Hvar eru fréttamennirnir?

Í rannsóknarskýrslunni fá fréttamenn falleinkun, þeir veittu ekki nóg aðhald gegn útrásinni og stjórnvöldum og spiluðu með í öllu ruglinu. Þetta virðist ekki hafa breyst neitt.

Þann 7.apríl var send viljayfirlýsing til IMF, undirrituð af þrem ráðherrum og seðlabankastjóra. Í þessari yfirlýsingu er að finna einhver stærstu svik sem þessi ríkisstjórn hefur orðið uppvís að. Full samþykkt á icesave og að ekki skuli staðið að frekari aðstoð við almenning í landinu.

17.apríl fóru fyrstu bloggin að birtast um þessa viljayfirlýsingu. Mann setti hljóðan við lesturinn.

18.apríl kom fyrsta fréttin, en hún sneri að icesave hluta yfirlýsingarinnar, ekkert var minnst á þann hluta er sneri að hinum eiginlegu fórnarlömbum hrunsins, fólkinu í landinu.

Nú fóru málin aðeins að hreyfast, stjórnarandstaðan tók málið upp á þingi og voru nokkrar umræður þar en svo virðist sem þær hafi lognast útaf. Enn heyrðist lítið frá fjölmiðlum.

21.apríl kemur Gylfi í viðtal í kastljósi, þar tekur hann af öll tvímæli um að; þessi viljayfirlýsing er samin af þeim sem undirrituðu hana, án afskipt frá IMF, að icesave skuli greitt að fullu með vöxtum og ekki verður frekari aðstoð veitt til hjálpar heimilunum í landinu. Heldur fannst mér Þóra fara silkihönskum um ráðherra í þessu viðtali, þó ber að árétta að hann er utanþingsráðherra og hefur því ekki brotið nein loforð við kjósendur. Það hafa hinir ráðherrarnir gert. Hann er hinsvegar jafn sekur hinum sem skrifuðu undir þetta plagg, um landráð.

Því spyr ég; hvar eru fréttamennirnir? Vissulega hefur verið mikið að gera hjá þeim við umfjallanir um eldgosið og afleiðingar skýrslunnar. Það læðist samt að manni sá grunur að þeir hafi sleppt að lesa þá þætti innan hennar sem fjalla um mistök þeirra sjálfra.

Þó mikilvægt sé að við fáum fréttir af gosinu og þó gott sé fyrir okkur að fá að fylgjast með hvernig stjórnmálamenn og útrásarglæpamenn taka á þeirri gagnrýni sem þeir fá í skýrslunni, hlýtur að skipta okkur mestu máli að fá fréttir af því hvað stjórnvöld eru að gera. Sér í lagi þegar þau eru að brjóta gegn vilja þjóðarinnar og jafnvel stjórnsýslulög.

Sú staðreynd að fyrstu fréttir skuli koma fram á bloggsíðum er undarleg, en segir okkur að við eigum marga góða bloggara sem fylgjast með. 

Fréttamenn, reynið nú að drattast til að vinna vinnuna ykkar!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband