Frekar léleg rök

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB hefur verið duglegur að benda á þá ömurlegu staðreynd að verð á eldsneyti hér á landi er ofar getu margra og þátt ríkisins í þeirri verðlagningu.

Nú ber hann hins vegar fram léleg rök, að efnalítið fólk hafi ekki lengur efni á að heimsækja sína nánustu eða farið í ferðalög. Vissulega rétt hjá Runólfi en frekar þunnur rökstuðningur.

Hann hefði getað bent á margt annað sem meiru máli skiptir, svo sem að vöruverð á landsbyggðinni hækkar stöðugt vegna þessa, að margir hafa vart efni á að sækja sér vinnu vegna þess að eldsneytið er orðið svo dýrt, að aldraðir og öryrkjar hafa ekki efni á að sækja sér læknishjálp og svona mætti lengi telja. Fyrir þetta fólk er ekki spurning um hvort það geti heimsótt ættingja eða farið í ferðalög. Fyrir þetta fólk er þetta orðið spurning um að geta lifað af!

Það er nefnilega svo að stór hluti þjóðarinnar lifir utan Reykjavíkur og stæðsti hluti þess er háður bílnum til þess eins að lifa. Þá er einnig staðreynd að þetta fólk hefur oftast mun lægri laun fyrir sambærileg störf í Reykjavík og því kemur ofurskattur á eldsneyti sér sérstaklega illa fyrir það.

Þá hefði Runólfur getað bent á þá stareynd að meðan ríkið er að innheimta meiri gjöld af eldsneyti en sem svarar því sem það leggur til vegna aksturs bíla, svo sem viðhaldi og endurnýjun vegakerfisins, að á meðan ríkið er að nota það skattfé sem innheimt er af eldsneyti til annara og óskyldra hluta, er verið að mismuna landsmönnum. Þá er verið að skattleggja þá sem eru háðir einkabílnum umfram aðra þegna landsins, þá er verið að skattleggja íbúa landsbyggðarinnar með hærra vöruverði en nauðsynlegt er og þá er verið að vega að öldruðum og öryrkjum og í mörgum tilfellum verið að draga úr lífsmöguleikum þess. Það er sjálfsagt mál að greiða skatt af eldsneyti til ríkisins, sem nemur þeirri fjárhæð sem lögð er til vegakerfisins, en allt umfram það er bein árás á jafnræðið í landinu!

Ekki má svo gleyma þeim áhrifum sem þessi skattlagning hefur á lán landsmanna, þar sem hver króna sem eldsneytið hækkar kemur beint fram í mælingu lánskjaravísitölunnar. Þetta bitnar jafnt á öllum, hvort sem þeir búa í Reykjavík eða annarstaðar á landinu.

Runólfur hefur verið duglegur að standa vörð bíleigenda, eins og ég sagði áður, en þó virðist sem hann sé að gefa eftir.

Svo er hægt að skrifa langt mál um meinta samkeppni milli olíufélaganna!!

 


mbl.is „Verst fyrir almenning“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Getur verið að hann hafi sagt ýmislegt meira og annað í þessu viðtali en það hafi bara ekki verið allt haft eftir honum?

Halldór Björgvin Jóhannsson, 13.8.2011 kl. 19:47

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er meira en líklegt að Runólfur hafi sagt fleira, en fréttamaður ekki komið því til skila. Það væri ekki í fyrsta sinn sem fréttamenn afbaka það sem fram kemur í viðtölum.

Gunnar Heiðarsson, 13.8.2011 kl. 20:38

3 Smámynd: Teitur Haraldsson

Góð grein hjá þér Gunnar.

Þetta getur jafnvel gengið svo langt að vera mannréttindabrot á grundvelli þess að takmarka ferðafrelsi...

Það er staðreynt að þú hreinlega getur ekki gert vissa hluti út á landi nema hafa farartæki.
Ég þekki ekki hvernig þetta er í Reykjavík.

Teitur Haraldsson, 13.8.2011 kl. 22:01

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég myndi nú segja að maður hafi frekar efni á að ferðast ef maður rekur EKKI bíl. Það kostar a.m.k. 40 þús. á mánuði að eiga bíl og nota hann, 5 þús. að nota strætó og/eða hjólið.

Sparnaður 420 þúsund yfir árið, hægt að fara í fínt ferðalag fyrir það og lifa eins og kóngur, jafnvel innanlands.

Theódór Norðkvist, 13.8.2011 kl. 22:26

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þér til fróðleiks, Theódór, þá eru ekki strætóar um allt land, reyndar eru þeir á mjög takmörkuðum svæðum á landinu.

Varðandi reiðhjólið, þá er erfitt að flytja vörur út á land með slíkum farartækjum. Elli og örorkuþegar ættu sennilega erfitt með að hjóla hundruði kílómetra til að leita læknis og vinnudagur fólk sem þarf að ferðast nokkra tugi kílómetra til og frá vinnu mun þá lengjast nokkuð mikið.

Ísland er nefnilega stærra en bara Reykjavík, miklu miklu stærra!!

Gunnar Heiðarsson, 13.8.2011 kl. 22:35

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég var kannski mikið til með höfuðborgarsvæðið í huga, en ég er sjálfur utan að landi. Þegar ég bjó á Ísafirði gat ég sinnt öllum mínum erindum fótgangandi eða á hjóli.

Ég hugsa að þörfin fyrir að reka bíl sé enn minni úti á landi, en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fjarlægðirnar eru miklu meiri. A.m.k. er hægt að nota bílinn miklu minna en fólk gerir. Og tryggja sér hreinna loft og betra líf handa astmasjúklingum.

Varðandi læknisheimsóknir, þá ganga langferðabílar á milli margra landshluta. Á höfuðborgarsvæðinu eru líka leigubílar. Ég hitti eitt sinn konu, sem sagðist ekki reka bíl, en tæki bílaleigubíl einu sinni í mánuði og sinnti þá þeim erindum sem hún gat ekki sinnt öðruvísi.

Ég tók eftir rökum þínum um að flutningskostnaður hækkaði með hærra eldsneytisverði og var alls ekki að mótmæla þeim. Enn síður var ég að stinga upp á að reiðhjólið gæti komið í staðinn fyrir öll vélknúin ökutæki.

Theódór Norðkvist, 13.8.2011 kl. 23:14

7 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Úti á landi, þá sérstaklega þegar norðar kemur þá geturðu gleymt því að nota reiðhjól allan ársins hring vegna lélegrar færðar, á höfuðborgarsvæðinu þá er það að vísu annað mál og gengur töluvert betur upp.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 13.8.2011 kl. 23:43

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég bjó á Ísafirði fyrstu tuttugu ár ævi minnar þannig að þú ert ekki að segja mér neinar fréttir. Þar er hægt að komast allra sinna leiða fótgangandi (nema þeir sem búa í Holtahverfinu, en þangað gengur strætó), hvað þá í enn minni þorpum.

Theódór Norðkvist, 14.8.2011 kl. 00:59

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Og á sumrin má taka fram reiðhjólið.

Theódór Norðkvist, 14.8.2011 kl. 01:00

10 Smámynd: Teitur Haraldsson

Þetta er algjört rugl.
Það er ekki möguleiki að búa út á landi án þess að eiga bíl.

Held það sé eitthvað langt síðan þú bjóst út á landi eða minnið ekki alveg upp á það besta hjá þér Theódór.

Hvernig heldurðu að það sé að fara með krakka á leikskólan í hvernig veðri sem er labbandi?
Nú eða koma þeim til læknis. Ég get endalaust haldið áfram varðandi krakka, við skulum bara segja að ef þú átt krakka geturðu alls ekki verið bíllaus. Enda gerir það engin.

En ef þú átt ekki krakka, þá langar mig til dæmis að benda á að heilsugæslan hefur verið lokuð hérna á Hellu í sumar, við verðum að keyra (eða labba) til Hvolsvallar til að leita læknis. Og ef það er utan opnunartíma þá alla leið á Selfoss það er engin "bakvakt" hérna.

Þetta er bara bull í þér og í guðana bænum hættu þessu.

Teitur Haraldsson, 14.8.2011 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband