beðið var um. Borgarnesræðan margfræga var opinberun þess fyrir hvern þessi flokkur vann.

Eftir hrun, þegar guttarnir höfðu verið opinberaðir, var úr vöndu að ráða fyrir Samfylkingu. Henni tókst að plata VG til samræðis og mynda ríkisstjórn, nokkuð sem mun fylgja sem dökkur skuggi yfir VG um alla framtíð. Og Samfylking fann sér nýja "vini". Fjármálaöflin voru nú hennar bandamenn. Nú var tekin staða með fjármálaöflunum og þegar Hæstiréttur dæmdi gerðir banka ólöglegar, þá stóð ekki á þáverandi viðskiptaráðherra, núverandi formanni flokksins, að breyta lögum með hraði, svo þessir nýju vinir hans töpuðu nú ekki aurum sínum. Skítt með kjósendur.

Samfylkingin var og er flokkur fjármálaaflanna og menntaelítunnar. Þessi flokkur á ekkert skylt við launafólk og enginn flokkur á Alþingi er fjær því sem kallast jafnaðarstefnu en einmitt Samfylkingin.

Þetta er ekkert sér íslenskt fyrirbæri, að flokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku sé lengst allra flokka frá þeirri stefnu. Þetta á við um flest lönd Evrópu, sérstaklega þeirra landa sem eru innan ESB. Þar, eins og hér, eru kjósendur nú að hafna þessum flokkum.

Samfylkingin er búin að vera. Hugsanlega kemur hún einhverjum á þing í næstu kosningum, þó varla teljist miklar líkur á því. Sjálfsagt mun verða stofnaður nýr flokkur krata. Hvort sá flokkur geti talið sig jafnaðarmannaflokk veltur á því hvort þeim tekst að halda öllum þingmönnum Samfylkingar og þeirra nánust samstarfsmönnum frá borðinu, hvort þeim tekst að halda menntaelítunni frá öllum afskiptum af flokknum og hvort þeim auðnast að halda skírum skilum milli þess flokks og fjármálakerfisins. Þá getur þessi flokkur kallað sig jafnaðarmannaflokk og þá mun fólk kjósa hann. Annars er betra heima setið en af stað haldið.

Hvort það fólk sem velst síðan í framboð fyrir þennan flokk, sem og alla flokka, er ungt eða gamalt skiptir ekki máli. Mestu máli skiptir að það sé "nýtt" og hafi að bera þá kosti sem prýða hvern þingmann: Heiðarleika, kjark og samvisku.


mbl.is Fjölga ungu fólki á listum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sæll gunnar

alltaf gaman að lesa pistla þína, mér finnst þó að það gleymist oft að það þarf líka fólk sem hefur eitthvað fram að færa. Það er algert aukaatriði aldur, en að fagmennskan fari að ryðja sér til rúms. Oft er þetta fólk sem er athyglissjúkt og á einhverju ego leiðangur og allt þarf að snúast um það sjálft. Sjaldan hefur maður séð fagmenn sem gera þetta að betri vinnustað með betri ákvörðunum. Svo er auðvitað kosningaloforðavandinn sér kapituli, það virðist ekki halda vatni daginn eftir kosningar það sem sagt var fyrir kosningar

jónas (IP-tala skráð) 15.11.2015 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband